Almennar aðgerðir

Eftir að hafa hlýtt á Benedikt Jóhannesson í Speglinum í fyrrakvöld ákvað ég að nú væri kominn tími til að ég setti eitthvað á blað um þá skoðun mína að hér verði að koma til almennar aðgerðir gagnvart skuldum heimilanna. 

Það er margt sem fer í gegnum hugann við þessar aðstæður sem við nú lifum. Inngangurinn að viðtalinu við Benedikt var svo hljóðandi: "Enn eitt efnahagslegt áfallið er að dynja á íslensku þjóðinni: Landflótti. Það er unga fólkið sem fer, sérfræðingar sem eiga auðvelt með að fá vinnu í öðrum löndum. Fólkið fer vegna þess að það sér ekki fram úr fjárhagserfiðleikunum hér. Verði landflótti ámóta mikill og frá Færeyjum fyrir nærri 20 árum, lækka tekjur ríkisins um 16 prósent. Það yrði gríðarlegt áfall. Þetta segir Benedikt Jóhannesson, ritstjóri Vísbendingar, vikurits um efnahagsmál. Hann segir stjórnvöld verða að bregðast við og gera fólki fært að búa hér áfram. Það sé beinlínis þjóðfélagsleg nauðsyn að færa niður skuldir heimilanna, gera skuldabyrðina viðráðanlega svo fólk neyðist ekki til að flýja landið."

Mín skoðun er sú að það sé raunveruleg hætta á því að það verði ekki aðeins fólkið sem geti ekki borgað sem fari af landi brott, það er ekki síður áhyggjuefni ef fólkið sem getur borgað fer líka. Fólk sem sér ekki tilganginn í því að vera hér og borga og borga og borga. Borga skuldir sem eru langt umfram það sem það stofnaði til, afborganir sem eru langt umfram það sem það mátti búast við þegar lánin voru tekin og allt á sama tíma og laun þess lækka. Þriðji hópurinn er síðan þeir sem missa vinnu, fá starf erlendis, selja eignir hérna heima og koma ekki til baka. Þetta er stækkandi hópur.

Í máli Sigríðar Ingadóttur á visir.is í gær kom fram að hún er ekki fylgjandi almennum aðgerðum. Hún vill sértækar aðgerðir, við hjálpum Jóni en ekki Gunnu. Hvernig má það vera að hægt sé að telja að við komum í veg fyrir landflótta, sláum á reiðina í samfélaginu, minnkum tortryggnina og gefum fólki væntingar um sanngjarna málsmeðferð eingöngu með sértækum aðgerðum.  Ég á erfitt með að skilja þessi sjónarmið.  Hér var hægt að ganga fram í einu vetfangi og tryggja innistæður, ekki bara einstaklinga heldur og fyrirtækja, stofnana, lífeyrissjóða og svo framvegis. Það var hægt að leggja inn í bankana "skrilljónir" - og hverjir munu standa undir því að greiða þetta allt saman?
Þeir sem áttu innistæður í bönkunum fengu fulla vexti og verðbætur og innistæður þeirra voru tryggðar. Þeir einstaklingar sem skulduðu bönkunum (almenningur - unga fólkið okkar) mega hins vegar borga fullum fetum, með verðtryggingu og vöxtum.  Hafi þeir hinir sömu skuldað í erlendri mynt þá auðvitað hafa lánin þeirra hækkað miklu meira en sem nemur vöxtum og verðbótum, þá hafa lánin margfaldað sig. 

Ég sat í nefnd félagsmálaráðherra um húsnæðismál sem starfandi var á síðari hluta ársins 2007 og fram á sumar 2008, síðan var starf þessarar nefndar endurvakið skömmu eftir hrunið sem átti sér stað hér síðastliðið haust, en þá voru auðvitað umræðurnar ansi mikið breyttar og áherslur aðrar.  Það var á þessum nefndarfundum eftir hrun sem ég gerði mér ljóst mikilvægi þess að farið yrði í almennar aðgerðir til bjargar heimilunum, sértækar aðgerðir myndu aldrei gera annað en ala á tortryggni og reiði í samfélaginu.  Við ræddum þessa hluti mikið inn í þessari nefnd á þeim tveimur eða þremur fundum sem við áttum eftir hrun og fengum til okkar sérfræðinga til skrafs og ráðagerða. Flest okkar voru sammála um það að það sem skipti þjóðarbúið okkar mestu máli á þessum erfiðu tímum var það að hafa fólkið og þjóðina með sér.  Það væri ekkert mikilvægara en það að fólk væri áfram tilbúið að hlaupa, tilbúið að leggja sig fram og tilbúið að borga. Sigríður Ingadóttir deildi ekki þessum skoðunum okkar á þeim tíma og gerir greinilega ekki enn, en hún leiddi starf þessarar nefndar.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jakob Þór Haraldsson

Hjartanlega sammála öllu sem þú segir, þú gerir þér grein fyrir því hvað stefnir í hérlendis síðar í haust þegar fólk mun t.d. "hætta að greiða af lánum" af því að það getur ekki sætt sig við að fá alls enga leiðréttingu.  Þetta samfélag er og hefur verið í 20 ár bara viðbjóður og nú er fólk komið með nóg!  Hér mun allt loga í deilum og leiðindum síðar í haust.  Ég og fjöldi fólks er að spá í að yfirgefa Djöflaeyjuna, enda er þessi verðtrygging og langvarandi okur alstaðar, í verslunum og okurvextir, auk ónýtts gjaldmiðils - hér er bara ekki búandi..!  Siðblindir stjórnmála- & viðskiptamenn, og svo sjálftökulið sem er í stjórnmálum eingöngu til að moka pening, störfum og tækifærum undir sig og sýnar útvöldu fjölskyldur sem felst allar eru innmúraðar í spillingu FL-okkanna.  Alveg rosalegt að upplifa siðblinduna, spillinguna, græðgi og heimskuna sem er ávalt í gangi hérlendis.

kv. Heilbrigð skynsemi

Jakob Þór Haraldsson, 19.8.2009 kl. 14:34

2 Smámynd: Jens Pétur Jensen

Ég er sammála því að almennar aðgerðir eru réttlátari en sértækar, og auðvitað er einfaldast að fella sömu krónutölu niður hjá öllum. Þetta leysir hins vegar ekki vandann er ég hræddur um. Meðalhúsnæðisskuldir heimilanna eru um 8 mkr. skv. Seðlabankanum. Ef við ákveðum að fella niður 50%, eða um 4 mkr. þá dugar sú fjárhæð ekki þeim sem verst eru staddir. Því miður. Niðurfelling skulda þýðir að einhver annar á að greiða þær. Skuldir hverfa ekki þótt þær séu "felldar niður". Því þarf að liggja fyrir áætlun um hvernig á að ganga frá málinu, þ.e.a.s. hver á að greiða niðurfellinguna. Þess vegna eru "sértækar" aðgerðir, eins og fram fara í bönkunum og hjá Íls. raunhæfari aðgerðirnar og líklegri til þess að leysa vanda þeirra sem mjög illa fóru út úr bankahruninu. En fyrst þarf að komast að því hvað mikið þetta kostar og hvernig við getum fjármagnað dæmið.

Jens Pétur Jensen, 19.8.2009 kl. 15:25

3 Smámynd: Einar Guðjónsson

Borgarfulltrúar í Reykjavík eru slík andleg ofurmenni að það er nauðsynlegt fyrir líf fólksins í landinu að vita hvað þeir eru að hugsa.Tímamótagrein. Skuldaafsláttur fælist líka í því að leggja sveitarfélögin NIÐUR en sá bullrekstur allur kostar skattborgara 10% af mánaðrlaunum og ein mánaðarlaun í fasteignaskatta.

Einar Guðjónsson, 20.8.2009 kl. 11:16

4 Smámynd: Jórunn Ósk Frímannsdóttir

Sæll Einar og takk fyrir að lesa bloggið mitt :-) Við skulum vona að komi ekki til þess að þurfi að leggja sveitarfélögin niður, en það mætti þó örugglega fækka þeim enn frekar og ná fram frekari hagkvæmni með því.

Jens þetta snýst í mínum huga aðallega um hvort skaðinn verði enn meiri ef fólk missi trúna, áhugann, kraftinn og hugrekkið til þess að halda áfram hér. Skaðinn sem hér verður til langs tíma af brottflutningi fólks er gríðarlegur og eflaust erfitt að reikna hann nákvæmlega, en ef tölurnar verða eitthvað í líkingu við það sem gerðist í Færeyjum er sá skaði miklu meiri en einhver leiðrétting á skuldum heimilanna sem gæti orðið til þess að stór hluti fólks sem annars færi sé tilbúið til að berjast hér áfram.

Jakob, Þetta samfélag okkar er og verður alltaf best. Við erum rík þjóð og því megum við ekki gleyma, lestu ljóðið mitt í síðasta bloggi...

Jórunn Ósk Frímannsdóttir , 20.8.2009 kl. 12:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Jórunn Frímannsdóttir

Höfundur

Jórunn Ósk Frímannsdóttir
Jórunn Ósk Frímannsdóttir

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • ...i_mbl_blogg
  • ...logo
  • ...k_mynd_stor
  • Jólakortamynd 2009 003
  • DSCN2230

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband