Vanlíðan barnanna okkar - endurspeglar vanlíðan okkar sjálfra

Það er mikilvægt að við gerum allt sem í okkar valdi stendur til þess að komast hjá þeim alvarlegu langtíma afleiðingum sem hlotist geta af ástandi eins og því sem við búum við í dag. Það er nauðsynlegt fyrir stjórnvöld að huga að aukinni sálfræðiþjónustu í skólum og styðja sérstaklega við þau börn sem búa við erfiðar heimilisaðstæður, leggja aukna áherslu á fjölskylduráðgjöf og sálfræðilegan stuðning við fjölskyldur á stofnunum og með opnum fræðslufundum, sálfræðilegri ráðgjöf og fjölskylduráðgjöf. Almannatryggingakerfið þarf að auka við stuðning vegna sálfræðimeðferðar fullorðinna. 

Finnland fór í gegnum djúpa kreppu sem hófst 1991 og má enn sjá merki þeirrar djúpu lægðar í  finnska samfélaginu.

Samkvæmt formanni sálfræðingafélags Finnlands og skýrslu Tryggingastofnunar Finnlands eru ástæður fyrir mikilli aukningu örorkubóta og sjúkradaga (enn þann dag í dag er þeim að fjölga) helstar að finna í efnahagskreppunni og þeim félagslegu og geðrænu afleiðingum sem urðu á meðan á kreppunni stóð. Þá jókst algengi þunglyndis og kvíða hjá fullorðnu fólki sem hafði neikvæð áhrif á hæfni þeirra til að ala upp börn sín. Mikil vanlíðan foreldra er einnig líkleg til að valda beinum neikvæðum áhrifum á líðan barna þeirra. Þeir einstaklingar sem voru börn og unglingar á tímum kreppunnar eru þeir sem nú eru ungir fullorðnir (undir 30 ára) og það er einmitt í þeim aldursflokki sem það hefur orðið aukning á örorku og sjúkradögum vegna geðrænna vandamála. Sparnaður Finna í geðheilbrigðiskerfinu á tímum efnahagskreppunnar leiddi til þess að þörf fyrir miklum sálfræðilegum og félagslegum úrræðum var ekki sinnt sem skildi. Afleiðingarnar urðu mikil vanlíðan hjá stórum fjölda fólks. Nú 10-15 árum frá lokum efnahagslægðarinnar eru Finnar að sjá alvarlegar langtímaafleiðingar með miklum tilkostnaði og þjáningu.

Við erum að gera það sem við getum hjá Reykjavíkurborg en gerum okkur jafnframt grein fyrir að vandinn er vaxandi og margþættur. Ég hef áður sett hér inn á bloggið upplýsingar um þær aðgerðir sem við höfum gripið til. Við erum með sérstakt teymi sem fylgist með líðan barna og safnar upplýsingum og við treystum því að okkar ágæta starfsfólk láti vita af því ef þarf að bregðast sérstaklega við. Mér finnst jákvætt ef gott fólk sem hefur nóg umfram getur aðstoðað í skólunum með því t.d. að styðja börn í heitan mat í hádeginu, en það skiptir máli að það sé gert með þeim hætti að það komi ekki niður á börnunum félagslega. Við vitum þó öll sem er að það þarf að gera meira, það verður að gera allt sem hægt er til þess að minnka áhyggjur foreldra, til þess að sporna gegn atvinnuleysi, til þess að styðja við fólk, til þess að eyða óvissu og svo mætti lengi telja.

Verndum börnin okkar fyrir neikvæðum afleiðingum kreppunnar og það er aldrei mikilvægara en nú að standa saman og styðja hvert við annað.

 


Byggjum upp í anda sjálfstæðisstefnunnar

Það er uggvænlegt að hér verði sterk vinstri stjórn eftir kosningar. Hér hefur umræðunni síðustu vikur verið haldið í gíslingu og málefni, framtíðarsýn og uppbyggingarstefna verið allt og lítið rædd. Það verður kosið á morgun og margir vita hreint ekkert hvað þeir eiga að gera. Kjósendur eru reiðir og sárir vegna þeirrar stöðu sem við erum í og margir eru í mjög erfiðri fjárhagsstöðu nú, laun hafa lækkað, lán hækkað og fólk misst vinnu. Við megum þó ekki gleyma því hvað það er sem skiptir mestu máli núna, en það sem skiptir mestu er hvernig við höldum áfram og hvernig nú er og verður tekið á málum.

Það eru stór og mikil verkefni framundan og ljóst að hér mun skipta sköpum hvernig tekið verður á málum. Hvernig ætla stjórnvöld að efla andann, auka bjartsýni, virkja fólkið okkar, koma atvinnulífinu í gang, auka tekjur ríkissjóðs og ná þeirri hagræðingu sem þarf að ná? Það þarf að hagræða hér gríðarlega í ríkisrekstrinum með sameiningu stofnana og uppstokkun á mörgum sviðum. Hvernig hefur tíminn undanfarið verið notaður í hagræðingu í ráðuneytunum? Hjá Reykjavíkurborg gátum við náð mikilli hagræðingu út úr kerfinu okkar með því að fá starfsfólkið til þess að rýna hvern einasta þátt og hvert einasta verk sem unnið er. Við náðum þessari hagræðingu án þess að það kæmi illa niður á þjónustunni við borgarana og þetta þarf að gera hjá ríkinu líka - tíminn líður hratt.

Endurreisn Íslands þarf að byggjast á gildum sjálfstæðisstefnunnar, með atvinnufrelsi, frelsi í viðskiptum og frelsi einstaklingsins til orðs og æðis, að leiðarljósi. Um leið þarf að sjálfsögðu að standa vörð um grunnþjónustuna og ná sameiginlegri sín á það hvað er grunnþjónusta. Til að svo megi verða þarf Sjálfstæðisflokkurinn að spila aðalhlutverk í endurreisninni sem er framundan.

Það er hætt við því að vinstri flokkarnir muni lengja í kreppunni með þeim ríkisafskiptum, skattahækkunum og miðstýringaraðgerðum sem þeir boða. Slíkar aðferðir eru einungis til þess fallnar að tefja fyrir eðlilegri leiðréttingu íslenska hagkerfisins og nýtingu fullrar framleiðslugetu þess. Sjálfstæðisflokkurinn áttar sig einn flokka á því að atvinnan verður til hjá fólkinu sjálfu, en ekki inn í ráðuneytum og hjá opinberum stofnunum.

 

 


Raunhæfar efnahagstillögur Sjálfstæðisflokksins

Sjálfstæðisflokkurinn kynnir í dag viðamiklar tillögur sínar í efnahagsmálum. Tillögurnar hafa það að markmiði að leysa efnahagslífið - fyrirtæki og heimili - úr þeim efnahagslegu fjötrum sem fjármálakreppan hneppti það í síðastliðið haust.

Það er lífsnauðsyn að Ísland festist ekki í viðjum hafta og að sá sveigjanleiki sem efnahagslífið býr yfir verði ekki drepinn í dróma með afturhaldi og lyfleysum.

Til að Ísland komist fyrr út úr fjármálakreppunni en önnur lönd þarf að mynda það efnahagslega umhverfi sem gerir heimilum og fyrirtækjum kleift að takast á við aðsteðjandi vanda og það vill Sjálfstæðisflokkurinn gera.

Jafnframt er nauðsynlegt að tekið verði á þeim vanda sem ríkisjóður glímir við vegna samdráttar í efnahagslífinu án þess að ráðstöfunartekjur heimilanna verði skertar með skattahækkunum.

Það er algjört forgangsmál hjá Sjálfstæðisflokknum að standa vörð um þann árangur sem náðst hefur á sviði heilbrigðis-, velferðar- og menntamála undanfarna tvo áratugi.

Efnahagstillögurnar eru í níu liðum:

  • Tuttugu þúsund ný störf á kjörtímabilinu. Umhverfi fyrir ný störf verði myndað og orkulindir landsins nýttar með fjölbreyttum, orkufrekum iðnaði. Þetta verði gert með skattalegum hvötum, skynsamlegri efnahagsstjórn og samvinnu við atvinnulífið.
  • Staða heimilanna verði bætt. Eitt mikilvægast verkefni stjórnvalda er að varðveita greiðsluvilja heimilanna. Það verður aðeins gert með því að létt verði af heimilunum þeim erfiðleikum sem verðbólga, háir vextir og gengisfall sköpuðu. Greiðslubyrði verði lækkuð tímabundið um 50%. Stimpilgjöld verði afnumin og hugað að höfuðstólsleiðréttingu lána.
  • Rekstrarumhverfi fyrirtækja verði lagað. Gera þarf stjórnendum fyrirtækja kleift að endurskipuleggja skuldir fyrirtækja. Það þarf að laða að erlenda fjárfesta, veita skattaafslætti til, nýsköpunar, rannsóknar- og þróunarstarfs og endurvekja hlutabréfaafslátt til almennings.
  • Efling atvinnulífsins er eina ábyrga leiðin til að lágmarka lánsfjárþörf ríkisins. Það þarf að auka skatttekjur án þess að leggja auknar byrðar á heimilin og það verður gert með myndun nýrra starfa. Jafnframt þarf að hagræða í opinberum rekstri án þess að skerða þá þjónustu sem ríkið veitir í velferðar-, heilbrigðis og menntamálum - það er forgangsmál.
  • Hækkun skatta er versta meðalið til að örva efnahagslífið. Það þarf að endurreisa skattstofna og halda aftur af skattahækkunum.
  • Bjóða þarf langtímalán án verðtryggingar og draga þannig úr verðtryggingu án þess að samningsfrelsi sé skert. Minnkandi vægi verðtryggingar eykur jafnræði milli lántakenda og lánveitenda.
  • Bæta þarf lánshæfi Íslands og það verður aðeins gert með trúverðugri efnahagsáætlun fyrir landið, jafnvægi á rekstri ríkissjóðs og stöðugum gjaldmiðli.
  • Stærð fjármálakerfisins þarf að miðast við þarfir íslensk efnahagslífs. Það þarf að hagræða í fjármálakerfinu og undirbúa skráningu banka á markaði. Endurskoða þarf reglugerðarumhverfi fjármálamarkaðar og umgjörð peningamála.
  • Aflétta þarf gjaldeyrishöftum þannig að hagkerfið nái jafnvægi. Halda þarf krónunni sem gjaldmiðli um sinn en kanna möguleika á upptöku evru í samvinnu við AGS og sátt við ESB.

Með því að fylgja þessum tillögum má ná Íslandi upp úr hjólförunum og vernda það velferðarsamfélag sem hér hefur verið byggt.

Brýnasta verkefni stjórnmálanna í dag er að koma í veg fyrir að íslenskur almenningur verði hnepptur aftur í höft eftirstríðsáranna eins og nú er stefnt að.        

 

 


Refsivert að kaupa vændi

Í ritstjórnargrein Morgunblaðsins í dag er talað um það hvað kaup á vændi séu ógeðfelld og langar mig að taka undir það sem þar kemur fram. Ég er þess fullviss að samþykkt frumvarps nú á síðustu dögum þingsins, þess efnis að kaupandi kynlífs geti átt yfir höfði sér sektir eða allt að eins árs fangelsi, hafi verið framfaraskref.

Með lögunum er farin sambærileg leið og farin var í Svíþjóð árið 1999 og hefur þegar haft þau áhrif að dregið hefur verulega úr vændi og mansali þar í landi.

Ýmsum rökum hefur verið beitt gegn sænsku leiðinni. Spurt hefur verið hvort refsing sé heppileg leið til að leysa félagslegan vanda. Ef svarið við því er nei er nálgun þjóðfélagsins til glæpa á alvarlegum villigötum því að flestir glæpir eiga sér félagslegar rætur, hvort sem það er heimilisofbeldi eða innbrot, svo eitthvað sé nefnt. Fælingarmáttur sænsku leiðarinnar virðist vera ótvíræður. Karlar þora mun síður að kaupa sér vændi ef hætt er við að það komi í ljós á opinberum vettvangi. Árið 2007 voru samkvæmt sænsku lögreglunni á milli 105 og 130 vændiskonur að störfum í Stokkhólmi á götunni og á netinu, en 5.000 vændiskonur í Ósló. Í fyrra ákváðu Norðmenn síðan að fara sænsku leiðina og banna kaup á vændi.

Leið Svíanna hefur ekki verið án áfalla. Vændi færðist undir yfirborðið og ofbeldi á hendur þeim sem stunduðu vændi færðist í aukana til að byrja með og greinilegt var að lögunum var ekki fylgt eftir með tilhlýðilegum stuðningi. Það er mikilvægt fyrir okkur hér á landi að læra af reynslu Svía varðandi það og styðja við þá sem þurfa stuðning og aðstoð við að komast út úr vændi. Úr þessu hefur nú verið bætt í Svíþjóð og er nú svo komið að stuðningur við bannið nemur 80 af hundraði.

Það var rétt að gera kaup á vændi refsiverð. Það eru engir hamingjusamir einstaklingar sem stunda vændi og vændi er ekki venjuleg atvinnugrein.

Til fróðleiks má hér lesa skýrslu um aðgerðaráætlun gegn mansali, sjá:  http://www.althingi.is/altext/136/s/0754.html

 

 


Til skemmtunar og umhugsunar

Já, samkvæmt löggjöfum og skriffinnum nútímans ættu þau okkar sem voru börn á 5., 6., 7. og 8. áratuga síðustu aldar ekki að hafa lifað af.     HVERS VEGNA VAR ÞESSI NIÐURSTAÐA OKKAR SVONA?

-Jú, barnarúmin okkar voru máluð með blýmálningu.

-Það var engin barnalæsing á lyfjaglösum, hurðum eða skápum og þegar við hjóluðum notaði ekkert okkar hjálm.

-Sem börn sátum við í bílum án öryggisbelta og/eða púða.

-Að fá far á vörubílspalli var sérlega gaman.

-Við borðuðum brauð með smjöri, drukkum gos með sykri, en fæst okkar lentu í offituvandamálum, því við vorum alltaf úti að leika

-Við deildum gjarnan gosflösku með öðrum og allir drukku úr sömu flöskunni án þess að nokkur létist.

-Við vörðum löngum stundum í að byggja kassabíl úr dóti og drasli og þutum á honum niður brekkuna, bara til að uppgötva að við höfðum gleymt bremsunum. Eftir nokkrar veltur lærðum við að leysa vandamálið.

-Við fórum að heiman snemma á morgnanna til að leika okkur allan daginn og komum aftur heim í kvöldmat Enginn hafði möguleika á því að ná í okkur yfir daginn.

-Engir farsímar. Ha, engir farsímar? Óhugsandi! Sumir áttu litlar talstöðvar sem var flott að eiga!

-Við áttum ekki Playstation, Nintento 64, X-box, enga tölvuleiki, ekki fjölmargar rásir í sjónvarpinu, ekki video, ekki gervihnattasjónvarp, ekki heimabíó, farsíma, heimilistölvu eða spjallrásir á Internetinu.

-Við eignuðumst vini! Við fórum bara út og fundum þá.

-Við duttum í skurði, skárum okkur, fótbrotnuðum, brutum tennur, en enginn var kærður fyrir þessi óhöpp. Þetta voru jú óhöpp. Það var ekki hægt að kenna neinum um? nema okkur sjálfum. Manstu eftir óhappi?

-Við slógumst, urðum blá og marin og lærðum að komast yfir það.

-Við lékum okkur í nýbyggingum, fundum upp leiki með naglaspýtum og drasli og átum Maðka og reyktum njóla. Þrátt fyrir aðvaranir voru það ekki mörg augu sem duttu út og ekki lifðu maðkarnir inni í okkur til eilífðar og margir gáfust upp á fyrsta njólanum!

-Við hjóluðum eða gengum hvert til annars, bönkuðum á dyrnar, gengum inn og létum eins og heima hjá okkur.

-Við lékum okkur úti eftir kvöldmat, fórum í fallin spýta, eina krónu, eltingaleik eða feluleik, svo ekki sé minnst á löggu og bófa. Svo þegar aldurinn sagði til sín fórum við í kossaleik og eignuðumst kærustu/kærasta.

-Það þurfti engar félagsmiðstöðvar eða neina til að stjórna okkur - Við stjórnuðum okkur sjálf.

-Sumir nemendur voru ekki eins glúrnir og aðrir, þeir lentu í tossabekk. Hræðilegt.... En þeir lifðu af.

-Engin vissi hvað Rítalín var og engin bruddi pillur sem barn.

-Við fórum í sunnudagsskóla eða sóttum KFUM og K, sungum og vorum í Skátunum og lærðum hnúta og kurteisi.

-Ef það sprakk á hjólinu lagfærðum við það í sameiningu og alveg sjálf.

-Morgunkornið okkar var m.a. TRIX morgunkorn, og við lifðum af litarefnið í því...

OG AFLEIÐINGIN ER ÞESSI!

Síðustu 50 ár hafa verið sprengja nýsköpunar og nýrra hugmynda. Við áttum frelsi, sigra ósigra og ábyrgð og við lærðum að takast á við það allt saman. Við sem ólumst upp áður en löggjafi og stjórnvöld settu lög og reglur um líf okkar sem þeir segja að sé okkur sjálfum fyrir bestu? Þessi kynslóð hefur alið af sér fólk sem er tilbúið að taka áhættu, góð að leysa vandamál og bestu fjárfestar nokkru sinni.


Sannleikurinn og Dagur B. Eggertsson

Dagur B. Eggertsson hélt því fram í fréttum RÚV nú klukkan sex að það hefðu ekki verið borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sem komu í veg fyrir REI gjörninginn. Hvers konar ummæli voru þetta, tala svo um að hundrað daga meirihlutinn hefði þurft að vinda ofan af þessu. Minnihlutinn var í minnihluta þegar þetta var og enginn nema fulltrúar meirihlutans sem gátu komið í veg fyrir þetta. Það þarf enga sérfræðinga til að sjá í gegnum þessi ummæli Dags og vona ég að borgarbúar og aðrir þeir sem hlustuðu á þessa frétt viti betur.

En Dagur nýtir sér ástandið með því að skella fram ummælum eins og þessum og reyna að hefja sjálfan sig upp og láta líta út fyrir að hann hafi ekki viljað þennan gjörning.  Ég vil vekja athygli á því að Dagur B. Eggertsson hafði alltaf trú á þessu og sá ofsjónum yfir því að borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins væru að koma í veg fyrir að borgin fengi milljarða í vasann með þessum gjörningi. Það færi betur á því að fréttamenn rifjuðu upp allt það sem gekk á hér þegar REI málið var í hávegum og Dagur B. Eggertsson hljóp í samstarf með Birni Inga Hrafnssyni og nýtti sér ágreining sem upp var kominn innan meirihlutans vegna REI málsins.


Gert er gert og borðað það sem ...

Mér er ofarlega í huga um þessar mundir þessi setning úr Dýrunum í Hálsaskógi "Gert er gert og borðað það sem borðað hefur verið". Við getum ekki endalaust velt okkur upp úr því sem miður hefur farið og því hvernig við gerðum þetta og hitt vitlaust. Nú er kominn tími til að við horfum fram á við og förum að skipuleggja samfélag okkar inn í framtíðina. Það er kominn tími til að snúa okkur að því að leysa málin og hugsa um það eitt hvernig við komum okkur út úr þessu ástandi.

Mín skoðun er sú að það verði ekki gert nema með aðkomu allra flokka og í sátt. Vandi okkar er svo mikill hér á landi um þessar mundir að þetta snýst ekki lengur um flokkapólitík heldur mögulegar lausnir.  Eina von okkar er að bankarnir komist á lappirnar, krónan styrkist, gjaldeyrishöftum verði aflétt, vextir lækki og hjól atvinnulífsins fari að snúast og fyrirtækin í landinu geti farið að hugsa til framtíðar. 

Vonleysið sem er að grafa um sig í íslensku samfélagi er það versta - nú dugar ekkert nema þjóðarsátt um það hvernig skuli halda áfram. 

Teiknum upp leiðina út úr þessu saman. Það þarf að fara í sársaukafullar hagræðingaraðgerðir og fylgja eftir þeim ákvörðunum sem þegar hafa verið teknar, fylgja eftir stefnunni sem hér var mörkuð með IMF og svo mætti lengi telja. Ef um þær aðgerðir getur skapast víðtæk sátt eru miklu meiri líkur til þess að okkur takist ætlunarverk okkar, þjóðin öðlist trú á því sem verið er að gera og fari að ganga í takt. Þannig munum við koma okkur saman og sameinuð út úr þeim vanda sem við erum í, við gerum það ekki með því að vera í strögli eins og því sem nú er í sölum alþingis Íslendinga.  Fljótfærnisbreytingar á stjórnarskrá okkar er ekki það sem þarf. 

 


Vanda þarf breytingar á stjórnarskrá Íslands

Sjálfstæðisflokkurinn hefur undanfarna daga þurft að sitja undir ásökunum um málþóf á Alþingi vegna umræðna um fyrirhugaðar breytingar á stjórnarskrá. Minna hefur hins vegar farið fyrir umræðum um nauðsyn þessara breytinga og þau vinnubrögð sem viðhöfð hafa verið við undirbúning þeirra.

Það er fráleitt að halda því fram að Sjálfstæðisflokkurinn haldi þinginu í gíslingu. Hann hefur þvert á móti ítrekað lýst yfir vilja til að taka fyrir og afgreiða þau brýnu mál er snúa að endurreisn atvinnulífsins og heimilanna í landinu. Í tvígang hafa stjórnarflokkarnir nú fellt tillögur þess efnis að þau mál, er snúa til dæmis að uppbyggingu álversins í Helguvík og greiðsluaðlögun, verði sett á dagskrá þingsins og afgreidd.

Því miður virðist minnihlutastjórn Jóhönnu Sigurðardóttur staðráðinn í að ætla að keyra í gegn breytingar á grundvallarlögum lýðveldisins á fáeinum dögum í stað þess að huga að þeim mörgu brýnu málum er fyrir liggja.

Breytingar sem engu skipta varðandi hag heimila og fyrirtækja heldur virðast eingöngu vera liður í kosningabaráttu stjórnarflokkanna. Breytingar sem nær allir þeir sérfræðingar og samtök sem veitt hafa Alþingi umsögn telja að séu ekki fullunnar og vara við því offorsi sem einkennt hefur málið.

Rétt er að ítreka að Sjálfstæðisflokkurinn leggst ekki gegn breytingum á stjórnarskrá nú frekar en áður. Hann vill hins vegar að þær séu unnar með vönduðum hætti og í sátt þannig að ekki sé rofin fimm áratuga hefð um að slíkar breytingar séu gerðar í samvinnu og með víðtækri samstöðu.

Stjórnarskráin er grundvöllur íslenska lýðveldisins og undirstoð lagasetningar í landinu. Að ætla að hreyfa við þessum grundvallarstoðum í landinu með offorsi eykur enn á óvissuna í landinu. Það er sorglegt að stjórnarflokkarnir skuli gera stjórnarskrá lýðveldisins að peði í pólitísku valdatafli sínu í stað þess að vinna að því að endurreisa íslenskt atvinnulíf.


Opnir tímar íþróttafélaganna fyrir hverfisbúa

Íþróttafélögin í Laugardals, Háaleitis og Bústaðahverfi hafa ákveðið að taka höndum saman og standa fyrir opnum íþróttatímum fyrir hverfisbúa á öllum aldri, þeim að kostnaðarlausu.

Lofsvert framtak íþróttafélaganna til að efla virkni fólks á erfiðum tímum og þar með að auka lífsgæði íbúanna. Íbúar eru hvattir til að láta þetta tækifæri ekki úr greipum sínum renna og stunda alvöru líkamsrækt í húsakynnum íþróttafélaganna í hverfunum.

Knattspyrnufélagið Fram
Leikfimi/líkamsrækt alla þriðjudaga og fimmtudaga frá kl. 12:00 – 13:00
 

Knattspyrnufélagið Víkingur
Innanhússfótbolti á miðvikudögum frá kl. 10:00 – 11:00. Að auki geta gestir nýtt sér líkamsræktaraðstöðuna í Víkinni alla virka daga frá kl. 09:00 – 15:00.

Glímufélagið Ármann
Frjálsar íþróttir á þriðjudagmorgnum frá kl. 10-11:30 í umsjá Þóreyjar Eddu Elísdóttur.

Tennis- og badmintonfélag
Reykjavíkur
Badminton alla mánudaga og fimmtudaga frá kl. 10.30 - 11.30.
Knattspyrnufélagið

Þróttur
Innanhúsfótbolti í Laugardalshöll á mánudögum og fótbolti á gervigrasinu í Laugardal á föstudögum frá kl. 10:30 – 11:30.

Um er að ræða tilraunaverkefni til 1. júní nk.

Trottur_logo_2004_Prent25x325


Gylfa saga og Herberts

Góður vinur minn sendi mér þessa dæmisögu og fékk ég leyfi til að birta hana hér á blogginu mínu. Ágætis innlegg í umræðuna, en það er einmitt svo nauðsynlegt að ræða þær hugmyndir sem koma fram. 

"Gylfi hét maður. Hann átti allnokkurt  fé sem hann vildi auka með skjótum hætti og ákvað því að hefja lánastarfsemi. Hann nýtti fé sitt  til útlána en fékk að auki lánsfé hjá hinum og þessum til að hafa meira úr að moða. Gylfi hafði mjög greiðan aðgang að lánsfé sem hann endurlánaði með góðum hagnaði til þeirra sem til hans leituðu. Vinir Gylfa og vandamenn fengu sérstaka fyrirgreiðslu hjá honum. Þeir fengu lánsfé eins og þeim sjálfum sýndist og Gylfa nægði drengskaparheiti þeirra um endurgreiðslur.  Gylfi þekkti eðlilega ekki drengskap vandalausra svo hann lánaði þeim ekki nema með tryggum veðum í fasteignum eða öðru áþreifanlegu.  

Lánastafsemi Gylfa var háð sérstökum leyfum yfirvalda sem kröfðust þess að eignir Gylfa væru að andvirði ekki minna en 8% af skuldum hans. Mikil vöxtur í útlánum kallaði á miklar og auknar lántökur af hálfu Gylfa, sem verður að sýna fram á að eignir hans vaxi að andvirði til að haldast yfir 8% af skuldum. Gylfi mat vináttu vina sinna mikils og því meira sem skuldir þeirra voru við hann. Hann vissi sem var að drengskapur var gulls í gildi. Hann brá því á það ráð að bókfæra vináttu og drengskap vinna sinna sem eignir.

Dag einn flaug óheillakráka yfir Gylfa þar sem hann sat grandalaus og taldi fé sitt. Flug óheillakrákunnar leiddi til þess að lánsfé hvarf að mestu af sjónarsviðinu. Gylfi greip í tómt þegar hann ætlaði sækja nýtt lánsfé til að standa skil á eldri lánum. Hann  náði ekki að standa í skilum með lán sín og komst í greiðsluþrot.

Yfirvöld uppgötvuðu sér til undrunar að mikil óráðssía var í allri starfsemi Gylfa. Ákváðu þau þá þegar að lán Gylfa til vandalausra skyldu seljast úr þrotabúinu í hendur Herberts, sem var yfirvöldum þóknanlegur. Yfirvöld ákváðu að hæfilegt kaupverði slíkra lána væri 50% af virði þeirra. Yfirvöld ákváðu jafnframt að öll lán til vina og vandamanna Gylfa yrðu áfram í þrotabúi hans, enda væru þau verðlaus.

Segir nú af þeim Tryggva og Þór sem voru vandalausir við Gylfa og höfðu skuldað honum 10 milljónir hvor, sem tryggð voru með veðum í fasteignum þeirra. Tryggvi var nokkuð vel stæður með góðar tekjur. Þór var hins vegar mjög illa staddur og var fyrirséð að hann gæti ekki staðið í skilum af láni sínu.

Herbert átti nú lán þeirra Tryggva og Þórs sem hann hafði greitt samtals 10 milljónir fyrir. Herbert var glaður í bragði þrátt fyrir bága stöðu Þórs. Tryggvi gæti hæglega staðið skil á sínu láni sem væri 10 milljóna virði. Óvissa ríkti um það hversu stóran hluta lánsins til Þórs hann yrði að afskrifa. Fasteignaverð hefði illu heilli lækkað mikið svo fasteignaveðið sem Þór lagði til sem tryggingu fyrir láninu gæti farið niður í 5 milljónir . Herbert gerði því ráð fyrir að fá 15 milljónir út úr þessum lánum sem hann keypti á 10 milljónir. Hagnaður hans yrði 50% og eigið fé hans mynd því aukast hratt og tryggilega.

Þar sem Herbert situr og reiknar gróða sinn fær hann skilaboð frá yfirvöldum um að hann verði að fella niður 20% af öllum skuldum sem hann keypti með 50% afslætti.

Herbert reiknaði gróða sinn að nýju. Skuldir Tryggva lækkuðu í 8 milljónir sem Tryggvi ætti enn síður í vandræðum með að standa skil á en upphaflegu 10 milljónunum.  Skuldir Þórs lækkuðu einnig í  8 milljónir. Það breytti hins vegar litlu fyrir Þór þar sem fyrirséð var að hann gæti ekki staðið skil á þeim.  Eftir sem áður fengist í versta tilfelli ekki meira en 5 milljónir fyrir lánið til Þórs með því að ganga að veðinu sem var lagt til tryggar þess. Herbert reiknaðist til að hann fengi 13 milljónir fyrir lánin tvö. Hagnaður yrði ekki nema 30% og eigið fé hans mynd ekki aukast jafn mikið og hann hafði áður talið."

Samkvæmt þessu er ekki skynsamlegt að setja skuldirnar niður um 20% því eigindur Herberts(bankanna) í dag eru auðvitað við öll - skattgreiðendur þessa lands.


Vonandi verður þetta að veruleika

Ég vona svo sannarlega að hugmyndir Róberts Wessman verði að veruleika, hvernig svo sem þær verða útfæraðar. Það var gott að lesa moggann í morgun. Tækifærin í heilbrigðisþjónustunni okkar eru mörg og mikilvægt að við nýtum þau.

Fullkomin aðstaða á Suðurnesjum, með flugvöllinn, Bláa Lónið, fullkomnar skurðstofur, hótel, íbúðir, starfsfólk og fleira eru tækifæri sem við verðum að nýta núna. Gengið er okkur hagstætt, svo hagstætt að það er sérstaklega áhugavert að koma til landsins og fara í aðgerðir hér. 

Samstarf við stofnanir eins og Mayo Clinics eða aðrar sem þurfa að sjá skjólstæðingum sínum fyrir aðgerðum eru mjög áhugaverðar á þessum tímum. Kerfið í Bandaríkjunum bíður upp á mikla möguleika, þar eru það stofnanir sem taka að sér að þjónusta ákveðna skjólstæðinga með alla þeirra þjónustu. Við getum boðið þessum stofnunum að sjá um aðgerðir og/eða endurhæfingu þeirra skjólstæðinga á samkeppnishæfu verði auk þess sem áhugavert er að bjóða ákveðnar pakkaferðir til landsins í þessum tilgangi. 

Gangi ykkur sem allra best með þetta !

 


mbl.is Gætu orðið til 300 störf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hálftómt eða hálffullt - 91% með atvinnu

Miðað við nýjustu upplýsingar er að draga úr aukningu atvinnuleysis, þ.e. það er ekki eins mikil aukning nú fyrstu vikur mars mánaðar og fyrstu vikur mánaðanna á undan og það er auðvitað jákvætt.

Það skiptir máli hvernig við hugsum hlutina og í stað þess að tala um hvað margir eru án atvinnu þá væri nær að tala um það hvað margir eru með atvinnu í dag. Hér á landi eru t.d. 91% allra atvinnubærra einstaklinga með vinnu og það telst ansi gott á evrusvæðinu. 


Vonbrigði

Mikil vonbrigði voru það að stýrivaxtalækkun Seðlabankans sem kynnt var í dag hljóðaði upp á eitt prósent já eitt prósent - alveg ótrúlegt miðað við allt og allt. Ég get ekki séð rökin fyrir því að lækkunin sé ekki meiri á þessum tíma. Heimilin og fyrirtækin þurfa að fara að sjá hér verulega lækkandi vexti - þetta gengur ekki lengur. 

Hvernig má það vera að á sama tíma og talað er um að hjálpa heimilum og fyrirtækjum sé þetta það sem boðið er upp á. Ég átti von á meiri lækkun og held að flestir hafi gert það. Fjöldi fyrirtækja og heimila eru búin að vera að þreyja Þorrann og þurfa nú að þreyja Góuna líka. Hættan er sú að þetta sé að verða of langt ferli og þegar síðan koma skilaboð eins og þessi þá gefist fólk bara upp. Það virðist engin von um það að hlutirnir fari að lagast eitthvað hér.

Þarf virkilega ennþá þessa háu vexti fyrir krónuna? Ég hefði viljað sjá stýrivexti lækkaða mun meira í dag, þó ekki væri nema til að ala von í brjóstum einstaklinga og fyrirtækja.

Við þurfum öll á því að halda Smile


Allrar athygli verðar

Hugmyndir þær sem Tryggvi Þór Herbertsson fór yfir í Kastljósi sjónvarpsins í gærkvöldi eru allrar athygli verðar. Það sem skiptir mestu máli í þessu þjóðfélagi í dag er að fólk gefist ekki upp og haldi áfram að greiða af lánunum sínum, að fólk sjái tilgang í því að halda áfram. Ég vil umfram allt sjá frekari skoðun á þessum hugmyndum og útfærslu. það var ekki uppörvandi að sjá hvernig Steingrímur J. Sigfússon og Jóhanna Sigurðardóttir afgreiddu málið á blaðamannafundi í dag og gerðu að því er mér fannst litið úr þessum tillögum og ætla alls ekkert að skoða málið neitt frekar. Það þarf djarfar ákvarðanir í þessu óvenjulega ástandi og tækifærin til þess að bregðast við renna okkur hratt úr greipum ef við aðhöfumst ekkert.


Er það hagur heimilanna að breyta gengislánum í hefðbundin lán?

Ég verð að segja að mér finnst jákvætt að nú sé loks verið að gera eitthvað meira í málefnum heimilanna, en mér finnst vanta að setja fram dæmi og útskýra hlutina betur. Hvað þýðir það fyrir fólk að breyta gengislánunum sínum? Ef miðað verður við gengisvísitöluna 1. maí 2008 þá var gengisvísatalan 149 en er í dag 187, það þýðir yfir 30% lækkun sem er auðvitað verulegt. Sennilega hafa þó þessi gengislán hækkað um og yfir 100% á þessum tíma og mín trú er sú að gengisvísitalan muni lækka meira en niður í 149 næstu mánuði og ár. Það er algjört lykilatriði í þessu að sá sem fari í þessar breytingar nú muni njóta góðs af því ef gengisvísitalan fer svo niður fyrir þetta 149 króna mark. Ég er þess fullviss að með réttri stjórn hér í þessu landi muni krónan styrkjast. Krónan mun styrkjast með eflingu atvinnulífsins og þá munu þessi erlendu lán ekki vera stóra vandamálið.  Stóri vandinn er sá að verðtryggingin hækkar hefðbundin lán og þau munu ekki lækka aftur og gleymum því ekki að hér er verðbólgan enn um 18%.  
mbl.is 14 þúsund heimili eiga bara skuldir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

treystum grunninn - tryggjum velferð

Þjóðin
Öflugt atvinnulíf og traust efnahagsástand er nauðsynleg forsenda fyrir aukinni farsæld þjóðarinnar. Mikilvægt er efla undirstöður atvinnulífsins með framsækinni atvinnustefnu og ábyrgri fjármálastjórn. Við verðum að tryggja óskoruð réttindi yfir auðlindum okkar með hagsmuni þjóðarinnar að leiðarljósi.

Nýtt fólk með reynslu
Það skiptir miklu máli að Sjálfstæðisflokkurinn verði við stjórnvölinn eftir kosningar í vor. Krafan um endurnýjun á Alþingi er hávær og réttmæt þó mikilvægt sé að nýta þá reynslu sem fyrir er. Þetta verður að sameina. Þjóðin verður að standa þétt saman um að vinna sig út úr því ástandi sem nú ríkir. Djörfung og framsýni á að ráða ferðinni inn í framtíðina.

Verkin tala
Þau ár sem ég hef verið í forystusveit í borginni hefur mörgum góðum málum verið hrint í framkvæmd. Heimahjúkrun og heimaþjónusta í Reykjavík var sameinuð og efld og málefni geðfatlaðra voru flutt til borgarinnar. Niðurgreiðslu í félagslega íbúðakerfinu var breytt í einstaklingsbundinn stuðning við greiðslu leigu og tekið á málefnum utangarðsfólks með sérstakri uppbyggingu. Einnig var tekið á búsetuúrræðum fyrir heimilislausar konur. Stórátak var gert í byggingu öryggis- og þjónustuíbúða fyrir eldri borgara. Reynsla mín af setu í borgarstjórn Reykjavíkur, m.a. sem formaður Velferðarráðs og stýrihóps um uppbyggingu búsetuúrræða fyrir eldri borgara mun nýtast mér vel í störfum mínum á Alþingi. Þess vegna bið ég um stuðning þinn í prófkjöri Sjálfstæðismanna.

Fyrir fólkið
Á vettvangi borgarstjórnar hef ég beitt mér fyrir fjölmörgum framfaramálum, sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur haft forystu um að hrinda í framkvæmd. Ég er stolt af þessari uppbyggingu. Ég tel að þessi reynsla mín geti nýst mér vel í störfum mínum fyrir borgarbúa og þjóðina á Alþingi. Á vettvangi þjóðmála tel ég að reynsla mín auðveldi mér að takast á við þau fjölmörgu krefjandi viðfangsefni sem blasa við.


Jafnvægi á prófkjörslistum

Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið laus við að setja kynjakvóta á uppstillingu lista til kosninga í gegnum tíðina og vona ég að svo verði áfram. Sjálfstæðismenn þurfa ekki kynjakvóta til þess að velja frambærilega fulltrúa af báðum kynjum til ábyrgðarstarfa enda mikið af frambærilegu fólki að velja úr. Það er nú samt svo að það er raunveruleg hætta á því að hjá Sjálfstæðisflokknum verði einungis karla sem leiði listana í öllum kjördæmum landsins. Við verðum að passa að það verði ekki niðurstaðan. Ég gef kost á mér í annað sætið á lista flokksins til alþingiskosninganna hér í Reykjavík, það er yfirlýsing um það að ég sé tilbúin til þess að taka að mér að leiða listann í öðru kjördæminu í Reykjavík.  Ég hef leitt stórt svið hjá Reykjavíkurborg nú undanfarin ár og unnið að ýmsum breytingum á þeim tíma og leitt þær til lykta. Það skiptir Sjálfstæðisflokkinn miklu máli að hafa hér öfluga forystu í komandi kosningum. Forystu sem hefur á að skipa konum jafnt sem körlum, forystu sem býður upp á ákveðna endurnýjun og reynslu, forystu með ferskan blæ.

Við verðum að sameinast um það sjálfstæðismenn að velja öflugan, samhentan og sigurstranglegan lista. Þannig náum við til breiðs hóps kjósenda og veitum stefnu og sýn sjálfstæðismanna brautargengi. Þess vegna sækist ég eftir 2. sæti og um leið fyrsta sæti í öðru kjördæminu.


ESB og íslenska krónan

Ég fæ mikið af fyrirspurnum um það hvort ég vilji ganga í ESB eða hvort aðildarviðræður séu tímabærar. 

Ég skrifaði grein um þetta fyrir nokkru síðan þar sem ég sagði það alveg skýrt að ég teldi ekki ástæðu til að velta fyrir okkur aðildarviðræðum á þessum tíma. Sjá: http://jorunnfrimannsdottir.blog.is/blog/jorunn/entry/785371/

Nú þurfum við að takast á við stöðuna eins og hún er og einbeita okkur að því að hjálpa fjölskyldunum og fyrirtækjunum til þess að komast í gegnum þetta. Við þurfum að taka hér djarfar ákvarðanir um verkefni á vegum ríkisins, það eru verkefni eins og það að halda áfram með Landspítala Háskólasjúkrahús, brúarsmíði, álversframkvæmdir og annað sem getur skapað hér atvinnu fyrir fólkið í landinu.

Varðandi íslensku krónuna tel ég að sama skapi að ekki sé lag nú að taka upp annan gjaldmiðil, það væri í raun glapræði eins og sakir standa. Krónan verður að styrkjast hér áður en við getum svo mikið sem hugsað um það að gera breytingar á því. Við þurfum að velta fyrir okkur hvort fyrirtæki og fjármálastofnanir eigi að geta vaxið hér og dafnað á alþjóðavísu eða hvort við viljum hefta vöxt þeirra og halda innan þeirra marka að okkar annars ágæta hagkerfi haldi utan um það.

Nú þurfum við að einbeita okkur að endurskoðun regluverksins og eftirlitsins sem algerlega brást hér og gera ráðstafanir sem koma í veg fyrir að nokkuð slíkt geti gerst aftur.

Skrifa meira síðar!

 


Úrvinda en ánægð

Þessi dagur hefur ekki verið rólegur, en ég verð að segja að það er ánægður frambjóðandi sem leggst á koddann í kvöld. Í hádeginu var ég á frábærum fundi hjá SÁÁ þar sem ég hitti Heiðursmenn þeirra samtaka og var virkilega gaman að fá tækifæri til að hitta þá og fara yfir sviðið með þeim. Eftir síðan frekar erfiðan dag á kosningaskrifstofunni þá var kvöldið afar ánægjulegt og skemmtilegt. Við frambjóðendur vorum á hraðstefnumótarfundi með flokksmönnum í austurhluta borgarinnar þar sem var vel mætt og virkilega góðar umræður. Þetta eru krefjandi fundir og maður verður að gefa sig allan í þetta en það var svo sannarlega skemmtilegt.  Góða nóttSleeping


Get ekki orða bundist yfir yfirlýsingum Umhverfisráðherra

Hvernig stendur á því að ráðherra þjóðarinnar getur sagt á þessum tímum að hann sé á móti frumvarpi um byggingu álvers í Helguvík.  Er ásættanlegt, á sama tíma og 14000 manns eru hér atvinnulausir og miklu fleiri sem sjá ekki fram á að ná endum saman, að vera á móti því að hér verði sköpuð störf fyrir 1200 - 3000 manns á nokkurra ára tímabili. Ráðamönnum ber skilda til að taka ábyrga afstöðu hverju sinni landi sínu og þjóð til framdráttar. Ef fram heldur sem horfir mun fólk gefast upp hér í stórum stíl. 

Ég hef undanfarna daga verið að hringja í kjósendur í tengslum við framboð mitt í annað sætið í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins og það er þungt hljóð í fólki. Nú er hugsanlega möguleika á því að fara í uppbyggingu og skapa hér atvinnu - en hvað - þá getur manneskja eins og Kolbrún Halldórsdóttir Umhverfisráðherra þjóðarinnar leyft sér að segjast vera á móti og styðja ekki áætlanirnar. Ég tel það þekkingarleysi og hroka að segja að álver skili litlum arði. Framkvæmdin er arðbær, en arðurinn felst ekki síður í störfunum og fólkinu sem lifir og hrærist í landinu okkar. Á bak við hvert starf er fjölskylda og einstaklingar sem reiða sig á það að til heimilisins komi peningar fyrir afborgunum, mat, skólabókum, tómstundum og fleiru og fleiru. Gerum ekki lítið úr þessum þáttum sem skipta okkur öll svo miklu máli.  Ef stjórnmálamenn eru svo langt frá raunveruleikanum sem orð umhverfisráðherra bera með sér ætti sá hinn sami að snúa sér að öðru á þessum tímum. Álver í Helguvík mun skapa 12-1500 störf á ári fram til 2011 og þegar mest verður um mitt ár 2011 munu 2500 -3000 manns hafa atvinnu af einhverju tagi í tengslum við uppbygginguna.

Ég vona að af uppbyggingunni verði og held að við ættum að sameinast um það að gera ALLT sem í okkar valdi stendur sem stöndum hér vaktina að skapa störf fyrir fólkið í landinu okkar. Þannig munum við komast í gegnum þessa efnahagskreppu.

 

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Jórunn Frímannsdóttir

Höfundur

Jórunn Ósk Frímannsdóttir
Jórunn Ósk Frímannsdóttir

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ...i_mbl_blogg
  • ...logo
  • ...k_mynd_stor
  • Jólakortamynd 2009 003
  • DSCN2230

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (7.5.): 5
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 34
  • Frá upphafi: 84712

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 34
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband