3.3.2009 | 15:12
Að eigna sér lýðræðið
Á fundi borgarstjórnar í dag kom fram tillaga um úttekt á mismunandi leiðum sem farnar hafa verið við valddreifingu og lýðræðisumbætur í borgum og sveitarfélögum á norðurlöndunum. Tillögunni var vísað til Borgarráðs til frekari skoðunar, en tillagan var lögð fram af minnihlutanum án vitundar okkar í meirihlutanum.
Það í sjálfu sér gott að fá þessa úttekt sem getur skipt miklu máli við mótun hverfavæðingar til framtíðar. En lögð var áhersla á að þetta yrði unnið af starfsfólki hér í Ráðhúsinu og hef ég ákveðnar efasemdir um að það geti gengið þar sem álaga á starfsfólk hér er mikið nú þegar og ekki síst í ljósi þess efnahagsástands sem nú er uppi í þjóðfélaginu. Í ræðu minni vegna þessa máls lagði ég mikla áherslu á það við þurfum að sameinast um það með hvaða hætti við sjáum Þjónustumiðstöðvarnar til framtíðar. Það er ekki hægt að starfa hér með þeim hætti að það fari eftir því hver er í meirihluta hverju sinni hvernig starfsemi þjónustumiðstöðva verður.
Þjónustumiðstöðvarnar eru sex í dag og er afar mismunandi hver fjöldi íbúa er á bak við hverja miðstöð, eða frá því að vera tæplega 15.000 í það að vera yfir 30.000 íbúar.
Ég fæ til mín fólk sem er óánægt með þjónustu á sínu svæði og telur sig jafnvel þurfa að flytja milli hverfa til þess að fá sambærilega þjónustu og boðin er í einhverju öðru hverfi. Svo við verðum að huga að jafnræði íbúanna við hverfavæðingu og er það afar mikilvægt.
Hugmyndafræði um hverfavæðingu er góð og gild og get ég alveg tekið undir flest það sem felst í því að hverfavæða hina ýmsu starfsemi. Nauðsynlegt er að ná samstöðu um hvað er rétt að hverfavæða og hvað ekki, viljum við hafa áfram sex þjónustumiðstöðvar og hafa starfsemina með svipuðu lagi og nú er eða viljum við efla sérþjónustu og aðra þjónustu á miðstöðvunum með því að hafa þær færri og stærri þannig að raunhæft sé að setja inn meiri starfsemi þar til þjónustu við íbúana. Það er ákveðinn kostnaður sem fylgir svona hverfavæðingu. Á tímum sem þessum er mikilvægt að við veltum fyrir okkur hverri einustu krónu og förum vel yfir það hvernig skattpeningum okkar er best varið. Við viljum veita góða og örugga þjónustu og það er okkar frumskylda. Það var ákveðið í borgarstjórn í dag að fækka pólitískum fulltrúum í hverfaráðum borgarinnar úr sjö í fimm og er það í sjálfu sér aukaatriði, en ég hefði hins vegar viljað sjá að í Hverfaráðunum verði frekar lögð áhersla á það að í Hverfaráðunum verði fulltrúar t.d. frá foreldrum, unglingum, börnum, öldruðum, kirkjunni og fleiri aðilum sem endurspegla þá starfsemi sem á sér stað í hverfunum.
Í starfsáætlun Velferðarsviðs er gert ráð fyrir að móta stefnu fyrir sviðið til lengri framtíðar og mun sú stefna verða unnin í samvinnu alra flokka. Inn í þá vinnu er mikilvægt að taka mótun stefnu um hverfavæðingu til skoðunar og móta sameiginlega sýn meirihluta og minnihluta og svo um starfsemina geti ríkt friður.
3.3.2009 | 13:15
Viðtal á ÍNN um velferðarmálin
Þetta viðtal var tekið við mig á sjónvarpsstöðinni ÍNN í janúar. Segir ýmislegt um það sem ég hef verið að fást við undanfarna mánuði.
3.3.2009 | 09:59
Viðtal á útvarpi Sögu í morgun
Ég fór í viðtal á Útvarpi Sögu í morgun og var ánægjulegt að geta komið á framfæri þeim mörgu upplýsingum sem er svo mikilvægt að koma á framfæri nú þegar svo margir vita ekki hvert þeir geta leitað. Það er hnappur inn á www.velferdarsvid.is sem heitir Upplýsingargátt þar sem er að finn amikið af upplýsingum sjá: http://reykjavik.is/desktopdefault.aspx/tabid-3377 um þá þjónustu sem Reykvíkingum stendur til boða og hvert þeir geta leitað.
1.3.2009 | 10:13
Starfið á kosningaskrifstofunni í Glæsibæ
Þá er starfið á kosningaskrifstofunni að komast í gang. Við verðum með opið milli 17 og 20 virka daga og 13 - 18 í dag sunnudag og næstu tvær helgar. Gaman væri að sjá sem flesta, en ég mun reyna að vera sem allra mest við sjálf og gefa Reykvíkingum kost á að hitta mig og ræða pólitík.
Ég vonast til að sjá sem flesta og auðvitað eru allir velkomnir
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.3.2009 | 09:50
Eflum samráð og samtakamátt
Aðgerðateymi
Aðgerðaáætlun velferðarsviðs var samþykkt á fundi ráðsins hinn 8. október síðstliðinn. Í framhaldi var ákveðið að stofna aðgerðateymi sem heldur utan um framkvæmd áætlunarinnar. Í teyminu eru 2 framkvæmdastjórar þjónustumiðstöðva og skrifstofustjóri velferðarmála auk verkefnisstjóra. Teymið hefur haldið fundi 1-2 í viku frá októbermánuði. Þessu teymi er ætlað að halda utan um framkvæmd aðgerðaáætlunarinnar, samræma aðgerðir og upplýsingar.
Verkefni aðgerðateymisins hafa verið margskonar. Teymið heldur utan um tölfræðiupplýsingar fyrir velferðarráð og miðlar upplýsingum um stöðu mála hverju sinni til dæmis til hópsins »Börnin í borginni«. Aðgerðateymið hefur undirbúið fræðslufundi fyrir almenning sem haldnir hafa verið í öllum hverfum borgarinnar og fylgist með breytingum varðandi aukna þörf fyrir þjónustu á þjónustumiðstöðvunum, bæði í gegnum tölfræðiupplýsingar og með öðrum hætti. Þá hefur teymið hvatt til og haft umsjón með gerð viðbragðsáætlana á þjónustumiðstöðvum og reynt að skapa aukið svigrúm til að mæta aukinni þörf. Teymið tók saman yfirlit yfir úrræði og tilboð sem standa fólki sem er í vanda til boða og eru þær upplýsingar nú aðgengilegar á vef borgarinnar. Teymið hefur þegar haldið fundi með forsvarsmönnum ýmissa félagasamtaka sem eru í hjálparstarfi, vinnumiðlun og fleiri aðilum.
Aukið samráð í hverfum borgarinnar Við núverandi efnahagsástand þarf samstöðu allra í samfélaginu. Nauðsynlegt er að nýta kosti nærsamfélagsins og þróa þjónustu þeirra fjölmörgu sem huga að velferð samborgara sinna, þannig að ný viðfangsefni verði til þess að nýjar lausnir fæðist. .Á fundi Velferðarráðs nýverið var samþykkt að setja í gang sérstök samráðsteymi á hverri þjónustumiðstöð Velferðarsviðs. Þeim er ætlað að styðja enn frekar við starf aðgerðateymisins á hverfavís og skapa samráðsvettvang stofnana, félagasamtaka og sjálfboðaliða á hverfagrunni. Til þessa samráðs verða boðaðir aðilar frá Heilsugæslu, lögreglu, skólum (Framhaldsskólum, grunnskólum og leikskólum), trúfélögum, íþróttafélögum, vinnumiðlun, stéttarfélögum, frjálsum félagasamtökum og fleirum.
Þessi grein birtist í Morgunblaðinu í dag
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.3.2009 | 00:00
Endurnýjun eða ...
Endurnýjun Samfylkingarinnar í prófkjörinu framundan snýst um það að nýtt(gamalt) fólk gefi kost á sér á fjórða sæti listans. Þrjú efstu sætin eru nefnilega frátekin. Við þurfum ekkert að hafa mörg orð um það eða hvað?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.2.2009 | 00:43
Dagur í lífi frambjóðanda
Þessi dagur hefur verið ótrúlegur og ekki mínúta aflögu.
Byrjaði á fundi hjá Strætó bs. þar sem ég var til rúmlega 10. Fór þaðan á fund í stjórn útivistarsvæða Orkuveitu Reykjavíkur. Lauk þeim fundi um hálf tólf og settist þá út í bíl fyrir utan Orkuveituna til að eiga nokkur símtöl í næði. Klukkan tólf mætti ég svo á fund í Orkuveitu Reykjavíkur þar sem ég stökk inn sem varamaður. Á þeim fundi reyndi ég að undirbúa mig fyrir upptökur á Vídeó-i fyrir prófkjörið sem var á vegum flokksins og skrifaði ég punkta í lófann á mér til að hafa með mér þangað. Mætti í upptöku vegna Vídeósins upp úr tvö og var þar til rúmlega þrjú. Þaðan niður í Ráðhús að kíkja á nokkur gögn. Mætti svo í Mjóddina á fund Hverfaráðs Breiðholts klukkan hálf fimm. Að þeim fundi loknum niður á skrifstofu að reyna að ná í stjórnarmenn sem eru að koma á Brunch-fund hjá mér á morgun kl.11. Var á skrifstofunni að reyna að gera klárt, hringja og stússast til hálfátta, þegar sonur minn sótti mig og skutlaði upp í Borgarleikhús þar sem ég hitti manninn minn og naut þess um stund að horfa á leikritið milljarðamærin snýr aftur. Eftir að við komum svo heim upp úr ellefu hef ég verið að senda sms og koma því á framfæri að ég ætla að opna kosningaskrifstofuna í Glæsibæ á morgun og vonast auðvitað til að sjá sem flest.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 1.3.2009 kl. 10:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
26.2.2009 | 13:52
Já við getum......
Barack Obama notaði mikið í innsetningrræðu sinni "yes we can"
Það er fátt mikilvægara nú en að koma þeim skilaboðum á framfæri við þjóðina að við getum komist út úr þessu og við munum komast út úr þessu. Þetta verður átak núna en öll él styttir upp um síðir og það það verður ekkert öðruvísi nú.
Við erum rík þjóð af auðlindum okkar og litið til okkar hvað þær varðar af þegnum annarra þjóða. Fáar þjóðir eru færari um að brauðfæða sig sjálfar en við Íslendingar. Við eigum fiskinn í kringum landið,við framleiðum allar okkar mjólkurafurðir sjálf og kjötframleiðsla okkar dugar fyrir alla þjóðina og gott betur. Við framleiðum mikið af grænmeti og kartöflum og svona mætti lengi telja. Þá erum við upp á engan, nema sjálf okkur, komin með hita, rafmagn og hreint vatn. Orkunotkun þjóðarinnar er 80% sjálfbær orka og það hlutfall mun hækka til framtíðar litið. Við höfum óskorað vald yfir auðlindum okkar og þessu valdi ber okkur að beita af skynsemi með hag þjóðarinnar allrar og þeirra kynslóða sem erfa munu landið að leiðarljósi. Því þrátt fyrir núríkjandi lægð mun birta til á ný.
23.2.2009 | 00:00
Ábyrgðin er mikil
Á erfiðum efnahagstímum er mikilvægt að stjórnvöld gangi fram fyrir skjöldu og ákveði að fara í framkvæmdir og halda uppi atvinnu og verkefnum.
Þegar vel gengur í samfélaginu eiga stjórnvöld að draga úr framkvæmdum eins og hægt er og safna forða fyrir mögru árin, ár eins og við horfum nú fram á. Þegar síðan kreppir að þurfa stjórnvöld að taka ákvarðanir um framkvæmdir til þess að halda uppi atvinnustigi. Þetta er ekki flókin hagfræði í raun. Framkvæma þegar illa gengur og hrinda í framkvæmd atvinnuskapandi verkefnum. Draga svo allan opinberan rekstur saman þegar vel gengur og draga þá úr framkvæmdum eins og frekast er kostur. Vandinn er hins vegar sá að erfiðlega hefur gengið að draga úr framkvæmdum og þjónustu þegar vel gengur. Þess vegna hefur hagfræðin undanfarin ár farið meira í að halda því fram að sennilega sé best að opinber rekstur og framkvæmdir séu óháðar efnahagsstöðunni og reynt að halda rekstrinum í lágmarki heilt yfir. Það hefur þó ekki gengið eins vel og hefur opinber rekstur jafnvel haft tilhneigingu til að blása út á góðæristímum, sérstaklega á það þó við um starfsemi og þjónustu á vegum sveitarfélaganna.
Nauðsynlegt að forgangsraða
Þegar kreppir að eins og núna er nauðsynlegt að draga saman eins og frekast er kostur og hagræða í allri þjónustu. Þá er nauðsynlegt að forgangsraða þjónustunni og skilgreina grunnþjónustu sérstaklega og slá skjaldborg um hana. Á sama tíma er gríðarlega mikilvægt að gera allt sem hægt er til þess að halda uppi atvinnustigi. Þegar lausar eru um og yfir 3000 íbúðir er ljóst að ekki er grundvöllur fyrir því á þessum tíma að byggja meira af íbúðum. Skrifstofuhúsnæði er laust um allt svo ekki þarf að byggja meira af því. Upplagt er hins vegar á þessum tímum að klára byggingar eins og Tónlistar og ráðstefnuhúsið, byggja skóla og íþróttamannvirki, brýr og önnur opinber mannvirki sem ríkið á ekki að byggja á góðæristímum heldur einmitt nú.
Það er stórt og mikið velferðarmál að halda uppi atvinnu, afleiðingar atvinnuleysis eru miklar og flestar neikvæðar. Fólk missir kjark og þor við langvarandi atvinnuleysi, sjálfmyndin skerðist og viðvarandi vanlíðan gerir vart við sig. Því lengur sem einstaklingur er atvinnulaus því meiri verða líkurnar á því að hann fari aldrei út á vinnumarkaðinn aftur. Við verðum að finna leiðir til þess að skapa atvinnu - atvinnu - atvinnu - næstum því hvað sem það kostar.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
21.2.2009 | 23:34
Virkjum samtakamáttinn
Þessi grein birtist í Hverfablaði Laugardals, Háaleitis og Bústaða sem dreift var nú um helgina
Í hverfinu okkar er mikið af stofnunum, félagasamtökum og sjálfboðaliðasamtökum. Á þessum sérkennilegu tímum sem við nú lifum skiptir miklu máli að virkja samtakamátt sem felstra. Kraftur, þekking, útsjónarsemi og upplýsingar eru þættir sem skipta sköpum þegar kemur að því að mæta nýjum og breyttum aðstæðum. Velferðarsvið Reykjavíkurborgar fer ekki varhluta af ástandinu sem nú er í samfélaginu og er þegar farið að gæta aukins álags á sviðinu. Það kemur þó ekkert á óvart og allt frá því í byrjun október hefur sviðið búið sig undir það að mæta auknu álagi og takast á við versnandi árferði. Aukið samráð er liður í að virkja nærsamfélagið og vera í enn betri tengslum við þróunina í hverfum borgarinnar.
Aðgerðaáætlun í byrjun október
Á fundi Velferðarráðs hinn 8. október síðastliðinn var aðgerðaáætlun Velferðarsviðs samþykkt. Í framhaldi var ákveðið að stofna aðgerðateymi sem halda utan um framkvæmd áætlunarinnar. Í teyminu eru 2 framkvæmdastjórar þjónustumiðstöðva (Breiðholts og Árbæjar) og skrifstofustjóri velferðarmála auk verkefnisstjóra. Teymið hefur haldið fundi 1-2 í viku frá októbermánuði. Þessu teymi er ætlað að halda utan um framkvæmd aðgerðaáætlunarinnar, samræma aðgerðir og upplýsingar. Verkefni aðgerðarteymisins hafa verið margskonar. Teymið heldur utan um tölfræðiupplýsingar fyrir Velferðarráð og miðlar upplýsingum um stöðu mála hverju sinni til dæmis til hópsins "Barnanna í borginni". Aðgerðateymið hefur undirbúið fræðslufundi fyrir almenning sem haldnir hafa verið í öllum hverfum borgarinnar og fylgist með breytingum varðandi aukna þörf fyrir þjónustu á þjónustumiðstöðvunum, bæði í gegnum tölfræðiupplýsingar og með öðrum hætti. Þá hefur teymið hvatt til og haft umsjón með gerð viðbragðsáætlana á þjónustumiðstöðvum og reynt að skapa aukið svigrúm til að mæta aukinni þörf. Teymið tók saman yfirlit yfir úrræði og tilboð sem standa fólki sem er í vanda til boða og eru þær upplýsingar nú aðgengilegar á vef borgarinnar. Teymið hefur þegar haldið fundi með forsvarsmönnum ýmissa félagasamtaka sem eru í hjálparstarfi, vinnumiðlun og fleiri aðilum.
Samráðshópar í hverfum borgarinnar
Þó aðgerðateymið hafi ákveðna yfirsýn er mikilvægt við núverandi efnahagsástand að ná samstöðu allra í samfélaginu. Nauðsynlegt er að nýta kosti nærsamfélagsins og þróa þjónustu þeirra fjölmörgu sem huga að velferð samborgara sinna, þannig geta ný viðfangsefni orðið til þess að nýjar lausnir fæðist. .
Á fundi Velferðarráðs nýverið var samþykkt að setja í gang sérstök samráðsteymi á hverri þjónustumiðstöð Velferðarsviðs. Þeim er ætlað að styðja enn frekar við starf aðgerðateymisins á hverfagrunni og skapa samráðsvettvang stofnana, félagasamtaka og sjálfboðaliða á hverfagrunni. Til þessa samráðs verða boðaðir aðilar frá heilsugæslu, lögreglu, skólum (framhaldsskólum, grunnskólum og leikskólum), trúfélögum, íþróttafélögum, vinnumiðlun, stéttarfélögum, frjálsum félagasamtökum og fleirum. Það er von okkar í Velferðarráði að þessir hópar geti eflt samtakamátt hverfanna, fundið nýjar lausnir og sameinað krafta sína í að takast á við þann öldusjó sem við nú siglum í gegnum.
21.2.2009 | 00:36
Atvinna skiptir öllu máli
Það skiptir miklu á tímum eins og þessum að stjórnvöld sýni að þau séu þess megnug að halda áfram og gera það sem þau geta til að halda uppi atvinnustigi. Ég er ánægð með ákvörðun okkar að halda áfram með Tónlistar- og ráðstefnuhúsið. Sú ákvörðun vekur vonandi jákvæðar kenndir í hjörtum okkar og von sem við öll höfum þörf fyrir.
Við megum ekki gleyma því að það eru margir vegir ennþá færir og nú er eins gott að feta þá vegi. Við þurfum að byggja nýja tíma á nýjum gildum og normum. Við þurfum að nýta þær frábæru auðlindir sem við eigum, við eigum svo margt. Það eru ekki margar þjóðir sem geta státað af jafnmiklum gæðum og við Íslendingar, enda erum við öfunduð af auðlindum okkar um allan heim.
Horfum bjartsýn fram á veginn, þetta verður erfitt en vonandi er botninum að verða náð og þá getum við horft til betri tíma með blóm í haga..... J
20.2.2009 | 00:22
2. sætið í Reykjavík
Þá er það komið á hreint
Eftir að hafa velt því fyrir mér í nokkra daga hvort ég ætti að gefa kost á mér í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins til alþingis, komst ég að þeirri niðurstöðu að nú væri rétti tíminn. Þá tóku við vangaveltur um það hvaða sæti ég ætti að sækjast eftir og það var ekki auðveld ákvörðun, en niðurstaðan er skýr og klár og sækist ég eftir öðru sæti á lista flokksins míns.
Eflaust kemur það mörgum á óvart að ég skuli setja markið svo hátt en eftir að hafa velt þessu fyrir mér fannst mér ekkert annað koma til greina. Ég treysti mér fyllilega til að leiða annan listann í Reykjavík og gera það vel. Ég hef áhuga á að vera í forystunni og vil sýna það með táknrænum hætti að ég hef kjark og þor til þess að takast á við stór og mikil verkefni. Það er svo fólksins í flokknum að ákveða hvort það þori að leggja traust sitt á mig og gefa mér tækifæri til að sýna hvað í mér býr.
Ég hef mikla og fjölbreytta reynslu hvort heldur er af lífinu sjálfu eða af pólitískum vettvangi. Það er mikilvægt við þær aðstæður sem nú eru uppi í þjóðfélaginu að fá nýtt fólk inn á Alþingi með nýjar áherslur, það skiptir þó einnig miklu máli að fá fólk með reynslu. Ég hef látið verkin tala þau þrjú ár sem ég hef setið í meirihluta í borginni og sem formaður Velferðarráðs hef ég unnið að mörgum breytingum í þágu borgarbúa. Þar má nefna breytingar á félagslega leiguíbúðakerfinu, sameiningu heimahjúkrunar og heimaþjónustu, nýja stefnu í málefnum utangarðsfólks, uppbyggingu fyrir eldri borgara og flutning á málefnum geðfatlaðra frá ríki til borgar svo fátt eitt sé nefnt. Sam formaður Strætó mátti ég ganga beint í það að takst á við mikla hagræðingu og tókst mér að ná sátt um þær breytingar sem nauðsynlegt var að fara í. Ég var beðin um að taka að mér formennsku í Knattspyrnufélaginu Þrótti haustið 2007. Ég lét til leiðast og sé ekki eftir því, enda öll okkar börn á kafi í knattspyrnu í Þrótti og gaman að geta stutt við félagið með svo afgerandi hætti.
Ég hef mikinn áhuga á að takast á við þau erfiðu og flóknu verkefni sem eru framundan við endurreisn þjóðfélagsins og vonast eftir stuðningi til þess.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:36 | Slóð | Facebook
17.2.2009 | 17:54
Grunnþjónusta Strætó tryggð í erfiðu árferði
Þessi grein birtist í Morgunblaðinu þann 10. febrúar síðastliðinn
Það dylst engum að í hönd fara erfiðir tímar, hvort heldur fyrir heimilin í landinu, fyrirtæki eða hið opinbera. Strætó bs. hefur ekki farið varhluta af þessu ástandi því gríðarlegar kostnaðarhækkanir hafa orðið í rekstri byggðasamlagsins síðustu mánuði í kjölfar falls krónunnar sem setja sveitarfélögin sem standa að rekstri almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu í erfiða stöðu. Aðhald í rekstri sveitarfélaganna hefur sjaldan verið mikilvægara en um leið þarf að standa vörð um grunnþjónustu á borð við almenningssamgöngur. Sveitarfélögin náðu við gerð rekstraráætlunar Strætó bs. fyrir árið 2009 samkomulagi um að auka útgjöld sín til byggðasamlagsins um 10% á þessu ári auk þess að leggja 100 milljónir inn sem eingreiðslu vegna halla síðasta árs. Jafnframt var ákveðið að halda gjaldskrá óbreyttri, en hún hefur ekki hækkað frá ársbyrjun 2007 þrátt fyrir mikla verðbólgu á tímabilinu.
En þótt ákveðið hafi verið að hækka framlög sveitarfélaganna til Strætó bs. var ljóst að það myndi ekki duga til að standa undir rekstri Strætó í óbreyttri mynd. Því var nauðsynlegt að grípa til aðgerða. Höfum hugfast að tekjur af farmiðasölu Strætó bs. duga fyrir um fimmtungi rekstrarkostnaðar, en afganginn greiða sveitarfélögin með beinum framlögum sem munu nema um tveimur og hálfum milljarði á þessu ári. Þetta eru miklir fjármunir og afar brýnt fyrir sveitarfélögin og íbúa þeirra að þeir dugi til að standa undir rekstri Strætó bs. Það er ekki forsvaranlegt að byggðasamlagið safni skuldum til viðbótar með hallarekstri og tilheyrandi fjármagnskostnaði fyrir sveitarfélögin um ókomin ár.
Stöndum vörð um annatímann
Í ljósi þessa var ákveðið að leita leiða til að draga úr kostnaði með eins litlum áhrifum á notendur almenningssamgangna og kostur væri. Lausnin varð að nýta ítarlegar mælingar Strætó á notkun almennings á strætisvagnakerfinu til að laga þjónustu Strætó bs. betur að eftirspurn. Langstærstur hluti notenda Strætó nýtir sér ferðir vagnanna á annatímum að morgni og síðdegis virka daga og því mikilvægt að standa vörð um þjónustuna á þessum tímum dags. Mun færri taka hins vegar strætó yfir miðjan daginn, á kvöldin og um helgar og því mögulegt að laga þjónustuna að eftirspurn með því að draga úr tíðni ferða á þessum tímum á flestum strætóleiðum.
Ákvörðunin um þjónustuaðlögun var kynnt þegar rekstraráætlun Strætó bs. fyrir árið 2009 var samþykkt í nóvember á síðasta ári og kom til framkvæmda nú 1. febrúar. Í stuttu máli felast breytingarnar í að allar helstu leiðir, að leið 1 og 6 undanskildum, aka nú á hálftíma fresti utan annatíma og ákveðnar leiðir aka á klukkutíma fresti. Jafnframt er dregið úr tíðni á kvöldin og um helgar. Nánari upplýsingar um þessar breytingar má finna á strætó.is.
Það er okkur sem viljum hag almenningssamgangna sem mestan á höfuðborgarsvæðinu lítið fagnaðarefni að þurfa að grípa til slíkra aðgerða og sér í lagi ekki á tímum sem þessum þegar sífellt fleiri sjá sér hag í að nýta sér þjónustu Strætó. Hins vegar er ábyrgð okkar sem förum með almannafé mikil og ekki verjandi að missa útgjöld úr böndunum, hver sem málaflokkurinn er.
Besti kosturinn valinn
Þrátt fyrir almenna kröfu um aðhald í rekstri sveitarfélaganna voru framlög til Strætó bs. aukin milli ára sem sýnir staðfestu okkar í að halda áfram úti öflugum almenningssamgöngum á höfuðborgarsvæðinu. Grunnþjónusta Strætó er tryggð með því að veita áfram öfluga þjónustu á annatímum þegar sem flestir þurfa á henni að halda. Áfram er veitt þjónusta utan annatíma, þrátt fyrir að draga hafi þurft úr tíðni. Þjónustutími Strætó styttist ekki að undanskildum tveimur klukkutímum á sunnudagsmorgnum, starfsfólk Strætó heldur vinnu sinni og gjaldskráin hækkar ekki. Við í stjórn Strætó bs. glímdum við erfiða stöðu þegar rekstraráætlun fyrir árið 2009 var ákveðin en ég er þess engu að síður fullviss að besti kosturinn í stöðunni hafi verið valinn.
3.2.2009 | 18:41
Þjónustubreyting hjá Strætó bs.
Að Strætó bs standa öll sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu: Hafnarfjörður, Álftanes, Garðabær, Kópavogur, Reykjavík, Seltjarnarnes og Mosfellsbær. Hvert sveitarfélag hefur sinn fulltrúa í stjórn félagsins.
Talningar
Það er margt ánægjulegt að gerast hjá Strætó bs þessa dagana. Aukning hefur orðið í farþegafjölda og ljóst er að þegar harðnar á dalnum líta margir til þess að nýta sér þann frábæra samgöngumáta sem Strætó er. Gerðar hafa verið ítarlegar talningar á notkun Strætó undanfarið og hafa talningar sýnt að nú síðustu mánuði hefur farþegum fjölgað. Fjölgunin á sér helst stað á annatímum og því nauðsynlegt að auka við þjónustuna á sumum leiðum á annatíma með því að setja inn aukavagna. Það sést vel á súluriti hér að neðan hvernig notkunin er á vögnunum miðað við mismunandi tíma dags.
Fjölgun
Fjölgun farþega kallar á aukna þjónustu t.d. í formi aukavagna á ákveðnum tímum. Til þess að mæta minnkandi tekjum sveitarfélaga á sama tíma og rekstrarkostnaður Strætó eykst var ákveðið af stjórn Strætó bs. að aðlaga þjónustuna að þeirri fjölgun sem hefur átt sér stað og er að eiga sér stað og gera nauðsynlegar ráðstafanir í rekstri fyrirtækisins. Sveitarfélögin standa undir 80% af rekstri Strætó bs. á meðan greiðslur farþega eru um 20%.
Þjónustuaðlögunin sem samþykkt var í stjórn Strætó bs. lítur fyrst og fremst að því að slá skjaldborg um annatímann og miða þjónustuna út frá notkun og talningum sem liggja fyrir, en ferðir farþega eru skilgreindar tvenns konar:
- 1. Ferðir til og frá vinnu eða skóla þar sem farþeginn er bundinn af því að mæta á ákveðnum tíma. Þá er nauðsynlegt að akstur vagnanna sé tiltölulega þétt, en þessar ferðir eru aðallega á annatíma..
- 2. Ferðir farþega sem ekki eru bundnar af ákveðnum föstum tíma, heldur getur farþeginn valið það hvenær hann fer af stað, það eru ferðir utan annatíma.
Við þjónustuaðlögunina var einmitt tekið mið af þessu.
Stefnumótun til framtíðar
Stjórn Strætó bs er einhuga í því að fara í stefnumótunarvinnu til framtíðar fyrir Strætó bs og er sú vinna nú hafin. Stjórnin er sammála um það að gera enga byltingu í leiðarkerfinu. Stjórn og stjórnendur munu horfa til þess að laga kerfið sem best að þörfum notendanna. Haldið verður áfram að nota talningar til þess að meta stöðuna og vita hver notkunin er hverju sinni og hvernig hún breytist frá einu tímabili til annars.
Það er afar mikilvægt að skilgreina þjónustuna enn betur en þegar hefur verið gert. Sérstaklega þarf í því sambandi að horfa til þess að:
- skilgreina akstursþéttni eftir fjölda farþega
- skilgreina lengd að stoppistöð eftir þéttleika íbúðasvæðis
- skilgreina hver hlutur farþega í rekstrinum eigi að vera
- skilgreina ný markmið um gæði þjónustu
og áfram mætti telja.
Þessi vinna fer nú fram í stjórn og hjá stjórnendum Strætó bs og verður leitað til notenda í þessari vinnu. Sjálfsagt er líka við svona stefnumótunarvinnu að leita í smiðju nágrannalandanna. Þar er mikil þekking á því hvað gengur upp og hvað ekki í rekstri þjónustu sem okkar. Flest nágrannalönd okkar eru komin mun lengra en við í því að reka almenningssamgöngur og þar er víða að finna sambærilegt þjónustusvæði og það sem Strætó bs er að þjónusta. Þar má finna upplýsingar um það með hvaða hætti þjónustan er skilgreind eftir mismunandi gerð samfélaga.
Þjónustuaðlögunin sem nú hefur verið samþykkt mun bæta þjónustuna á annatímum en draga úr þjónustunni utan annatíma. Með þessum aðgerðum höfum við brugðist við gjörbreyttri stöðu sveitarfélaganna á sama tíma og okkur hefur tekist að standa vörð um störfin eins og frekast er unnt og ekki farið í gjaldskrárhækkanir.
28.1.2009 | 21:18
Hvalveiðar og fréttaflutningur ríkissjónvarpsins í kvöld
Ég get ekki orða bundist vegna fréttar ríkissjónvarpsins nú í kvöld þar sem "fjallað" var um ákvörðun sjávarútvegsráðherra um að leyfa hvalveiðar til 2013. Fréttin stóð örugglega í um 5 mínútur þar sem einungis eitt sjónarmið kom fram og var hvorki talað við einhvern í sjávarútvegsráðuneytinu né einhverja sem hlynntir eru hvalveiðum. Fréttaflutningurinn sló mig eins og áróður gegn ákvörðuninni en ekki hlutlaus umfjöllun. Ekki var sagt frá fjölda starfa sem skapast við vinnslu þessara afurða né tekjur sem það færir inn í þjóðarbúið.
Að sama skapi get ég hælt Kastljósi fyrir umræður um sama málefni þar sem Sigursteinn Másson andstæðingur hvalveiða og Kristján Loftsson komu sínum sjónarmiðum á framfæri. Þar komu vel fram sjónarmið beggja aðila.
Það er talað um að við þurfum að hugsa hvalveiðar út frá hagsmunum Íslands á alþjóðavettvangi "því við þurfum að auka traust á íslenska þjóð á alþjóðavettvangi"
Þá spyr ég:
Er það til að auka traust og tiltrú alþjóðasamfélagsins á Íslandi að hafa stjórnarkreppu hér í landinu?
Eru yfirlýsingar um að endurskoða efnahagsáætlunina til að þess að auka traust?
Eru yfirlýsingar um að hverfa frá hagræðingu í heilbrigðiskerfinu til að auka traust alþjóðagjaldeyrissjóðsins?
Er tal um það að skila láninu frá alþjóða gjaldeyrissjóðnum til þess að auka traust?
Er það að draga ákvörðun um hvalveiðar til baka, til þess að skapa traust í alþjóðasamfélaginu?
Er tal um það að frysta eigur auðmanna til þess að auka traust?
Ég held að hvalveiðar á þessum erfiðu efnahagstímum séu ekki til þess að hafa miklar áhyggjur af og verði ekki til þess að rýra traust okkar frekar í alþjóðasamfélaginu. Þættir eins og þeir að við getum unnið okkur út úr þessari kreppu, skapað fólkinu í landinu atvinnu og haft nóg að bíta og brenna muni miklu frekar skapa okkur traust í alþjóðasamfélaginu en ákvörðun um að draga til baka ákvörðun um hvalveiðar.
Ég fagna þessari ákvörðun sjávarútvegsráðherra og hvet landsmenn til þess að borða hvalkjöt hvenær sem tækifæri gefst. Hvalkjöt er herramannsmatur og eitthvað það besta sem hægt er að hugsa sér í SUSHI. Munum það að Japanir lifa allra þjóða lengst :-)
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
26.1.2009 | 20:48
Aðildarviðræður eru ekki tímabærar
Ég ákvað að setja hér inn grein sem ég sendi á Moggann í síðustu viku en hef nú beðið um að verði ekki birt . Enda að mörgu leiti úrelt.
Eru aðildarviðræður tímabærar?
Íslenska þjóðin er í áfalli eftir atburði undanfarinna mánaða. Margir glíma við erfiðleika sem þeir eiga erfitt með að sjá framúr. Atvinnuleysi, launalækkun, síhækkandi afborganir og hækkun vöruverðs eru þættir sem mjög erfitt er að glíma við. Öll heimili landsins leita leiða til að draga úr útgjöldum. Margir óttast framtíðina og hafa áhyggjur af starfsöryggi sínu á tímum mikillar óvissu. Á sama tíma heyrum við endalausar neikvæðar fréttir. Fréttir sem ala enn frekar á vonleysi og uppgjöf. Við verðum að snúa við blaðinu. Allir vita að margt hefur farið úrskeiðis og að margt hefði betur mátt gera.
Forsætisráðherra hefur sýnt fagmennsku. Ítarlegt yfirlit yfir aðgerðirnar sem gripið hefur verið til á fyrstu hundrað dögunum eftir hrunið var birt í morgunblaðinu 18. janúar síðastliðinn. Upptalningin sýnir að margt er þegar búið að gera og fjölmargt er í farvatninu. Ráðamenn þjóðarinnar hugsa stöðugt um hag okkar. Dómsmálaráðherra hefur boðað breytingar á gjaldþrotalögum fyrir einstaklinga og Félagsmálaráðherra hefur boðað aðgerðarpakka til hjálpar heimilunum svo dæmi sé tekið. Með íslenska bjartsýni, íslenskan kraft, íslenska fiskinn og íslensku krónuna getum við siglt hraðar út úr þessari kreppu en margar aðrar þjóðir. Sérstaða lítillar þjóðar í norður Atlantshafi mun hjálpa henni á næstu mánuðum.
Notum tímann í annað en að þrátta um ESB
Eru aðildarviðræður tímabærar núna þegar við þurfum alla okkar krafta í það að ná vopnum okkar í baráttunni við vaxandi atvinnuleysi og kreppudraug? Það er mörgum spurningum ósvarað og erfitt að meta stöðuna þegar óvissuþættirnir eru svo margir sem raun ber vitni. Mikilvægast er í dag að beina kröftunum að því að byggja upp, renna styrkari stoðum undir; framleiðsluna, iðnaðinn, nýsköpunina og fá hjólin til að snúast. Við þurfum að ná tökum á efnahagslífinu, styrkja krónuna og ná stöðugleika á fjármálamarkaðnum. Aflétta síðan gjaldeyrishöftunum, lækka vexti og halda hér jákvæðum vöruskiptajöfnuði. Mín skoðun er sú að krónan muni í raun hjálpa okkur hraðar út úr kreppunni, en ef við hefðum gjaldmiðil sem ekki fylgdi sveiflunum í okkar hagkerfi. Fyrir þessu eru nokkrar ástæður. Útflutningsgreinarnar fá meira fyrir afurðirnar þegar krónan er veik. Þetta er mikilvægur þáttur í því að halda jákvæðum vöruskiptajöfnuði. Ef við náum stöðugleika og sýnum hvers við erum megnug, t.d. í nýsköpun og framleiðslu, munum við byggja upp traust sem skilar sér í styrkingu krónunnar, sem er nauðsynlegt fyrir okkur. Þegar gengi krónunnar verður orðið eðlilegt á ný getum við horft til þess að festa gengið, eða að skipta krónunni út fyrir annan gjaldmiðil. Fyrr ekki.
Það eru skiptar skoðanir á því hvort hagsmunum Íslendinga sé betur borgið innan ESB eða utan. Þróunin undanfarið innan sambandsins er hvorki traustvekjandi né áhugaverð. Það er mikið atvinnuleysi innan ESB, mun meira en við eigum að venjast. Bretland, Írland og Ítalía íhuga að ganga úr sambandinu og Ítalir hafa lýst því yfir að þeir vilji hætta með Evruna. Í Grikklandi logaði allt í óeirðum í sumar. Á Spáni er talað um að atvinnuleysi stefni í 19%. Kreppan sem við glímum við er alþjóðleg og líklegt er að aðrar þjóðir eigi eftir að feta í fótspor Íslendinga og þjóðnýta banka. Auðlindir okkar eru miklar og fáar þjóðir geta státað af jafn miklum lífsgæðum.
Mikilvægasta verkefnið sem við stöndum frammi fyrir nú er að koma okkur út úr kreppunni. Ég tel skynsamlegt að bíða enn um sinn og sjá hvernig málin þróast í Evrópu. Um leið og hér fer að ganga betur getum við tekið málið upp að nýju. Við megum ekki gleyma því þó nú geysi hér stormur að öll él styttir upp um síðir. Þá getum við stolt sótt um aðild og sett fram skilyrði og kröfur sem sterk sjálfstæð þjóð.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
7.1.2009 | 15:38
Ræða mín við afgreiðslu fjárhagsáætlunar borgarinnar
Forseti ágætu borgarfulltrúar,
Ég vil byrja á því hér að þakka öllum sem að fjárhagsáætlunarvinnunni hafa komið, en ekki síst fulltrúum velferðarráðs, sviðsstjóra og starfsmönnum Velferðarsviðs fyrir þá miklu vinnu sem allir hafa lagt af mörkum við gerð þessarar fjárhagsáætlunar. Fulltrúar Velferðarráðs eiga hrós skilið fyrir sína aðkomu að þeirri góðu lendingu sem við höfum náð í Velferðarmálum í borginni. Í framhaldi af umræðu hér fyrr í dag um hækkun fjárhagsaðstoðar og hvernig sú hækkun sé tilkomin þá vil ég segja það fyrir hönd allra fulltrúa í Velferðarráði að allir fulltrúar velferðarráðs lögðu sitt af mörkum við það að standa vörð um velferðarþjónustuna og lögðu sitt af mörkum til þess að fá hækkun á fjárhagsaðstoð inn í áætlunina hvort sem fulltrúar koma frá meirihluta eða minnihluta, enda var gerð sameiginleg bókun í Velferðarráði þar sem tíundaðar voru áhyggjur allra fulltrúa ráðsins af því að nauðsynlegt væri að hækka fjárhagsaðstoðina.
Velferðarráð lagði fram sameiginlega bókun þess efnis í Velferðarráði þann 16. desember 2009, en hún er svohljóðandi með leyfi forseta:
- Velferðaráð beinir því til þverpólitísks aðgerðarhóps borgarstjórnar að grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar og heimildargreiðslur vegna barna verði hækkaðar.
- Einnig undirstrikar velferðaráð að viðbótarfjármagn verði tryggt í fjárhagsaðstoð og húsaleigubætur fari þeir liðir fram úr samþykktri fjárhagsáætlun.
- Þá er ljóst að velferðaráð getur ekki skorið niður yfirvinnu á sama hátt og önnur svið vegna sérstöðu lögbundinnar sólarhringsþjónustu við börn, fatlaðra og aldraða og kjarasamninga við umönnunarstéttir.
Mér finnst afar mikilvægt að þessi samstaða ráðsins í þessari mikilvægu vinnu komi hér fram.
Fyrir hönd velferðarráðs vil ég þakka þann mikla stuðning við velferðarmál í borginni sem fram hefur komið í undirbúningi þessarar fjárhagsáætlunar. Það er öllum ljóst að eitt af stærstu verkefnum borgarinnar næstu misserin verður að styðja við íbúa í gegnum þær þrengingar sem framundan eru. Markmið laga um félagsþjónustu sveitarfélaga er að tryggja fjárhagslegt og félagslegt öryggi og stuðla að velferð íbúa á grundvelli samhjálpar með því að:
- Bæta lífskjör þeirra sem standa höllum fæti
- Tryggja þroskavænleg uppeldisskilyrði barna og ungmenna
- Veita aðstoð til þess að íbúar geti búið sem lengst í heimahúsum, stundað atvinnu og lifað sem eðlilegustu lífi
- Grípa til aðgerða til að koma í veg fyrir félagsleg vandamál
Eins ótrúlegt og það nú er á árinu 2009 hér á Íslandi þá stöndum við nú frammi fyrir því að velta því fyrir okkur alveg í grunninn hvað þessi orð þýða. Við höfum gert margt gott á undanförnum árum þegar flestir hafa notið góðra lífskjara og við höfum náð að bjóða fleirum betri þjónustu. Við höfum getað einbeitt okkur að þeim hópum fólks sem af einhverjum ástæðum hafa staðið höllum fæti í samfélaginu og við höfum náð að gera það betur. Við höfum bætt þjónustuna og við höfum getað leyft okkur að láta marga drauma rætast um það hvernig hlutirnir ættu að vera eins og þeim best gæti verið fyrirkomið.
Eins og hendi væri veifað var okkur skyndilega kippt aftur niður á jörðina. Velferðarráð stendur nú frammi fyrir því að á þessu ári má eiga von á því að til okkar muni leita fólk sem hingað til hefur ekki þurft á þjónustu okkar að halda. Það hefur tekið okkur dálítinn tíma að átta okkur á því hvað það þýðir raunverulega. Í sem stystu máli sagt þýðir það að við verðum að vera mjög markviss og skipulögð í því sem við tökum okkur fyrir hendur í velferðarþjónustu næstu misserin. Það þýðir að við verðum að einbeita okkur að aðalatriðunum og það þýðir því miður að við verðum á stundum að draga úr viðbótarþjónustu og einbeita okkur að grunnþjónustu. Það má auðvitað alltaf deila um það hvað er viðbótarþjónusta og hvað er grunnþjónusta og þess vegna er í gangi umræða innan Sambands Sveitarfélaga um að skilgreina það hvað fellur undir grunnþjónustu.
Sá beiski sannleikur sem við stöndum frammi fyrir núna er að í meira mæli en áður mun þjónusta okkar felast í því að sjá til þess að fólk hafi nauðþurftir eins og þak yfir höfuðið og mat á borðum. Þetta hljómar ótrúlega, en svona er það. Við erum að horfa fram á meira atvinnuleysi hér í Reykjavík en við höfum áður séð, allavega við sem hér erum höfum séð eða kynnst. Atvinnuleysi getur haft skelfilegar afleiðingar fyrir fólk, andlega, líkamlega og fjárhagslega. Það hefur ekki bara afleiðingar fyrir einstaklinga, því flestir einstaklingar tilheyra fjölskyldum og eins og við vitum hefur líðan eins fjölskyldumeðlims áhrif á líðan annarra. Börnin eru sérstaklega viðkvæm fyrir og það getur því miður orðið eitt af okkar verkefnum næstu ár að fást við afleiðingar atvinnuleysis foreldra á börn. Það ríður því á að við tryggjum það sem best að þjónusta við börn og unglinga verði áfram til staðar, þó að kannski form hennar og umfang breytist. Þannig tryggjum við sem best að við og starfsfólk Barnaverndar Reykjavíkur muni ekki þurfa að horfa á skelfilega aukningu barnaverndarmála á komandi mánuðum og jafnvel árum. Stýrihópur um atvinnumál er nú starfandi. Þessi hópur var skipaður af borgarráði og er honum ætlað að fylgjast með og meta þróun atvinnuleysis og velta upp mögulegum viðbrögðum innan borgarinnar og koma með tillögur ef við á. Á þessum tímum er afar mikilvægt að fylgjast vel með þróun mála og leggja áherslu á að gera það sem í okkar valdi stendur til þess að sporna gegn fylgikvillum atvinnuleysis sem eru margvíslegir og yfirleitt neikvæðir.
Forseti, góðir borgarfulltrúar,
Vinna Velferðarsviðs borgarinnar undanfarnar vikur hefur miðað að því að mæta nýjum raunveruleika í rekstri borgarinnar. Raunveruleika þar sem tekjur minnka og nauðsynlegt er að forgangsraða á öllum sviðum, hvort sem fagfólki, stjórnmálamönnum, íbúum, aðstandendum og notendum þjónustu líkar betur eða verr. Gríðarleg áhersla hefur verið lögð á að leita fyrst allra leiða til sparnaðar í rekstri og yfirbyggingu velferðarsviðsins og leggja áherslu á að starfsemi í framlínu, í beinni þjónustu við borgarbúa, haldist óbreytt. Síðan hefur verið leitað leiða til að framkvæma þjónustu á nýjan hátt. Í lengstu lög höfum við viljað komast hjá því að skera niður þjónustu eða hætta henni alveg. Ég vil segja það starfsfólki Velferðarsviðs til hróss að það hefur tekið af festu, ákveðni og skilningi á þessu verkefni og það hefur gengið merkilega vel miðað við aðstæður. En þrátt fyrir allt sem þegar hefur verið gert mun Velferðarsvið, rétt eins og önnur svið, jafnframt þurfa að leita nýrra leiða til að verja störf fólks. Leiða sem fyrir aðeins þremur mánuðum síðan hefðu virst óhugsandi. Þar er ég ekki síst að tala um endurskoðun á yfirvinnu og launum.
En það er ýmislegt sem við getum gert sem þarf ekki endilega að kosta svo mikið og jafnvel ekki neitt. Á þessum tímum er mikilvægt að þjónustumiðstöðvarnar sem eru jú ekki síst okkar framlínusveit virki vel. Virki sem sá sameiningarkraftur hverfanna sem þeim er ætlað, nærþjónustuhópar þjónustumiðstöðva hafa aldrei verið mikilvægari en einmitt nú, en nærþjónustuhópunum er ætlað að sameina krafta allra þeirra sem koma að þjónustu við eldri borgara í hverfunum. Þetta eru t.d. RKÍ, Kirkjan, Heilsugæslan, Heimaþjónustan og Heimahjúkrun auk fleirum. þjónustumiðstöðvar geta skipt miklu máli í því að virkja sjálfboðaliða og sameina hópa sem eru tilbúnir að leggja fram krafta sína til aðstoðar þeim sem á þurfa að halda. Á þessum tíma tel ég þetta hlutverk þjónustumiðstöðvanna afar mikilvægt, enda gegna þar líka lykilhlutverki við það eftirlit sem er svo einmitt svo nauðsynlegt á þessum tímum, ekki síst hvað varðar þjónustu við börn s.s. frístundastarf, íþróttastarf, leikskóla, heitan mat og aðra þá þjónustuþætti sem svo auðvelt er að mæla.
Ég vil sérstaklega leggja áherslu á nokkur atriði í þessari yfirferð minni: Skv. frumvarpi 2009 er rekstarniðurstaða Velferðarsviðs rúmir 9,1 milljarður en það er tæplega 20% hækkun á framlögum milli ára. Gert er ráð fyrir um 7% atvinnuleysi og að grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar og heimildargreiðslur vegna barna hækki um 16,35%. Samkvæmt spám borgarhagfræðings og fjármálaskrifstofu Velferðarsviðs þýðir það að fjárhagsaðstoð fyrir árið 2009 nemi tæpum 2,1 milljarði króna, sem er 87% aukning á framlögum til fjárhagsaðstoðar frá fyrra ári. Mikil óvissa ríkir um þróun atvinnuleysis og því er lagt til að fjárhagsaðstoðin verði bundinn liður, bundinn liður þíðir að ef verður hér breyting á fjárhagsaðstoð hvort sem verður til hækkunar eða lækkunar á fjárþörf sviðsins þá mun það ekki hafa áhrif á annað sem viðkemur fjárhagsáætlun sviðsins. Jafnframt er lagt til að húsaleigubætur verði bundinn liður, aftur vegna óvissu í atvinnumálum en einnig vegna óvissu um framlag jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Þetta þýðir að verði atvinnuleysi meira en spáð er og aukist þörf fyrir fjárhagsaðstoð og húsaleigubætur umfram áætlun mun fást til þess meira fjármagn þannig að ekki þurfi að koma til niðurskurðar á þjónustu sviðsins til að mæta aukinni fjárþörf.
Nú um áramótin tók borgin við rekstri heimahjúkrunar af ríkinu og á næstu mánuðum verður unnið að sameiningu á rekstri heimahjúkrunar og félagslegrar heimaþjónustu. Þetta verkefni er tilraunaverkefni til þriggja ára og mun ríkið greiða um 2,8 milljarða til verkefnisins á þremur árum, þar af tæpar 900 milljónir á þessu ári. Í fjárhagsáætlun höfum við gert ráð fyrir að rúmum 100 milljónum króna verði varið á þessu ári til félagslegrar heimaþjónustu og samtals verður því um tveimur milljörðum króna varið til þjónustu við aldraða, sjúka og fatlaða í heimahúsum í borginni á árinu 2009. Ljóst er að notendum heimaþjónustu gæti fjölgað í kjölfar hagræðingarkröfu í heilbrigðisþjónustu á vegum ríkisins. Með nýju rekstrarfyrirkomulagi erum við betur í stakk búin en ella til að taka við slíkri aukningu en við munum halda mjög vöku okkar gagnvart því ef sú aukning verður umfram það sem eðlilegt getur talist. Annað stórt verkefni sem unnið var að á Velferðarsviði á síðasta ári var flutningur á málefnum geðfatlaðra til borgarinnar. Fyrsti hluti þess verkefnis er nú kominn í gang og er undirbúningur vegna uppsetningar búsetukjarna kominn vel á veg. Áætlað er að annar hluti verkefnisins hefjist í apríl.
Loks má nefna að innleiðing á nýrri stefnu í málefnum utangarðsfólks sem kynnt var í byrjun september á nýliðnu ári hefur gengið vel. Tekin hafa verið í notkun fjögur smáhýsi sem langtímahúsnæði og eftir nokkra byrjunarörðugleika hefur búseta þar gengið vel. Unnið er að samningi um aukna dagþjónustu fyrir utangarðsfólk en alls er gert ráð fyrir að verja 17 milljónum króna til að fylgja eftir stefnunni á þessu ári.
Reynslan í nágrannalöndum okkar benda til að þegar kreppir að í samfélaginu fjölgi barnaverndarmálum. Við munum því sérstaklega halda vöku okkar fyrir þeim málaflokki næstu misserin.
Forseti ágætu borgarfulltrúar
Af framansögðu má heyra að mikil áhersla hefur verið lögð á það af hendi velferðarráðs að standa vörð um fjármagn til grunnþjónustu í velferðarmálum. Það er hins vegar ljóst að forgangsröðun grunnþjónustunnar og áhersla á framlínuþjónustu við íbúa borgarinnar kallar á ýmsar breytingar sem m.a. felast í endurskipulagningu þjónustu og verkefna sem og mikla áherslu á hagræðingu í rekstri sviðsins. Ekki er gert ráð fyrir fjölgun starfsfólks og dregið verður úr yfirvinnu, fræðslu-, ferða- og kynningarkostnaði og aðkeyptri vinnu. Sérstakt átak verður gert til hagræðingar í innkaupum og markvisst verður haldið áfram að leita leiða til kostnaðarhagræðingar í öllum rekstrarþáttum, þ.m.t. húsnæðismálum og upplýsingatæknimálum. Til viðbótar við hina umfangsmiklu og mikilvægu þjónustu sviðsins við íbúa verður þetta verkefni starfsmanna á þessu ári.
Auðvitað hefðum við í velferðarráði viljað að enn meira fé hefði verið varið til velferðarmála, nú á tímum þegar þörfin fyrir velferðarþjónustu hefur aldrei verið meiri. En í ljósi aðstæðna tel ég að við og raunar allir borgarbúar megi mjög vel við una. Það væri óábyrgt annað við þessar aðstæður en að huga að öllum leiðum til hagræðingar og sparnaðar og endurskoðunar á forgangsröðun.
Virðulegi forseti
Ég vil nú aðeins koma að málefnum Strætó bs. þar sem ég er nú formaður stjórnar.
Það ánægjulega er að gerast hjá Strætó bs. þessa mánuðina að farþegum er að fjölga og standa væntingar til þess að enn frekari fjölgun muni eiga sér stað á næstu vikum og mánuðum. Það er margt sem hjálpast að við að breyta þróun almenningssamgangna á þennan jákvæða veg fyrir fyrirtækið. Fyrst vil ég nefna breytt efnahagsumhverfi sem á klárlega sinn þátt í því að fleiri kjósa nú þann ódýra og góða kost sem Strætó er. Jákvæðari umræðu um Strætó undanfarin misseri. Vandað og gott leiðakerfi sem þjónustar höfuðborgarsvæðið allt og nú meira að segja hið nýja stór-höfuðborgarsvæði eða allt upp í Borgarnes og austur á Selfoss. Strætóreinar sem gera Strætisvögnum kleift að aka óhindrað þrátt fyrir mikla umferð eftir Stóru umferðaræðunum gera vögnunum kleift að komast hraðar yfir og eftir því er tekið, auk þess sem það gerir vögnunum kleift að halda áætlun þrátt fyrir mikla umferð og svona mætti lengi telja. En það er ekki allt fengið með auknum fjölda farþega.
Þó farþegum fjölgi þá aukast ekki tekjur Strætó bs. í beinu samræmi við það. það er þó morgunljóst að betri nýting vagnanna hlýtur að þýða meira hagræði í rekstri. En þó er það þannig að einungis rúm 20% rekstrarkostnaðar Strætó bs. er fjármagnaður með fargjaldasölu. Hver veit þó nema geti orðið breyting á því með tilkomu nýrra greiðsluleiða, en hugsanlega er að koma ný lausn sem gerir einstaklingum kleift að greiða fyrir stakt fargjald með GSM símalausn, en í Svíþjóð er þetta að verða mikið notuð greiðsluaðferð og vonandi munum við geta tekið upp þessa tegund greiðslufyrirkomulags á þessu ári.
Fjárhagsáætlun fyrir Strætó bs. var samþykkt á stjórnarfundi Strætó þann 28. nóvember síðastliðinn í þeirri fjárhagsáætlun var gert ráð fyrir launahækkun upp á um það bil 5%, en aðeins nokkrum dögum síðar var hins vegar samþykkt í samningum sveitarfélaga að allir fengju hækkun upp á rúmar 20.000.- krónur, en sú hækkun þýðir hátt í 10% hækkun launakostnaðar hjá Strætó bs. Ljóst er því að vegna þessarar breytingar einnar er hætta á að vanti aukin framlög frá sveitarfélögunum sem standa að rekstri fyrirtækisins, en næsti stjórnarfundur er áætlaður þann 9. janúar næstkomandi þar sem stjórnin mun fara yfir það með hvaða hætti þessum breyttu forsendum fjárhagsáætlunar verður mætt.
Hagræða hefur þurft mikið í rekstri Strætó undanfarið og sérstaklega nú í því ástandi sem við erum nú í og horfum fram á. Dregið hefur verið úr yfirvinnu, öll innkaupamál hafa verið endurskoðuð, yfirvinna hefur verið skorin niður, farið var í þjónustuaðlögun að eftirspurn. Endurskoðun vakta- og bakvaktakerfa hjá akstursdeild, þvottastöð, verkstæði og ferðaþjónustu fatlaðra er nú í fullum gangi. Ennfremur hefur verið farið í endurskipulagningu stjórnstöðva í eitt sameiginlegt þjónustuver.
Verið er að skoða það að lækka laun helstu stjórnenda og stjórnamanna fyrirtækisins og er þetta allt liður í því að ná fram frekari hagræðingu og sína viljann í verki.
Það er mikil vinna framundan hjá stjórn Strætó bs. við endurskoðun stofnsamþykkta samlagsins og stefnumótunarvinnu. Stjórn Strætó bs. er einhuga í því að fara í stefnumótunarvinnu til framtíðar fyrir Strætó bs. á nýju ári. Stjórnin er sammála um það að gera enga byltingu í leiðarkerfinu enda nýbúið að því og notendur nú loks að jafna sig á því öllu saman. Stjórn og stjórnendur munu horfa til þess að laga kerfið sem best að þörfum notendanna. Haldið verður áfram að nota talningar til þess að meta stöðuna og vita hver notkunin er hverju sinni og hvernig hún breytist frá einu tímabili til annars.
Það er afar mikilvægt að skilgreina þjónustuna enn betur en þegar hefur verið gert. Sérstaklega þarf í því sambandi að horfa til þess að:
- skilgreina akstursþéttni eftir fjölda farþega
- skilgreina lengd að stoppistöð eftir þéttleika íbúðasvæðis
- skilgreina hver hlutur farþega í rekstrinum eigi að vera
- skilgreina ný markmið um gæði þjónustu og áfram mætti lengi telja.
Það er afar spennandi verkefni að takast á við að móta stefnu fyrirtækisins til framtíðar og reyna að skapa sameiginlega framtíðarsýn aðstandenda Strætó bs. og vona ég að stjórnarmenn fái til þess starfs fullan stuðning sinna sveitarfélaga.
Mikilvægt er að sveitarfélögin sem standa að rekstri Strætó bs. hafi sameiginlega sín á það hvert skuli stefna, hver séu markmið fyrirtækisins og hver eigi að vera viðmiðunargildi við veitingu þjónustunnar og fleira í þeim dúr.
Við stefnumótunarvinnuna sem nú er framundan mun ég vera í góðu sambandi við umhverfis og samgönguráð í Reykjavík og auðvitað Borgarráð þegar svo ber undir og geri ráð fyrir að fulltrúar annarra sveitarfélaga í stjórninni verði í góðu sambandi við sitt bakland. Það skiptir miklu máli við að skapa sameiginlega sín og tryggja það að við séum að ganga í takt.
Í því sérstaka umhverfi sem við nú stöndum frammi fyrir og þeirri erfiðu stöðu sem sveitarfélögin sem standa að rekstri Strætó bs. standa frammi fyrir er ljóst að höfuðverkefni stjórnarinnar og æðstu stjórnenda fyrirtækisins verður að standa vörð um þá góðu þjónustu sem Strætó bs. veitir og aðlaga leiðakerfið eftir því sem notkunin segir til um.
Virðulegi forseti ágætu borgarfulltrúar
Ég vil að lokum ítreka þakkir til allra þeirra sem lögðu sitt af mörkum við að gera þessa fjárhagsáætlun að veruleika, ekki síst starfsmanna Velferðarsviðs og fulltrúa í velferðarráði. Ég vil einnig ítreka það sem ég sagði í upphafi: markmið okkar í Velferðarráði í allri þeirri vinnu sem lokið er og í allri þeirri vinnu sem framundan er á þessu ári er að leggja alla áherslu á að vernda grunnþætti í þjónustunni: þjónustu við þá sem þurfa á fjárhagsaðstoð að halda, þjónustu við aldraða, sjúka og fatlaða, þjónustu við börn og ungmenni og þjónustu til að styðja við andlega heilsu fullorðinna einstaklinga.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:42 | Slóð | Facebook
3.1.2009 | 09:49
Efling heimaþjónustu með nýjum samningi
Í Reykjavík njóta nú yfir þrjú þúsund heimili félagslegrar heimaþjónustu og meira en eitt þúsund njóta heimahjúkrunar. Þeir sem njóta þjónustunnar eru að miklum hluta aldraðir, en fjöldi einstaklinga á öllum aldri nýtur einnig langtímaþjónustu vegna fötlunar eða tímabundinnar aðstoðar vegna sjúkdóma eða slysa.
Borgarstjóri, Hanna Birna Kristjánsdóttir og heilbrigðisráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson undirrituðu á dögunum þjónustusamning um að borgin taki við rekstri heimahjúkrunar í Reykjavík. Jafnframt verða heimahjúkrun og félagsleg heimaþjónusta sameinuð undir einni stjórn með það að markmiði að efla þjónustuna til hagsbóta fyrir borgarbúa. Um er að ræða tilraunaverkefni til þriggja ára og á næstu mánuðum verður unnið að innleiðingu þess.
Að búa við sjálfstæði og virkni á eigin heimili er eitt af grundvallaratriðum þess að halda góðri líkamlegri og andlegri heilsu og vellíðan. Rannsókn á vegum heilbrigðisráðuneytisins árið 2007 á vilja þeirra sem eru á biðlista eftir hjúkrunarheimili sýndi að stór hluti þeirra sem bíða eftir vistun vilja fremur búa áfram á eigin heimili með fenginni aðstoð en að dvelja á dvalar- og hjúkrunarheimili. Með því að leggja meiri áherslu á þjónustu heim er verið að mæta óskum íbúa í höfuðborginni og bæta hag þeirra sem þurfa á þjónustunni að halda. Með hinum nýja samningi er því brotið blað í heimaþjónustu í Reykjavík.
Heimaþjónusta í Reykjavík verður rekin af Velferðarsviði borgarinnar. Mikil áhersla hefur verið lögð á það í fjárhagsáætlunarvinnu fyrir árið 2009 að standa vörð um þessa mikilvægu þjónustu. Allan samningstímann mun starfsfólk í heimahjúkrun og félagslegri heimaþjónustu svo vinna saman að því að leita lausna og leiða til veita heildstæða og samfellda þjónustu heim. Það er trú mín að með þeirri samþættingar- og sameiningarvinnu sem framundan er verði það enn betri kostur fyrir Reykvíkinga að búa heima með stuðningi.
Þessi grein birtist í Fréttablaðinu föstudaginn 2. janúar 2009.
31.12.2008 | 15:55
Íþróttamaður Þróttar og Þróttari ársins
Klukkan tólf í dag var útnefndur Íþróttamaður Þróttar árið 2008 og Þróttari ársins. Það var gaman að sjá hvað margir mættu til að vera viðstaddir þessa hátíðarstund.
Íþróttamaður Þróttar árið 2008 var valinn Hallur Hallsson, en Hallur er 28 ára gamall og hefur leikið með meistaraflokki Þróttar frá árinu 2001, yfirleitt sem miðjumaður en þó hefur hann stöku sinnum leikið sem varnarmaður.
Árið 2008 hefur verið afar gott hjá Halli þar sem hann hefur verið einn af lykilleikmönnum og tekið miklum framförum sem knattspyrnumaður. Ekki nóg með að hann sé mikill nagli og tæklari, heldur hefur Hallur sett nokkur mörk á árinu.
Hallur er gegnheill og sannur Þróttari og hefur alla sína tíð leikið með Þrótti og hann er í dag fjórði leikjahæsti leikmaður Þróttar í meistaraflokki. Hann átti stóran þátt í því að Þróttur náði langþráðu takmarki sínu í sumar en það var að halda sæti sínu í efstu deild og spila áfram meðal þeirra bestu á næstu leiktíð.
Þróttari ársins var valinn Bergur Þorkelsson, en Bergur er formaður Handknattleiksdeildar. Hann hefur með elju sinni og dugnaði svo sannarlega verið lyftistöng fyrir félagið. Hann sameinar í einum manni tvær stærstu deildar félagsins, en Bergur heldur utan um gamlingjana í knattspyrnunni. Bergur er einn af þessum einstaklingum sem skipta svo miklu máli fyrir félag eins og Þrótt og er alltaf tilbúinn að rétta hjálparhönd fyrir félagið.
Hallur og Bergur eru svo sannarlega vel að þessum viðurkenningum komnir og var gaman að geta veitt þeim smá viðurkenningu fyrir þeirra dugnað og kraft í þágu félagsins.
Lifi Þróttur !
Gleðilegt Þróttaraár
30.12.2008 | 20:31
Merkileg og langþráð sameining
Heimahjúkrun og heimaþjónusta loks sameinuð í Reykjavík
Í mínum huga er nú hátíð í tvennum skilningi: annars vegar er jóla- og áramótahátíðin sem við njótum nú öll, en hins vegar er þetta einnig hátíðisstund því í dag var brotið blað í heimaþjónustu við íbúa Reykjavíkur.
Það var sumarið 2007 sem ég átti minn fyrsta fund í Heilbrigðisráðuneytinu þar sem við ræddum það með hvaða hætti við gætum sameinað heimahjúkrun og heimaþjónustu í Reykjavík. Það var svo haustið 2007 sem Velferðarráð samþykkti með formlegum hætti að ganga til samninga við Heilbrigðisráðuneytið um rekstur heimahjúkrunar í Reykjavík.
Í dag, einu og hálfu ári síðar, skrifuðu Borgarstjóri og heilbrigðisráðherra undir þjónustusamning um að rekstur heimahjúkrunar í Reykjavík verði á hendi borgarinnar. Þar með verða heimahjúkrun og félagsleg heimaþjónusta sameinuð undir einni stjórn og er markmiðið að efla þjónustuna til hagsbóta fyrir borgarbúa. Samningurinn gildir frá 1. janúar 2009 og á næstu mánuðum verður unnið að innleiðingu hans.
Þúsundir einstaklinga fá þjónustu
Í Reykjavík njóta nú yfir þrjú þúsund heimili félagslegrar heimaþjónustu sem m.a. getur falist í félagslegum stuðningi og aðstoð við heimilishald. Meira en eitt þúsund njóta heimahjúkrunar sem m.a. getur falist í reglubundnum heimsóknum vegna lyfjagjafar, umbúðaskipta eða sálrænnar aðhlynningar. Þeir sem njóta þjónustunnar eru að miklum hluta aldraðir, en fjöldi einstaklinga á öllum aldri nýtur einnig tímabundið aðstoðar vegna sjúkdóma eða slysa eða langtímaþjónustu vegna fötlunar.
Langtímadvöl á sjúkrahúsum eða annars konar stofnunum á að vera sá kostur í umönnun og þjónustu við einstaklinga sem eiga við veikindi eða færniskerðingu að stríða sem síðast er nýttur. Að búa við sjálfstæði og virkni á eigin heimili er grundvallaratriði til að halda góðri líkamlegri og andlegri heilsu og líðan. Mikið og gott starf hefur verið unnið á þessum vettvangi, m.a. í málefnum fatlaðra, en stofnanavæðing Íslendinga í málefnum aldraðra hefur á síðastliðnum áratugum hins vegar verið töluverð. Segja má að hvergi í þeim löndum sem við berum okkur saman við búi hlutfallslega jafnmargir aldraðir á dvalar- eða hjúkrunarheimilum, þrátt fyrir að rannsóknir sýni að langflestir vilja búa eins lengi og kostur er á eigin heimili. Rannsókn á vegum Heilbrigðisráðuneytisins árið 2007 á vilja þeirra sem eru á biðlista eftir hjúkrunarheimili sýndi að stór hluti þeirra sem bíða eftir vistun vilja fremur búa áfram á eigin heimili með meiri aðstoð. Það er trú mín að með því að leggja meiri áherslu á þjónustu heim, t.d. með þjónustusamningi þeim sem nú hefur verið undirritaður, sé verið að mæta óskum íbúa og bæta hag þeirra sem þurfa á þjónustunni að halda.
Starfið framundan
Þjónustusamningurinn sem nú hefur verið undirritaður er tilraunaverkefni til þriggja ára. Á næstu mánuðum verður unnið að innleiðingu hans og allan samningstímann mun starfsfólk í heimahjúkrun og starfsfólk félagslegrar heimaþjónustu vinna saman að því að leita lausna og leiða til að veita heildstæða og samfellda þjónustu heim. Á þann hátt hyggjumst við bæta og efla þjónustuna og auka einnig öryggi hennar. Samningurinn verður síðan endurskoðaður með það í huga að meta hvað hefur gengið vel og hvar þarf úr að bæta til að efla enn meira þjónustu heim.
Sem formaður velferðarráðs og borgarfulltrúi hef ég lagt mikla áherslu á að þessi samningur verði að veruleika, enda tel ég að með honum sé brotið blað í heimaþjónustu í Reykjavík. Með þeirri samþættingar og sameiningarvinnu sem framundan er verður það enn betri kostur fyrir Reykvíkinga að búa heima með stuðningi. Við vitum jafnframt að ef góður árangur næst verður framhald á þessu sameiginlega tilraunaverkefni ríkis og borgar.
Um bloggið
Jórunn Frímannsdóttir
Bloggvinir
- Auðbergur Daníel Gíslason
- Áslaug Friðriksdóttir
- Baldvin Jónsson
- Einar Vignir Einarsson
- Emil Örn Kristjánsson
- Ingólfur H Þorleifsson
- Guðrún Magnea Helgadóttir
- Herdís Sigurjónsdóttir
- Íbúasamtökin Betra Breiðholt
- Kjartan Pálmarsson
- Ólafur fannberg
- Stefán Friðrik Stefánsson
- Sigríður Jónsdóttir
- Vignir Bjarnason
- Vilborg G. Hansen
- Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir
- Vefritid
- Axel Jóhann Axelsson
- Ásta Hafberg S.
- Brosveitan - Pétur Reynisson
- Bryndís Haraldsdóttir
- Charles Robert Onken
- Einar B Bragason
- Erla Margrét Gunnarsdóttir
- Erlendur Örn Fjeldsted
- Eyþór Laxdal Arnalds
- Friðrik Hansen Guðmundsson
- Gísli Blöndal
- Gunnar Gunnarsson
- Helgi Kr. Sigmundsson
- Hilmar Gunnlaugsson
- Hjalti Sigurðarson
- Jóhann Pétur
- Jón Daníelsson
- Jón Magnússon
- Jón Ríkharðsson
- Kjartan Magnússon
- Kristín Magdalena Ágústsdóttir
- Mál 214
- Natan Kolbeinsson
- Pjetur Stefánsson
- Sigurður Sigurðsson
- Sigurður Þórðarson
- Stefán Helgi Valsson
- Theodór Bender
- Vilhjálmur Árnason
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 8
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 7
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar