Aðildarviðræður eru ekki tímabærar

Ég ákvað að setja hér inn grein sem ég sendi á Moggann í síðustu viku en hef nú beðið um að verði ekki birt . Enda að mörgu leiti úrelt.

 

Eru aðildarviðræður tímabærar?

Íslenska þjóðin er í áfalli eftir atburði undanfarinna mánaða.  Margir glíma við erfiðleika sem þeir eiga erfitt með að sjá framúr. Atvinnuleysi, launalækkun, síhækkandi afborganir og hækkun vöruverðs eru þættir sem mjög erfitt er að glíma við. Öll heimili landsins leita leiða til að draga úr útgjöldum. Margir óttast framtíðina og hafa áhyggjur af starfsöryggi sínu á tímum mikillar óvissu.  Á sama tíma heyrum við endalausar neikvæðar fréttir. Fréttir sem ala enn frekar á vonleysi og uppgjöf. Við verðum að snúa við blaðinu. Allir vita að margt hefur farið úrskeiðis og að margt hefði betur mátt gera.

Forsætisráðherra hefur sýnt fagmennsku. Ítarlegt yfirlit yfir aðgerðirnar sem gripið hefur verið til á fyrstu hundrað dögunum eftir hrunið var birt í morgunblaðinu 18. janúar síðastliðinn. Upptalningin sýnir að margt er þegar búið að gera og fjölmargt er í farvatninu. Ráðamenn þjóðarinnar hugsa stöðugt um hag okkar. Dómsmálaráðherra hefur boðað breytingar á gjaldþrotalögum fyrir einstaklinga og Félagsmálaráðherra hefur boðað aðgerðarpakka til hjálpar heimilunum svo dæmi sé tekið. Með íslenska bjartsýni, íslenskan kraft, íslenska fiskinn og íslensku krónuna getum við siglt hraðar út úr þessari kreppu en margar aðrar þjóðir. Sérstaða lítillar þjóðar í norður Atlantshafi mun hjálpa henni á næstu mánuðum. 

Notum tímann í annað en að þrátta um ESB

Eru aðildarviðræður tímabærar núna þegar við þurfum alla okkar krafta í það að ná vopnum okkar í baráttunni við vaxandi atvinnuleysi og kreppudraug? Það er mörgum spurningum ósvarað og erfitt að meta stöðuna þegar óvissuþættirnir eru svo margir sem raun ber vitni. Mikilvægast er í dag að beina kröftunum að því að byggja upp, renna styrkari stoðum undir; framleiðsluna, iðnaðinn, nýsköpunina og fá hjólin til að snúast. Við þurfum að ná tökum á efnahagslífinu, styrkja krónuna og ná stöðugleika á fjármálamarkaðnum. Aflétta síðan gjaldeyrishöftunum, lækka vexti og halda hér jákvæðum vöruskiptajöfnuði. Mín skoðun er sú að krónan muni í raun hjálpa okkur hraðar út úr kreppunni, en ef við hefðum gjaldmiðil sem ekki fylgdi sveiflunum í okkar hagkerfi. Fyrir þessu eru nokkrar ástæður. Útflutningsgreinarnar fá meira fyrir afurðirnar þegar krónan er veik. Þetta er mikilvægur þáttur í því að halda jákvæðum vöruskiptajöfnuði. Ef við náum stöðugleika og sýnum hvers við erum megnug, t.d. í nýsköpun og framleiðslu, munum við byggja upp traust sem skilar sér í styrkingu krónunnar, sem er nauðsynlegt fyrir okkur. Þegar gengi krónunnar verður orðið eðlilegt á ný getum við horft til þess að festa gengið, eða að skipta krónunni út fyrir annan gjaldmiðil. Fyrr ekki. 

Það eru skiptar skoðanir á því hvort hagsmunum Íslendinga sé betur borgið innan ESB eða utan. Þróunin undanfarið innan sambandsins er hvorki traustvekjandi né áhugaverð. Það er mikið atvinnuleysi innan ESB, mun meira en við eigum að venjast. Bretland, Írland og Ítalía íhuga að ganga úr sambandinu og Ítalir hafa lýst því yfir að þeir vilji hætta með Evruna. Í Grikklandi logaði allt í óeirðum í sumar. Á Spáni er talað um að atvinnuleysi stefni í 19%. Kreppan sem við glímum við er alþjóðleg og líklegt er að aðrar þjóðir eigi eftir að feta í fótspor Íslendinga og þjóðnýta banka. Auðlindir okkar eru miklar og fáar þjóðir geta státað af jafn miklum lífsgæðum.  

Mikilvægasta verkefnið sem við stöndum frammi fyrir nú er að koma okkur út úr kreppunni. Ég tel skynsamlegt að bíða enn um sinn og sjá hvernig málin þróast í Evrópu. Um leið og hér fer að ganga betur getum við tekið málið upp að nýju. Við megum ekki gleyma því þó nú geysi hér stormur að öll él styttir upp um síðir. Þá getum við stolt sótt um aðild og sett fram skilyrði og kröfur sem sterk sjálfstæð þjóð.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Ágæt grein svo langt sem hún nær, en það verður lélegt ef að Sjálfstæðisflokkur treystir sér ekki að taka afstöðu til samvinnu ríkja innan álfunnar. Krónan sem mynt landsins verður áfram stærsta vandamál við að endurreisa trúverðugt fjármálaumhverfi. Sú staðreynd verður ekki fluin. Þegar þið eruð búin að losa ykkur undan Davíðshjálmi þá getið þið farið að hlusta eftir óskum atvinnulífs og iðnaðar. Þá verður valið nokkuð auðvelt.

Gunnlaugur B Ólafsson, 26.1.2009 kl. 21:48

2 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Ég held sonandi sveimér að við séum algerlega dús í þetta sinn. Þessi umræða er öll sköpuð til þess að breiða yfir úrræða og getuleysi Samfykingarinnar gagnvart því sem við blasir. Reykhula til að breiða yfir mistök og andveraleysi þeirra í aðdraganda hrunsins.

Það var fáránlegt að heyra Björgvin halda því fram þegar hann var spurður um hver hann teldi helstu mistök sín í stjórnartíðinni. Hann greip til þessarar klysju,  fríaði sig ábyrgð og eyddi þessari samviskuspurningu með því að segja að stæstu mistökin hafi verið að setja Evrópubandalags aðild ekki að skilyrði fyrir stjórnarsamstarfinu.  Merkileg niðurstaða.

Evrópubandalagsaðild hefði ekki forðað neinu hjá landi, sem var komið í 10 sinnum VLF í undirbalans og með lokaðar lánalínur til lífæða helstu seðlabanka heimsins.

Evrópusambandsaðild hefði ekki dregið úr fallinu, enda tekur það ætíð málstað þeirra ríkja sem mest vægi hafa innan þess, eins og þegar það neitaði okkur hreinlega með kúgunum um aðgang að alþjóðaréttarkerfinu í Iceavedeilunni og studdi valdbeitingu breta, sem einhverntíma hefði nægt til stríðsyfirlýsingar ef stærri þjóðir hefðu átt í hlut.

Í þriðja lagi hefði svo Sjálfstæðisflokkurinn aldrei farið í stjórnarsamstarf með slíku skilyrði og þess vegna var það ekki í stjórnarsáttmálanum. Svoþað var tómt mál um að tala í upphafi.

Afneitunin tekur á sig merkilegustu myndir, svo mikið er víst.

Jón Steinar Ragnarsson, 27.1.2009 kl. 02:03

3 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Umræðan um það sem við hefðum átt að gera ætti að vera runnin a enda. Umræðan um hverjum þetta er að kenna og hverjum ekki er ekki tímabær og færir engin svör fyrr en rannsókn hefur farið fram. Það sem fólk er þyrst í að heyra er, hvað ber okkur að gera nú næstu misserinn til að stöðva dómínóeffekt bankahrunsins.  Það hefur enginn áhuga á brauðmolum um frystingu lána og loforðum um útgjöld eins og föstudagsfundirnir frægu snerust um, sérstaklega þegar í ljós kemur að efndirnar eru litlar sem engar. Alþýða Íslands er ekki almennt svo skyni skroppin að vita ekki hvað skiptir máli og þessvegna hefur hún spurt út í eitt, án þess að fá svör. Þessvegna er svona komið fyrir þessari ríkistjórn, sem lét sér nægja að gefa í skyn að hún vissi betur en þjóðin en deildi þeirri vitneskju ekki með henni.

Nú getur Sjálfstæðisflokkurinn enn lagt hönd á árar með að veita aðhald og leggja til efnahagsleg úrræði, kerfi eða aðferðir til að stýra okkur út úr þessu.  Ég vona að biturðin hamli þeim ekki í því.  Við erum öll bræður og systur hér þegar allt kemur til alls. Sameinuð stöndum en sundruð föllum.

Jón Steinar Ragnarsson, 27.1.2009 kl. 02:15

4 Smámynd: Einar Þór Strand

Gunnlaugur, það sem ég hef aldrei getað skilið er hvers vegna Samfylkingin sem ég held að telji sig lýðræðisflokk vill fara ESB í "stofnun" sem hefur sýnt að hún misnotar lýðræðislegar aðferðir aftur og aftur með því til dæmis að endurtaka kosningar aftur og aftur þangað til náðst hefur niðurstaða sem framkvæmdastjórnin vill.

Er þatta kannski draumurinn að þurfa ekki að spurja fólkið?

Einar Þór Strand, 27.1.2009 kl. 07:44

5 Smámynd: Aðalheiður Ámundadóttir

Ég er algerlega sammála og tel afar brýnt að fara ekki að breyta stjórnarskránni núna, (að þessu leiti) það myndi koma í veg fyrir að kjósendur geti tekið afstöðu til slíkra breytinga, því þeir hafa um nóg annað að hugsa í næstu kosningum...

Aðalheiður Ámundadóttir, 27.1.2009 kl. 15:52

6 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Sammála þessum pistli og ekki  og ekki síður athugasemd Aðalheiðar. Það er forkastanlegt að bera það undir þjóð í áfalli hvort hún á að afsala sér fiskveiðiauðlindinni. Það eru örugglega margt brýnna.

Sigurður Þórðarson, 27.1.2009 kl. 17:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Jórunn Frímannsdóttir

Höfundur

Jórunn Ósk Frímannsdóttir
Jórunn Ósk Frímannsdóttir

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ...i_mbl_blogg
  • ...logo
  • ...k_mynd_stor
  • Jólakortamynd 2009 003
  • DSCN2230

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.5.): 2
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 25
  • Frá upphafi: 84763

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 25
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband