24.2.2008 | 23:49
Sunnudagur 24.febrúar
Vaknaði í morgun við jákvæða skoðanakönnun sem lifti svo sannarlega á mér brúninni.
Í sama blaði var svo stór mynd af mér í tengslum við undarlega umfjöllun um það að ég hafi verið í kveðjuhófi í Höfða síðastliðinn fimmtudag. Það rétta er að ég var ekki í umræddu kveðjuhófi.
Við í borgarstjórnarflokknum áttum góðan fund í morgun þar sem Vilhjálmur kynnti okkur niðurstöðu sína varðandi framtíðina. Við lýstum stuðningi okkar við þá ákvörðun hans og gengum frá yfirlýsingu okkar í tengslum við það.
Það er ótrúlega gott að vera komin með þessa niðurstöðu.
Við eigum svo eftir, á síðari stigum, að ákveða hver verði borgarstjóri okkar og Reykvíkinga. Það liggur ekkert á þeirri ákvörðun að svo stöddu, við munum kynna niðurstöðu okkar í fyllingu tímans.
Nú er að vinna af fullum krafti að öllum okkar góðu málum í þágu borgarbúa. Það er verk að vinna og við erum þess fullbúin að láta verkin tala. Við þurfum að vinna aftur traust borgarbúa á okkur og besta leiðin til þes er að sína fram á að við séum starfinu vaxin og borgarbúar geti treyst því að við vinnum í þeirra þágu.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:59 | Slóð | Facebook
24.2.2008 | 00:23
Skáldið sem hætti að yrkja
Annað ljóð eftir frænda minn Steindór Dan Jensen. Gaman að eiga frænda sem kann að yrkja, það eru ekki allir sem geta státað af því.
Hér sit ég og berst við að semja þér ljóð
og sum verða afleit og alls engin góð.
Því stórlega fátt sæmir stúlku sem þér
stúlku, sem af öllum öðrum svo ber.
Samt mun ég seint hætta að reyna.
Og einstaka sinnum ég hugdettu hlýt
en hugdettan fer, svo ég blýantinn brýt.
Ég finn að í hjartanu býr ást mín og þrá
þótt engu mér takist úr höfðinu að ná.
Þú veist kannski vel hvað ég meina.
Ég reyni að hugsa um stund mína og stað
og stundum tek pásu - læt renna í bað.
Og frasarnir myndast og fara á stjá,
en fannhvítur pappírinn bægir þeim frá.
Mér líst ekkert á þetta lengur.
Og stundum er bölsýnin bankar á dyr
ég blóta í hljóði og sjálfan mig spyr:
Hví get ég ei skrifað eitt skaðræðisljóð,
er skáldgáfan horfin í gleymskunnar flóð?
Er slitinn minn ljóðræni strengur?
Sorgbitinn arka ég örk minni frá
og aldrei mun framar með ljóðlínum tjá
ástina ljúfu sem brjóstið mitt ber,
en barnslega hjartað mitt slær handa þér.
Það hvorki er úr steini né stáli.
En jafnvel þótt ljólistin læðist á brott
mun lífið halda áfram jafnindælt og gott.
Ég ber ennþá innanbrjósts örlitla þrá
og ást sem ég láta mun héðan í frá
óma í óbundnu máli.
SDJ febrúar 2008.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.2.2008 | 00:12
Ljóð eftir frænda
Rammgerður miðbæjarróni e. Steindór Dan Jensen
Maður einn stendur og stynur
því stöku sinn yfir hann dynur
þráhyggjupest
svo þunglyndið sést.
Hann telst vera vínandans vinur.
Ómar nú öllarans strengur
er æpandi maðurinn gengur.
Hann labbar á hurð
og hrapar í skurð,
hinn óheppni aumingjans drengur.
Og sumir, þeir segja að hann sé dóni,
að söngur hans valdi öllum tjóni.
Það kann vera satt
að hann skuldi smá skatt
enda rammgerður miðbæjarróni
20.2.2008 | 23:17
Gervisætuefni fitandi !
Í morgunblaðinu í gær kom fram að vísindamönnum í Bretlandi hafi tekist að sína fram á gervisætuefni geti verið fitandi. "Gerð var rannsókn á rottum sem látnar voru borða jógúrt og sýndi það sig að þær rottur sem fengu jógúrt með gervisætu borðuðu meira og þyngdust þar af leiðandi meira en þær rottur sem fengu venjulega jógúrt."
Eins og vinir mínir vita þá hef ég lengi haldið því fram að sætuefni, sykurlausir drykkir og fleira þess háttar geti jafnvel leitt til offitu.
Ég hef því miður aldrei haft neinar rannsóknir eða annað slíkt til að styðja við þessa tilgátu mína. Engu að síður gerðist ég nú svo djörf að setja fram hugleiðingar í þessa veru í grein í Blaðinu í byrjun mars árið 2006. Hér er hluti þeirrar greinar:
"Hugleiðingar
Ég velti því oft fyrir mér hvort það að neyta fituskertrar og sykurlausrar fæðu sé lausnin gegn offitu. Er það ekki einmitt þannig að ef við borðum einungis sykurskert eða sykurlaust og fitusnautt þá þurfum við meira magn til þess að fullnægja þörf líkamans fyrir orku. Getur verið að þessi orku/næringarlausi matur geti haft áhrif á það að við síðan "dettum í það"? Hlaupum út í sjoppu á kvöldin og borðum svo yfir okkur af sælgæti eða öðrum sætindum fyrir framan sjónvarpið. Getur verið að það sé köllun líkamans á næringu vegna þess að hann hafi einfaldlega ekki fengið næga orku yfir daginn? Ég skal ekki segja hvort það sé svo, ég hef engar rannsóknir til þess að styðja þessar hugleiðingar mínar. Það er þó alveg öruggt að fersk matvara er hollari en unnin og við ættum að reyna eftir fremsta megni að nota eins mikið af fersku hráefni og við mögulega getum. "
Það er vert að velta þessu fyrir sér, svo mikið er víst
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
5.2.2008 | 18:25
Húsin við Laugaveg
Húsin við Laugaveg voru til umfjöllunar í Borgarstjórn í dag. Ég er því miður ekki á þeim fundi (er erlendis, en fundurinn stendur enn) og gat því ekki látið í mér heyra en ákvað að setja hér inn nokkrar hugleiðingar.
Við tókum ákvörðun um að kaupa þessi hús og hafa skipulagið í okkar höndum. Talað er um að verðið hafi verið of hátt.
En hvaða möguleikar voru það sem við stóðum frammi fyrir?
- Kaupa húsin.
- Láta byggja þarna fjögurra hæða hótel, nema hvað það var þegar búið að biðja um friðun.
- Vona að menntamálaráðherra friðaði húsin og tæki svo allan kostnaðinn af því á ríkið.
Hvernig ætlaði Dagur B. Eggertsson og hans fylgisveinar og meyjar að komast hjá því að greiða fyrir þessi hús? Með því að láta byggja þarna fjögurra hæða hótel. Hótel upp á 12,5 metra eins og Dagur sagði sjálfur í útvarpsviðtali hjá Hjálmari á Rás 1 á laugardaginn. Við getum verið ánægð með okkur að hafa gengið svo vasklega fram í þessu máli og tekið ákvörðun sem þurfti að taka fljótt um það að kaupa húsin. Ákvörðun sem fyrrverandi meirihluti gat ekki tekið og gerði ekkert í þá hundrað daga sem þau voru í meirihluta. Þó vissu þau sem var að innan þess meirihluta voru einstaklingar sem höfðu lagt metnað sinn í að vernda 19 aldar götumynd Laugavegar um margra ára skeið. Við höfðum semsagt þann möguleika að fá þarna fjögurra hæða hótelbyggingu.
Annar kostur okkar í stöðunni var að húsin yrðu friðuð af Menntamálaráðherra og þar með mætti engu breyta. Það hefði þýtt að ekki mætti byggja við húsin inn í bakgarðinn, ekki mætti breyta neinu í sjálfu sér, ekki einu sinni úr einföldu gleri í tvöfalt. Allar breytingar þyrftu að fara fyrir húsafriðunarnefnd og svo framvegis. Það eru allir sammála um það að gera þurfi breytingar á húsunum til þess að í þeim geti þrifist verslanir eða annar rekstur sem við viljum gjarnan hafa svo miðsvæðis. Friðun hefði þítt að húsin hefðu þurft að halda sér í þeirri mynd sem þau eru þ.e. útlit þeirra og umhverfi, en gera hefði mátt breytingar innanstokks.
Ég bloggaði um þetta hér fyrir nokkrum vikum síðan þar sem ég kom einmitt inn á það hvað þessi hús skiptu litlu máli en aftur á móti hvað götumyndin væri mikilvæg. 12.5 metra bygging er ansi há bygging og ekki vafi á því að svo há bygging skyggir á sólargeislana og takmarkar þá verulega.
Segjum svo að Menntamálaráðherra hefði friðað húsin. Þá hefði svo sannarlega þurft að greiða skaðabætur, sennilega upp á mun hærri upphæð en þá sem greidd var. Ekki hefði verið nokkur möguleiki á því að stækka húsin og ná fram auknu byggingarmagni þarna og selja svo aftur, vonandi með hagnaði.
Dagur B. Eggertsson segir okkur hafa greitt allt of hátt verð og heldur því fram að auðvitað hefðum við átt að láta ríkið greiða friðunina. Hvort sem Reykjavíkurborg eða ríkið greiðir þá skulum við ekki gleyma því að allt kemur þetta jú úr vösum skattgreiðenda á endanum.
Hver veit nema við fáum til baka við sölu húsanna þann helming sem landsbyggðin hefði annars greitt.....?
Miklu sanngjarnara og betra. Við munum skipuleggja þetta svæði skemmtilega í anda 19. aldarinnar og þarna munu verða hús til langrar framtíðar sem við getum verið ánægð með. Þar sem flottustu verslanir bæjarins munu vilja vera. Þar sem sólin mun ná að senda geisla sína niður á Laugaveginn og ylja okkur um ókomna tíð.
3.2.2008 | 23:15
Árshátíð Velferðarsviðs
Árshátíð Velferðarsviðs var haldin í gærkvöldi í stóra salnum upp á Gullhömrum. Mættir voru hátt í 400 gestir og er langt síðan ég hef skemmt mér jafn vel á svo stórri samkomu.
Þema kvöldsins var Eurovision eða Velferðarvision og öll skemmtiatriði voru heimatilbúin. Veislustjórnin og skipulag allt var í höndum skemmtinefndar sem var skipuð úrvalsfólki frá öllum þjónustumiðstöðvunum, aðalskrifstofu og Barnavernd Reykjavíkur. En auk þess að skipa fulltrúa í skemmtinefnd þurftu allir þessir staðir að senda inn lag í Velferðarvision. Lögin voru svo ýmist "mæmuð", eða sungin með heimatilbúnum texta og það var jafnvel svo að eitt lagið var spilað og sungið á staðnum.
Það er langt síðan ég hef skemmt mér jafnvel á svo stórri skemmtun, enda óspart gert grín að pólitíkinni og greinilegt að borgarmálin voru fólki ofarlega í huga fólks (skal engan undra)
Björk Vilhelmsdóttir fyrrverandi formaður Velferðarráðs mætti með breyttan texta við lagið Tvær úr tungunum og sungum við það saman við mikinn fögnuð. Ekki leiðinlegt að syngja fyrir svo mikinn fjölda fólks og ég tala nú ekki um þar sem það gekk nú bara sæmilega hjá okkur. Góð hugmynd Björk Nauðsynlegt að geta haft gaman af því að vera til og geta gert grín að sjálfum sér í þessum dansi sem á undan er genginn.
Ég held svei mér þá að fólk hafi haft gaman af því að sjá okkur tvær fyrrverandi og núverandi formenn Velferðarráðs sungja saman með þessum hætti. Velferðarmál eru að stórum hluta þverpólitísk og nauðsynlegt fyrir bæði meirihluta og minnihluta að geta unnið vel saman að framgangi velferðarmála.
Takk fyrir góða skemmtun kæru starfsmenn Velferðarsviðs. Við hjónin látum okkur ekki vanta á árshátíð hjá ykkur á meðan okkur stendur til boða að mæta.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.1.2008 | 23:19
Þýðing á framleiðsluaðferðinni
Hraðkælieldhús er ákveðin aðferð við að framleiða mat með svokallaðri "cook-chill" aðferð, mætti hugsanlega þýða kokka-kæla.
Rannsóknir sýna að með því að elda matinn og kæla hann hratt niður haldist næringargildi og bragðgæði matarins mun betur. Velferðarsvið er með stórt framleiðslueldhús á Lindargötu og sendir út yfir 300 matarskammta á dag. Nú er verið að skoða hvort megi með þessari aðferð ná meiri gæðum og auka og bæta þjónustu við einstaklingana.
Mér finnst þetta afar spennandi og finnst mikilvægt að við skoðum allar mögulegar leiðir til þess að auka gæði, fjölbreytni og þjónustu.
Ég vil hér með óska eftir góðri þýðingu á "cook-chill" framleiðsluaðferðinni. Endilega komið með góðar hugmyndir
Stjórnmál og samfélag | Breytt 3.2.2008 kl. 22:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
29.1.2008 | 00:07
Eins og að hafa farið í langt frí
Síðustu dagar hafa verið undarlegir svo ekki sé meira sagt. Fyrst ber að nefna þá ákvörðun að mynda nýjan meirihluta með F-listanum. Það var ekki erfið ákvörðun, enda ég svo sem búin að vera þess fullviss lengi að Rey-listinn yrði ekki langlífur. Við eigum mikla samleið með Ólafi og F-listanum, enda Ólafur gamall flokksbróðir okkar og félagi. Eðlilega þurfti að miðla málum, en það var ekki erfitt að setja niður málefnasamning og eftir honum munum við starfa. Ég er ánægð með þessa ákvörðun okkar og er fullviss um að hún er farsæl fyrir borgarbúa.
Fimmtudagurinn 25. janúar verður lengi í minnum hafður, enda ætlaði hér allt um koll að keyra. Sem betur fer stóðu allir heilir eftir þann dag og eru nú leikar farnir að róast. Við borgarfulltrúar sem tókum við formennsku í nefndum og ráðum erum nú að setja okkur aftur inn í störfin á sviðunum og verð ég að segja fyrir mína parta að það er ekki erfitt, eins og að koma aftur úr löngu fríi.
Starfsmenn eiga ekki sjö dagana sæla þegar svona breytingar ganga yfir og skiptir miklu máli fyrir sviðstjóra að við göngum aftur til starfa í okkar gömlu ráð og tökum aftur upp þráðinn þar sem frá var horfið.
Við gengum í gegnum erfiðan tíma hér síðastliðið haust. Ég er þess fullviss að sú kúvending sem þá varð hafi verið sviðsstjórum og öðru starfsfólki mun erfiðari en að fá okkur aftur nú erftir svo skamman tíma sem raun ber vitni. Það er mikilvægt að við sköpum hér festu og ró í borgarkerfinu og vonandi tekst okkur fljótt og vel að vinna aftur traust borgarbúa. Við vonumst til að verða metin af verkum okkar, við munum halda áfram þaðan sem frá var horfið og láta verkin tala.
20.1.2008 | 12:30
Meirihlutamoð
Nú allt í einu vaknar Formaður skipulagsráðs (Svandís) af þyrnirósarsvefninum og skellir því fram í Morgunblaðinu síðastliðinn mánudag að enginn pólitíkus sé merkilegri en húsin við Laugaveg 4 og 6. Hvað þýðir það? Það var ekki að heyra á málflutningi hennar í borgarstjórn daginn eftir að þessi orð hefðu yfirleitt einhverja merkingu. Þau ætla að styðja ákvörðun menntamálaráðherra ef ráðherrann ákveður að friða húsin. "What else is new". Núverandi meirihluti getur ekki komið sér saman í þessu máli enda skoðanir þeirra svo ólíkar að engin leið er fyrir þau að sameinast um annað en það að menntamálaráðherra friði húsin. Menntamálaráðherra skeri þau úr snörunni.
Ætlar núverandi meirihluti að láta það gerast að menntamálaráðherra staðfesti friðun og ekkert verði hægt að vinna með skipulag þessara húsa frekar. Svandís Svavarsdóttir staðfesti í borgarstjórn að ríkið greiði skaðabæturnar ef af friðun verður, borgin ætli ekki að koma að því. Þau eru sem sagt ekki tilbúinn til þess að leggja neitt af mörkum. Þau hin sömu og lögðu til að borgin festi kaup á húsunum - fyrir fjórum mánuðum síðan.Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:32 | Slóð | Facebook
16.1.2008 | 10:16
Tillögur okkar ekki sýndarfrumkvæði
Björk Vilhelmsdóttir talar um sýndarfrumkvæði Sjálfstæðismanna í grein í morgunblaðinu síðastliðinn sunnudag þar sem hún gerir lítið úr tillögum sem við Sjálfstæðismenn í Velferðarráði fluttum í desember. Ég verð að lýsa undrun minni yfir skrifum hennar.
Þetta er leið okkar til að leggja fram þær tillögur sem við höfum trú á að virki til úrbóta í félagslega leiguíbúðakerfinu. Við teljum þessar þrjár tillögur vera til hagsbóta fyrir alla.
Í fyrsta lagi þá hefur ekki komið fram nein tillaga af hálfu Samfylkingar um það að fjölga leiguíbúðum.
Í öðru lagi þá hefur ekki komið fram tillaga um það að sameina félagslega leiguíbúðakerfið á höfuðborgarsvæðinu öllu. Tillaga okkar er af allt öðrum toga en að Félagsbústaðir kaupi íbúðir í öðrum sveitarfélögum.
Í þriðja lagi hvað varðar það að breyta niðurgreiðslum í félagslega leiguíbúðakerfinu úr óbeinum niðurgreiðslum í persónubundinn stuðning er þetta að segja. Það er rétt að það hafði verið skoðað af R-listanum á sínum tíma, en það var ekkert gert frekar með það og virtist ekki pólitískur vilji til þess að fara þá leið á sínum tíma. Hvort það er vilji til þess nú á enda alveg eftir að koma í ljós, auk þess sem og hvort þær tillögur sem munu koma fram verði þess eðlis að við munum styðja þær.
Við tókum þessa vinnu upp um leið og við tókum við stjórn Velferðarmála í borginni. Vinnan var afar skammt á veg komin og var starfshópur því settur í gang til að útfæra hugmyndir og tillögur að þessum breytingum. Sú vinna tók marga mánuði, en við vorum klár með tillögur þegar núverandi meirihluti komst til valda.
Það kann vel að vera að Björk Vilhelmsdóttur þyki Sjálfstæðisflokkur sýna sýndarfrumkvæði en þá held ég að henni væri nær að líta í eigin barm og kasta ekki steinum úr glerhúsi.
Henni ætti að vera fullljóst að Sjálfstæðisflokkur hefur haft frumkvæði að mörgum framfaraskrefum í velferðarmálum. Til að mynda því að byggja hér þjónustuíbúðir og þjónustumiðstöðvar fyrir eldri borgara, gera samning um forvarnir fyrir eldri borgara, gera breytingar á íbúðum fyrir aldraða, grænni heimaþjónustu og fleira mætti telja. Eflaust gæti Björk rakið dæmi um frumkvæði Samfylkingar, en mér finnst svona umræða ekki vera okkur samboðin. Oftar en ekki verða hugmyndir til á fjölmennum fundum eða í umræðum manna í millum. Það hélt ég að við sem erum í pólitík vissum manna best.
Ég sat í starfshópi á vegum Félagsmálaráðuneytisins sem ætlaði að koma með tillögur að úrbótum í félagslega leiguíbúðakerfinu. Þegar ég sat í þeim hópi stóð til að við skiluðum tillögum um mánaðamótin október/nóvember og vildi ég gjarnan klára þá vinnu eftir að nýr meirihluti tók svo skyndilega við í Reykjavík sem raunin varð á. Björk vildi hins vegar taka við þeirri vinnu og skiptum við því um sæti í þeim starfshóp áður en hópurinn skilaði af sér áfangaskýrslu sem von var á innann skamms. Það var staðan þegar ég sat þar minn síðasta fund í starfshópi Félagsmálaráðuneytisins, síðan eru liðnir nærri þrír mánuðir og ekki bólar enn á tillögum þaðan.
Tillögur okkar Sjálfstæðismanna í Velferðarráði eru raunhæfar og raunverulegar tillögur til úrbóta í Félagslega leiguíbúðakerfinu, og þær eru ekki neitt sýndarfrumkvæði.
Þessi grein birtist í morgunblaðinu 15.1.2007
Stjórnmál og samfélag | Breytt 20.1.2008 kl. 11:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.1.2008 | 23:39
Tillögur að úrbótum í Félagslega leiguíbúðakerfinu
Við sjálfstæðismenn í Velferðarráði lögðum fram þrjár tillögur að breytingum í Félagslega leiguíbúðakerfinu þann 12. desember síðastliðinn. Tillögunum var frestað en þær verða vonandi afgreiddar á jákvæðan hátt á næsta fundi ráðsins þan 23. þessa mánaðar.
1. Félagsbústaðir kaupi 150 íbúðir á ári í stað 100
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í Velferðarráði leggja til að Velferðarráð beini því til Borgarráðs að Félagsbústaðir kaupi og byggi samtals 150 íbúðir á ári næstu 3 árin í stað 100 sem þegar hefur verið ákveðið.
Greinagerð:
Í ljósi þess að lítið hefur gengið á biðlista eftir félagslegu leiguhúsnæði í Reykjavík og þörfin jafn gríðarleg og raun ber vitni leggjum við til að fjölga enn frekar íbúðum Félagsbústaða. Þrátt fyrir að ákveðið hafi verið í fyrrverandi meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks að fjölga íbúðum félagsbústaða um 100 á ári hefur það ekki dugað til þess að mæta þeirri gríðarlegu þörf eftir félagslegu leiguhúsnæði. Því teljum við nauðsynlegt að fjölga enn frekar og leggjum til fjölgun í 150 íbúðir á ári næstu 3 árin.
Þessi fjölgun er liður í því að mæta sem fyrst mikilli þörf fyrir félagslegt húsnæði. Auk þess er mikilvægt að gripið verði til enn frekari aðgerða til að draga úr vanda hundruða einstaklinga og fjölskyldna og er hvatt til þess að aðgerðum í þessum efnum, sem unnið er að á vegum félagsmálaráðuneytisins, verði hraðað sem mest.
Kostnað vegna þessa má áætla krónur 37.5 miljónir á ári og leggjum við til að kostnaður vegna ársins 2008 verði tekinn af liðnum "Aðgerðir í húsnæðismálum" á bls. 55 í frumvarpi um fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2008, en þar er gert ráð fyrir 270 milljónum króna í aðgerðir í húsnæðismálum.
2. Formlegar viðræður sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í Velferðarráði leggja til að Velferðaráð beini því til borgarráðs að farið verði í formlegar viðræður við önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu um að efla samstarf sveitarfélaganna á þessum vettvangi með það að markmiði að félagslega leiguíbúðakerfið verði sameiginlegt fyrir allt höfuðborgarsvæðið.
Greinagerð:
Höfuðborgarsvæðið er eitt búsetu og atvinnusvæði og því nauðsynlegt að skoða það að breyta félagslega leiguíbúðarkerfinu m.t.t. þess. Það er alger óþarfi að girða fólk inni vegna þess að það þurfi á félagslegum stuðningi að halda og mikilvægt að fólk geti flutt milli sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu eftir því hvernig það hentar hverju sinni. Formlegar viðræður milli sveitarfélaga höfuðborgarsvæðisins með þetta að markmiði eru mikilvægur þáttur í frelsi einstaklinganna til ákvörðunar eigin búsetu.
3. Einstaklingsbundnar niðurgreiðslur
Lagt er til að niðurgreiðslur vegna félagslegs leiguhúsnæðis verði endurskoðaðar með það að markmiði að breyta óbeinum niðurgreiðslum Reykjavíkurborgar á húsaleigu í íbúðum Félagsbústaða hf. í persónubundinn stuðning við þá leigjendur sem búa í íbúðunum á hverjum tíma
Greinagerð:
Með því að breyta óbeinum niðurgreiðslum Reykjavíkurborgar á húsaleigu í íbúðum Félagsbústaða hf. í persónubundinn stuðning verður stuðningur við leigjendur með hliðsjón af einstaklingsbundnum aðstæðum hverju sinni.
Þannig verður stuðningur bundinn við einstaklinga en ekki íbúðir. Stuðningurinn ætti þannig að dreifast með sanngjarnari hætti og stuðningur við leigjendur að vera skilvirkari, fjárhagslegur stuðningur fer minnkandi eftir því sem aðstæður batna. Með þessu móti næst fram betri nýting á leiguhúsnæði Félagsbústaða, meira samræmi ætti að vera milli fjölskyldustærðar og íbúðastærðar en nú er og síðast en ekki síst gæti þetta skapað aukinn hvata fyrir leigjendur að leita annarra húsnæðislausna.
10.1.2008 | 12:31
Þjóðarsátt um tillitssemi
Ég las Morgunblaðið spjaldanna á milli í morgun eins flesta morgna þessa dagana. Þar sá ég góða grein eftir Einar Kárason, rithöfund. Greinin var ekki stór en sagði svo margt. Þar var hann að fjalla um það hvernig fjölskyldur þeirra sem í forystunni eru verða fyrir hreinlega "aðkasti" vegna þess að vera nátengd þeim sem í eldlínunni standa. Tekur hann þar dæmi um Þorstein Davíðsson sem varla er nefndur öðruvísi en að hnýtt sé aftan við að hann sé sonur Davíðs Oddssonar og auk þess tekur hann dæmi af því að reynt hafi verið að gera þýðingarstörf Hjörleifs Sveinbjörnssonar tortryggileg vegna þess að hann væri eiginmaður Ingibjargar Sólrúnar. Einar leggur til að við sammælumst um það að láta fjölskyldur þjóðþekktra persóna í friði og vill hann þjóðarsátt um það.
Ég styð það að við gerum með okkur þjóðarsátt um að sýna fjölskyldum þeirra sem í eldlínunni standa ákveðna tillitssemi.
9.1.2008 | 16:57
Heilsuhagfræði - loksins
Jæja þá er ég loksins að byrja í kúrs sem ég hef hreinlega beðið eftir.
Mig hefur lengi langað til að fræðast um heilsuhagfræði. Hvert er sambandið milli heilsu og fjárhagslegrar stöðu. Hef reyndar löngum vitað að það sé bæði jákvætt samband milli þess að hafa lítið á milli handanna og slæmrar heilsu, en jafnframt að jákvætt samband sé milli þess að eiga mikið af peningum og slæmrar heilsu. Nú mun ég fræðast enn frekar um þessi mál, lesa rannsóknir og hlýða á okkar helstu sérfræðinga og einn fremsta prófessor á þessu sviði í heiminum, Prófessor Michael Grossman Ph.D.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
8.1.2008 | 23:50
Verndun húsa og götumynda
Ég byrjaði að spá mikið í skipulagsmál og miðbæjarskipulagið eftir að ég varð borgarfulltrúi. Ég stýrði búsetuuppbyggingu fyrir aldraða og af þeim sökum var nauðsynlegt að kortleggja hverfin, þjónustuna sem þar var að finna og sjá hvar væri mest þörf fyrir aukna þjónustu við eldri borgara og hvar hentugast væri að setja niður þjónustuíbúðir fyrir eldri borgara o.s.frv.
Þann tíma sem við vorum í meirihluta voru skipulagsmál mikið inni á borði okkar þó ekki sæti ég í skipulagsráði. Mér fannst ég þurfa að setja mig inn í skipulagsmálin, hverfaskiptingu, samgöngur milli hverfa og ekki síst ásjónu borgarinnar og miðbæjarins.
Það er einmitt um ásjónu miðbæjarins sem mig langar að fjalla sérstaklega hér. Hvað er miðbær án sögu og hvernig er best að vernda sögu hans?
Á fund okkar í fyrrverandi meirihluta kom mikill áhugamaður um miðbæjarskipulag, Sigmundur D. Gunnlaugsson. Það var alveg frábært að fá tækifæri til að heyra hvað hann hafði að segja og verð ég að segja að það hafði veruleg áhrif á mig. Hann kynnti fyrir okkur rannsókn sína á efnahagslegum og samfélagslegum áhrifum aðlaðandi borgarumhverfis. Þar fór hann yfir uppbyggingu og áhrif hennar á hina ýmsu miðbæi í Evrópu eftir heimstyrjöldina síðari.
Mér fannst vægast sagt áhugavert að sjá þar svart á hvítu hvað miðbæir sem höfðu verið byggðir upp í upprunalegum og gömlum stíl virtust draga að sér fólk og þar af leiðandi frekari uppbyggingu og hvað miðbæir sem höfðu fengið að halda sinni sögu og sínum gamla stíl höfðu samkvæmt hans niðurstöðu orðið miklu meira lifandi og efnahagslega og samfélagslega betri en þeir sem byggðir voru upp í nýjum stíl. Það hafði hreinlega orðið fólksflótti úr bæjum sem byggðir höfðu verið upp í nýtísku stíl með stórum verslunar- og skrifstofubyggingum. En auðvitað er það ekkert algilt og dæmi um að það hafi gengið vel.
Þegar við vorum þarna að ræða þessi mál, varð mér hugsað til borga eins og Pragh og ekki síður til þess hvað það er gaman að ganga um í Gamle Stan í Stokkhólmi og gamla bænum í Hamborg á sama tíma og maður hefur lítið yndi af því að rölta milli stórra molla í nýja miðbæ Stokkhólms og eftir stórum verslunargötum Hamborgar.
Ég get alveg sagt það að mér hafði ekki þótt neitt sérlega mikið til þessara húsa koma númer 4 og 6 við Laugaveg og þykir í sjálfu sér ekki enn. Hitt er annað að út frá þeirri hugsun að vernda ásjónu þessa hluta Laugavegarins og götumyndarinnar þar finnst mér koma til greina að vernda þessi hús þar sem þau eru. Það að ætla að flytja þau eitthvað annað hefur hins vegar ekki sama gildi í mínum huga.
Ég held við eigum að fara varlega í að breyta miðbænum okkar mikið. Þegar búið er að gera upp hús geta þau svo sannarlega verið okkur til mikillar prýði. Hvað varðar hæð húsa við Laugaveg þá skiptir miklu máli að hafa húsin sunnan götu lágreistari svo sólin nái í gegn. Við þekkjum það öll sem höfum búið í Reykjavík og gengið laugaveginn að við göngum gjarnan norðanmegin því þangað nær sólin. Húsin norðan megin veita skjól fyrir norðanáttinni og mega því vera hærri.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 14.1.2008 kl. 15:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
8.1.2008 | 11:50
Okkar verk í Reykjavík
Já nú á blaðið okkar að hafa borist inn á öll heimili í Reykjavík.
Ég hef verið spurð að því í morgun hvort við séum komin á fullt í kosningabaráttu og hvort ég sé í framboði. Eflaust má svara báðum spruningum játandi, en það var þó ekki aðal hugsunin með útgáfu þessa blaðs. Okkur fannst við einfaldlega þurfa að koma þessum upplýsingum til Reykvíkinga og ekki síst Sjálfstæðismanna.
Í blaðinu rekjum við það sem við náðum að koma í verk á þeim 16 mánuðum sem við vorum við stjórnartaumana í borgarstjórn Reykjavíkur. Jafnframt rekjum við þau verk sem þegar voru í farvatninu og við vorum að vinna að. Það er að mínu mati alveg með ólíkindum hverju við náðum að koma í framkvæmd á þessum stutta tíma. Við fórum af stað með því hugarfari að hugsa stórt horfa langt og byrja strax og það má svo sannarlega segja að það höfum við gert.
Vonandi fáum við annað tækifæri til þess að halda áfram með öll okkar góðu verk, við erum allavega ákveðin í því að vinna áfram í þágu borgarbúa hér eftir sem hingað til þó í minnihluta séum.
Það var reiðarslag að missa svona meirihluta og sjá á eftir öllum þeim fjölmörgu málum sem við vorum með í gangi. Ég hef velt því fyrir mér hvort ég vilji yfirleitt vera áfram í stjórnmálum? Hvort ég hafi áhuga á því að vinna í svona umhverfi? Er hægt að vera heiðarlegur og samkvæmur sjálfum sér? Fyrri tveimur spurningunum hef ég þegar svarað játandi ég ætla að vera áfram, ég hef einfaldlega brennandi áhuga og það sem meira er að mér finnst ég hafa heilmikið fram að færa og er þess fullviss að ég geti látið gott af mér leiða.
Hvað varðar síðustu spurninguna þá hefur mér tekist það hingað til og mér mun takast það áfram.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
3.1.2008 | 00:45
Gleðilegt ár 2008
Árið 2008 er nú byrjað og þegar kominn þriðji janúar. Tíminn líður svo hratt og samt hef ég "ekkert" að gera....
Einhver sagði mér að þegar það væri orðið þannig að manni þættu alltaf vera jól þá væri maður farinn að eldast. Mér finnst ég ekkert vera farin að eldast, skrítið samt hvað börnin mín eru að verða stór, en þó finnst mér orðið ansi stutt á milli jóla.
Ég hlustaði á skoðanir fólks á skaupinu í útvarpinu í gær þar sem fólk hringdi inn á og tjáði skoðun sína. Það voru skiptar skoðanir, sumum fannst það alger snilld á meðan aðrir voru hundóánægðir, sennilega eru það einmitt viðbrögðin sem framleiðendur vilja fá. Persónulega var ég ánægð með ádeiluna á afstöðu okkar íslendinga til ýmissa mála, en að sama skapi pirraði mig hvað stór hluti skaupsins fór í það. Þó er alveg ljóst að ég og mín fjölskylda hlógum ekki mikið og þó sátum við yfir tuttugu saman, kannski "húmor"gen fjölskyldunnar sé einfaldlega ekki nógu virkt um þessar mundir, hver veit?
Ég hef alltaf litið svo á að nýtt ár feli í sér ný tækifæri og það á ekki síður við núna. Stormasamt ár er að baki og næstum heilt ár framundan með fullt af nýjum tækifærum. Það er langt síðan ég hef haft jafn mikinn tíma og eftir að við lentum í minnihluta í borgarstjórninni. Ég á eftir að finna mér ný verkefni til að takast á við og vonast til að geta gert góða hluti, hér eftir sem hingað til.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
18.12.2007 | 12:27
Velferðarmál í öndvegi
Á þeim 16 mánuðum sem við sjálfstæðismenn vorum í meirihluta í Reykjavík sátum við ekki aðgerðalaus. Ég stýrði skútunni í velferðarmálum og málefnum aldraðra og beitti mér fyrir því að mörg okkar góðu verk urðu að veruleika. Eftir á að hyggja hefði ég svo sannarlega flýtt mér meira eða forgangsraðað örðuvísi ef ég hefði vitað að okkar atrenna yrði svona stutt, í þetta skiptið. Mér finnst nauðsynlegt að Reykvíkingar viti af okkar góðu verkum.
Þetta gerðum við meðal annars:
- Við sömdum við Hrafnistu og Eir um byggingu og rekstur þjónustu- og öryggisíbúða ásamt þjónustumiðstöðvum fyrir eldri borgara í Spöng og við Sléttuveg.
- Við tókum ákvörðun um byggingu Menningarmiðstöðvar í Spöng.
- Við unnum að því að fólk gæti búið sem lengst heima með því að innleiða öryggissíma, gera breytingar á íbúðum, fara af stað með fyrirbyggjandi heimsóknir fyrir 80 ára og eldri, bjóða græna heimaþjónustu og auka kvöld og helgarþjónustu. Við gerðum rannsókn á högum og líðan aldraðra Reykvíkinga og við bættum akstursþjónustu fyrir aldraða.
- Skipaður var starfshópur um skilgreiningu þjónustu- og öryggisíbúða.
- Við sendum upplýsingabækling heim til allra eldri borgara með upplýsingum um þjónustu sem þeir geta nýtt sér bæði á grundvelli borgarinnar í heild og eftir hverfum.
- Við lögðum áherslu á forvarnarstarf með auknu fjármagni til forvarnarmála og settum af stað starfshóp til að innleiða forvarnarstefnuna á stofnunum borgarinnar.
- Við hugsuðum vel um heimilislausa í Reykjavík. Við unnum að stefnumótun í málefnum utangarðsfólks af báðum kynjum. Við tryggðum rekstur Konukots með samningi við Rauða Kross Íslands. Við hófum smíði sérhannaðra gámahúsa fyrir heimilislausa. Við sömdum við Samhjálp um rekstur Gistiskýlisins og opnuðum nýtt heimili fyrir heimilislausa karlmenn.
- Við lögðum mikla áherslu á endurhæfingu einstaklinga og settum aukið fjármagn í átaksverkefni af ýmsu tagi. Öll eiga þau það sameiginlegt að hjálpa fólki til sjálfshjálpar og aukinnar þátttöku í samfélaginu.
- Við bættum stórlega ferðaþjónustu fatlaðra með því setja á samdægurspöntun ferða og gjaldfrjálsa ferðaþjónustu fyrir fatlaða framhalds- og háskólanema.
- Þjónustumiðstöðvarnar voru færðar til Velferðarsviðs. Það var fyrst og fremst gert til þess að bæta þjónustu við notendur þjónustunnar, efla aðkomu þjónustumiðstöðva að kjörnum fulltrúum og gæta jafnræðis í þjónustunni.
- Ákveðið var að Barnavernd Reykjavíkur væri áfram sér stofnun og hún styrkt með fjölgun starfsmanna. Greiðslur með börnum í tímabundnu fóstri voru hækkaðar sem og greiðslur til stuðningsforeldra.
- Ákveðið var að félagsbústaðir keyptu 400 íbúðir á kjörtímabilinu í stað 200 íbúða eins og áður hafði staðið til. Unnið var að breytingum á óbeinum niðurgreiðslum á íbúðum Félagsbústaða í persónubundinn stuðning við leigjendur.
- Tekið var á móti hópi flóttafólks frá Kólumbíu sem að þessu sinni voru einstæðar mæður, börn þeirra og eitt barnabarn.
Við sjálfstæðismenn getum verið stolt af störfum okkar í þágu Reykvíkinga þann stutta tíma sem við höfðum. Vonandi eigum við eftir að fá annað tækifæri til að gera enn betur í þessum málaflokki sem og svo mörgum öðrum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
12.12.2007 | 10:06
Það var ýmislegt í farvatninu
Já ef og hefði, kannski á maður ekki að velta sér upp úr því sem hefði orðið ef við sjálfstæðismenn hefðum nú borið gæfu til þess að vera áfram í meirihluta í Reykjavík. Engu að síður langar mig að segja frá því sem var í pípunum hjá okkur í velferðarmálum, en sviptingar síðustu vikna komu í veg fyrir að við gætum klárað.
Átak í húsnæðismálum fyrir eldri borgara
Við höfðum þegar skipulagt íbúðir fyrir eldri borgara við Sléttuveg og úthlutað lóðum til Hrafnistu og Eirar. Við höfðum ákveðið byggingu þjónustumiðstöðvar við Sléttuveg og byggingu þjónustu- og menningarmiðstöðvar í Spöng. Auk þess voru í farvatninu uppbyggingarsvæði fyrir þjónustuíbúðir fyrir aldraða við Gerðuberg og við Skógarbæ í Mjódd. Þau tvö svæði voru langt komin í skipulagningu og stóð til að úthluta þeim til Félags eldri borgara ásamt byggingarfélagi fyrir lok þessa árs. Þannig vorum við sjálfstæðimenn í Reykjavík búin að leggja grunn að 350 þjónustu- og öryggisíbúðum.
Forvarnir fyrir aldraða
Við vorum tilbúin að skrifa undir samning við forvarnarhús Sjóvá um þjónustu við eldri Reykvíkinga. Markmið samningsins var:
Að vinna saman að öflugum forvörnum á sviði slysavarna aldraðra.
Auka þekkingu og reynslu þeirra einstaklinga sem vinna með aldraða hjá Reykjavíkurborg í slysavörnum.
Upplýsa og fræða eldri borgara um slysavarnir á heimilum og í umferðinni svo að þeir geti átt ánægjuleg efri ár.
Sameining heimahjúkrunar og heimaþjónustu
Viðræður við Heilbrigðisráðuneytið voru komnar vel á veg varðandi sameiningu heimahjúkrunar og heimaþjónustu. Niðurstaða okkar hefði vafalítið orðið sú að fara í tilraunarverkefni með að bjóða út sameiginlega þjónustu í tveimur hverfum borgarinnar. Ætlunin var að það tilraunaverkefni væri til eins árs og hefði það getað hafist á fyrsta ársfjórðungi næsta árs. Í framhaldi af því hefði svo næsta skref verið stigið í átt til enn frekari sameiningar í öllum hverfum borgarinnar. Með því að bjóða sameiginlega þjónustu út er auðvelt að fá þessi tvö kerfi til þess að vinna saman undir sameiginlegri stjórn. Með því móti sitja allir við sama borð og hjúkrunarheimili, þjónustumiðstöðvar, heilsugæslustöðvar, fyrirtæki og heimahjúkrun geta boðið í þjónustuna.
Heildarstefnumótun í málefnum utangarðsfólks
Allt að 60 manns eru taldir heimilislausir á hverjum tíma. Við tryggðum áframhaldandi rekstur Konukots og opnuðum heimili fyrir átta heimilislausa karlmenn. Við settum af stað tilraun með sérhannaðar gámaíbúðir fyrir heimilislausa sem ættu nú að vera tilbúnar. Þetta var þó aðeins liður í því að bæta þjónustuna við þennan hóp og gera allt sem í okkar valdi stendur til þess að endurhæfa þessa einstaklinga og virkja þá í samfélaginu. Við ákváðum auk alls þessa að móta heildarstefnu í málefnum utangarðsfólks af báðum kynjum og er sú vinna á lokastigi.
Átaksverkefni og forvarnir til uppbyggingar og sjálfstyrkingar
Við settum aukið fjármagn í átaksverkefni af ýmsu tagi. Við settum líka aukið fé í forvarnir og var þetta liður í því að efla einstaklinga og auka sjálfstraust þeirra og þátttöku í samfélaginu. Það er sannfæring mín að með virkum forvörnum og endurhæfingu megi fækka þeim sem þurfa á fjárhagsaðstoð að halda og auka lífsgæði einstaklinga og fjölskyldna í okkar ágæta samfélagi. Það er réttur hvers einstaklings að fá að taka þátt í samfélaginu, leggja sitt af mörkum og samfélagið hefur þörf fyrir alla.
Þessi grein birtist í Fréttablaðinu
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.12.2007 | 10:08
Nú er ég hissa
Það er sem sagt þannig að hingað eru nú þegar komnar erlendar mjólkandi kýr. Nú skil ég ekki alveg hvernig þetta mál er allt saman. Um daginn var ég að blogga hér um það að ég vilji fá íslenska mjólk og telji hann einfaldlega jafngóða og þá erlendu sem umræðurnar stóðu þá um. Nú er mér sagt og okkur landsmönnum öllum að þegar séu hér erlendar mjólkandi kýr. Hvers vegna var þá þessi umræða um daginn? Er munur á því hvort kúakynið er flutt inn til mjólkurframleiðslu eða kjötframleiðslu? Get ég flutt inn nýja fósturvísa og alið nautgripi til kjötframleiðslu án þess að um það sé sérstaklega fjallað? Hvers vegna get ég ekki einfaldlega fengið upplýsingar um hvaðan mjólkin sem ég kaupi kemur? Hvers vegna get ég ekki keypt lífraæna mjólk hér í ákveðnum verslunum? Hvers vegna get ég ekki..... ???
Það var skemmtilegt og fróðlegt viðtal í einhverju blaðinu um daginn, við Sigurð nokkurn sem búsettur er í New York og framleiðir þar Siggisskyr ef ég man rétt. Þar kom fram að í sveitum hér á árum áður hefðu bændur framleitt hver sína tegundina af skyri og hefði t.d. verið framleitt geitaskyr einhvers staðar. Þessi framleiðsla bændanna fjaraði því miður út og í dag framleiðir enginn neitt heima, eða allavega afar lítið.
Við þurfum að leita leiða til að efla innlenda framleiðslu og fjölbreytni í framleiðsluháttum. Hafa bændur ekki þekkingu í dag til þess að framleiða sína eigin osta og selja í næstu verslun, eða borgar sig ekki fyrir þá að standa í því að stunda eigin framleiðslu. Koma þeir vörunum sínum kannski ekki á framfæri?
Mig langar nú annars fyrst ég er nú byrjuð að blogga hérna að nefna frábært framtak hjónanna Ágústs Rúnarssonar og Ragnheiðar Jónsdóttur sem er fyrirtækið Njálunaut. www.njalunaut.is
Þetta stendur á vefsíðu fyrirtækisins:
"Nú er hægt er að panta nautakjöt beint frá bónda á vefnum. Opnaður hefur verið nýr vefur fyrir sölu og markaðssetningu á nautakjöti á netinu sem er nýjung á markaðnum. Njálunaut er nýtt fyrirtæki hjónanna Ágústs Rúnarssonar og Ragnheiðar Jónsdóttur en þau hafa stundað ræktun nautgripa um margra ára skeið."
Ég vona svo sannarlega að þessi nýjung gangi vel hjá þeim hjónum. Ég er allavega ákveðin í að nýta mér þessa nýjung í þjónustu við neytendur.
![]() |
Dæmi eru um að útlenskar kýr séu notaðar hér á landi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
16.11.2007 | 09:10
Aukaefni skal tilgreina í innihaldslýsingu
Jónína Þ. Stefánsdóttir matvælafræðingur skrifar um aukaefni í matvöru í Morgunblaðið í gær fimmtudag og vil ég vekja athygli á þeirri grein.
Þar sem ég er nú frekar tortryggin á aukaefni í matt þá hjó ég eftir einu í þessari grein sem mér finnst athyglisvert. Á einum stað er talað um að öll aukaefni fari í gegnum ítarlegt áhættumat með tilliti til áhrifa á heilsu fólks. Síðar í greininni er síðan talað um að EFSA sé að meta framkvæmd á athyglisverðri rannsókn sem gerð var í Bretlandi nýlega varðandi áhrif blöndu litarefna og rotvarnarefna á hegunarmynstur barna. Þetta fær mig til að hugsa um það hvort samspil ýmissa aukaefna í mat hafi verið áhættumetið nógu ítarlega og hvort við vitum yfirleitt nóg um samspil ýmissa efna og áhrif þeirra í ákveðnu samspili á heilsu okkar og líðan.
Við lærðum það fljótt að bland í poka væri eitthvað það versta nammi sem við gátum gefið börnunum okkar og mikið sælgæti í afmælum hleypir öllu í loft upp og er langbest að leysa börnin út með sælgætispoka en gefa þeim eitthvað annað á meðan á veislunni stendur.
Hafi framkvæmdin á rannsókninni í Bretlandi verið með eðlilegum hætti verður fróðlegt að sjá niðurstöðurnar. Niðurstöðu er að vænta frá EFSA í lok janúar.
Um bloggið
Jórunn Frímannsdóttir
Bloggvinir
- Auðbergur Daníel Gíslason
- Áslaug Friðriksdóttir
- Baldvin Jónsson
- Einar Vignir Einarsson
- Emil Örn Kristjánsson
- Ingólfur H Þorleifsson
- Guðrún Magnea Helgadóttir
- Herdís Sigurjónsdóttir
- Íbúasamtökin Betra Breiðholt
- Kjartan Pálmarsson
- Ólafur fannberg
- Stefán Friðrik Stefánsson
- Sigríður Jónsdóttir
- Vignir Bjarnason
- Vilborg G. Hansen
- Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir
- Vefritid
- Axel Jóhann Axelsson
- Ásta Hafberg S.
- Brosveitan - Pétur Reynisson
- Bryndís Haraldsdóttir
- Charles Robert Onken
- Einar B Bragason
- Erla Margrét Gunnarsdóttir
- Erlendur Örn Fjeldsted
- Eyþór Laxdal Arnalds
- Friðrik Hansen Guðmundsson
- Gísli Blöndal
- Gunnar Gunnarsson
- Helgi Kr. Sigmundsson
- Hilmar Gunnlaugsson
- Hjalti Sigurðarson
- Jóhann Pétur
- Jón Daníelsson
- Jón Magnússon
- Jón Ríkharðsson
- Kjartan Magnússon
- Kristín Magdalena Ágústsdóttir
- Mál 214
- Natan Kolbeinsson
- Pjetur Stefánsson
- Sigurður Sigurðsson
- Sigurður Þórðarson
- Stefán Helgi Valsson
- Theodór Bender
- Vilhjálmur Árnason
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (5.9.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 7
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 6
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar