14.11.2007 | 23:33
Íbúðir fyrir eldri borgara - þjónustuíbúðir - öryggisíbúðir
Loksins komnar skilgreiningar - þessar skilgreiningar voru samþykktar í velferðarráði í dag. Það er lengi búin að vera þörf fyrir svona skilgreiningar og höfum við unnið að þeim undanfarna mánuði. Það er mikilvægt að við leggjum sama skilning í hvað þjónustuíbúð er og hvað öryggisíbúð er og hvað sé einfaldlega íbúð fyrir eldri borgara. Einunigs þannig getum við komið í veg fyrir misskilning sem ítrekað hefur orðið og þannig komið í veg fyrir að fólk kaupi ósköp venjulega íbúð fyrir eldri borgara sem þjónustuíbúð sem er síðan þegar til kastanna kemur ekkert tengd þjónustu.
Við munum kynna þessar skilgreiningar fyrir félögum eldri borgara, byggingarfélögum og fyrirtækjum sem vilja eða ætla að byggja fyrir eldri borgara. Vonin er sú að sem flestir muni tileinka sér þessar skilgreiningar.
Almennt
Þjónustuíbúðir og öryggisíbúðir eru valkostur í samhæfðu og þéttu þjónustuneti heilbrigðis- og félagsþjónustu. Þær eru úrræði sem taka við þegar tilboð heilbrigðis- og félagsþjónustu í heimahús fullnægja ekki þjónustuþörf lengur og/eða þegar einstaklingur kýs að búa ekki lengur á heimili sínu. Vaxandi þjónustuþörf einstaklings skal mætt þannig að hjúkrunarheimili ættu að geta verið aðeins fyrir einstaklinga með alvarlega heilabilun eða í þörf fyrir sérhæfða hjúkrun.
Íbúð fyrir eldri borgara - þjónustustig 1
Með íbúðum fyrir eldri borgara er átt við klasa íbúða þar sem til staðar er þjónusturými. Við byggingu og frágang íbúða hefur verið gætt að aðgengis- og öryggismálum, s.s. með lyftum, handriðum, breiðum göngum og öryggisdúkum á gólfum. Í þjónusturýmum er aðstaða fyrir þá aðila sem veita heimaþjónustu, heimahjúkrun og aðra þjónustu samkvæmt einstaklingsbundnum umsóknum.
Þjónustuíbúð - þjónustustig 2
Þjónustuíbúðir eru klasar íbúða þar sem gætt hefur verið að aðgengis- og öryggismálum, s.s. með lyftum, handriðum, breiðum göngum og öryggisdúkum á gólfum. Innangengt er í félags- og þjónustumiðstöð þar sem m.a. er aðstaða fyrir starfsfólk til að skipuleggja og veita þjónustu og aðstaða fyrir íbúa til að sinna félagsstarfi. Starfsfólk er til staðar á daginn og sólarhringsvaktþjónusta. Heimaþjónusta og heimahjúkrun er veitt samkvæmt einstaklingsbundnu mati. Sameiginlegur matur í hádegi er í boði.
Öryggisíbúð - þjónustustig 3
Eru klasar íbúða þar sem gætt hefur verið að aðgengis- og öryggismálum, s.s. með lyftum, handriðum, breiðum göngum og öryggisdúkum á gólfum. Þessar íbúðir geta verið hluti af hjúkrunarheimili. Til staðar er þjónusturými þar sem aðstaða er til að sinna félagsstarfi og aðstaða fyrir starfsmenn til að skipuleggja og veita þjónustu. Veitt er sólarhringsþjónusta með aðgengi.að vaktþjónustu hjúkrunarfræðings. Heimaþjónusta og heimahjúkrun er veitt samkvæmt einstaklingsbundu mati. Sameiginlegur matur er í boði.
14.11.2007 | 11:07
Lifir lengst 5 - 15 kíló yfir kjörþyngd
Stór rannsókn frá USA sýnir fram á það að við lifum lengst ef við erum 5-15 kíló yfir kjörþyngd. Ég hef ákveðna kenningu um af hverju þessi niðurstaða fæst. Ég held að þeir sem eru þetta 5-15 kíló yfir kjörþyngd séu afslappaðir einstaklingar sem ekki eru allt of uppteknir af útlitinu.
Einhvern tíma var mér sagt að gera ráð fyrir því að bæta á mig hálfu kílói á ári eftir þrítugt. Það þíðir að í dag ætti ég að vera fjórum til fimm kílóum þyngri í dag en ég var þegar ég varð þrítug og það passar algerlega. Þó ég sé enn í kjörþyngd þá þíðir þetta með sama áframhaldi að ég verð þetta tíu kílóum þyngri en ég er í dag eftir tuttugu ár.
Ef ég verð ekki ofurupptekin af útlitinu og geri allt sem ég get til þess að koma í veg fyrir þessa þróun þá verð ég samkvæmt þessu orðin þetta 5-15 kíló yfir kjörþyngd eftir nokkur ár. Ég get hins vegar örugglega með aðhaldi, þrotlausri þjálfun og vinnu haldið mér í kjörþyngd lengur, en þá er spurningin hvort það fari ekki einmitt að koma niður á heilsu minni á annan hátt.
Ég held að skipti svo miklu máli að vera passlega afslappaður og taka sjálfan sig ekki of hátíðlega.
"Marta Marta þú mæðist í mörgu" sagði Jesús eitt sinn við Mörtu sem var svo ofursamviskusöm og þurfti alltaf að hafa allt "spikk og span". Hún náði ekki að njóta augnabliksins og alls þess skemmtilega sem lífið hefur upp á að bjóða.
Slökum aðeins á kröfunum gagnvart sjálfum okkur, njótum lífsins lystisemda og borðum góðan og hollan mat.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
7.11.2007 | 09:27
Ræðum það sem skiptir máli í samrunaferlinu
Það að Björn Ingi Hrafnsson skuli leggjast svo lágt að draga Geir H. Haarde inn í umræðuna um samruna GGE og REI, sýnir best hvaða mann hann hefur að geyma. Ljóst er að Vilhjálmur vissi ekki nema hálfan sannleikann í þessu máli og því algerlega vonlaust að hann hafi getað kynnt málið fyrir Geir með viðeigandi hætti. Það þarf ekkert að ræða þetta frekar enda algjört aukaatriði og nær að ræða það sem skiptir máli í þessu öllu. Hvernig var verðmati háttað? Hvernig var ákveðið hverjir ættu að fá kaupréttarsamninga? Hvernig gat mönnum dottið í hug að binda Orkuveituna til 20 ára með einkaréttarsamningi?
Held að Birni Inga Hrafnssyni væri nær að ræða sína aðkomu að þessu máli og það stóra hlutverk sem hann gegndi í því og gegnir enn.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
5.11.2007 | 00:36
Eyjan.is og REI
Eyjan hefur fjallað mikið um REI málið en aldrei um þátt Björns Inga í því. Það væri gaman að heyra skoðanir "Orðsins á götunni" um Björn Inga og hans þátt í REI málinu í stóru og smáu.
Það vita það allir að Eyjunni er stýrt af innsta kjarna framsóknarflokksins og "Orðið á götunni" er ekkert annað en framsóknarorð.
Þetta kemur t.a.m. fram um Pétur (Orðið á götunni) á blogsíðu hans; "Pétur hefur tvívegis gegnt stöðu fréttastjóra á Fréttablaðinu en hefur hin síðari ár helst verið kenndur við Framsóknarflokkinn þar sem hann gegndi meðal annars stöðu skrifstofustjóra þingflokksins. Pétur á ekki langt að sækja áhugann á fjölmiðlum en móðir hans er Ragnheiður Ásta Pétursdóttir og afi hans Pétur Pétursson, þulur. Samkvæmt því sem Orðið á götunni kemst næst starfar Pétur um þessar mundir við að ráðleggja fyrirtækjum í almannatengslum.
Ég hefði mikinn áhuga á því að sjá "Orðið á götunni" fjalla um þetta mál af meira hlutleysi en raun ber vitni, þ.e. ef Eyjan.is hefur þá áhuga á því að vera tekin sem gagnrýninn miðill, en sennilega hafa þeir sem að þeim miðli standa selt sálu sína nú þegar.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.10.2007 | 23:11
Sameiginleg stjórnun félagslegrar heimaþjónustu og heimahjúkrunar
Það var ánægjuleg tillaga samþykkt í velferðarráði í dag.
Ákveðið var að fara í formlegar viðræður við Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið um sameinaða stjórnun félagslegrar heimaþjónustu og heimahjúkrunar í Reykjavík og byggja á þeirri vinnu sem þegar hefur átt sér stað.
Gríðarlega mikil vinna hefur átt sér stað á undanförnum mánuðum milli okkar sem skipuðum fyrrverandi meirihluta velferðarráðs og fulltrúa Heilbrigðisráðuneytisins um sameinaða stjórnun heimaþjónustu og heimahjúkrunar í Reykjavík.
Skoðað hefur verið með hvaða hætti skynsamlegast sé að sameina þessa þjónustu og hvernig sé best að gera tilraun með það. Niðurstaða þeirrar vinnu var í sjónmáli og hugmyndin að bjóða þjónustuna út í tveimur hverfum borgarinnar í tilraunaskyni til eins árs og hefur Heilbrigðisráðuneytið þegar ráðið starfsmann til þess að vinna að því.
Þrátt fyrir að tekin verði ákvörðun um að bjóða út reksturinn, þá er mikil vinna eftir og að mörgu að hyggja. Mikilvægt er að taka ákvörðun um að fara í tilraun með þessum hætti og byggja á þeirri vinnu sem þegar hefur átt sér stað svo málið fara ekki aftur á byrjunarreit og við sjáum framfarir verða í þessari þjónustu. Fulltrúar sjálfstæðisflokks leggja áherslu á að haft verði samráð við hagsmunaaðila s.s. Félag eldri borgara í Reykjavík og Öryrkjabandalagið við þarfagreiningu, skilgreiningar og fleira sem tengist útboðsgerð.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
31.10.2007 | 16:28
Fjölgað um 40 pólitíska ráðsmenn
Við Júlíus urðum hissa í gærmorgun á fundi stjórnkerfisnefndar þegar nýr meirihluti bar upp tillögu sína um að fjölga Hverfisráðsfulltrúum í hverju hverfisráði um fjóra. Úr þremur í sjö og hverfisráðin eru tíu. Þetta þíðir fjölgun um 40 pólitíska fulltrúa.
Er þetta leiðin til þess auka "hverfalýðræðið"? Eykur þetta aðkomu íbúanna að ákvarðandatöku um þeirra næsta nágrenni? Hafa hverfisbúar meira aðgengi að hverfaráðunum ef það eru sjö pólitískir fulltrúar heldur en ef það eru þrír. Hvað um að efla hverfaráðin með öðrum hætti? Hvað um aðkomu fulltrúa foreldra, fulltrúa aldraðra, fulltrúa kirkjunnar o.s.frv?
Það er alveg hægt að taka undir það að skoða þurfi stöðu hverfaráða í borgarkerfinu. Verkefni ráðanna eru vandræðilega lítil og ábyrgð þeirra engin. Samtíningur nýrra verkefna sem sett eru fram í tillögu meirihlutans eru ekki sannfærandi. Því fer fjarri að ástæða sé til þess að fjölga í ráðunum og lyktar það óneitanlega af því að verið sé að búa til bitlinga fyrir pólitíska skjólstæðinga hinna fjögurra flokka sem standa að meirihluta borgarstjórnar. Verið er að fjölga ráðsmönnum um 40 talsins. Engin kostnaðaráætlun liggur fyrir.
Er það svona sem Reykvíkingar vilja láta nota skattfé borgarinnar.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
26.10.2007 | 14:07
Vangaveltur um mjólkina okkar
Ég heyrði það í útvarpinu í gær að íslenska mjólkin sé mun próteinríkari en t.d. sænska mjólkin. Getur ekki verið að próteinmagnið sé í hlutfalli við magnið.
Við hjónin kaupum gjarnan hvítlaukshylki og tökum inn nokkur ef okkur finnst við eitthvað að vera slöpp. Hvítlaukshylkin eru unnin (eða það sem er inni í hylkjunum) úr kaldþroskuðum hvítlauk. Hvítlauk sem er sérstaklega lengi að þroskast og þroskast við minna hitastig en hvítlaukurinn sem við notum í mat. Þannig er unnt að varðveita efnasambönd sem er að finna í hráum hvítlauk.
Getur ekki verið að kýrnar okkar framleiði próteinríkari mjólk vegna þess að þær vandi sig einfaldlega meira við framleiðsluna. Mjólkin þroskist hægar og innihaldi meiri gæði? Getur líka haft áhrif að hér er nú ekkert sérstaklega heitt á sumrin? Má jafnvel segja að hún sé kaldþroskuð? Hver segir svo að þessar sænsku mjókurkýr muni halda uppi sömu framleiðslu hér á landi. Gætu þær gengið úti og haldið uppi sömu framleiðslu?
Ég á alveg ljómandi góða kaffivél sem heitir Francis Fransis! Ég bý hér til nokkra Cappuccino bolla á degi hverjum og nota einungis Léttmjólk í kaffið. Yfirleitt gengur vel að þeyta Léttmjólkina en við vinkonurnar (hún er með eins vél og sama kaffið) höfum fyrir löngu tekið eftir því að yfir hásumarið verður erfiðara að þeyta Léttmjólkina - samsetning hennar breytist. Hvað segir það okkur svo? Þetta eru nú bara skemmtilegar vangaveltur og engin vísindi.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
26.10.2007 | 13:30
"Ha kúna ma tata" - "Feisaðu fram á við fortíðin er að baki"
Svei mér þá ef mér er ekki að takast að virkja bjartsýnisstöðvarnar.
Ég held að út úr öllu því sem á undan er gengið síðustu vikurnar, REI ævintýrinu, borgarstjórnarskiptum og formannsskiptum í ráðum og og og.... þá munum við sjálfstæðismenn standa sterkari eftir. Við létum ekki vitleysuna viðgangast, spurðum spurninga, fengum ekki svör og vildum því gera eitthvað í málinu. Mér finnst nýr meirihluti ekki vera sigurvegari í þessu máli, við sem stöndum fyrir utan þennan meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur í dag erum sigurvegarar.
Nú er að sjá hvað framtíðin ber í skauti sér.
24.10.2007 | 23:26
Búið að staðsetja "bjartsýnisstöðvar" heilans
Bjartsýni og jákvæðar hugsanir eiga upptök sín á tveim stöðum í heilanum samkvæmt frétt á mbl.is í dag. Þessir tveir staðir gegna lykilhlutverki í að gera fólki kleift að horfa á björtu hliðarnar.
Það undarlega er þó að þessir sömu staðir eru virkir í þugnlyndi. Það er því nauðsynlegt að finna út hvernig við virkjum þessar stöðvar meðvitað til þess að vera jákvæðar, þá getum við nýtt okkur þessar upplýsingar. Klárlega framfaraskref í vísindaheiminum.
23.10.2007 | 23:54
Hver gerir hvað fyrir hvern og hvar?
Halló halló, fer nú málið að snúast um það hver sé að gera hvað. Viljum við ekki einfaldlega fá á hreint allt sem tengist þessu máli og jafnvel málefnum Orkuveitu Reykjavíkur í heild sinni síðustu 10 árin eða svo. Fjölmiðlar kvarta um að fá ekki upplýsingar og stýrihópur og stjórn vita ekki alveg hver á að gera hvað o.s.frv. Hvar endar þetta eiginlega, eða endar þetta alls ekki neitt? Hvað hefur Orkuveitan að fela?
![]() |
Yfirlýsing stjórnarformanns OR: Túlkun Júlíusar Vífils fráleit |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
23.10.2007 | 23:40
Morgunblaðið fær ekki gögn
Það er dapurt að fylgjast með því hvernig á að svæfa þetta REI mál. Morgunblaðið kvartar yfir því að fá ekki þau gögn sem óskað er eftir hjá Orkuveitunni og þaðan af síður hjá REI. Hvernig ætli stýrihópnum gangi að fá upplýsingar? Það hljóta allir að sjá það að þessi hópur mun ekki getað komist að neinni niðurstöðu um þennan REI samruna á nokkrum dögum.
Hvers vegna í ósköpunum ákvað Svandís Svavarsdóttir að fara þessa leið með þetta mál.
Svandís mín hættu þessari vitleysu, byrjum upp á nýtt, ógildum þennan samning og köfum ofan í málefni orkuveitunnar saman. Við sjálfstæðismenn tókum slaginn fyri borgarbúa og það sanna í þessu máli, en áttum því miður ekki erindi sem erfiði.
23.10.2007 | 09:39
Hugleiðingar um næringu
Mér eru svo hugleikin öll þessi endalausu aukaefni í matvælum í dag.
Ég var að velta því fyrir mér um daginn hvers vegna Sól safinn geymist svona lengi. Sól-safinn er jú einungis ferskar nýpressaðar appelsínur. Ég veit ekki hvers vegna hann geymist jafn lengi og raun ber vitni, en ég veit það eitt að ef ég pressa appelsínur hér heima hjá mér og set í flösku inn í ísskáp þá geymast þær ekki svona lengi og safinn verður brúnleitur eftir nokkra daga.
Ég velti því líka fyrir mér hvaða áhrif öll þessi aukaefni, bragðefni, bindiefni og sætuefni hafa á okkur.
Er kjöt sem hefur verið lagt í saltvatnslög til þess að auka þyngd sína um 20% jafn hollt og ómeðhöndlað kjöt? Eru næringarvandamál og offita hins vestræna heims meira og minna tengd því að við erum í raun ekki að borða alvöru mat? Við erum í auknum mæli að borða dautt, tilbúið gervifæði sem á að koma í stað alvöru matar. Ég veit ekki hvort þið hafið séð mynd sem sýnd var í sjónvarpinu í sumar þar sem fjallað var um erfðabreytt matvæli og hvernig þróunin hefur verið í kornframleiðslu, soyjaframleiðslu og hrísgrjónaframleiðslu í Bandaríkjunum svo dæmi sé tekið. Þessi mynd var virkilega áhugaverð og hafði mikil áhrif á okkur í minni fjölskyldu. Sjónvarpið ætti að sýna hana aftur við tækifæri því ég held að allir hafi gott af því að velta þessu fyrir sér. Þar kom t.d. fram að kartöflutegundir heimsins höfðu fyrr á öldum verið í hundruða eða þúndatali, e nhefur fækkar með árunum niður í nokkra tugi tegunda.
Hvaða næring er í kjötfarsi sem inniheldur ekki nema 10%-20% kjöt, annað er í raun vatn, litarefni, bragðefni, bindiefni (sem binda vatnið til að ná upp þyngdinni), bragðefni og fita. Það er hægt að framleiða kjötfars án þess að hafa yfirhöfuð nokkuð kjöt í því, bara smá fitu svo við fáum réttu áferðina.
Hvaða næring er í sykurlausum drykkjum? Engin, það er þó smá næring í drykkjunum með sykrinum því sykur gefur jú orku. Þar fyrir utan þá er sykurinn náttúruleg afurð sem við losum auðveldlega úr líkamanum og hefur fylgt okkur um aldir.
Getur verið að við þurfum meira af næringarlausum/næringarlitlum mat og verðum ekki almennilega mett. Ég er sannfærð um að svo sé og það hafi síðan þær afleiðingar að við borðum meira, verðum fyrr svöng aftur og borðum í raun of mikið án þess að það auki orku okkar og úthald, sem verður svo til þess að við förum að fitna.
Framleiðendur eiga ekki auðvelt, því neytendur vilja að varan líti vel út, kjúklingabrignurnar seljast ekki ef þær eru ekki bleikar og bústnar. Hakkið verður að vera ljósrautt þó hakk hafi þá tilhneigingu að verða brúnt mjög fljótt eftir að það kemst í nálægð við súrefni, brauðið er ekki nógu gott ef það harðnar og myglar of fljótt og svona mætti lengi telja. Ef við neytendur verðum meðvitaðri um mikilvægi góðrar næringar, meðvitaðri um það hvað er góð næring og gerum kröfu um hreinar aukaefnalausar vörur þá mun markaðurinn hafa vöruna í takt við óskir okkar.
Framleiðendur þurfa að vera duglegri við að láta neytendur vita hvar þeir geta t.d. keypt grænmeti beint af bóndanum. Kannski þurfum við að koma upp betri og hreyfanlegri markaði eins og Kolaportinu þar sem bændur/framleiðendur, fiskimenn og fleiri gætu komið einu sinni í viku með ferskar vörur og selt beint til neytenda - milliliðalaust.
Ég er sannfærð um það að ef við borðum hollan næringarríkan mat þá þurfum við minna af snakki milli mála, borðum minna og líður betur. Oft getur nefnilega minna í raun verið meira.
Bráðum kemur betri tíð með blóm í haga og hver veit nema við fáum mat - beint frá haga í maga
22.10.2007 | 23:11
Ekki sænskar kýr
Ég segi nei takk við sænskum mjólkurkúm - við megum ekki tapa niður okkar íslenska stofni.
Ég vona að einhverjir bændur muni passa upp á íslensku kúna og ég sjái áfram fallegar og marglitar íslenskar kýr í haga. Ég er til í að borga meira fyrir íslenska mjólk á meðan ég get og leggja þannig mitt af mörkum til þess að bændur geti áfram boðið mjólkurvörur frá kúnum "okkar".
Við komum fyrir tilviljun við hjá Daníeli á Akbraut fyrir nokkrum árum og ræddum við hjónin lengi við hann um lífið og störfin á bænum. Hann sagði okkur að hann hefði náð undraverðum árangri í að ná upp nýtingu hjá kúnum sínum. Gaman væri að vita hversu mikil nýting það var sem Daníel hafði náð í samanburði við sænsku kýrnar.
22.10.2007 | 11:26
Milliliðalaust til neytandans
Athyglisverð forsíða Morgunblaðsins í gær, þar sem fjallað er um " Beint frá býli til neytanda".
Ég fagna því að greiða eigi úr regluverki varðandi framleiðslu landbúnaðarafurða á bæjum. Það eru mikil sóknarfæri í slíku hjá bændum og er ég þess fullviss að bændur geta fengið gott verð fyrir góða og ferska vöru.
Mér ofbíður svo í dag að ég skuli ekki geta verið viss um það að fiskflakið sem ég kaupi út úr búð sé ekki legið, þ.e. að það hafi ekki verið látið liggja í einhverjum legi sem lætur það líta betur út og safna í sig vökva svo það vegi meira, endist lengur og hægt sé að selja það sem ferska vöru í marga daga. Kjúklingabringur eru allar með vatni og salti svo þær líti nú betur út og endist lengur í umbúðunum. Mér finsnt að við neytendur eigum kröfu um að geta keypt ferskar og ómeðhöndlaðar vörur. Það eru fleiri en ég sem vilja heldur kaupa minna magn og meiri gæði.
Bændur sem leggja sig fram um að skaffa gæðavöru þurfa að geta komið vöru sinni á framfæri og selt sína vöru milliliðalaust, því það eru svo sannarlega milliliðirnir sem meðhöndla kjötið áður en það er selt til neytandans en ekki bóndinn.
Ég sé fyrir mér í framtíðinni að við litlu kaffistofuna svo dæmi sé tekið væru bændur á sunnudögum að selja ferskar vörur beint frá býlinu. (Kannski er þetta einhver "nostalgía" en hvað um það).
Ég sé fyrir mér að ég geti farið inn á netið og séð: Hvar ég get fengið nýslátrað lambakjöt, kanínukjöt eða nautakjöt í dag, eða hvar ég geti fengið dúfubringur á morgun. Hvaða bóndi eigi nú tilbúinn ost og hver eigi sultu.
Svo er það mitt sem neytanda að finna út úr því hvernig ég nálgast vörurnar og eða fæ þær sendar. Ég á t.d. oft leið milli Siglufjarðar og Reykjavíkur og mundi þ.a.l. kjósa að versla helst við bændur sem ég gæti sótt til vörur á þeirri leið. Aðrir eiga oft aðra leið og kjósa því frekar að versla við aðra. Bændur sjálfir gætu líka komið sér saman um að vera með litlar sölusjoppur meðfram vegum landsins og gætu auglýst það t.d. inni á svona vefsíðu. Þyrfti jafnvel ekki að vera opið nema á föstudögum og sunnudögum, þá er jú fólk helst að ferðast um vegi landsins.
Ég get alveg misst mig í umræðu um þessi mál og vil gjarnan fara að sjá eitthvað gerast í því að greitt verði úr regluverkinu svo frumkvæði bænda fái notið sín.
Þjóðverjar tala gjarnan um að maður eigi að borða mismunandi eftir árstímum. Borða jarðaber þegar er jarðaberjauppskera, rófur þegar er rófuuppskera og svo framvegis. Kannski er það hollast og best, það getur allavega ekki verið mikil næring í ársgömlum eplum og ársgömlum appelsínum. Það er búið að stökkbreyta svo ávöxtum og grænmeti heimsins í dag að það lítur endalaust út fyrir að vera nýupptekið.
Ég vona svo sannarlega að bændur á íslandi muni leggja metnað sinn í að bjóða íslenkum neytendum upp á ferskar gæðavörur fullar af næringarefnum þegar þeim loksins verða sköpuð skilyrðin til þess. En það er stjórnvalda að skapa grunninn fyrir það, ég vona að þau láti verkin tala í því sambandi sem allra fyrst.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
20.10.2007 | 00:05
Niðurstaða um REI-samruna innan viku
Svandís Svavarsdóttir telur sig geta krufið samruna GGE og REI til mergjar. Hún kemst undarlega að orði um það hvernig stýrihópurinn muni vinna að málinu og finnst ekkert óeðlilegt að Björn Ingi Hrafnsson sé áfram í hópnum.
"Við erum að leita að sameiginlegri lendingu í sátt við alla stjórnmálaflokka sem eiga aðild að borgarstjórn Reykjavíkur, vegna þess að þetta er einfaldlega það stórt mál að við sættum okkur ekki við þá niðurstöðu að það snúist um það að hafa meirihlutann undir eða að þetta snúist um meirihluta eða minnihluta við þurfum nokkurs konar þjóðarsátt um Orkuveitu Reykjavíkur og við erum ennþá í þeim leiðangri að trúa því að hún sé handan við hornið."
Um kærumálið og setu Björns Inga í stýrihópnum segir hún:
"En það gefur auga leið að á öllum fundum þegar við erum að fara yfir mál, að þá kann það að orka tvímælis að eitthvert okkar sitji á fundum og það kann líka að orka tvímælis að ég sé þar á einhverjum tímapunkti og þá er ég bara tilbúin að sitja frammi á gangi á meðan að um það er rætt."
Svo mörg voru þau orð. Verður þá Björn Ingi bara frammi á gangi?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
19.10.2007 | 15:24
Hópur settur yfir stjórn OR
Ég skil ekki hvers vegna fulltúar minnihlutaflokkanna settust ekki sjálfir í stjórn OR og létu stjórnina um að fara ofan í saumana á þessum samruna. Hvaða tvíverknaður er þetta, ég skil ekki tilganginn með þessum vinnubrögðum. Hvaða umboð hefur stjórn OR í dag?
Hópurinn mun kanna allar hliðar samruna REI og GGE með það að markmiði að almannahagsmunum verði haldið til haga. Löglega á að standa að verki og svara öllum spurningum sem þegar hafa komið upp og eiga eftir að koma upp.
Fulltrúar allra flokka í borgarstjórn skipuðu í þennan hóp og á hópurinn að skila af sér í áföngum, en lokaskil eru eigi síðar en 1. júní 2008. átta mánuðum eftir að samruninn var samþykktur.
Fulltrúar flokkanna í stýrihópnum eru.
- Hanna Birna Kristjánsdóttir, Sjálfstðisflokki
- Svandís Svavarsdóttir, Vinstri grænum
- Margrét Sverrisdóttir, Frjálslyndum og óháðum
- Sigrún Elsa Smáradóttir, Samfylkingu
- Björn Ingi Hrafnsson, Framsóknarflokki
það þarf ekki fleiri orð um það.
19.10.2007 | 09:24
Bernskir borgarfulltrúar að mati Jóns Sigurðssonar
Blessaður kallinn hann Jón Sigurðsson talaði um umskiptin í borginni og fleira í löngu máli í 24 stundir og Viðskiptablaðinu í gær. Það var sérstök nálgun sem hann tók á málið og ekki fannst mér stórmannleg sú útskíring hans að bernska okkar borgarfulltrúanna hefði orðið okkur að falli. Við værum ekki nógu þroskuð.
Það má segja ýmislegt um það sem á undan er gengið og við gerðum fullt af mistökum, en hvað bernsku varðar og óþroska þá get ég ekki tekið undir það. Er það þroski að taka þátt í "sukkinu"? Er það þroski að spyrja ekki spurninga og vilja ekki kafa ofan í mál sem lögð eru fyrir okkur með þeim hætti sem þetta mál var kynnt okkur borgarfulltrúum? Þá vil ég áfram vera óþroskaður stjórnmálamaður og bernsk, ég hef allavega ekki áhuga á neinum "framsóknar"þroska.
19.10.2007 | 09:14
Góður fundur í Valhöll
Ég verð að viðurkenna að ég hálf kveið fyrir því að fara á þennan fund í gær í Valhöll, en það reyndist ekki vera ástæða til þess.
Mikið var nú samt erfitt að hitta sína góðu vini í flokknum, alla þá duglegu einstaklinga sem alltaf eru tilbúnir að leggja sig fram fyrir flokkinn. Alltaf tilbúin í slaginn með okkur og eru svo trú sjálfstæðisstefnunni og okkur kjörnum fulltrúum flokksins. Mikið finnst mér ég hafa brugðist sjálfstæðismönnum og þeim fjölda vona og vandamanna sem lögðu sig svo mikið fram um að hjálpa mér í prófkjörinu mínu og studdu mig til góðra verka.
Það er erfitt að sætta sig við það hvernig þetta fór allt saman ekki síst vegna þess að mér finnst þessi niðurstaða svo ósanngjörn. Það er svo sárt til þess að hugsa að réttlætið hafi tapað, en þannig líður mér einfaldlega. En einhvers staðar segir að réttlætið sigri að lokum og ég held í vonina um það. Við sjálfstæðismenn þurfum að fara að huga að næstu kosningum og það er alveg ljóst að til þess að við getum látið gott af okkur leiða fyrir Reykvíkinga þá dugar ekkert minna en hreinn meirihluti.
Áfram sjálfstæðismenn og takk fyrir góðan fund
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.10.2007 | 21:46
Hvað gerir Dagur þá
Hvernig bregst nýr borgarstjóri við þessu. Kannski átti hann von á því að Kristján L. Möller samgönguráðherra kæmi með þetta útspil. Hver veit nema Dagur hafi beðið um það.
Þetta leysir hugsanlega einn vanda sem nýr meirihluti stóð frammi fyrir, en það var að taka ákvörðun um framtíð flugvallarins. Dagur vill flugvöllinn burt, en Margrét vill hafa hann á sínum stað og hlaut sennilega sitt sæti í borgarstjórn út á það að vilja ákveðið hafa flugvöllinn þar sem hann er. Reyndar er Margrét hvergi í flokki, allavega ekki í Frjálslynda flokknum svo sennilega getur hún bara skipt um skoðun eftir því hvernig vindar blása.
![]() |
Samgönguráðherra vill ekki færa Reykjavíkurflugvöll |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
17.10.2007 | 21:06
Einföldu leiðina
Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson lagði það til í borgarstjórn í gær að borgarstjórn samþykkti að styðja málsókn sem Svandís höfðaði um lögmæti fundarins. Þannig mætti ógilda þær samþykktir sem gerðar voru á fundinum.
Dagur brást við og sagði það útaf fyrir sig merkilegt, ef eftir allt sem á undan væri gengið yrði niðurstaða sjálfstæðismanna sú, að taka undir bókun Svandísar á eigendafundinum. Svandís þagði þunnu hljóði og tjáði sig ekki um þetta. Það hefði verið borðleggjandi að klára þetta mál með þessum hætti a´fundinum, en þau kusu að vísa málinu í borgarráð því taka þyrfti afstöðu til þess hvort þetta væri heppileg leið. Og ekki vantaði faguryrðin, því takast þyrfti bandalag um frið, fumleysi og ábyrgð í hverju skrefi.
Það kom aukin heldur fram í fjölmiðlum í dag að ekki eru þau tilbúin til þess að taka þessa tillögu til afgreiðslu í borgarráði á morgun. Nei nú skal vísa þessari einföldu tillögu áfram inn í stefnumótunarvinnu um málefni orkuveitunnar. Alveg frábært, svona skal málið róað og kælt niður og helst svæft.
Æ vonandi koma öll kurl til grafar í þessu máli og vonandi hefur nýr meirihluti dug til þess að taka á þessu máli af festu og öryggi og hættir ekki fyrr en allt er komið upp á yfirborðið.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Um bloggið
Jórunn Frímannsdóttir
Bloggvinir
- Auðbergur Daníel Gíslason
- Áslaug Friðriksdóttir
- Baldvin Jónsson
- Einar Vignir Einarsson
- Emil Örn Kristjánsson
- Ingólfur H Þorleifsson
- Guðrún Magnea Helgadóttir
- Herdís Sigurjónsdóttir
- Íbúasamtökin Betra Breiðholt
- Kjartan Pálmarsson
- Ólafur fannberg
- Stefán Friðrik Stefánsson
- Sigríður Jónsdóttir
- Vignir Bjarnason
- Vilborg G. Hansen
- Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir
- Vefritid
- Axel Jóhann Axelsson
- Ásta Hafberg S.
- Brosveitan - Pétur Reynisson
- Bryndís Haraldsdóttir
- Charles Robert Onken
- Einar B Bragason
- Erla Margrét Gunnarsdóttir
- Erlendur Örn Fjeldsted
- Eyþór Laxdal Arnalds
- Friðrik Hansen Guðmundsson
- Gísli Blöndal
- Gunnar Gunnarsson
- Helgi Kr. Sigmundsson
- Hilmar Gunnlaugsson
- Hjalti Sigurðarson
- Jóhann Pétur
- Jón Daníelsson
- Jón Magnússon
- Jón Ríkharðsson
- Kjartan Magnússon
- Kristín Magdalena Ágústsdóttir
- Mál 214
- Natan Kolbeinsson
- Pjetur Stefánsson
- Sigurður Sigurðsson
- Sigurður Þórðarson
- Stefán Helgi Valsson
- Theodór Bender
- Vilhjálmur Árnason
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (7.9.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 9
- Frá upphafi: 85300
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 8
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar