Ósátt við nýjan meirihluta

Auðvitað vil ég borgarbúum allt það besta og vona því okkar allra vegna að nýjum meirihluta gangi vel að stjórna borginni.  Að þau haldi vel á fjármálum borgarinnar og vinni áfram að þeim góðu málum sem við vorum að vinna að.  Það breytir því samt ekki að ég er ósátt við nýjan meirihluta.  Mér líður eins og framið hafi verið valdarán í Reykjavík. 

Hvernig getur þetta nýja "þagnar"bandalag verið við stjórn hér í borginni og tekið við með þessum hætti.  Ég get ekki ímyndað mér að þeim líði vel í dag eða gangi stolt til sinna starfa.  Það er ekkert til þess að vera stoltur af að taka við stjórn með þessum hætti.

Fólk hefur ekki um annað að tala en það hvað Dagur er hárprúður, síðan hvenær skipti það máli í pólitík.  Hvaða hárvörur notar nýr borgarstjóri !!!  Í alvöru, það eru hér að gerast grafalvarlegir hlutir í íslenskum stjórnmálum og fólk talar um hárgreiðslu nýs borgarstjóra. 


Getur MS ráðið þessu?

Ég spyr nú bara eins og fávís neytandi......

Geta bændur á austurlandi ekki tekið sig saman og sett sjálfir upp mjólkurbú á svæðinu.  Hvernig væri að fara í lífræna mjólkurframleiðslu eða brydda upp á öðrum nýjungum.  MS getur varla ráðið þessu alfarið.  Hættið að selja mjólk til MS, gerið eitthvað finnið nýja leið.  Mjólkurframleiðsla leggst annars af á austurlandi eins og hún gerði á vestfjörðum.  Það er bara ákveðið langt sem er réttlætanlegt að keyra mjólkina.  Ég er nokkuð viss um að austfirðingar vilja frekar kaupa mjólk sem unnin verður áfram á austurlandi. 

 

Ég vona svo sannarlega að áfram verði framleidd mjólk um allt land og því nær sem framleiðslan er neytandanum því betra og vonandi getum við einhvern daginn keypt einfaldlega af okkar bónda.  Því ekki það???


mbl.is Vegið að landbúnaði í heilum landsfjórðungi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Umhverfisvænt og vistvænt eða barnvænt

Það er svo margt skrítið Smile

Vetni leysir ekki orkuvanda heimsins samkvæmt eldsneytissérfræðingi.  En Jón Björn hjá Nýorku segir þó vetnið vera framtíðina og segir hann að bílaframleiðendur horfi enn til þess sem framtíðarorkugjafa, það gefur okkur vonir um að vetnið eigi framtíðina fyrir sér.

Annars getur maður alveg spurt sig hvað sé umhverfisvænt?  Nýjustu fréttir herma að gamli góði svelgurinn sé ef til vill ekki svo slæmur..... Það kom fram í grein sem ég las um daginn að gamli jeppinn sé ef til vill þegar allt er talið  (eyðsla, framleiðsluferli, ending ) umhverfisvænni en t.a.m. Toyota Prius, þrátt fyrir að eyða mun fleiri lítrum á hundraðið, það er einfaldlega svo margt annað sem spilar inn í.

Mig langar aðeins að leggja orð í belg varðandi leikskólana og mönnunarvandann þar.  Auðvitað er engin töfralausn á mönnunarvanda leikskólanna og frístundaheimilanna.  Við heyrum af þessum vanda á hverju hausti en sennilega hefur ástandið sjaldan verið jafn slæmt og nú.  Það verður einfalelga að skoða nýjar leiðir.  Er ekki málið að reyna meiri einkarekstur í þessari þjónustu, ég trúi ekki öðru en það sé fullt af leikskólakennurum sem séu til í að reka sjálfir leikskólann sinn.  Eða vilja leikskólakennarar það ekki og ætla að eftirláta öðrum að taka af skarið.  Ég hvet leikskólamenntað fólk til þess að nýta það tækifæri sem nú er í umhverfinu til þess að láta drauma sína rætast, opna skólann sem þeir vilja standa fyrir og bjóða börnunum uppá.  Ég er sannfærð um það að aukið vægi einkareksturs mun leiða til hærri launa.  Þó einkareknir leikskólar komi ekki í staðinn fyrir borgarrekna leikskóla er nauðsynlegt að hafa þá í bland.  Það skapar aukið val, samkeppni. fjölbreytni og mögulega meiri gæði.


Fatlaðir námsmenn fái frían akstur

Á morgun munum við leggja fram tillögu þess efnis í velferðarráði að fatlaðir námsmenn sem ekki geta nýtt sér almenningssamgöngur fái frían akstur með ferðaþjónustu fatlaðra á sambærilegan hátt og námsmenn fá frítt í strætó.  Þetta er að sjálfsögðu réttlætismál og á ég von á því að þessi tillaga verði samþykkt í ráðinu á morgun.  Annars var svolítið skondiðSmile hvernig fyrirsögnin var höfð á fréttinni hjá RUV, "fatlaðir fái ekki frítt í strætó".  Málið snýst að sjálfsögðu ekki um það.  Fatlaðir fá ekki síður frítt í strætó en ófatlaðir, en það er ákveðinn hluti fatlaðra námsmanna sem getur ekki nýtt sér strætó og er ekið með ferðaþjónustu fatlaðra.  Það er þeirra eini samgöngumáti, þeirra almenningssamgöngur og auðvitað eiga þeir ekki að þurfa að borga fyrir þá þjónustu á sama tíma og námsmenn sem geta nýtt sér strætisvagnana fá frían akstur um allan bæ með Strætó bs.

Sjá frétt á RUV:http://dagskra.ruv.is/streaming/sjonvarpid/?file=4338423/5

Annars er þessi dagur búinn að vera annasamur, það var hringt í mig frá skólanum og þurfti ég að sækja dóttur okkar vegna veikinda og þegar ég fór að skoða barnið almennilega sá ég að hún var öll að hlaupa upp í bráðaofnæmi og rauk ég því með hana til læknis og fékk ofnæmislyf sem hafa nú slegið verulega á kláðann og útbrotin. 

Það er ótrúlegt hvað dagarnir eru alltaf fjölbreyttir, maður veit ekki að morgni hvað dagurinn muni bera í skauti sér.  Hugsið ykkur og Ásgeir Elíasson bara farinn, á maður ekkert að gera ráð fyrir því að lifa nema til kannski 60 ára?  Ég bara spyr og í hvað vill maður þá hafa eytt lífinu, spurning sem vert er að velta fyrir sér í dagsins önn.


Kaffistofan - varanleg lausn fundin

Jæja, þá hafa nú mál Kaffistofu Samhjálpar skýrst. 

Nú um nokkurra daga skeið, eða meðan lokað er við Hverfisgötu mun Samhjálp hafa opið milli 12 og 14 í Gistiskýlinu og þangað geta einstaklingar komið og fengið eitthvað að snæða. 

Opnað verður aftur á Hverfisgötu um leið og það er hægt, vonandi eftir nokkra daga. 

Búið er að finna húsnæði til frambúðar fyrir kaffistofuna sem farið verður í að gera klárt fyrir opnun.  Kaffistofan mun væntanlega opna í nýju húsnæði innan fárra vikna.

 


Kaffistofa Samhjálpar - það rétta er

Fréttastofa sjónvarpsins var með afar einhliða frétt af kaffistofunni í gærkvöldi og leitaði ekki til Velferðarsviðs eftir réttum upplýsingum.  Það er því miður svo að fréttastofunum finnst ekki spennandi að segja frá einhverju sem er í lagi.  Ef þið fylgist með vinsælustu fréttunum hér á mbl.is þá eru það ekki jákvæðar fréttir. 

Staðreyndir málsins eru þessar:

Samhjálp átti von á því að geta afgreitt máltíð í gær, en mat ástandið þannig þegar verktakar hófu að vinna þar að það væri ekki hægt og því var lokað skyndilega. 

Ekki er möguleiki að afgreiða mat og taka á móti fólki á Hverfisgötunni í nokkra daga, eða allt að 2 vikur.  Eftir það verður hægt að opna aftur í óákveðinn tíma og ekki ákveðið hvenær Samhjálp þarf endanlega að fara úr húsnæðinu. 

Verið er að leita að skammtímalausn nú í þessar tvær vikur og mun það skýrast í dag hvar Samhjálp mun geta afgreitt mat til þeirra sem á þurfa að halda þessa daga sem ekki verður hægt að vera á Hverfisgötunni.

 


Borgarstjórnarfundi lokið

Jæja loks er löngum og ströngum borgarstjórnarfundi lokið.  Rædd hafa verið ýmis mál hér í dag og í kvöld.  Á dagskrá fundarins voru sérstaklega fjögur mál. 

  • Hvort rífa eigi eða megi húsin við Laugaveg 4 og 6. 
  • Hlutafélagavæðing Orkuveitu Reykjavíkur
  • Sýnileg löggæsla í miðborginni
  • Mannekla á leikskólum, í grunnskólum og á frístundaheimilum. 

Hvað varðar niðurrif húsanna við Laugaveg og uppbyggingu þar, þá finnst mér þessi tvö hús ekki vera þau sem ég mundi berjast fyrir jafnvel þó svo ég vildi standa vörð um gömul hús.  En svona er þetta, sumir eru einfaldlega alfarið á móti því að gömul hús víki fyrir nýjum og þá að sjálfsögðu berjast þeir einstaklingar gegn því eins og samviska þeirra gefur tilefni til.

Hlutafélagavæðing Orkuveitunnar er hið besta mál og tel ég algeran óþarfa að hafa áhyggjur af henni eða því að verið sé að fara að einkavæða Orkuveituna.  Í fyrsta lagi vegna þess að borgarstjóri hefur lofað því að ekki standi til að einkavæða.  Í öðru lagi vegna þess að allir hluthafar OR þurfa að samþykkja sölu svo það er ekki eins og Reykjavíkurborg hafi ein með þá ákvörðun að gera.  Í þriðja lagi þá er þessi breyting mikill sparnaður fyrir orkuveituna og á þeim grundvelli mikilvægt að gera þessa breytingu óháð einkavæðingu eða öðru slíku, þessi formbreyting sparar OR um það bil 800 milljónir í minni skattbyrgði og munar nú um minna.  Það ætti að skila sér til neytenda með einum eða öðrum hætti.  Svo má nu geta þess svona í framhjáhlaupi að Félagsbústaðir eru hlutafélag og ekki minnist ég þess að flokkarnir sem nú sitja í minnihluta og tóku m.a. ákvörðun um það rekstrarform á sínum tíma hafi haft af því áhyggjur að einkavæða ætti Félagsbústaði.

Hvað varðar svo sýnileika lögreglunnar þá held ég nú að það eitt leysi ekki vandann í miðbænum og huga verði að fleiru eins og reyndar er verið að gera, s.s. með því að skoða opnunartíma og dreifingu skemmtistaða. 

Mannekluvandamál hjá þjónustustofnunum borgarinnar og sér í lagi leikskólum og frístundarheimilum er mikið áhyggjuefni.  Við þurfum að finna leið til þess að berjast gegn þessum vanda til frambúðar.  Það hefur ýmislegt verið reynt og stanslaust er verið að leita nýrra leiða innan kerfisins til þess að laða að starfsfólk, en það dugar ekki til.  Verið er t.d. að koma á fót starfatorgi fyrir eldriborgara og aðra sem áhuga hafa á hlutavinnu og bindum við vonir við að með því móti megi laða fleiri til starfa.  Ástandið er ekki bara erfitt hjá borginni, hjá þjónustufyrirtækjum eins og Ikea er ástandið orðið svo slæmt að farið er að auglýsa að kúnninn þurfi að hafa aukna þolinmæði því illa gangi að manna. 

Það er athyglisvert í þeim gríðarlega mönnunarvanda sem leikskólarnir standa frammi fyrir að hugsa til þess að á einkareknu skólunum virðist ekki vanta starfsfólk og betur gengur að manna þá.  Það eru svo sem ekki nýjar fréttir, en styrkir mig í þeirri skoðun minni að við eigum í auknum mæli að horfa til þess að bjóða út rekstur þjónustustofnana og vera með margvísleg og mismunandi rekstrarform þar sem því verður við komið.


Farandsláturhús

Aðeins áfram um næringuna :-)

Hafa bændur skoðað það að taka sig nokkrir saman og fá hingað farandsláturhús?  Góð hugmynd sem ég veit að þeir hafa velt fyrir sér, nú þarf bara að taka af skarið.

Farandsláturhús er fullkomið sláturhús á hjólum.  Flutningabíll sem er sláturhús með fullkomnustu tækjum og sem uppfyllir alla staðla sem lög gera ráð fyrir.  Svona bíll gæti farið milli bæja og bændurnir notað sláturhúsið eins og þeir kjósa.  Svo ættu þeir að geta selt kjötið beint til neytandans, ferskt eða frosið eftir því sem eftirspurnin bíður.

Mín skoðun er sú að draga eigi úr styrkjum og beinum greiðslum til bænda á næstu árum og stefna að því að afleggja alveg.  Styrkir og beinar greiðslur hafa örugglega orðið til þess að hefta hér eðlilega þróun í landbúnaði.  Það er kominn tími til að bændum verði gert kleift að þróa vörur og þjónustu í takt við það sem best gerist, þeim sjálfum og neytendum til heilla. 

Hreinar vörur beint úr "haga í maga".... mér finnst þetta hljóma svo vel eins og þið sjáið.


Hugleiðingar um næringu

Mér eru svo hugleikin öll þessi endalausu aukaefni í matvælum í dag. 

Ég var að velta því fyrir mér um daginn hvers vegna Sól safinn geymist svona lengi.  Sól-safinn er jú einungis ferskar nýpressaðar appelsínur.  Ég veit ekki hvers vegna hann geymist jafn lengi og raun ber vitni, en ég veit það eitt að ef ég pressa appelsínur hér heima hjá mér og set í flösku inn í ísskáp þá geymast þær ekki svona lengi og safinn verður brúnleitur eftir nokkra daga.

Ég velti því líka fyrir mér hvaða áhrif öll þessi aukaefni, bragðefni, bindiefni og sætuefni hafa á okkur.

Er kjöt sem hefur verið lagt í saltvatnslög til þess að auka þyngd sína um 20% jafn hollt og ómeðhöndlað kjöt?  Eru næringarvandamál og offita hins vestræna heims meira og minna tengd því að við erum í raun ekki að borða alvöru mat?  Við erum í auknum mæli að borða dautt, tilbúið gervifæði sem á að koma í stað alvöru matar.  Ég veit ekki hvort þið hafið séð mynd sem sýnd var í sjónvarpinu í sumar þar sem fjallað var um erfðabreytt matvæli og hvernig þróunin hefur verið í kornframleiðslu, soyjaframleiðslu og hrísgrjónaframleiðslu í Bandaríkjunum svo dæmi sé tekið.  Þessi mynd var virkilega áhugaverð og hafði mikil áhrif á okkur í minni fjölskyldu.  Sjónvarpið ætti að sýna hana aftur við tækifæri því ég held að allir hafi gott af því að velta þessu fyrir sér.  Þar kom t.d. fram að kartöflutegundir heimsins höfðu fyrr á öldum verið í hundruða eða þúndatali, e nhefur fækkar með árunum niður í nokkra tugi tegunda. 

Hvaða næring er í kjötfarsi sem inniheldur ekki nema 10%-20% kjöt, annað er í raun vatn, litarefni, bragðefni, bindiefni (sem binda vatnið til að ná upp þyngdinni), bragðefni og fita.  Það er hægt að framleiða kjötfars án þess að hafa yfirhöfuð nokkuð kjöt í því, bara smá fitu svo við fáum réttu áferðina. 

Hvaða næring er í sykurlausum drykkjum?  Engin, það er þó smá næring í drykkjunum með sykrinum því sykur gefur jú orku.  Þar fyrir utan þá er sykurinn náttúruleg afurð sem við losum auðveldlega úr líkamanum og hefur fylgt okkur um aldir.

Getur verið að við þurfum meira af næringarlausum/næringarlitlum mat og verðum ekki almennilega mett.  Ég er sannfærð um að svo sé og það hafi síðan þær afleiðingar að við borðum meira, verðum fyrr svöng aftur og borðum í raun of mikið án þess að það auki orku okkar og úthald, sem verður svo til þess að við förum að fitna.

Framleiðendur eiga ekki auðvelt, því neytendur vilja að varan líti vel út, kjúklingabrignurnar seljast ekki ef þær eru ekki bleikar og bústnar.  Hakkið verður að vera ljósrautt þó hakk hafi þá tilhneigingu að verða brúnt mjög fljótt eftir að það kemst í nálægð við súrefni, brauðið er ekki nógu gott ef það harðnar og myglar of fljótt og svona mætti lengi telja.  Ef við neytendur verðum meðvitaðri um mikilvægi góðrar næringar, meðvitaðri um það hvað er góð næring og gerum kröfu um hreinar aukaefnalausar vörur þá mun markaðurinn hafa vöruna í takt við óskir okkar. 

Framleiðendur þurfa að vera duglegri við að láta neytendur vita hvar þeir geta t.d. keypt grænmeti beint af bóndanum.  Kannski þurfum við að koma upp betri og hreyfanlegri markaði eins og Kolaportinu þar sem bændur/framleiðendur, fiskimenn og fleiri gætu komið einu sinni í viku með ferskar vörur og selt beint til neytenda - milliliðalaust. 

Ég er sannfærð um það að ef við borðum hollan næringarríkan mat þá þurfum við minna af snakki milli mála, borðum minna og líður betur.  Oft getur nefnilega minna í raun verið meira.

Bráðum kemur betri tíð með blóm í haga og hver veit nema við fáum mat beint frá haga í maga Wink


Fækkun eða fjölgun? Ofbeldið er of mikið!

"Læknar telja ástand vegna ofbeldisáverka óbærilegt".  Ég held ég geti fullyrt að við séum öll á þeirri skoðun.

Eins og komið hefur fram í fjölmiðlum þá höfum við í Borgarstjórn Reykjavíkur ákveðið að vinna gegn þessu og breyta ástandi og ásýnd miðbæjarins.  Til þess að það geti orðið þarf samhent átak og það þarf að skoða fleira en að fjölga lögregluþjónum í miðbænum.  Við þurfum að skoða dreifingu skemmtistaða og opnunartíma.  Hér á árum áður þá voru ekki allir skemmtistaðir í miðbænum.  Hollywood var við Ármúla og Sigtún við Suðurlandsbraut, Klúbburinn við Borgartún, Broadway í Mjóddinni og svo framvegis.  Þróunin undanfarin ár hefur verið í auknum mæli að næturlífið sé allt orðið í miðbænum og þeir sem halda út lengi fari í miðbæinn þegar líður á nóttina. 

Kristín Sigurðardóttir, slysa og bráðalæknir sendi bréf á alla borgarfulltrúa og þingmenn Reykjavíkur þar sem hún rekur það að lenging opnunartíma hafi ekki, eins og vonir stóðu til, haft nein jákvæð áhrif hvað varðar ofbeldi og ofbeldisverk.   

Getur verið að aukin notkun örvandi eiturlyfja sé þessu tengt? Getur mögulega líka verið að aukin notkun örvandi efna sé tengd þessum langa opnunartíma?  Hvernig getur fólk haldið sér vakandi fram undir morgun?  Eru örvandi efni hugsanlega liður í því að lengja "djammið"?  

Þessum spurningum er ekki auðvelt að svara, en öllum hollt að velta fyrir sér, unga fólkinu líka.

 


Úr haga í maga - það er málið!

Loksins er mögulega eitthvað að gerast í þessum málum.  Smile  Ég fagna því!

Það er svo sjálfsagt og heilbrigt að mínu mati að bóndi geti þróað sína vöru og selt beint til neitenda að ég hef aldrei skilið þessa flækju sem hér hefur ríkt um margra ára skeið.  Bændur hafa verið algerlega uppá sláturhúsin komin og það verð sem þau hafa viljað borga.  Hvar er hvatinn fyrir bændur til þess að fara nýjar leiðir, þróa sínar vörur eða bjóða uppá nýjungar?  Eina sem bóndinn hefur getað hugsað um er að auka framleiðnina innan þess ramma sem honum er settur, fá sem flest kíló út úr hverju lambi, ná eins mörgum lítrum út úr kúnni o.s.frv. það hefur ekki verið hvati til annars. 

Ég er til í að fara ansi langt eftir kjöti sem ég get treyst og ég veit hvar hefur gengið á fjöll og hvers bónda er.  Ég vona að þessi  breyting verði fyrr en seinna og þá mun ég svo sannarlega keyra vestur í Hænuvík og kaupa eins og eitt eða tvö lömb af Gutta, bóndanum þar. 

Vonandi sjáum við þetta þróast enn frekar og bændur fara í meira mæli nýjar leiðir.  Ég vil sjá hér  bú sem bjóða ferska ógerilsneidda mjólk, rjóma, smjör og svo framvegis, lífrænt og laust við aukaefni.  Það er markaður fyrir slíkt, neytendur eru að fá nóg af öllum þessum aukaefnum í matvælum og vilja hreina vöru beint frá framleiðanda. 


þrír hvolpar

Jæja nóttin að baki og Perla alsæl með þrjá hvolpa. Sá sem fyrstur fæddist fór aldrei á spena og andaðist.  Hann var jarðaður í nótt.  Þetta var sorgarstund og erfitt að sætta sig við að hafa ekki getað haldið í honum lífinu og eftir á hugsar maður hvort við hefðum átt að gera eitthvað öðruvísi. Við erum reynslunni ríkari

Græn heimaþjónusta og fleira samþykkt á fundi velferðarráðs í dag

Þessar bókanir voru settar fram á fundi velferðarráðs í dag.  Þær voru allar samþykktar samhljóma og man ég varla eftir jafn jákvæðum fundi síðan ég varð formaður ráðsins. 

Varðandi græna heimaþjónustu var bókað:

Velferðarráð fagnar úrræði um Græna heimaþjónustu sem byggir á vinnu ungs fólks í vinnuskólanum í görðum eldri borgara.  Samkomulag hefur verið gert á milli Vinnuskóla Reykjavíkur og Velferðarsviðs Reykjavíkurborgar um eins árs þróunarverkefni. Markmið þjónustunnar snýst um að veita eldri borgurum og öryrkjum sem vegna skertrar líkamlegrar færni, aldurs, langvarandi veikinda eða fötlunar eru ekki færir um að sinna hreinsun garða sinna. Þjónustan hefur það að markmiði að gera einstaklingum kleift að búa lengur á eigin heimili. “Græn heimaþjónusta” felst í því að nemendur í Vinnuskóla Reykjavíkur hreinsa garða eldri borgara og öryrkja sumarið 2007 og mun skráning fyrir hjón og einstaklinga fara fram  á þjónustuðmiðstöðum borgarinnar. Gert er ráð fyrir að nemendur heimsæki hvern garð einu til þrisvar sinnum, að undangengnu mati á þörf.  

 

Vegna “átaksverkefnis í málefnum geðfatlaðs fólks” bókaði ráðið:

Um leið og Velferðarráð fagnar því að í augsýn er að átaksverkefnið flytjist yfir til borgarinnar lýsir ráðið yfir vilja til þess að það verði unnið af metnaði, framsýni og í samvinnu við notendur þjónustunnar.

Verkefnið snýst um stórátak í uppbyggingu búsetu og þjónustu fyrir geðfatlað fólk og snertir u.þ.b. 80 einstaklinga í Reykjavík. Vinna  við verkefnið er  þegar komin af stað undir stjórn framkvæmdahóps með aðild Velferðarsviðs Reykjavíkur, Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra í Reykjavík, Geðsviðs LSH auk fulltrúa félagsmálaráðuneytisins.  Með framkvæmdahópnum starfar ráðgjafahópur sem í eru m.a. fulltrúi notenda og aðstandenda og mun sá hópur að sjálfsögðu starfa áfram.

  

Vegna samþykktar um heimili fyrir heimilislausa Reykvíkinga bókaði ráðið svohljóðandi:

Velferðarráð fagnar því að búið sé að finna heimili fyrir tíu einstaklinga á góðum stað í miðborginni. Húsnæðið hentar afar vel fyrir svona heimili og velferðarráð væntir þess að íbúar í nágrenninu taki starfseminni fagnandi og bjóði nýja íbúa velkomna, enda er góð reynsla af sambærilegri starfsemi annarsstaðar í borginni.

Auk þessara bókana samþykkti ráðið að taka á móti 30 flóttamönnum frá Kólumbíu, en von er á þeim hópi til landsins síðsumars. Reykjavíkurborg býr að mikilli reynslu eftir að hafa tekið á móti svipuðum hópi árið 2005.

Fæðing hvolpa 

Annars erum við í fjölskyldunni búin að standa í ströngu hér í kvöld og erum í miðjum klíðum að taka á móti hvolpum þegar þetta er skrifað en nú þegar eru fæddir tveir hvolpar og vonumst við til að fá að minnsta kosti einn í viðbót en hvað veit maður, ég skrifa hér á morgun hversu margir þeir verða.  Þetta er ánægjuleg stund, börnin eru öll vakandi og fylgjast með af miklum áhuga.  Fyrir borgarbörn er þetta eins og líffræðitími og afar jákvætt að börnin nú höfum við mestar áhyggjur af því að sá sem kom fyrstur virðist ekki hafa neinn áhuga á því að fara á spena á meðan þessi númer tvö fór beint í það að fá sér að drekka.  Þetta er eins og með mannfólkið að öll fæðumst við með mismunandi karakter.  Jæja komnir þrír hvolpar, en sá fyrsti eki farinn að drekka enn, skrifa meira á morgun Grin


Góður rekstur ríkisins hefur fært okkur það að:

Góður rekstur ríkisins undanfarin ár hefur fært okkur það að: 

- Horfur eru á að kaupmáttur hafi aukist um 75% frá 1994-2007
- Hagvöxtur hefur verið um 4,5% á ári að meðaltali frá 1996
- Atvinnuleysi síðasta áratuginn hefur verið á bilinu 1-3%
- Tekjuskattar hafa lækkað úr 41,9% árið 1996 í 35,7% í dag
- Skattar á fyrirtæki voru lækkaðir niður í 18%
- Virðisaukaskattur á matvæli lækkaði í 7%
- Skattleysismörk hafa hækkað úr um 58 þús. kr. árið 1995 í 90 þús. kr. í dag
- Ríkissjóður rekinn með meiri afgangi á þessu kjörtímabili en dæmi eru um
- Erlendar skuldir ríkissjóðs hafa verið greiddar upp

Þessi góði rekstur er að gefa okkur það að geta nú gert enn betur í velferðarmálum, staðan er einfaldlega orðin með þeim hætti eftir ábyrga fjármálastjórn undanfarin ár.

Sjálfstæðisflokkurinn mun standa við ályktanir landsfundar og gera enn betur í velferðarmálum á næsta kjörtímabili.  Sjá ályktun landsfundar sjálfstæðisflokksins í velferðarmálum hér og í málefnum eldri borgara hér


Fundur borgarstjórnar með Reykjavíkurráði ungmenna

Nú er að ljúka frábærum fundi með Reykjavíkurráði ungmenna hér í borgarstjórnarsalnum.  Ungmennin komu að vanda vel undirbúin á þennan fund með margar góðar tillögur í farteskinu.  Hér voru miklar umræður um forvarnarmál og mikilvægi þess að leggja enn meiri áherslu á fræðslu um forvarnir í grunnskólum.   Þá var t.d. óskað eftir samræmingu í gjaldtöku barna t.d. á sundstöðum borgarinnar, en þar borga börn fullorðinsgjald eftir 16 ára aldur.  það voru miklar umræður um sérstakt ungmennahús þar sem ungmenni 16 - 20 ára gætu haft starfsemi sína og verið með ýmis konar námskeið, æfingaaðstöðu, aðstöðu til að læra og fleira í þeim dúr.  Nefndi hann ungmennahús í Keflavík sem sé svipað því sem þau vilja sjá verða að veruleika hér.  Ýmsar aðrar tillögur komu fram og voru þær að sjálfsögðu allar góðar þó erfitt geti orðið að framkvæma allt sem þar kom fram á skömmum tíma. 

Tillögunum var vísað áfram til frekari vinnu í nefndum borgarinnar og hlakka ég til að fá til sérstakrar umfjöllunar í Velferðarraði tillögu Jóhanns Einarssonar Ungmennaráði Kringluhverfis um Forvarnir gegn spilafíkn og tillögu Hilmu Rósar Ómarsdóttur um að auka vægi forvarnarfræðslu í grunnskólum hvað varðar áfengi, eiturlyf og kynlíf.

 


Eigum við að selja fasteignir ríkisins?

Það var áhugaverð ráðstefna á vegum viðskiptaráðs í dag þar sem fjallað var um hag ríkisins af því að selja fasteignir og talað um að þar mætti losa um allt að 80 milljarða sem eru ekkert litlir peningar.  Okkur stjórnmálamönnum ber skylda til þess að fara vel með skattpeningana. Hvers vegna að hafa fé bundið í fasteignum þegar mætti nota fjármagnið betur til annarra samfélagslegra verkefna og fyrir þá sem á þurfa að halda. Þetta á að sjálfsögðu við um nýframkvæmdir líka, en auðvitað þarf alltaf að skoða þetta í hverju tilfelli fyrir sig og meta hagkvæmni af því að breyta fyrirkomulagi með þessum hætti. Eins og fram kom á ráðstefnunni er það þó ekki svo að áhugavert sé að selja allar eignir og því nauðsynlegt að meta það hverju sinni.  Sjá nánari umfjöllun hér

 

Samfylkingin vildi að sjálfsögðu fresta gerð orkusamnings.  Fulltrúar samfylkingarinnar eru samir við sig nú vildu þeir fresta samningum og skoða málið betur, "setja það í nefnd eða láta nú slatta embættismanna gera fleiri skýrslur og svo framvegis."  Það er ekki að undra þótt R-listinn hafi ekki komið málum áfram í borginni á sínum tíma.  Það þurfti einfaldlega alltaf að skoða hlutina betur og setja í nefndir og frekari athugun svo ekki þyrfti nú að taka ákvörðun og alls ekki mátti nú taka óvinsæla ákvörðun enda safnaði borgin miklum skuldum í valdatíð þeirra.  Fjölflokkastjórn svipuð því sem var hér í Reykjavík um langt skeið væri hreinlega slys fyrir samfélagið og við verðum að koma í veg fyrir að slíkt gerist í landsmálunum. 

 

Ég átti frábæran fund í dag í samráðshópi aldraðra þar sem við fórum saman yfir hlutina og ég fór yfir það helsta sem við erum að gera.  Við eigum gott samstarf við aldraða og verð ég að segja að Margrét Margeirsdóttir á fáa sína líka og er gaman að vinna með henni.  Við erum nú að vinna að því að skilgreyna mismunandi búsetuform fyrir aldraða.  Hvað er þjónustuíbúð?  Hvað er öryggisíbúð? Og hvað er einfaldlega íbúð fyrir aldraða?  Þetta eru spurningar sem við þurfum að svara og við þurfum að hafa sameiginlega sýn þegar við ræðum mismunandi búsetuform.  En það er margt að gerast hjá okkur og mörg járn í eldinum núna.  Ég vonast til þess að geta fljótlega kynnt hugmyndir okkar um frekari uppbyggingu fyrir aldraða.


Grettir slær í gegn

Eftir góða helgi í afslöppun við Úlfljótsvatn þar sem safnað var kröftum fyrir komandi viku, enduðum við hjónin helgina með því að sjá söngleikinn Gretti í Borgarleikhúsinu.  Við getum óhikað mælt með þessum söngleik sem að okkar mati var kröftugur og skemmtilegur.  Það er óhætt að segja að þarna hafi tekist vel til og eiga aðstandendur hrós skilið.  Smile

Við fórum reyndar ekki bara í Borgarleikhúsið um helgina því á laugardaginn fórum við að sjá Bláa Hnöttinn í Sólheimaleikhúsinu og var það mikil upplifun.  Við fórum með tvær litlar hnátur með okkur sem skemmtu sér konunglega og var ótrúlegt hvað sú yngri aðeins þriggja ára gömul skildi leikritið vel og talaði hún mikið um "börnin" í dag og átti þar við börnin á Bláa Hnettinum þar sem einungis búa börn. 

Það er nóg að gerast í vinnunni framundan.  Við Stella sviðsstjori ætlum að klára að heimsækja þjónustumiðstöðvarnar í þessari viku, en við höfum þegar verið með kynningar á þremur  af sex miðstöðvum og förum á þá fjórðu strax í fyrramálið.   

 

 


Málefni barna í Reykjavík

Málefni barna voru rædd í borgarstjórn Reykjavíkur í dag og var ánægjulegt að fá tækifæri til þess að segja frá ýmsu því sem verið er að gera í borginni og lítur sérstaklega að þeim málum.   Þannig gafst mér tækifæri til þess að fara yfir og segja frá fjölmörgu sem við erum að gera og lítur að málefnum barna.  Það má alltaf gera betur og örugglega margt sem við eigum eftir að gera á komandi árum.   Annars vil ég meina að allt hafi með einum eða öðrum hætti áhrif á börnin okkar. 

Það skiptir til dæmis máli fyrir börn að foreldrar þeirra hafi örugga atvinnu, það skiptir líka máli fyrir börn að við reynum að auka tengsl milli kynslóða.  Það ætlum við einmitt að reyna að gera með því að  setja af stað sérstakt starfatorg fyrir aldraða þar sem aldraðir geta í auknum mæli komið til starfa hjá borginni, ekki síst í störfum sem tengjast börnum.  Svo sem hlutastörf inni á frístundarheimilum, í leikskólum og grunnskólum svo dæmi sé tekið.  Tillaga þessa efnis var samþykkt á fundi velferðarráðs nýlega að fela sviðsstjóra að útfæra þetta í samvinnu við önnur svið borgarinnar.  

10 græn skref sem þegar hafa verið kynnt eru svo sannarlega einnig til þess gerð að auka lífsgæði og loftgæði hér í borg sem skiptir ekki síst máli fyrir óþroskuð lungu barna. 

Við höfum lækkað leikskólagjöldin þó svo að nýjustu rannsóknir sýni að það sé ekkert endilega öllum börnum fyrir bestu að vera á leikskóla og geti verið jafngott fyrir þau að fá tækifæri til að vera í rólegheitum heima þar til almenn skólaganga hefst.  Við eigum að sjálfsögðu að hafa val og foreldrar eiga að hafa val, hafi þau þroska til þess að velja.

Við höfum þegar kynnt frístundakortin sem munu jafna stöðu barna og unglinga og gera þeim sem lítil hafa fjárráð auveldara fyrir að sækja íþróttir og tómstundir.  Í þriggja ára áætlun okkar kemur fram að við ætlum að veita verulegum fjármunum í svokallað PBS verkefni “personal behavior support” á þjónustumiðstöðvunum, en það lítur einmitt að því að auka gæði skólastarfsins á jákvæðan hátt með uppbyggilegum og jákvæðum samskiptum milli nemenda og starfsfólks í skólunum.  Það hefur verið mikil ánægja með þetta verkefni í þeim skólum sem það hefur verið og tala skólastjórnendur um það að það hafi skilað miklu mun betri umgengnisvenjum og samskiptum innan veggja skólans.  Við erum auk þess að leggja sérstaka áherslu á að bjóða upp á uppeldisnámskeið á þjónustumiðstöðvum borgarinnar.  Það er  með ólíkindum að maður skuli þurfa að fara á hundanámskeið til þess að fá sér hund, en engin krafa sé gerð til verðandi foreldra um það t.d. að afla sér lágmarksþekkingar um uppeldi og umönnum barns á mismunandi þroskaskeiðum þess.  Við viljum og leggjum áherslu á það að auka færni foreldra til þess að annast börn sín og takast á við afar mismunandi verkefni eftir þroska barnanna hverju sinni.  Stuðningur inn á heimili barnafjölskyldna er jafnframt liður í því. 

Við leggjum mikla áherslu á forvarnir í þriggja ára áætlun og aukum fjármagn til forvarna verulega. Ég ætla ekki að fara sérstaklega yfir öll þau fjölmörgu forarnarverkefni sem eru í gangi en minni á forvarnarstefnu Reykjavikurborgar sem unnin var í þverpólitískri samstöðu á síðasta kjörtímabili.  Nú fer fram innleiðing þeirrar stefnu og er í gangi vinna við að móta ákveðið innleiðingarferli sem geti hjálpað starfsmönnum að móta og vinna að forvarnarverkefnum. Við aukum líka fjármagn til átaksverkefna og þannig sýnum við einmitt í verki að það eru auknar áherslur á þessi mál hjá okkur í meirihlutanum.  En það er afar mikilvægt að vinna að forvörnum og koma í veg fyrir vandann og síðan að endurhæfa einstaklinga út í lífið aftur sem villast af leið og aðstoða foreldra í uppeldinu og við að koma börnum sínum á legg.  Átaksverkefnin mörg hver eru sérstaklega hugsuð til þess og er Kvennasmiðjan t.d. sérstaklega fyrir einstæðar mæður og lítur að því að aðstoða þær út i lífið og til þess að vera góðar fyrirmyndir fyrir börnin sín. 

Biðlistinn eftir stuðningsþjónustu er langur í Reykjavík og hefur verið það um langt skeið.  Sá biðlisti hefur verið að lengjast undanfarin ár og því ætlum við að breyta.  Við ætlum þannig að leggja verulega aukið fjármagn í stuðningsþjónustu og fækka um amk. Helming á biðlistanum á næstu þremur árum.   

Við erum með sérstakan styrk til efnalítilla foreldra til að mæta kostnaði við leikskóla, heilsdagsskóla og daggæslu; skólamáltíðir og tómstundir. 

Það er verið að leggja sérstaka áherslu á að auka færni starfsmanna  að tala við börn og hafa veri skipulögð sérstök námskeið fyrir starfsmenn í þeim tilgangi.   

Það er í gangi stefnumótun í málefnum fjölskyldunnar eins og komið hefur hér fram. 

Það er í gangi þverpólitísk vinna við stefnumótun í málefnum innflytjenda og þar þurfum við að líta sérstaklega til barna og ungmenna sem hingað flytjast.  Það skiptir miklu máli að ungir innflytjendur aðlagist vel og að unga fólkið finni sig í íþróttum og tómstundum og að við náum að virkja þessa nýju Íslendinga.   

Breytt vinnulag og áherslur barnaverndar í vinnslu tilkynninga og kannana skv.barnaverndarlögum þar sem hlutaðeigandi aðilar eru kallaðir saman þegar barnaverndartilkynning berst eru liður í því að líta sérstaklega til líðunar barnsins sjálfs.  

Þetta er engan veginn tæmandi upptalning á öllu því sem verið er að gera og auðvitað má gera betur. Það eru því miður til vandamál í íslensku samfélagi og það er sárt til þess að hugsa að hér séu vansæl börn og að barnavernd Reykjavíkur taki til athugunar jafnmörg mál og raun ber vitni.  Við leggjum metnað okkar í það að hjálpa þeim börnum sem á hjálp þurfa að halda, þeim fjölskyldum sem minna mega sín og þeim foreldrum sem ráða illa við hlutverk sitt.  Það er nauðsynlegt að samfélagið grípi inn í og hafi alltaf hag barnanna að leiðarljósi.  Ég hef lagt á það áherslu í mínu starfi sem formaður velferðarráðs að t.d. við úthlutun íbúða sé alltaf haft að leiðarljósi hvað sé best fyrir barnið eða börnin þar sem börn eru á heimili.  Börnin okkar munu yrkja landið, eru framtíðin og við þurfum að hlúa að þeim.  

 


Fyrsta bloggið

Hér ætla ég að blogga um pólitísk málefni og sérstaklega velferðarmál og gang þeirra mála sem snúa að mér sem formanni velferðarráðs.


Fyrsta bloggfærsla

Þessi færsla er búin til af kerfinu þegar notandi er stofnaður. Henni má eyða eða breyta að vild.

« Fyrri síða

Um bloggið

Jórunn Frímannsdóttir

Höfundur

Jórunn Ósk Frímannsdóttir
Jórunn Ósk Frímannsdóttir

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • ...i_mbl_blogg
  • ...logo
  • ...k_mynd_stor
  • Jólakortamynd 2009 003
  • DSCN2230

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (8.9.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 8
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 7
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband