Tími til að taka Strætó

Þessi grein birtist í Morgunblaðinu í gær 14. júní.

Almenningssamgöngukerfi höfuðborgarsvæðisins stenst fyllilega samanburð við þau lönd sem við berum okkur hvað helst saman við. Engu að síður þá er það svo að við notum þennan góða samgöngumáta of lítið. Nú kreppir víða að og fólk þarf að horfa í hverja krónu og finna leiðir til þess að láta enda ná saman. Ein leið til þess að minnka útgjöld heimilisins er að leggja öðrum eða báðum bílum fjölskyldunnar og nota aðrar leiðir til þess að komast milli staða, best er að byrja á því að taka strætó, hjóla eða ganga til og frá vinnu. Strætó er þægilegur ferðamáti sem fleiri ættu að notfæra sér. Meðan vagnstjórinn sér um aksturinn getur farþeginn setið rólegur og notið ferðarinnar, jafnvel litið í blöðin á leiðinni eða undirbúið sig fyrir daginn. Hvers vegna að keyra sjálfur með allri þeirri fyrirhöfn sem því fylgir þegar þú getur látið skutla þér? Það er ákvörðun að byrja að taka strætó sérstaklega fyrir þá sem ekki hafa tileinkað sér þennan ferðamáta. En það er ekki erfitt að finna út úr því hvernig best sé að taka vagninn, hvar næsta stoppistöð sé eða hvenær vagninn komi. Það er í raun sáraeinfalt. Einfaldast er að byrja á því að fara inn á vefsíðuna www.strætó.is, slá þar inn götuheiti sem lagt skal upp frá og götuheiti sem farið skal til og sjá hvað kemur út úr því.  Þannig má finna hvaða mögulegar leiðir eru færar að fara með strætó milli þessara staða. Á vefsíðunni er auk þess hægt að kaupa farmiða eða kort og láta senda heim að dyrum. Sumarið er kjörinn tími til þess að prófa þetta.  Stjórn Strætó bs hefur verið í stefnumótunarvinnu þar sem mótuð er stefna fyrir fyrirtækið til framtíðar.  Þar er lögð mikil áhersla á þjónustuþætti eins og áreiðanleika, þ.e. að vagninn komi alltaf á réttum tíma, sé aldrei á undan áætlun og ekki meira en þremur mínútum á eftir áætlun. Þar erum við líka að skoða þætti eins og þjónustuþéttni eftir þjónustuþörf og þéttleika íbúðarbyggðar, vegalengd milli stoppistöðva, kostnaðarhlutdeild farþega, þjónustu í vögnunum, þrif og fleira mætti telja allt skiptir þetta miklu máli fyrir notandann. Strætó bs er að vinna sér traust og fastan sess í hugum íbúa höfuðborgarsvæðisins. Það er mikilvægt fyrir Strætó bs að notandinn upplifi þessa þjónustu sem jákvæða, örugga, áreiðanlega og umfram allt þægilega.  Sumarið er tíminn til að prófa að taka strætó og skora ég á unga sem aldna að nota nú sumarið til þess að kynnast þessum fína ferðamáta.     

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðríður Haraldsdóttir

Sammála þér, þetta er frábær fararmáti. Ég meira að segja flutti upp á Akranes árið 2006, eingöngu vegna tilkomu strætóferða á milli en ég vinn í Reykjavík.

Tvær fullar rútur þurfti í fyrstu ferð sem fór upp úr kl. 6.30 á morgnana og mikil gleði ríkti meðal Skagamanna. Mikið var um að fólk skryppi á Skagann í heimsóknir, barnahópar í íþróttastarfi í Reykjavík nýttu sér þetta mikið og fleira. Ferðirnar breyttu ýmsu og miklu fleiri en ég nýttu þetta tækifæri og fluttu á Skagann í kjölfarið.

Eftir bestu vitund minni fóru fargjöld okkar í kassann hjá Strætó bs. og Akraneskaupstaður greiddi þetta niður að einhverju leyti. Um áramótin síðustu var ákveðið að hækka fargjöld okkar um 200% þannig að aðsókn í strætó gjörsamlega hrundi, eins og við farþegar vöruðum við. Fargjaldið frá Borgarnesi kostar 1.120 krónur (svæði 4) og fólk þar kýs frekar að fara saman í bílum í bæinn og spara þannig, enda verða þær ferðir lagðar niður í sumarlok. Við vöruðum líka við þessu á fundi með bæjarstjórn.

Ég, ásamt Veru Knútsdóttur, skrifaði þér sem formanni stjórnar Strætó bs kurteislegt bréf og spurði þig út í þetta í desember síðastliðnum en ekkert svar hefur borist þá sex mánuði sem liðnir eru. Reynir forstjóri sendi mér fyrir rest bréf en þar kom ekki fram að það væri fyrir þína hönd. Mikið væri gott að fá rökstuðning stjórnar Strætó bs fyrir þessarri eyðileggingu á vinsælustu strætóleið Strætó bs. Ég á mjög erfitt með að trúa því að við höfum verið baggi á fyrirtækinu, ekki með öll þessi fargjöld og að auki niðurgreiðslu bæjarins, ásamt því að við þjónustuðum Kjalarnes (116 Reykjavík) og Mosfellsdalinn. Nú er strætó orðinn baggi á bæjarstjórninni hér, m.a. vegna greiðslna fyrir aukavagn í Mosfellsbæ á morgnana sem okkur farþegum finnst vera argasta bruðl.

Þess ber að geta að Akraneskaupstaður niðurgreiðir strætókort - þannig að við borgum "bara" 100% meira fyrir þau en áður, strax skárra en þrefalt gjald.

Væri ekki ráð að fá farþega til skrafs og ráðagerða áður en ráðist er í svo viðamiklar breytingar sem skipta hundruðir fjölskyldna máli og það á erfiðum tímum fyrir fólkið í landinu? Við lumum meira að segja á ýmsum sparnaðarráðum sem enginn virðist hafa gert sér grein fyrir.

Með vinsemd og virðingu,

Guðríður Haraldsdóttir, ritstjóri og strætófarþegi

Guðríður Haraldsdóttir, 15.6.2009 kl. 20:02

2 Smámynd: Jórunn Ósk Frímannsdóttir

Sæl Guðríður og takk fyrir þetta

Ég ætla ekki að fara í langar afsakanir hér, en bréfið frá Reyni taldi ég svara fyrirspurn ykkar og var það sent með minni vitund. Auðvitað er þetta fúlt, en það er ekki við Strætó bs að sakast eða stjórn þess fyrirtækis. Þessi þjónusta var því miður ekki að standa betru undir sér og fyrst og fremst er það bæjarstjórnarinnar á Akranesi að ákveða með hvaða hætti þjónustan er og hvað hún kostar.

Ég vona að hægt verði að þjónusta ykkur þannig að áhugavert sé fyrir fólk á Akranesi að taka strætó.

Með góðri kveðju,  Jórunn

Jórunn Ósk Frímannsdóttir , 15.6.2009 kl. 21:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Jórunn Frímannsdóttir

Höfundur

Jórunn Ósk Frímannsdóttir
Jórunn Ósk Frímannsdóttir

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ...i_mbl_blogg
  • ...logo
  • ...k_mynd_stor
  • Jólakortamynd 2009 003
  • DSCN2230

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (8.5.): 0
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 17
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 17
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband