20.4.2010 | 20:19
Samþykkt að einstaklingar í atvinnuleit fái frítt í sund og á bókasöfn borgarinnar
Í borgarstjórn í dag var samþykkt samhljóða að reykvískir einstaklingar í atvinnuleit fái frítt á sundstaði borgarinnar og frí notendakort á bókasöfn borgarinnar út árið 2010.
Rannsóknir sýna að heilsufarslegar afleiðingar atvinnuleysis geta verið töluverðar. Þegar einstaklingur missir vinnu skapast ójafnvægi í hinu daglega lífi hans. Mikilvægi þess að fólk haldi virkni og reyni að finna eitthvað við hæfi í staðinn s.s. reglulega hreyfingu verður seint of metin. Fyrir einstakling í atvinnuleit, hvort sem hann er með atvinnuleysisbætur eða nýtur fjárhagsaðstoðar, getur það verið hindrun að leggja út fyrir þeim kostnaði sem því getur fylgt.
Sund er þægileg líkamsrækt sem hentar flestum. Með því að veita frítt í sund fyrir þessa aðila viljum við hvetja þá til virkni og um leið leitast við að rjúfa félagslega einangrun sem hætta er á að skapist í atvinnuleysi. Þann 18. nóvember síðastliðinn var samþykkt virkniáætlun fyrir fjárhagsaðstoðarþega í Velferðarráði, þessi samþykkt í borgarstjórn í dag mun styðja við þá áætlun.
15.2.2010 | 08:29
Virkari velferð - notendastýrð þjónusta
Hópur sem kallar sig Vive hefur undanfarna mánuði unnið að því að kortleggja hvernig bæta má þjónustu við einstaklinga í heimahúsum. Vive stendur fyrir virkari velferð og hef ég verið svo lánsöm að fá að taka þátt í starfi hópsins. Guðjón Sigurðsson hafði forgöngu um að setja þessa vinnu af stað ásamt Evald Krog og Sigursteini Mássyni. Oddur Ástráðsson var svo fenginn til þess að verkstýra vinnunni. Virkari velferð snýst fyrst og fremst um það að bæta þjónustu við einstaklinga í heimahúsum. Í vinnu hópsins var horft til þess hvernig sambærileg þjónusta er veitt á hinum Norðurlöndunum en þar er þjónustan í miklu ríkari mæli en hér á forsendum notandans sjálf, svokölluð notendastýrð þjónusta.
En hvað er notendastýrð þjónusta?
Með notendastýrðri þjónustu getur einstaklingur sem þarf á þjónustu að halda t.d. vegna öldrunar, fötlunar eða sjúkdóms, ákveðið sjálfur hverjir þjónusta hann, hvenær og hvar. Hann fær sjálfur valdið til þess að forgangsraða sinni þjónustu.
Til þess að geta tekið upp notendastýrða þjónustu hér á landi í auknum mæli þurfum við að skilgreina betur forsendur, tíma og kostnað vegna þjónustunnar. Þjónustuþörf hvers einstaklings þarf að meta á hans forsendum, veita honum tækifæri til að ráða til sín aðstoð, búa heimili sitt þannig að þar sé nægilega gott aðgengi og aðgangur að tækjum og tólum til að lifa sjálfstæðu lífi.
Með notendastýrðri þjónustu fær hver og einn aðstoð sem hámarkar virkni viðkomandi í daglegu lífi. Við sem þurfum ekki á þjónustu að halda erum vön því að geta ákveðið sjálf minnstu hluti okkar daglega lífs, hvað við viljum gera, hversu virk við viljum vera og hvenær. Það hafa hins vegar ekki allir þennan möguleika í okkar núverandi kerfi. Við í Vive hópnum viljum að velferðarkerfið miði að því að hámarka lífsgæði og sjálfsákvörðunarrétt hvers og eins sem þarf á stuðningi að halda og að það verði gert með því að tryggja hverjum einstaklingi þá aðstoð sem hann þarf á að halda til að lifa sínu lífi með eins miklum lífsgæðum og einstaklingnum er unnt að njóta. Við viljum tryggja einstaklingnum raunverulegt val um þjónustu. Það felst ekki raunverulegt val í því að þurfa að flytja inn á stofnun til að fá þá aðstoð sem þar býðst og það felst ekki raunverulegt val í því að þurfa að vera heima ef einstaklingurinn kýs frekar að þiggja þjónustuna á stofnun. Sama á við um þjónustu sem veitt er heima ef hún er veitt á forsendum annarra en þeirra sem aðstoðina þurfa, það er ekki notendastýrð aðstoð.
Það er markmið okkar sem komum að starfi Vive hópsins að velferðarkerfið breyti um stefnu í átt að persónulegri notendastýrðri aðstoð. Með slíkri breytingu á hugsun og framkvæmd í kerfinu eykst þátttaka fatlaðra og aldraðra í samfélaginu. Það eru aukin lífsgæði fyrir fatlaða jafnt sem ófatlaða og við verðum öll ríkari af því að samfélagið okkar sé fjölbreyttara, vinnustaðirnir fjölbreyttari og um leið skemmtilegri. Það eiga ekki að vera forréttindi að alast upp í samvistum við fatlaða eða aldraða, það á að vera hluti af lífi sérhvers manns.
Þessi grein birtist í Morgunblaðinu í dag
21.1.2010 | 08:18
Hvernig við veljum að ferðast
Við sem búum hér í höfuðborginni vitum hvernig það er að komast á milli staða í þungri umferðinni á morgnana og seinnipartinn. Oft sitjum við í bílum okkar og hugsum um hvað þessum tíma er illa varið. En hvers vegna veljum við að ferðast með bíl borgarendanna á milli með öllum þeim tilkostnaði bæði tíma og peningum sem raun ber vitni. Mörgum hreinlega dettur ekki í hug að hægt sé að komast til og frá vinnu eða til og frá skóla með öðrum hætti en einmitt í bílnum.
En það er öðru nær, við höfum val í Reykjavík um að ferðast milli staða með öðrum hætti. Við getum valið að hjóla eða ganga og við getum tekið strætó. Nú kunna margir að hugsa að það sé allt of langt að ganga og það sé svo mikið af brekkum að það sé ómögulegt að hjóla og enn aðrir hugsa að þetta strætókerfi sé nú svona og svona og það gangi aldrei að taka strætó. En einhverjir og vonandi margir hugsa með jákvæðum hætti til þess að skoða aðrar leiðir. Það eru þeir sem mig langar að höfða til með þessari grein.
Almenningssamgöngur
Nýlega gerðu nemar í Listaháskóla Íslands verkefni um strætó. Þessir nemar unnu verkefnið með þeim hætti að þau prófuðu að nota strætó, ferðuðust hinar ýmsu vegalengdir með vögnunum og fóru yfir kosti og galla kerfisins. þau báru kerfið líka saman við það sem gerist annars staðar og lögðu loks mat sitt á það eftir að hafa öðlast reynslu við notkun þess. Það er skemmst frá því að segja að niðurstaðan kom skemmtilega á óvart. Þau töldu leiðakerfið gott og þjónustuna yfir höfuð góða. Stærsti hnjóður kerfisins að þeirra mati var sá að það vantar salernisaðstöðu fyrir farþega á biðstöðvum. Auðvitað var fleira sem mátti betur fara og margt er hægt að gera betur, en það kom þessum nemum verulega á óvart hvað kerfið er yfir höfuð gott.
Göngu- og hjólasamgöngur
Göngu- og hjólasamgöngur hafa verið verulega bættar í höfuðborginni síðustu árin og get ég með sanni mælt með þeim ferðamáta. Sjálf hjóla ég mikið og fer á tímabilum allra minna ferða á hjóli,einkum að vori og sumri. Það er auðvelt að ganga og hjóla í Reykjavík og stígakerfið okkar virkar vel og hægt er að taka hjólið með sér í strætó þegar pláss er í vagninum fyrir það. Sumum finnst óþægilegt að ganga eða hjóla til vinnu, svitna og þurfa að skipta um föt. Sjálf hjóla ég í þeim fatnaði sem ég er þann daginn, en sturtuaðstaða er i boði á mörgum vinnustöðum í dag sem auðvelda fataskipti.
Hvernig sem íbúar kjósa að fara sinna ferða milli staða í höfuðborginni er ljóst að allir möguleikar hafa bæði kosti og galla. Sjálfri finnst mér t.d. frelsið sérstaklega þægilegt við hjólið.
Ég vil hvetja íbúa Reykjavíkur til að prófa þá ólíku samgöngumáta sem borgin okkar hefur upp á að bjóða. Fyrstu tilraunir má t.d. gera um helgar, í góðu veðri eða þegar vegalengdir á áfangastað eru stuttar. Strætó, hjól og ganga eru ódýrir, vistvænir og líkamsvænir ferðamátar sem geta komið þér skemmtilega á óvart.
16.1.2010 | 16:40
Þjónusta við geðfatlaða á eina hendi - mikið framfaraskref
Velferðarsvið Reykjavíkurborgar og félags- og tryggingamálaráðuneytið munu ganga til samninga um að Reykjavíkurborg taki að sér ábyrgð og framkvæmd á þjónustu við geðfatlaða sem Svæðisskrifstofa málefna fatlaðra í Reykjavík hefur sinnt fram til þessa. Tillaga þess efnis var samþykkt samhljóða í velferðarráði Reykjavíkur í gær. Samþykktin er í samræmi við viljayfirlýsingu sem undirrituð var af félagsmálaráðherra og borgarstjóra í lok ágúst 2008.
Frá þeim tíma hafa aðilar unnið að þarfagreiningu og skilgreiningu samningsáherslna. Jafnframt hefur verið unnið að innleiðingu þjónustusamnings milli Reykjavíkurborgar og ráðuneytisins um uppbyggingu íbúðakjarna fyrir geðfatlaða sem undirritaður var samhliða viljayfirlýsingunni í ágúst 2008. Í samræmi við þann þjónustusamning hefur borgin undanfarna mánuði sett á fót átta íbúðakjarna fyrir geðfatlaða og verða tveir þeir síðustu teknir í notkun í þessum mánuði. Uppbygging kjarnanna og innleiðing þjónustu á þeim hefur tekist framar vonum, en áhersla er lögð á sjálfstæði og virkni einstaklinganna sem þar búa.
Samkvæmt fyrirhuguðum samningum milli ríkis og borgar verður þjónusta við geðfatlaða í Reykjavík veitt frá einni hendi í nærumhverfi. Markmiðið er að færa þjónustuna nær notendum, út í samfélagið og stuðla þannig að virkni fólks í eigin umhverfi. Í samvinnu við geðsvið Landspítalans verður áhersla lögð á samfélagsþátttöku og að einstaklingum gefist kostur á að fá þjónustuna heim í stað þess að fá hana á stofnunum. Áhersla verður jafnframt lögð á að geðfatlaðir geti átt kost á búsetu í einstaklingsíbúðum. Yfirfærsla á þjónustu við geðfatlaða til borgarinnar er liður í heildaryfirfærslu þjónustu við fatlaða frá ríki til sveitarfélaga. Með yfirfærslunni verður nærþjónusta við alla Reykvíkinga á einni hendi.
15.1.2010 | 08:22
Opið hús í dag á milli 17 og 19
Í dag ætlum við að hafa opið hús milli 17 og 19 á kosningamiðstöðinni okkar.
Við erum að Ingólfsstræti 1a, gegnt Íslensku Óperunni.
Léttar veitingar í boði.
Allir velkomnir
6.1.2010 | 22:36
Velferð á víðsjárverðum tímum
Þessi grein birtist í Morgunblaðinu 4. janúar síðastliðinn
Það eru sérstakir tímar á Íslandi í dag og við stöndum frammi fyrir mörgum erfiðum ákvörðunum. Ákvarðanir sem teknar eru nú skipta máli inn í langa framtíð. Við getum með réttum ákvörðunum komist hratt upp úr þessari lægð sem við erum í, þrátt fyrir óhjákvæmilegan niðurskurð, en með röngum ákvörðunum getum við aukið á vandann og þá verður alveg sama hversu góð velferðar-, mennta- og heilbrigðiskerfi við höfum í dag, við munum ekki hafa efni á að reka þau.
Nú á öðrum vetri þessarar efnahagslægðar er ljóst að það sem við í velferðarráði gerðum ráð fyrir að mundi gerast í upphafi kreppunnar hefur því miður gengið eftir. Við gerðum ráð fyrir auknu atvinnuleysi, aukningu í fjárhagsaðstoð, fjölgun mála hjá Barnavernd Reykjavíkur og fjölgun einstaklinga í þörf fyrir ráðgjöf. Þann 8.október 2008 samþykktum við í velferðarráði aðgerðaáætlun til þess að mæta aukinni þörf fyrir þjónustu og við höfum fylgt þeirri áætlun. Starfsfólk velferðarsviðs hefur markvisst unnið að því að gera breytingar á forgangsröðun verkefna og vinnufyrirkomulagi til þess að mæta breyttum aðstæðum og hefur staðið sig mjög vel við erfiðar aðstæður. Samhliða aðgerðaráætlun velferðarsviðs var sett af stað aðgerðateymi á velferðarsviði sem heldur utan um lykiltölur sem lúta að þjónustuþörf og veitingu þjónustu. Út frá þeim mælingum hefur velferðarráð brugðist við breyttum aðstæðum ,t.d. með fjölgun stöðugilda hjá Barnavernd Reykjavíkur og með breytingu á reglum um fjárhagsaðstoð.
Ný verkefni
Í upphafi nýs árs horfum við fram á gríðarlega mikilvægt langtíma verkefni. Í lok nóvember voru 6443 Reykvíkingar skráðir atvinnulausir hjá Vinnumálastofnun. Ef við berum það saman við atvinnuleysistölur frá því í febrúar 2000 voru 1396 skráðir atvinnulausir í Reykjavík og lægst fór atvinnuleysi í Reykjavík í 482 einstaklinga í nóvember 2007. Einstaklingar sem þiggja fjárhagsaðstoð í Reykjavík voru í lok september um 1300 og hefur fjölgað um u.þ.b.700 frá sama tíma í fyrra. Yfir helmingur atvinnulausra á Reykjavíkursvæðinu hafa verið án atvinnu í meira en hálft ár og margir eru þegar að nálgast ár. Þeir sem eru atvinnulausir og/eða þiggja fjárhagsaðstoð frá sveitarfélaginu eiga fjölskyldur, börn, foreldra, vini og aðra aðstandendur. Erfiðleikarnir sem þessir einstaklingar glíma við verða þannig erfiðleikar fjölskyldna. Flestir sem lenda í tímabundnum erfiðleikum ná að vinna sig í gegnum þá með hjálp ættingja og vina, en sumir geta það ekki - með þeim vinnum við sem störfum að velferðarmálum í Reykjavík og hjálpum eftir fremsta megni. Það gerum við með því að styðja þá í að takast á við vandann, finna nýjar leiðir, aðstoða og ráðleggja.
Allir geta lagt eitthvað af mörkum
Þau ár sem ég hef verið formaður velferðarráðs höfum við lagt áherslu á að fólk hafi möguleika á að taka þátt, láta gott af sér leiða og leggja sitt af mörkum til samfélagsins. Nú þegar svo margir eru án atvinnu og hafa ekki að neinu að hverfa dag hvern er mikilvægt að boðið sé uppá verkefni eða námskeið fyrir einstaklinga sem vilja vera virkir á meðan þeir bíða þess að atvinnuástandið breytist. Velferðarráð Reykjavíkur samþykkti í ágúst á síðasta ári að setja í gang sérstök virkniúrræði, verkefni og námskeið til þess að mæta þessari nýju og breyttu stöðu. Nú í janúar munu fara af stað fyrstu námskeiðin sem miða að því að auka virkni og þátttöku einstaklinga sem fá fjárhagsaðstoð í samfélaginu. Öllum sem sækja um og eiga rétt á fjárhagsaðstoð hjá Reykjavíkurborg verður boðið að sækja þessi námskeið. Þar verða kynnt ítarlega öll þau úrræði og tilboð um virkni sem í boði eru í samfélaginu fyrir atvinnulausa. Einnig verður farið yfir mikilvægi þess að vera virk/virkur meðan atvinnuleit stendur yfir og upplýst um helstu afleiðingar atvinnuleysis. Þeim, sem óska eftir frekari stuðningi og ráðgjöf í framhaldinu, verður boðið viðtal hjá ráðgjafa innan tveggja daga og svo annað viðtal innan þriggja mánaða þar sem farið er yfir stöðu mála og aftur boðinn viðeigandi stuðningur.
Hvað er í boði?
Meðal þess sem einstaklingum verður boðið upp á er þátttaka í verkefnum á sviðum borgarinnar. Þannig geta þeir kynnst margvíslegum störfum og verkefnum innan borgarinnar og viðhaldið samfélagslegri virkni með því að fá hlutverk og vera hluti af starfsmannahóp. Um er að ræða ýmis verkefni s.s. við hellulagnir, hreinsun veggjakrots, viðhald leiktækja og skönnun teikninga svo dæmi sé tekið. Þátttakendur undirrita þátttökuyfirlýsingu þar sem þeir skuldbinda sig til þátttöku í verkefni. Gert er ráð fyrir að einstaklingar mæti 2-3 í viku, í 3 tíma í senn allt að 3 mánuði. Í lok verkefna fái þátttakendur viðurkenningu fyrir þátttöku ef þeir hafa uppfyllt skilyrði fyrir mætingu. Viðurkenningarskjalið nýtist svo viðkomandi í áframhaldandi atvinnuleit.
Með þessu móti vonumst við til þess að auka lífsgæði þeirra sem taka þátt, bæta með því líðan einstaklingsins og um leið fjölskyldunnar sem að honum snýr.
19.12.2009 | 12:24
Frumkvöðlar fá aðsetur í Toppstöðinni
Það var gaman að sjá þegar Hanna Birna Kristjánsdóttir borgarstjóri opnaði á dögunum frumkvöðlasetur í gömlu Toppstöðinni við Rafstöðvarveg í Elliðaárdal. Í Toppstöðinni er aðstaða fyrir frumkvöðla þar sem þeir geta komið hugmyndum sínum í framkvæmd og þróað áfram, hvort sem það er ný vara, þekking eða hugvit. Þar geta einstaklingar með góðar hugmyndir fengið stuðning hver frá öðrum og þróað frá hugmynd í vöru.
Það er gríðarlega mikilvægt að hlúa að frumkvöðlastarfi, þróun og nýsköpun í því erfiða árferði sem nú er, en út úr slíku starfi geta komið vöruhugmyndir, tækninýjungar og annað sem nýtist samfélaginu og skilar sér vonandi í nýjum störfum og nýjum fyrirtækjum.Sjálf þekki ég barninginn sem getur verið við að koma hugmynd á framfæri og þróa hana áfram. Árið 2002 keypti ég ásamt eiginmanni mínum vefinn doktor.is sem var sannkallaður frumkvöðlavefur. Doktor.is auðveldaði aðgengi almennings að upplýsingum um heilsufar, sjúkdóma, lyf og heilbrigðismál. Það hefði verið kærkomið á þessum tíma að hafa betri aðstöðu og aðgengi að öðrum sem eru að þróa hugmyndir, koma nýjungum á framfæri og sækja innblástur til annarra sem voru að fást við svipaða eða sambærilega hluti.Stuðningur við nýsköpun og frumkvöðlastarf getur haft úrslitaáhrif um það hvort hugmynd kemst á koppinn, þróast áfram eða ekki. Þess vegna þurfum við að halda áfram að styðja við bakið á frumkvöðlunum okkar.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.12.2009 | 02:26
Gæðavísitala þjónustu Strætó bs. hefur aldrei verið hærri
Gæðavísitala þjónustu Strætó bs. er þjónustukönnun sem gerð er meðal farþega árlega og hefur hún aldrei mælst hærri en einmitt nú.
Bættur árangur er beinn afrakstur verkefna sem hrint hefur verið af stað innan fyrirtækisins til að takast á við ákveðna þætti. Framkvæmdastjóri Strætó b.s. og aðrir í yfirstjórninni eiga heiður skilið fyrir að ná þessum árangri.
Ánægju með þjónustuna má einkum skýra með eftirfarandi þáttum:
- 1. Ánægja farþega með hitastig og innanþrif vagna mælist hærra en áður.
- 2. Stundvísi og aksturlag hefur batnað.
- 3. Bætt viðmót vagnstjóra mælist nú hærra en áður
Margt hefur verið gert innan fyrirtækisins til þess að bæta þjónustuna, viðmótið og upplifum farþegans. Hér er að finna nokkur dæmi um það sem unnið hefur verið að:
- Allir ferlar varðandi þrif (innan sem utan) hafa verið endurbættir með nýrri þvottastöð.
- Tekið var í notkun svokallað spenakerfi" sem leiðir til þess að nú fara bílar heitir út í þjónustuna á hverjum morgni. Þannig stíga fyrstu farþegarnir inn í heita vagna.
- Aukin áhersla hefur verið lögð á fyrirbyggjandi viðhald og reglubundna ástandsskoðun vagnanna.
- Gerðar voru breytingar á fyrirkomulagi við endurskoðun tímaáætlana á einstökum leiðum sem hefur leitt til bættrar stundvísi. Í þeim tilgangi var stofnun sérstök akstursfrávikanefnd með þátttöku starfsmanna sem hefur það hlutverk að greina slík tilfelli og koma með tillögur til lausnar. Ennfremur hafa svokölluð nýliðanámskeið verið endurvakin þar sem m.a. hefur verið lögð áhersla á að lesa aksturferla og skilja og skynja uppbyggingu og hönnun leiðakerfisins með áherslu á skiptingarnar á stóru skiptistöðvunum.
- Nýtt þjónustuver hóf starfsemi sýna þar sem öll þjónusta gagnvart farþegum ásamt samræmingu og skipulagi aksturs er stýrt. Þetta var áður í þremur aðskildum einingum.
- Lögð hefur verið áhersla á bætt viðmót vagnstjóra. Beitt hefur verið úrræðum um samskipti vagnstjóra og farþega varðandi fargjaldagreiðslur. Eftirlit hefur verið eflt og þannig stutt við þjónustuhlutverk vagnstjóra í því sambandi. Gerð krafa um snyrtimennsku vagnstjóra og einkennifatnað.
- Aðgengi farþega að upplýsingum og kaup á fargjöldum á vefnum hefur verið stórbætt.
- Öll markaðsumgjörð fyrirtækisins hefur verið tekin til gagngerrar endurskoðunar og framsetning kynningar- og ímyndar verið styrkt.
Svona niðurstaða fæst ekki nema með samstilltu átaki allra starfsmanna og segir þessi niðurstaða að þar er mikill metnaður til þess að veita framúrskarandi þjónustu. Ég vil óska öllum starfsmönnum til hamingju með þennan frábæra árangur.
21.11.2009 | 12:23
Aukum félagslega virkni
Einstaklingum, sem njóta fjárhagsaðstoðar hjá Reykjavíkurborg, verður boðið að taka þátt í námskeiðum og ýmsu skipulögðu starfi á vegum borgarinnar sem miðar að því að auka félagslega virkni. Velferðarráð Reykjavíkur samþykkti í liðinni viku tillögur þar að lútandi. Kynningarnámskeið og ráðgjöf um verkefni verða í boði hjá þjónustumiðstöðvum í öllum hverfum borgarinnar. Aðgerðirnar eru á vegum Velferðarsviðs, í samvinnu við önnur svið borgarinnar og fleiri aðila.
Í tillögunum felst meðal annars að einstaklingum, sem njóta fjárhagsaðstoðar hjá borginni,verður boðið upp á ráðgjöf og fræðslu um afleiðingar atvinnuleysis og þeir hvattir til að nýta sér þau úrræði sem í boði eru. Í því skyni verða kynningarnámskeið haldin einu sinni í mánuði. Þátttakendum verður einnig boðið að taka þátt í fjölbreyttu, skipulögðu starfi meðan á atvinnuleit
stendur. Meðal þess sem stendur til boða er þátttaka í fjölbreyttum verkefnum á vegum borgarinnar, s.s. við hellulagnir, hreinsun veggjakrots, viðhald leiktækja og skönnun teikninga, svo eitthvað sé nefnt. Markmiðið er að sporna við félagslegri einangrun og auka þannig virkni og lífsgæði þessa hóps.
Sérstaklega verður hugað að ungu fólki, á aldrinum 18-24 ára, og það verður
boðað í viðtal hjá ráðgjafa innan þriggja mánaða frá því að kynningarnámskeiði lýkur, ef staða viðkomandi er óbreytt. Að auki verður ungu fólki boðið sérstakt námskeið, til viðbótar við almenna kynningarnámskeiðið, þurfi það frekari aðstoð.
Einstaklingum, sem njóta fjárhagsaðstoðar hjá Reykjavíkurborg, hefur fjölgað um rúmlega 50% milli áranna 2008 og 2009, ef bornir eru saman fyrstu átta mánuðir áranna. Fjölgunin er mest í aldurshópnum 18-30 ára. Sé gripið fljótt inn í ferlið er betur hægt að stuðla að virkni fólks og líklegra er að það verði tilbúið til að fara aftur út á vinnumarkað þegar tækifæri gefst. Þannig er vonast til þess að aðgerðirnar minnki útgjöld til fjárhagsaðstoðar til lengri tíma litið, um leið og þær eru til þess fallnar að auka lífsgæði þeirra sem njóta góðs af þjónustunni.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.11.2009 | 11:55
Traust til stjórnmálamanna
Af www.jorunn.is 06.11.2009
Hver mætir best og hver mætir verst? Hver á dýrasta fundinn? Er það næsta spurning? Hvers vegna erum við að setja pólitíkina á þennan stað? Hvers vegna að hnýta hvert í annað með þessum hætti? Þurfa pólitískir fulltrúar að upphefja sjálfa sig með því að gera lítið úr öðrum? Þessi umræða er engum til góðs. Fólk hefur mætt misvel á fundi í nefndum, stjórnum og ráðum. Ástæður þess að kjörnir fulltrúar mæti ekki á fundi eru eflaust misjafnar og margar. Þó fulltrúi mæti á fundi þarf það heldur ekki að segja til um það hversu vel hann er að sinna vinnunni sinni.
Vinna í borgarstjórn er miklu meira en það að mæta á fundi. Undirbúningsvinna liggur að baki hverjum einasta fundi sem mætt er á og mikið lesefni oft á tíðum. Ég mun samviskusamlega svara þeim spurningum sem ég hef nú fengið frá blaðamönnum um það hvernig mætingar hafa verið hjá aðalmönnum í Velferðarráði og veit að þar er enginn sem þarf að hafa áhyggjur af sinni mætingu. Það breytir ekki því að mér finnst þessi umræða á lágu plani og sorglegt hvernig okkur stjórnmálamönnum tekst að gera lítið hvert úr öðru með skollaleik eins og þessum. Svona umræða gerir ekkert annað en rýra traust til stjórnmálamanna yfirleitt, sama hvar í flokki þeir eru.
21.11.2009 | 11:53
Nokkur mikilvæg atriði um orkunýtingu og álverið í Helguvík
Af www.jorunn.is 03.11.2009
Sumir virðast ekki skilja hvers vegna sjónir manna beinast að álveri í Helguvík nú um stundir. Sagt er að þeir sem eru hlynntir Helguvík séu álverssinnar, að þeir vilji engan annan iðnað, og að þeir setji öll eggin í sömu körfuna.
Að mörgu að hyggja
Vandi orkufyrirtækjanna felst m.a. í því að þurfa að fjármagna framkvæmdir að fullu áður en þær hefjast. Til að fjármagna byggingu virkjunar þarf að vera til staðar orkusölusamningur. Margt hefur verið skoðað og auðvitað eru margir aðrir áhugaverðir kostir, en því miður er fátt ef nokkuð annað í hendi en orkusölusamningar til álvera. Gagnaverin, svo dæmi sé tekið, vilja aðeins gera orkusölusamning til fimm ára á meðan álversfyrirtækin eru tilbúin að skuldbinda sig til 20-25 ára. Aðeins með svo löngum orkusölusamningum geta orkufyrirtækin fjármagnað virkjanaframkvæmdir að fullu. Þá þarf ríkissjóður ekki að leggja orkufyrirtækjunum til skattfé en getur þess í stað lagt meira af mörkum í þjónustu við skattgreiðendur.
Þegar fullyrt er að hvert starf í álveri kosti mikla peninga má ekki gleyma að það kostar skattgreiðendur ekki neitt ef ríkið þarf ekki að fjármagna virkjanir. Þeir peningar sem ríkið myndi þurfa að setja í orkunýtingu og störf í orkufrekum iðnaði yrðu þá ekki notaðir í annað. Þeir peningar gætu þá ekki farið í annars konar uppbyggingu s.s. ferðaþjónustu. Miklir möguleikar geta skapast í ferðaþjónustu með tilkomu virkjana og hefur ferðamönnum sem heimsækja Hellisheiðavirkjun fjölgað jafnt og þétt. Á þessu ári er áætlað að um 100.000 ferðamenn skoði virkjunina samanborið við 30.000 árið 2008, þá er ótalinn allur sá fjöldi sem heimsækir Hengilssvæðið og nýtur útivistar.
Arðsemisútreikningar OR
Orkuveita Reykjavíkur setur sér það markmið að ná 15% arðsemi eiginfjár vegna virkjanaframkvæmda í þágu stóriðju. Miðað við það má niðurgreiða lánin á innan við 20 árum. Raforkusölusamningar sem gerðir eru vegna stóriðju eru til 20-25 ára eins og áður segir. Reynslan sýnir að í tilfelli Nesjavalla megi búast við að virkjunin borgi sig upp á skemmri tíma, eða 16-17 árum.
Orkuveita Reykjavíkur hefur haldið til haga upplýsingum um starfsmannafjölda og þann tíma sem þarf til undirbúnings og framkvæmda við virkjanir. Undirbúnings- og framkvæmdatími við virkjanir hefur lengst umtalsvert á síðustu árum vegna aukinna krafna stjórnvalda. Tölurnar sýna að framkvæmdatími jarðvarmavirkjana er að meðaltali um sex ár. Þar af má reikna með fjórum árum í rannsóknir á jarðhitasvæðunum, rannsóknarboranir og annan undirbúning. Framkvæmdirnar sjálfar taka svo aðeins um tvö ár, en þeim má skipta niður í borverk, mannvirki, lagnir og uppsetningu vélbúnaðar. Að meðaltali má reikna með um 1.000 mannárum við framkvæmdir við 90 MW virkjun. Gert er ráð fyrir um 100 störfum í fjögur ár og 300 störfum í tvö ár.
Við þurfum fjármagn til framkvæmda og til uppbyggingar á atvinnuskapandi starfsemi. Við þurfum störfin og verðmætin sem t.d. álver skapa. Skatttekjurnar gera okkur kleift að halda úti öflugu heilbrigðis-, mennta- og velferðarkerfi á Íslandi, sem forðar okkur frá þjóðfélagslegum vanda til langrar framtíðar. Okkur ber skylda til að nýta alla þá möguleika sem landið gefur okkur og láta þá ekki renna okkur úr greipum.
Þessi grein var birt í Morgunblaðinu í dag
21.11.2009 | 11:52
Fjölgun barna sem njóta sérstakrar fjárhagsaðstoðar
Af www.jorunn.is 29.10.2009
Velferðarsvið Reykjavíkurborgar hefur undanfarið gert átak í því að kynna reykvískum foreldrum möguleika á sérstakri fjárhagsaðstoð vegna barna. Í því skyni hefur meðal annars verið dreift auglýsingum á íslensku, ensku og pólsku í leikskólum og grunnskólum borgarinnar. Í bókun velferðarráðs í gær var átakinu fagnað: Það er mikilvægt að foreldrar sem á því þurfa að halda séu hvattir til að nýta þennan rétt börnum sínum til handa. Öll börn eiga rétt á að njóta frístunda, leikja við jafnaldra og hollra skólamáltíða. Það er gleðiefni að hægt sé að veita slíka aðstoð og nauðsynlegt að kynna hana vel.
Í reglum um fjárhagsaðstoð Reykjavíkurborgar er kveðið á um heimild til að veita sérstaka fjárhagsaðstoð til foreldra til að greiða fyrir þátttöku barna í félags- og tómstundastarfi, fyrir sumardvöl, frístundaheimili, skólamáltíðir og leikskóla. Viðmiðunarupphæð er 11.635.- kr. á mánuði fyrir hvert barn. Rétt til þessarar aðstoðar hafa foreldrar sem hafa mánaðartekjur við eða lægri en grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar sem er kr. 115.567 fyrir einstakling og kr. 184.907 fyrir hjón/sambúðarfólk. Til viðbótar er heimild til að koma til móts við börn foreldra sem verið er að styðja sérstaklega á þjónustmiðstöðvum borgarinnar.
Ástæða þess að farið er í kynningarátak af þessu tagi er ekki síst sú staðreynd að einungis um 25% þeirra fjölskyldna sem eiga rétt á slíkum stuðningi nýta sér hann. Af yfir 217 barnafjölskyldum sem þiggja fjárhagsaðstoð eru einungis 52 fjölskyldur að nýta sér þennan rétt til sérstakrar fjárhagsaðstoðar vegna barna.
Foreldrum sem vilja kynna sér rétt til fjárhagaðstoðar vegna barna er bent á að tala við ráðgjafa á þjónustumiðstöðvum borgarinnar eða snúa sér til þjónustuvers borgarinnar í síma 411 11 11.
21.11.2009 | 11:50
Réttar ákvarðanir
Af www.jorunn.is 23.10.2009
Sem formaður Velferðarráðs var ég fengin til þess að vera með ræðu á Ráðstefnu Lýðheilsustöðvar síðastliðin miðvikudag. Erindið var flutt á ensku Challenges in Welfare Services.
Það fór mikill kliður um salinn þegar ég fór yfir í þá viðkvæmu sálma að ég væri ósátt við það hvernig núverandi ríkisstjórn væri að halda á málum. Ég sagðist telja, að miðað við fjárlögin sem nú væru fram komin væri ríkisstjórnin að gera fyrirtækjum og samfélögum erfiðara fyrir að vinna gegn atvinnuleysi og skapa störf. Þar átti ég auðvitað við fyrirætlanir ríkisstjórnarinnar um hækkun skatta og álagna á fyrirtæki og sérstaklega þá orkufrekan iðnað. Í máli mínu rakti ég hvernig við hjá Reykjavíkurborg erum að vinna fjárhagsáætlun borgarinnar fyrir næsta ár. Hvernig við erum að gera allt til þess að hagræða án skattahækkana, hvernig við erum að standa vörð um störf þeirra sem vinna hjá borginni, hvernig við stöndum vörð um gjaldskrár í grunnþjónustu og jafnvel langt umfram það sem þröngt má skilgreina sem grunnþjónustu. Hvernig við erum að halda uppi atvinnustigi með því að forgangsraða framkvæmdum og tókum t.a.m. lán til framkvæmda á þessu ári. Ég fór líka yfir það hvernig við erum að leggja alla áherslu á að nú á Velferðarsviði að virkja fólkið okkar sem þarf nú tímabundið að þiggja fjárhagsaðstoð. Hvernig við erum að leggja upp með aukna eftirfylgni með einstaklingum og hvernig við ætlum að gera allt sem við getum til þess að hjálpa þeim einstaklingum sem nú tímabundið eru í vanda að vera tilbúnir að fara (aftur) út á vinnumarkaðinn þegar atvinnu verður að fá. Hvernig við ætlum þannig að vinna gegn þeim langtíma félagslegu afleiðingum sem við annars getum verið að horfa fram á. Einstaklingum á fjárhagsaðstoð fer fjölgandi og mun halda áfarm að fjölga þar til atvinnuleysi fer minnkandi. Atvinnuleysið er rót vandans og gegn því verðum við að vinna. Ríki og borg geta ekki ráðið allar þær þúsundir einstaklinga sem eru atvinnulausir nú í vinnu, né getum við haft verkefni eða námskeið fyrir alla. En við getum tekið ákvarðanir sem gera fyrirtækjunum kleift að blómstra og ráða til sín fólk.
Það skiptir miklu máli hvaða ákvarðanir eru teknar á þessum tímum og enn og aftur og ég segi það örugglega ekki nógu oft. Við getum með réttum ákvörðunum komist hratt upp úr þessari lægð sem við erum í, en með röngum ákvörðunum getum við aukið gríðarlega á vandann og þá verður alveg sama hversu gott velferðar, mennta og heilbrigðiskerfi við höfum í dag, við munum ekki hafa efni á að reka þau.
21.11.2009 | 11:48
Ferðafrístund samþykkt í Borgarstjórn
Af www.jorunn.is frá 20.10.2009
Í dag var samþykkt samhljóða í Borgarstjórn Reykjavíkur svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Vinstri Grænna.
Borgarstjórn samþykkir að leita eftir samstarfi við Strætó bs. um fræðslu fyrir eldri börn í frístundaheimilum borgarinnar. Sérstakur starfsmaður verði fenginn til að fara á milli frístundaheimila með vikunámskeið, þar sem börnin ferðast um í strætó, fá kynningu á helstu strætóleiðum, skiptistöðvum og leiðakerfinu, hverfum borgarinnar og því sem þau hafa upp á að bjóða.
Eins og ég orðaði það í borgarstjórn í dag þá finnst mér þessi tillaga vægast sagt brilliant og í raun ótrúlegt að hún hafi ekki komið fram fyrr. Námskeið sem þessi munu svo sannarlega geta orðið til þess að fjölga notendum strætó til lengri tíma, minnka akstur og ekki síst til þess að auka sjálfsöryggi barna við að nota leiðakerfi strætó. Það er einmitt svona verkefni sem eru svo mikilvæg, svona verkefni kosta í raun sáralítið en gera svo mikið.
Þetta er góð viðbót við annað sem við erum að gera hjá Strætó bs. og er ég þess fullviss að stjórnin mun taka þessu fagnandi og finna leið til þess að Strætó bs. geti staðið að þessu verkefni, enda kynningin á leiðakerfi og þjónustu strætó augljós.
21.11.2009 | 11:47
Atvinnuleysi - nei takk!
Af www.jorunn.is frá 18.10.2009
Afleyðingar langtímaatvinnuleysis eru þess eðlis að samfélagið verður að gera allt til þess að vinna gegn því.
Þeim fer fjölgandi sem hafa verið atvinnulausir lengur en hálft til eitt ár. Rannsóknir sýna að því lengur sem einstaklingur er án atvinnu því meiri líkur eru á langtíma félagslegum erfiðleikum og líkurnar á því að einstaklingur fari aldrei aftur út á atvinnumarkaðinn vaxa í réttu hlutfalli við lengd atvinnuleysis. Einstaklingur sem hefur verið lengi án vinnu er í hættu á að einangrast og glíma við langtíma félagslegan vanda, þunglyndi og jafnvel félagsfælni. Fyrir þann einstakling verður æ erfiðara að hitta annað fólk, jafnvel sérstaklega vini og fjölskyldu sem eru í vinnu og allt gengur vel hjá. Fyrstu mánuðirnir eru ekki svo slæmir, en þegar atvinnuleysi hefur varað í ár, og jafnvel fleiri en eitt, þá fer staðan að versna. Einstaklingurinn fer smám saman að einangra sig frá öðrum og forðast að hitta aðra. Það verður æ erfiðara að halda haus eins og sagt er, og erfiðara að ræða stöðuna og ástandið. Hætta á að vonleysi, fælni, ótti, einmanaleiki og depurð geri vart við sig fara vaxandi og æ erfiðara verður að snúa þróuninni við.
Því er nauðsynlegt að stjórnvöld geri allt sem í þeirra valdi stendur til að skapa atvinnu í þessu árferði. Í lok september fagnaði ég því á bloggi mínu að stjórnvöld hefðu gefið út með afgerandi hætti að haldið yrði áfram með Búðarhálsvirkjun og álver í Helguvík. Því miður á það ekki lengur við. Ég fagna því þó enn að byggt verði hátæknisjúkrahús og ég fagna því að lífeyrissjóðirnir fjármagni framkvæmdir við vegagerð og hvaðeina annað sem getur skapað atvinnu. Það skiptir allt máli núna og hlutirnir þurfa að ganga hratt fyrir sig. Það skiptir miklu máli að stjórnvöld gefi til kynna að þau styðji við uppbyggingu hér og að þau vilji erlent fjármagn í atvinnuskapandi iðnað, verkefni eða framkvæmdir. Við höfum ekki langan tíma þegar þessir þættir eru annars vegar og atvinnuskapandi verkefni þarf að fara í núna, ekki á morgun eða eftir nokkra mánuði eða á næsta ári. Ríki og sveitarfélög geta aldrei skapað næga atvinnu fyrir þann fjölda sem nú er atvinnulaus, það eru fyrirtækin í landinu sem gera það um leið og umhverfið sem fyrirtækjunum er boðið uppá verður með þeim hætti að þau geti þrifist.
Það skiptir máli að mikið atvinnuleysi verði ekki viðvarandi hjá okkur. Hver einasta fjölskylda, hver einasti einstaklingur sem glímir við atvinnuleysi núna skiptir máli. Ríkisstjórnin verður að efla Vinnumálastofnun svo hægt sé að vinna í því að virkja þá einstaklinga sem nú eru á bótum. Einstaklingar sem nú eru án atvinnu þurfa að hafa eitthvað fyrir stafni og við verðum að finna þeim verkefni.
Mér er afar minnisstæð saga nokkur sem maður sagði mér sem var atvinnulaus hér í kringum 1993. Hann sagðist hafa verið að koðna niður þegar honum stóð til boða að taka þátt í samfélagsverkefni ásamt fjórum öðrum sem voru í svipaðri stöðu. Hann sagði þetta hafa skipt sköpum fyrir sig. Ekki einungis það að hafa tilgang og eitthvað fyrir stafni, ekki síður skipti miklu máli að kynnast öðrum. Kynnast fólki í svipaðri stöðu og eignast félaga og vini til að deila með áhyggjum sínum og efasemdum, ekki síst efasemdunum um sjálfan sig sem voru farnar að gera vart við sig. Hann vildi meina að þessi litli hópur hefði gert kraftaverk fyrir hann og haft þau áhrif að hann komst aftur út á vinnumarkaðinn fyrr en hann ella hefði gert.
Atvinnusköpun, verkefnasköpun
Eini möguleiki íslenskrar þjóðar í dag er að atvinnulífið komist aftur á lappirnar, því lengra sem líður því meira þarf til þess að koma hjólum atvinnulífsins af stað. Finnar segja að Nokia hafi komið þeim út úr kreppunni og taka jafnvel þannig til orða að segjast vona að við finnum okkar Nokia til að koma okkur út úr þessu. Við þurfum ekki að finna neitt Nokia, við eigum nokkuð sem fáar aðrar þjóðir eiga, við eigum næga orku, við eigum fiskinn og við eigum enn krónuna okkar sem nú getur hjálpað okkur í veikleika sínum. Höldum áfram, tökum þær ákvarðanir sem þarf að taka og siglum íslensku þjóðinni út úr þessum vanda með öllum þeim ráðum sem við höfum. Við erum öfunduð um allan heim af auðlindum okkar, nýtum þær í þágu íslensku þjóðarinnar og drögum ekki lappirnar í þeim efnum.
21.11.2009 | 11:45
Líf í Dalnum
Af bloggi mínu jorunn.is frá 17.10.2009
Mikið líf er í Laugardalnum um þessar mundir. Dagana 15 - 25. október er hér haldið Evrópumeistaramót fatlaðra í sundi. Keppt er í innilauginni í Laugardal þar sem aðstaða er til allrar fyrirmyndar. Án þessarar laugar væri erfitt fyrir okkur að halda mót sem þetta. Hingað til lands eru komnir yfir 400 erlendir íþróttamenn ásamt um 200 aðstoðarmönnum. Það skiptir miklu máli fyrir okkur að fá hingað ferðamenn og svona mót skila miklum tekjum inn til landsins og mikilvægt að vel takist til. Fyrir mig sem formann Strætó er einstaklega jákvætt að sjá alla þessa strætó-bíla í akstri um dalinn, en notaðir eru strætisvagnar við að flytja keppendur milli staða.
21.11.2009 | 11:43
Öll þessi reiði
Af bloggi mínu á Eyjunni eða jorunn.is 16.10 2009
Það er mikil reiði enn í þjóðfélaginu, ekki síst vegna þess óréttlætis sem fólki finnst hér eiga sér stað. Sumir vilja skella allri ábyrgð á hruninu á Sjálfstæðisflokkinn og þá sem þar voru í forystu. Í því sambandi gleymist alveg þáttur annarra flokka sem áttu þátt í þeim ákvörðunum sem teknar voru.
Reiðin er réttlát og eðlileg, en hún er farin að lita samfélagið okkar og það er óhætt að hafa áhyggjur af vaxandi reiði. Þessi réttláta reiði endurspeglast í umræðum manna á meðal, hún endurspeglast í pirringnum í biðröðinni, hún endurspeglast í minna þoli og minna umburðarlyndi og af því hef ég áhyggjur.
Millistéttin í landinu er alveg að fá nóg af óréttlætinu sem er í gangi. Venjulegt fólk sem gat vel staðið undir öllum sínum skuldbindingum á margt erfitt með það í dag. Þeir sem þó geta greitt, sjá fram á að vera eins og hamstur á hjóli næstu árin og uppskera ekkert nema hlaupin. Svo koma fréttir af því að rannsóknarnefndin geti því miður ekki skilað skýrslunni og þurfi lengri tíma. Var ekki hægt að sjá það fyrir löngu síðan að þyrfti meiri mannskap til að klára þetta? Það þarf að ljúka þessum störfum, hreinsa loftið og skapa sátt. Það þarf auk þess almennar aðgerðir gagnvart heimilunum, það er ekki sanngjarnt að þeir sem voru skuldsettir í topp fái sértækar aðgerðir en þeir sem geti borgað geti í besta falli fengið lengt í ólinni. Nokkuð hefur verið gert en það þarf að gera betur. Áfram með smjörið .
8.10.2009 | 08:28
Grunnskólabörn kynnast ferðamáta til framtíðar
Aukin þekking og færni á notkun strætó
Mikilvægt er að börn og unglingar öðlist færni í að nýta sér strætó við sem flest tækifæri, því þannig aukum við vitund yngstu kynslóðarinnar um þennan valkost í samgöngum. Aukin þekking og færni skilar sér síðan í því að börn og unglingar geta nýtt sér strætó betur, bæði á skólatíma og í frístundum.
Kortin verða útbúin með skjaldamerki þess sveitarfélags sem hver skóli tilheyrir og verður fjöldi korta mismunandi eftir skólum. Miðað verður við að aldrei séu færri en tvö slík kort í skóla en annars er miðað við að eitt kort sé gefið út á hver hundrað börn. Kortin gilda einungis utan annatíma strætó til að forðast það að grunnskólahópar komi í vagnana á þeim tímum sem flestir farþegar eru í vögnunum. Engu að síður er nauðsynlegt við notkun kortanna að fara ekki af stað með stóra hópa án þess að láta Strætó bs. vita fyrirfram að von sé á stórum hópum á ákveðnum tíma á ákveðnum leiðum. Jafnframt er nauðsynlegt að hafa í huga að greiðandi farþegar hafa alltaf forgang á hópa og getur þurft að skipta hóp á fleiri ferðir ef vagninn fyllist óþægilega mikið.
Eykur fjölbreytni skólastarfsins
Það er von okkar í stjórn Strætó bs. að þessi nýjung muni mælast vel fyrir í grunnskólum höfuðborgarsvæðisins og verða til þess að kennarar fari í auknum mæli með nemendur í vettvangsferðir. Það eykur fjölbreytni skólastarfsins um leið og börnin læra á strætósamgöngur og kynnast þannig ferðamáta til framtíðar.
Þessi grein birtist í Fréttablaðinu í dag
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.9.2009 | 21:28
Atvinnuleysi - atvinnusköpun
Afleyðingar atvinnuleysis í langan tíma eru þess eðlis að samfélagið verður að gera allt til þess að vinna gegn þeirri þróun sem er i gangi.
Þeim fer fjölgandi sem hafa verið atvinnulausir og á bótum lengur en 6 mánuði, það er nokkuð sem vert er að hafa áhyggjur af. Eftir því sem einstaklingur er lengur án atvinnu því meiri líkur eru á félagslegum erfiðleikum til lengri tíma og því meiri líkur eru á því að einstaklingurinn fari aldrei út á atvinnumarkaðinn aftur. Þannig á einstaklingur sem hefur verið án vinnu eða annarrar fastrar afþreyingar og reglulegra félagslegra tengsla í meira en sex mánuði á hættu að einangrast og glíma við langtíma félagslegan vanda, þunglyndi og félagsfælni. Þannig verður æ erfiðara að hitta annað fólk og þó sérstaklega vini og fjölskyldu sem eru í vinnu og allt gengur vel hjá. Einstaklingurinn fer að einangra sig frá öðrum og forðast að hitta aðra. Það verður æ erfiðara að halda haus eins og sagt er og erfiðara að ræða stöðuna og ástandið, fyrir nú utan hvað peningamálin verða oft erfið og flókin viðureignar er hitt þó sennilega erfiðara.
Fyrstu mánuðirnir eru ekki svo slæmir, en þegar þetta eru ekki lengur mánuðir heldur ár er staðan orðin erfið, þá er orðin veruleg hætta á því að þættir eins og fælni, ótti, einmanaleiki og depurð fari að gera vart við sig og æ erfiðara verður að snúa þróuninni við. Því er nauðsynlegt að stjórnvöld geri allt sem í þeirra valdi stendur til að skapa atvinnu í þessu árferði. Ég fagna því að byggt verði sjúkrahús og ríkisstjórnin hafi gefið út með afgerandi hætti að haldið verði áfram með Búðarhálsvirkjun og álver í Helguvík, ég fagna því að lífeyrissjóðirnir fjármagni framkvæmdir við vegagerð og hvaðeina annað sem getur skapað atvinnu. Það skiptir allt máli núna og þetta þarf að ganga hratt fyrri sig, við höfum ekki langan tíma þegar þessir þættir eru annars vegar og atvinnuskapandi verkefni þarf að fara í núna, ekki á næsta ári...
Það skiptir svo miklu máli að mikið atvinnuleysi verði ekki viðvarandi hjá okkur. Hver einasta fjölskylda, hver einasti einstaklingur sem glímir við atvinnuleysi núna skiptir máli. Ríkisstjórnin verður að efla Vinnumálastofnun svo hægt sé að vinna í því að virkja þá einstaklinga sem eru á bótum, jafnvel þó það þíði samfélagsþjónustu af einhverju tagi eða verkefni. Einstaklingarnir sem nú eru án atvinnu þurfa að hafa eitthvað fyrir stafni og við verðum að finna þeim verkefni.
Mér er alltaf svo minnisstætt nokkuð sem maður sagði mér sem hafði verið atvinnulaus hér í kringum 1993 og sagðist hafa verið að koðna niður þegar honum stóð til boða að taka þátt í samfélagsverkefni ásamt fjórum öðrum sem voru í svipaðri stöðu. Hann sagði þetta hafa skipt sköpum fyrir sig, ekki einungis það að hafa tilgang og eitthvað fyrir stafni, ekki síður skipti svo miklu máli að kynnast öðrum sem voru í svipaðri stöðu og eignast félaga og vini til að deila með áhyggjum sínum og efasemdum, ekki síst efasemdunum um sjálfan sig sem voru farnar að gera vart við sig. Hann vildi meina að þessi litli hópur hefði gert kraftaverk fyrir hann og haft þau áhrif að hann komst aftur út á vinnumarkaðinn fyrr en hann ella hefði gert.
Rannsóknir sína að því lengur sem einstaklingur er á bótum því meiri líkur eru á að hann komist aldrei aftur út á vinnumarkaðinn, líkamlegir og andlegir þættir fara að gera vart við sig og margir sem eru til lengri tíma atvinnulausir enda því miður veikir og laskaðir á sálu og líkama fyrir lífstíð og þeirra bíður ekkert annað en örorka og örorkubætur. Við verðum að vinna gegn þessu með því að skapa atvinnu og umhverfi svo atvinnuvegir okkar geti þrifist.
Atvinnusköpun, verkefnasköpun
Eini möguleiki íslenskrar þjóðar í dag er að atvinnulífið komist aftur á lappirnar, því lengra sem líður því meira þarf til þess að koma hjólum atvinnulífsins af stað. Finnar segja að Nokia hafi komið þeim út úr kreppunni og taka jafnvel þannig til orða að segjast vona að við finnum okkar Nokia til að koma okkur út úr þessu. Við þurfum ekki að finna neitt Nokia, við eigum nokkuð sem fáar aðrar þjóðir eiga, við eigum næga orku, við eigum fiskinn og við eigum enn krónuna okkar sem nú getur hjálpað okkur í veikleika sínum. Höldum áfram, tökum þær ákvarðanir sem þarf að taka og siglum íslensku þjóðinni út úr þessum vanda með öllum þeim ráðum sem við höfum. Við erum öfunduð um allan heim af auðlindum okkar, nýtum þær í þágu íslensku þjóðarinnar og drögum ekki lappirnar í þeim efnum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 29.9.2009 kl. 21:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
15.9.2009 | 17:32
Ábyrg og skynsamleg ákvörðun
Þá er lokið atkvæðagreiðslu um söluna á hlut Orkuveitu Reykjavíkur í HS Orku til Magma Energy Sweden og var salan samþykkt í borgarstjórn nú fyrir stundu.
Aðalatriði þessa máls eru einföld.
- Orkuveitu Reykjavíkur var uppálagt að selja sinn hlut í HS Orku á sama tíma og henni var uppálagt að kaupa hlut Hafnarfjarðarbæjar.
- Ef við seljum ekki eigum við á hættu að þurfa að greiða yfir 10 milljarða í bætur til Hafnafjarðabæjar í byrjun nýs árs.
- Ríkinu var gefinn frestur til þess að koma að málinu, gat keypt hlut okkar! Eða tekið aðrar ákvarðanir sem hefðu gert okkur kleift að fresta þessari sölu - Ríkið gerði ekkert í þá veru.
- Söluferlið hefur verið langt og opið.
Markmiðið með þessari sölu er ekki að einkavæða HS Orku heldur að losa OR við áhrifalítinn hlut í fyrirtækinu.
Það er fyrst og fremst til þess að virða úrskurð samkeppnisyfirvalda og samkeppnislög. Með þessu er jafnframt verið að leysa ágreining við Hafnarfjarðarbæ, styrkja fjárhagsstöðu OR og tryggja að milljarða fjárskuldbindingar lendi ekki á Reykvíkingum í framtíðinni.
Ekki er verið að selja auðlindir. Viðskiptin ná aðeins til samanlagðs hlutar í HS Orku, það er orkuframleiðsluhluta fyrirtækisins, en hvorki eignarréttar á auðlindum né einkaleyfisstarfseminnar. Eins og iðnaðarráðherra hefur bent á eru hagsmunir almennings ekki í hættu þótt einkafyrirtæki eignist hlut í orkuframleiðslufyrirtækjum.
Ákvörðun stjórnar OR var tekin eftir, langt og opið ferli þar sem allir og þ.á.m. ríkið gat komið að kaupum á hlut Orkuveitu Reykjavíkur í HS Orku.
Orkuveita Reykjavíkur og Magma Energy gáfu ríkisstjórn Íslands frest til að kanna hugsanlega aðkomu hennar að viðskiptunum, en ríkið hefur eins og aðrir haft rúma sjö mánuði til að koma að málinu.Borgarfulltrúar hafa haft langan tíma til að kynna sér málið og fjölmörgum fyrirspurnum um málið hefur verið svarað. Söluferlið hefur verið langt, gagnsætt og vandað. Salan hefur fengið ýtarlega umfjöllun á fundum stjórnar OR og hafði tilboð Magma Energy verið í höndum stjórnarmanna í 17 daga áður en framlengdur frestur Magma rann út þann 31. ágúst. Aðdragandi afgreiðslunnar er langur, málsmeðferð vönduð og umræður ýtarlegar.
Hvergi hefur komið fram betri lausn á því hvernig OR á að uppfylla kröfu samkeppnisyfirvalda um að minnka hlut sinn í HS Orku og uppfylla þannig samkeppnislög, leysa deilumál sín við Hafnarfjarðarbæ og standa vörð um fjárhagsstöðu OR. Orkuveita Reykjavíkur er í þeirri stöðu að verða að selja umræddan hlut í HS Orku og salan er vel ásættanleg í því efnahagsumhverfi sem nú ríkir.
Efnahags- og fjármálaumhverfi nútímans leyfir ekki mikla áhættutöku og það er skylda borgarfulltrúa að draga úr óvissu í rekstri. Í því ljósi er salan á hlut Orkuveitunnar í HS Orku skynsamleg. Auðvitað hefði verið betra að selja hlutinn við aðrar aðstæður en þeim tíma eða aðstæðum er ekki til að dreifa. Samkeppniseftirlitið heyrir undir Viðskiptaráðuneytið og ríkisstjórninni hefði verið í lófa lagið að gera breytingar og losa OR undan þeirri kvöð að selja hlut sinn í HS Orku eða gera aðrar þær breytingar sem hefðu auðveldað OR að eiga hlut sinn.
Að lokum vil ég vitna í orð borgarstjóra á fundi borgarstjórnar í dag.
Ég vil ítreka og leggja áherslu á þá staðreynd að það efnahags- og fjármálaumhverfi sem við lifum í núna leyfir ekki mikla áhættutöku. Það er skylda okkar sem ábyrgra fulltrúa þessarar borgar að styðja þær ráðstafanir fyrirtækja í okkar eigu sem eru til þess fallnar að draga úr óvissu í rekstri þeirra. Auðvitað hefði verið betra að selja þennan hlut við aðrar aðstæður. En aðrar aðstæður eru ekki fyrir hendi og ekkert okkar veit hvenær svo verður."
Stjórnmál og samfélag | Breytt 18.9.2009 kl. 23:20 | Slóð | Facebook
Um bloggið
Jórunn Frímannsdóttir
Bloggvinir
- Auðbergur Daníel Gíslason
- Áslaug Friðriksdóttir
- Baldvin Jónsson
- Einar Vignir Einarsson
- Emil Örn Kristjánsson
- Ingólfur H Þorleifsson
- Guðrún Magnea Helgadóttir
- Herdís Sigurjónsdóttir
- Íbúasamtökin Betra Breiðholt
- Kjartan Pálmarsson
- Ólafur fannberg
- Stefán Friðrik Stefánsson
- Sigríður Jónsdóttir
- Vignir Bjarnason
- Vilborg G. Hansen
- Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir
- Vefritid
- Axel Jóhann Axelsson
- Ásta Hafberg S.
- Brosveitan - Pétur Reynisson
- Bryndís Haraldsdóttir
- Charles Robert Onken
- Einar B Bragason
- Erla Margrét Gunnarsdóttir
- Erlendur Örn Fjeldsted
- Eyþór Laxdal Arnalds
- Friðrik Hansen Guðmundsson
- Gísli Blöndal
- Gunnar Gunnarsson
- Helgi Kr. Sigmundsson
- Hilmar Gunnlaugsson
- Hjalti Sigurðarson
- Jóhann Pétur
- Jón Daníelsson
- Jón Magnússon
- Jón Ríkharðsson
- Kjartan Magnússon
- Kristín Magdalena Ágústsdóttir
- Mál 214
- Natan Kolbeinsson
- Pjetur Stefánsson
- Sigurður Sigurðsson
- Sigurður Þórðarson
- Stefán Helgi Valsson
- Theodór Bender
- Vilhjálmur Árnason
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar