Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Vonandi verður þetta að veruleika

Ég vona svo sannarlega að hugmyndir Róberts Wessman verði að veruleika, hvernig svo sem þær verða útfæraðar. Það var gott að lesa moggann í morgun. Tækifærin í heilbrigðisþjónustunni okkar eru mörg og mikilvægt að við nýtum þau.

Fullkomin aðstaða á Suðurnesjum, með flugvöllinn, Bláa Lónið, fullkomnar skurðstofur, hótel, íbúðir, starfsfólk og fleira eru tækifæri sem við verðum að nýta núna. Gengið er okkur hagstætt, svo hagstætt að það er sérstaklega áhugavert að koma til landsins og fara í aðgerðir hér. 

Samstarf við stofnanir eins og Mayo Clinics eða aðrar sem þurfa að sjá skjólstæðingum sínum fyrir aðgerðum eru mjög áhugaverðar á þessum tímum. Kerfið í Bandaríkjunum bíður upp á mikla möguleika, þar eru það stofnanir sem taka að sér að þjónusta ákveðna skjólstæðinga með alla þeirra þjónustu. Við getum boðið þessum stofnunum að sjá um aðgerðir og/eða endurhæfingu þeirra skjólstæðinga á samkeppnishæfu verði auk þess sem áhugavert er að bjóða ákveðnar pakkaferðir til landsins í þessum tilgangi. 

Gangi ykkur sem allra best með þetta !

 


mbl.is Gætu orðið til 300 störf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hálftómt eða hálffullt - 91% með atvinnu

Miðað við nýjustu upplýsingar er að draga úr aukningu atvinnuleysis, þ.e. það er ekki eins mikil aukning nú fyrstu vikur mars mánaðar og fyrstu vikur mánaðanna á undan og það er auðvitað jákvætt.

Það skiptir máli hvernig við hugsum hlutina og í stað þess að tala um hvað margir eru án atvinnu þá væri nær að tala um það hvað margir eru með atvinnu í dag. Hér á landi eru t.d. 91% allra atvinnubærra einstaklinga með vinnu og það telst ansi gott á evrusvæðinu. 


Vonbrigði

Mikil vonbrigði voru það að stýrivaxtalækkun Seðlabankans sem kynnt var í dag hljóðaði upp á eitt prósent já eitt prósent - alveg ótrúlegt miðað við allt og allt. Ég get ekki séð rökin fyrir því að lækkunin sé ekki meiri á þessum tíma. Heimilin og fyrirtækin þurfa að fara að sjá hér verulega lækkandi vexti - þetta gengur ekki lengur. 

Hvernig má það vera að á sama tíma og talað er um að hjálpa heimilum og fyrirtækjum sé þetta það sem boðið er upp á. Ég átti von á meiri lækkun og held að flestir hafi gert það. Fjöldi fyrirtækja og heimila eru búin að vera að þreyja Þorrann og þurfa nú að þreyja Góuna líka. Hættan er sú að þetta sé að verða of langt ferli og þegar síðan koma skilaboð eins og þessi þá gefist fólk bara upp. Það virðist engin von um það að hlutirnir fari að lagast eitthvað hér.

Þarf virkilega ennþá þessa háu vexti fyrir krónuna? Ég hefði viljað sjá stýrivexti lækkaða mun meira í dag, þó ekki væri nema til að ala von í brjóstum einstaklinga og fyrirtækja.

Við þurfum öll á því að halda Smile


Allrar athygli verðar

Hugmyndir þær sem Tryggvi Þór Herbertsson fór yfir í Kastljósi sjónvarpsins í gærkvöldi eru allrar athygli verðar. Það sem skiptir mestu máli í þessu þjóðfélagi í dag er að fólk gefist ekki upp og haldi áfram að greiða af lánunum sínum, að fólk sjái tilgang í því að halda áfram. Ég vil umfram allt sjá frekari skoðun á þessum hugmyndum og útfærslu. það var ekki uppörvandi að sjá hvernig Steingrímur J. Sigfússon og Jóhanna Sigurðardóttir afgreiddu málið á blaðamannafundi í dag og gerðu að því er mér fannst litið úr þessum tillögum og ætla alls ekkert að skoða málið neitt frekar. Það þarf djarfar ákvarðanir í þessu óvenjulega ástandi og tækifærin til þess að bregðast við renna okkur hratt úr greipum ef við aðhöfumst ekkert.


Er það hagur heimilanna að breyta gengislánum í hefðbundin lán?

Ég verð að segja að mér finnst jákvætt að nú sé loks verið að gera eitthvað meira í málefnum heimilanna, en mér finnst vanta að setja fram dæmi og útskýra hlutina betur. Hvað þýðir það fyrir fólk að breyta gengislánunum sínum? Ef miðað verður við gengisvísitöluna 1. maí 2008 þá var gengisvísatalan 149 en er í dag 187, það þýðir yfir 30% lækkun sem er auðvitað verulegt. Sennilega hafa þó þessi gengislán hækkað um og yfir 100% á þessum tíma og mín trú er sú að gengisvísitalan muni lækka meira en niður í 149 næstu mánuði og ár. Það er algjört lykilatriði í þessu að sá sem fari í þessar breytingar nú muni njóta góðs af því ef gengisvísitalan fer svo niður fyrir þetta 149 króna mark. Ég er þess fullviss að með réttri stjórn hér í þessu landi muni krónan styrkjast. Krónan mun styrkjast með eflingu atvinnulífsins og þá munu þessi erlendu lán ekki vera stóra vandamálið.  Stóri vandinn er sá að verðtryggingin hækkar hefðbundin lán og þau munu ekki lækka aftur og gleymum því ekki að hér er verðbólgan enn um 18%.  
mbl.is 14 þúsund heimili eiga bara skuldir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

treystum grunninn - tryggjum velferð

Þjóðin
Öflugt atvinnulíf og traust efnahagsástand er nauðsynleg forsenda fyrir aukinni farsæld þjóðarinnar. Mikilvægt er efla undirstöður atvinnulífsins með framsækinni atvinnustefnu og ábyrgri fjármálastjórn. Við verðum að tryggja óskoruð réttindi yfir auðlindum okkar með hagsmuni þjóðarinnar að leiðarljósi.

Nýtt fólk með reynslu
Það skiptir miklu máli að Sjálfstæðisflokkurinn verði við stjórnvölinn eftir kosningar í vor. Krafan um endurnýjun á Alþingi er hávær og réttmæt þó mikilvægt sé að nýta þá reynslu sem fyrir er. Þetta verður að sameina. Þjóðin verður að standa þétt saman um að vinna sig út úr því ástandi sem nú ríkir. Djörfung og framsýni á að ráða ferðinni inn í framtíðina.

Verkin tala
Þau ár sem ég hef verið í forystusveit í borginni hefur mörgum góðum málum verið hrint í framkvæmd. Heimahjúkrun og heimaþjónusta í Reykjavík var sameinuð og efld og málefni geðfatlaðra voru flutt til borgarinnar. Niðurgreiðslu í félagslega íbúðakerfinu var breytt í einstaklingsbundinn stuðning við greiðslu leigu og tekið á málefnum utangarðsfólks með sérstakri uppbyggingu. Einnig var tekið á búsetuúrræðum fyrir heimilislausar konur. Stórátak var gert í byggingu öryggis- og þjónustuíbúða fyrir eldri borgara. Reynsla mín af setu í borgarstjórn Reykjavíkur, m.a. sem formaður Velferðarráðs og stýrihóps um uppbyggingu búsetuúrræða fyrir eldri borgara mun nýtast mér vel í störfum mínum á Alþingi. Þess vegna bið ég um stuðning þinn í prófkjöri Sjálfstæðismanna.

Fyrir fólkið
Á vettvangi borgarstjórnar hef ég beitt mér fyrir fjölmörgum framfaramálum, sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur haft forystu um að hrinda í framkvæmd. Ég er stolt af þessari uppbyggingu. Ég tel að þessi reynsla mín geti nýst mér vel í störfum mínum fyrir borgarbúa og þjóðina á Alþingi. Á vettvangi þjóðmála tel ég að reynsla mín auðveldi mér að takast á við þau fjölmörgu krefjandi viðfangsefni sem blasa við.


Jafnvægi á prófkjörslistum

Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið laus við að setja kynjakvóta á uppstillingu lista til kosninga í gegnum tíðina og vona ég að svo verði áfram. Sjálfstæðismenn þurfa ekki kynjakvóta til þess að velja frambærilega fulltrúa af báðum kynjum til ábyrgðarstarfa enda mikið af frambærilegu fólki að velja úr. Það er nú samt svo að það er raunveruleg hætta á því að hjá Sjálfstæðisflokknum verði einungis karla sem leiði listana í öllum kjördæmum landsins. Við verðum að passa að það verði ekki niðurstaðan. Ég gef kost á mér í annað sætið á lista flokksins til alþingiskosninganna hér í Reykjavík, það er yfirlýsing um það að ég sé tilbúin til þess að taka að mér að leiða listann í öðru kjördæminu í Reykjavík.  Ég hef leitt stórt svið hjá Reykjavíkurborg nú undanfarin ár og unnið að ýmsum breytingum á þeim tíma og leitt þær til lykta. Það skiptir Sjálfstæðisflokkinn miklu máli að hafa hér öfluga forystu í komandi kosningum. Forystu sem hefur á að skipa konum jafnt sem körlum, forystu sem býður upp á ákveðna endurnýjun og reynslu, forystu með ferskan blæ.

Við verðum að sameinast um það sjálfstæðismenn að velja öflugan, samhentan og sigurstranglegan lista. Þannig náum við til breiðs hóps kjósenda og veitum stefnu og sýn sjálfstæðismanna brautargengi. Þess vegna sækist ég eftir 2. sæti og um leið fyrsta sæti í öðru kjördæminu.


ESB og íslenska krónan

Ég fæ mikið af fyrirspurnum um það hvort ég vilji ganga í ESB eða hvort aðildarviðræður séu tímabærar. 

Ég skrifaði grein um þetta fyrir nokkru síðan þar sem ég sagði það alveg skýrt að ég teldi ekki ástæðu til að velta fyrir okkur aðildarviðræðum á þessum tíma. Sjá: http://jorunnfrimannsdottir.blog.is/blog/jorunn/entry/785371/

Nú þurfum við að takast á við stöðuna eins og hún er og einbeita okkur að því að hjálpa fjölskyldunum og fyrirtækjunum til þess að komast í gegnum þetta. Við þurfum að taka hér djarfar ákvarðanir um verkefni á vegum ríkisins, það eru verkefni eins og það að halda áfram með Landspítala Háskólasjúkrahús, brúarsmíði, álversframkvæmdir og annað sem getur skapað hér atvinnu fyrir fólkið í landinu.

Varðandi íslensku krónuna tel ég að sama skapi að ekki sé lag nú að taka upp annan gjaldmiðil, það væri í raun glapræði eins og sakir standa. Krónan verður að styrkjast hér áður en við getum svo mikið sem hugsað um það að gera breytingar á því. Við þurfum að velta fyrir okkur hvort fyrirtæki og fjármálastofnanir eigi að geta vaxið hér og dafnað á alþjóðavísu eða hvort við viljum hefta vöxt þeirra og halda innan þeirra marka að okkar annars ágæta hagkerfi haldi utan um það.

Nú þurfum við að einbeita okkur að endurskoðun regluverksins og eftirlitsins sem algerlega brást hér og gera ráðstafanir sem koma í veg fyrir að nokkuð slíkt geti gerst aftur.

Skrifa meira síðar!

 


Úrvinda en ánægð

Þessi dagur hefur ekki verið rólegur, en ég verð að segja að það er ánægður frambjóðandi sem leggst á koddann í kvöld. Í hádeginu var ég á frábærum fundi hjá SÁÁ þar sem ég hitti Heiðursmenn þeirra samtaka og var virkilega gaman að fá tækifæri til að hitta þá og fara yfir sviðið með þeim. Eftir síðan frekar erfiðan dag á kosningaskrifstofunni þá var kvöldið afar ánægjulegt og skemmtilegt. Við frambjóðendur vorum á hraðstefnumótarfundi með flokksmönnum í austurhluta borgarinnar þar sem var vel mætt og virkilega góðar umræður. Þetta eru krefjandi fundir og maður verður að gefa sig allan í þetta en það var svo sannarlega skemmtilegt.  Góða nóttSleeping


Get ekki orða bundist yfir yfirlýsingum Umhverfisráðherra

Hvernig stendur á því að ráðherra þjóðarinnar getur sagt á þessum tímum að hann sé á móti frumvarpi um byggingu álvers í Helguvík.  Er ásættanlegt, á sama tíma og 14000 manns eru hér atvinnulausir og miklu fleiri sem sjá ekki fram á að ná endum saman, að vera á móti því að hér verði sköpuð störf fyrir 1200 - 3000 manns á nokkurra ára tímabili. Ráðamönnum ber skilda til að taka ábyrga afstöðu hverju sinni landi sínu og þjóð til framdráttar. Ef fram heldur sem horfir mun fólk gefast upp hér í stórum stíl. 

Ég hef undanfarna daga verið að hringja í kjósendur í tengslum við framboð mitt í annað sætið í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins og það er þungt hljóð í fólki. Nú er hugsanlega möguleika á því að fara í uppbyggingu og skapa hér atvinnu - en hvað - þá getur manneskja eins og Kolbrún Halldórsdóttir Umhverfisráðherra þjóðarinnar leyft sér að segjast vera á móti og styðja ekki áætlanirnar. Ég tel það þekkingarleysi og hroka að segja að álver skili litlum arði. Framkvæmdin er arðbær, en arðurinn felst ekki síður í störfunum og fólkinu sem lifir og hrærist í landinu okkar. Á bak við hvert starf er fjölskylda og einstaklingar sem reiða sig á það að til heimilisins komi peningar fyrir afborgunum, mat, skólabókum, tómstundum og fleiru og fleiru. Gerum ekki lítið úr þessum þáttum sem skipta okkur öll svo miklu máli.  Ef stjórnmálamenn eru svo langt frá raunveruleikanum sem orð umhverfisráðherra bera með sér ætti sá hinn sami að snúa sér að öðru á þessum tímum. Álver í Helguvík mun skapa 12-1500 störf á ári fram til 2011 og þegar mest verður um mitt ár 2011 munu 2500 -3000 manns hafa atvinnu af einhverju tagi í tengslum við uppbygginguna.

Ég vona að af uppbyggingunni verði og held að við ættum að sameinast um það að gera ALLT sem í okkar valdi stendur sem stöndum hér vaktina að skapa störf fyrir fólkið í landinu okkar. Þannig munum við komast í gegnum þessa efnahagskreppu.

 

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Jórunn Frímannsdóttir

Höfundur

Jórunn Ósk Frímannsdóttir
Jórunn Ósk Frímannsdóttir

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • ...i_mbl_blogg
  • ...logo
  • ...k_mynd_stor
  • Jólakortamynd 2009 003
  • DSCN2230

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.7.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 9
  • Frá upphafi: 85235

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 8
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband