19.6.2009 | 14:15
Ný stefnumótun stendur vörð um þjónustu Strætó
Stjórn og stjórnendur Strætó bs. hafa undanfarna mánuði unnið að mótun stefnu og framtíðarsýnar fyrir fyrirtækið ásamt því að endurskilgreina hlutverk þess sem þjónustufyrirtækis. Stefnumótunin hefur, eðli máls samkvæmt, verið undir áhrifum af þeim efnahagslegu þrengingum sem við búum við um þessar mundir. Fjármunir og fjármagn er af skornum skammti og sterk krafa er um það í samfélaginu að vel sé farið með almannafé um leið og leitast er við að veita góða og styrka þjónustu.
Höfuðmarkmið Strætó bs. er að strætósamgöngur á höfuðborgarsvæðinu séu góður og öruggur kostur í samanburði við aðra ferðamáta og stuðli að því að draga úr bílaumferð og þeim vandamálum sem henni fylgja. Framtíðarsýn stjórnar Strætó bs. er að í árslok 2014 verði Strætó þekkt sem fyrirmyndarfyrirtæki á sviði umhverfisvænna og skilvirkra strætósamgangna. Að þjónusta fyrirtækisins verði framúrskarandi og svari þörfum mikilvægustu markhópa þess. Leiðakerfið verði skilvirkt og hagkvæmt og starfsfólk ánægt og stolt af sínum störfum. Ímynd fyrirtækisins skal einkennast af virðingu, þjónustulund og vingjarnlegu viðmóti gagnvart notendum. Þá er stefnt að því að nýting fjármagns sem bundið er í rekstrinum verði með því besta sem þekkist og eigendur þess verði ánægðir með það samfélagslega virði sem þjónustan skapar.
Þjónustustefna til framtíðar
Stjórn Strætó bs. hefur skilgreint ítarlega þjónustustefnu í þeirri viðleitni að gera framtíðarsýn sína að veruleika. Þessi stefna er grundvölluð á nokkrum lykilmarkmiðum en hana er hægt að nálgast í heild sinni á http://www.straeto.is/.
Meðal helstu lykilmarkmiða er að leiðarkerfið skuli vera auðskilið og taka mið af almennum ferðaþörfum. Áhersla verður lögð á þjónustu á annatíma og hún efld eftir þörfum þannig að vagnar á stofnleiðum og öðrum helstu leiðum aki með að minnsta kosti 15 mínútna tíðni. Á öðrum tímum þ.e. um kvöld og á laugardögum og helgidögum sé þjónustan löguð að eftirspurn og haldið innan eðlilegra kostnaðarmarka á hverja ferð. Á minna notuðum leiðum getur tíðnin verið breytileg og í samræmi við notkun. Almennt er stefnt er að því að lækka meðalkostnað hverrar ferðar í leiðakerfinu í heild.
Mikilvægt er að hafa í huga að akstursleiðir geta breyst samfara fjölgun eða fækkun farþega. Til grundvallar verða þá hafðar nákvæmar reglubundnar talningar ásamt kostnaðarmati.
Í þjónustustefnunni er mikil áhersla á áreiðanleika, stundvísi og þægindi og þau markmið sett að 95% ferða séu innan 3ja mínútna frá áætlun og að vagninn sé aldrei á undan áætlun. Í því sambandi verður unnið að því með sveitarfélögunum að strætisvagnar fái aukinn forgang í umferðinni og þeir losaðir eftir megni við almennar ferðatafir.
Lögð verður aukin áhersla á innkaup og notkun umhverfisvænna vagna og nýtingu á umverfisvænum og innlendum orkugjöfum á borð við metan og raforku. Þá verða gerðar auknar kröfur til gæða og útbúnaðar í vögnum til að auka þægindi og öryggi notenda.
Almenna markmiðið er að hlutfall þeirra sem nota almenningssamgangnakerfið verði aukið innan næstu fimm ára. Í því sambandi verða markaðs- og kynningarmál efld og m.a. leitast við að kynna almenningssamgöngur sérstaklega í efri bekkjum grunnskóla á höfuðborgarsvæðinu og hvetja nemendur til aukinnar notkunar.
Almenningssamgöngur hafa sjaldan verið mikilvægari en einmitt nú. Með stefnumótun Strætó bs. til næstu fimm ára sýna stjórn samlagsins og aðildarsveitarfélög einbeittan vilja sinn til að standa vörð um þjónustuna þannig að hún nýtist sem flestum á eins hagkvæman hátt og kostur er.
Þessi grein birtist í Fréttablaðinu þann 18. júní síðastliðinn
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Um bloggið
Jórunn Frímannsdóttir
Bloggvinir
- Auðbergur Daníel Gíslason
- Áslaug Friðriksdóttir
- Baldvin Jónsson
- Einar Vignir Einarsson
- Emil Örn Kristjánsson
- Ingólfur H Þorleifsson
- Guðrún Magnea Helgadóttir
- Herdís Sigurjónsdóttir
- Íbúasamtökin Betra Breiðholt
- Kjartan Pálmarsson
- Ólafur fannberg
- Stefán Friðrik Stefánsson
- Sigríður Jónsdóttir
- Vignir Bjarnason
- Vilborg G. Hansen
- Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir
- Vefritid
- Axel Jóhann Axelsson
- Ásta Hafberg S.
- Brosveitan - Pétur Reynisson
- Bryndís Haraldsdóttir
- Charles Robert Onken
- Einar B Bragason
- Erla Margrét Gunnarsdóttir
- Erlendur Örn Fjeldsted
- Eyþór Laxdal Arnalds
- Friðrik Hansen Guðmundsson
- Gísli Blöndal
- Gunnar Gunnarsson
- Helgi Kr. Sigmundsson
- Hilmar Gunnlaugsson
- Hjalti Sigurðarson
- Jóhann Pétur
- Jón Daníelsson
- Jón Magnússon
- Jón Ríkharðsson
- Kjartan Magnússon
- Kristín Magdalena Ágústsdóttir
- Mál 214
- Natan Kolbeinsson
- Pjetur Stefánsson
- Sigurður Sigurðsson
- Sigurður Þórðarson
- Stefán Helgi Valsson
- Theodór Bender
- Vilhjálmur Árnason
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
þetta er allt voða fínt á blaði - en þegar ég tók strætó þá var raunveruleikinn annar. Fyrir það fyrsta þá var hver og einn strætóbílstjóri bara að keyra sína leið - hugsaði ekkert um aðra strætóa - en einmitt byggir kerfið á því að allir vinni saman, finnst mér. Svo var annað vandamál - þjónustan - ég gat ekki nýtt mér þjónustu á "útlensku" - skildi ekki bílstjórana og þeir ekki mig - gat ekki beðið þá um að láta minn vagn bíða (þeir voru ekki einu sinni enskumælandi).
Vona að þetta sem þú skrifar verði raunveruleikinn í alvörunni - þá er strætó á réttri leið.
Sigrún Óskars, 19.6.2009 kl. 23:48
Sem áhugamaður um almenningssamgöngur og samanburð á þeim við önnur lönd þá er ég með nokkrar spurningar sem mætti bera upp við stjórnina sem heild og gefa mér síðan svar. Þér er auðvitað frjálst að svara sjálf fyrir þína eigin hönd :)
1. Hvar (erlendis) hafa stjórnarmeðlimir séð fyrirmyndar strætókerfi, (eða efnisatriði um leiðarkerfi), kerfi sem þeir vilja sjá Íslandi ?
2. Eru núverandi leiðartöflur þessar "auðskildu" sem settar eru fram í stefnumótuninni ?
3. Hvers vegna eru 22 leiðir af 28 (79%) með meginstefnulínuna í vestur <-> austur þegar allar afstöðumyndir af höfuðborgarsvæðinu sýna að meginstefnulína höfuðborgarsvæðisins í heild er norður <-> suður (NNV <-> SSA) og hefur verið þannig í marga áratugi ?
4. Hvers vegna er öllum vögnum á öllum leiðum, (á öllum vöktum), ekið "alla leið" ? (útsk. Gríðarlega algengt er í lesta- rútu- og strætisvagnakerfum erlendis að megin þorri farartækjanna sinnir kjarnasvæðum en aðeins 2. - 4. hver fararskjóti er sendur alla leið til jaðarsvæðis/endastöðvar. Þetta er t.d. einn megin tilgangurinn í endastöðvarmerkingum ásamt leiðarnúmeri í nútíma leiðarkerfi).
5. Ég sé því miður ekkert í stefnumótuninni ykkar um tungumálakunnáttu starfsmanna og þá með áherslu á íslensku. Er slík kunnátta ennþá óþarfi þegar eknir eru strætisvagnar á íslandi ?
6. Mega þeir fjölmörgu farþegar og ferðamenn sem hefðu hug á að taka strætó á sumrin eiga von á áframhaldandi "helmingsþjónustu" eftir lok skóla ?
7. Vilið þið gefa til baka þegar ég á bara 500 kall ?
...það eru til voða fínir klinkstaukar sem eru sérhannaðir til að vera fljótvirkir í notkun... :)
8. Viljið þið taka við greiðslukortum (örgjörva jafnvel) fyrst það eru orðin meira en 5 ár síðan þráðlausir posar urðu til ?
9. Hve margir stjórnarmeðlimir taka strætó reglulega ?
10.Er í lagi að ég panti leigubíl og sendi Strætó reikninginn ef vagninn er meira en 8 mínútum of seinn (eins og í Stokkhólmi) ?
B Ewing, 20.6.2009 kl. 00:55
Hvet Jórunni til að svara áhugaverðum spurningum Bés Ewings.
Páll Geir Bjarnason, 20.6.2009 kl. 04:19
Sigrún bendir reyndar á enn eitt atriðið sem hefur ekki virkað hjá Strætó lengi, samvinnu bílstjóra milli leiða en höfundur var ekki búinn að birta þá athugasemd er ég setti fram spurningalistann minn.
Svo að ég segi Sigrúnu mitt álit á því atriði, þá eru það nokkrir samverkandi þættir sem valda erfiðleikum við samspil kerfisins milli leiða og ætla ég ekki að fara nákvæmlega yfir hvern og einn þeirra hér og nú. Ástæður vonds samspils í kerfinu þarf að taka saman í sér greinargerð og bæta úr þeim atriðum sem myndu koma í ljós við slíka vinnu.
Nokkra punkta get ég nefnt hér í fljótheitum. Þó er þetta engan vegin tæmandi listi, auk þess sem margt hefur áunnist í sumum þessara atriða þó enn eigi eftir að bæta úr öðru og vinna við enn önnur yrði að vera í samráði við til þess bæra aðila.
- Of langar vaktir
- Of lítill hvíldartími milli ferða
- Fáar tímajöfnunarstöðvar og/eða óhentug aðstaða til tímajöfnunar.
- Of lítill forgangur fyrir strætó
- Óraunhæf tímaáætlun
- Of mikið um tíma- og tíðnibreytingar yfir daginn.
- Niðurfelling svokallaðra einkaleiða fyrir strætisvagna um hverfin (man eftir einni einkaleið og einni gegnumakstursleið í notkun í dag).
- Óhentugir vagnar sums staðar (of stórir, litlir hægfara, gamlir o.s.frv.)
------------
Gott er að ímynda sér að leiðarkerfið sé klukka. Klukka gengur ekki rétt nema búið sé að fínstilla alla þætti hennar saman.
Ef ég myndi heimfæra ofantalin atriði fyrir klukku þá yrðu þau einhvern vegin svona:
- Hafa mikið álag á tannhjólunum
- Tannhjólin látin ganga of hratt
- Leiðrétting milli tannhjóla gerist of sjaldan innan í gangverkinu
- Flókin samsetning
- Gangverkið hefur vart undan þrátt fyrir að tannhjólin séu látin ganga of hratt
- Margar breytingar á innri virkni tannhjólanna meðan gangverkið vinnur
- Flókin samsetning (aftur)
- Gangverkið er samsett úr of stórum, of litlum, óhentugum og jafnvel gömum tannhjólum
Það sjá allir í hendi sér að klukka sem er látin ganga við ofangreindar aðstæður gengur að öllum líkindum afar skrikkjótt, ef þá það....
-------------
Ég hlakka afar mikið til að lesa svörin við spurningum mínum.
B Ewing, 21.6.2009 kl. 22:24
Takk fyrir áhugaverðar spurningar B. Ewing.
Ég vil byrja á að afsaka hvað ég svara seint, var ekki við tölvu fyrr en nú.
Unnið hefur verið að lagfæringum á þeim hnökrum sem hér eru nefndir eins og frekast er kostur, þeim er þó hvergi nærri lokið. Það er mikill vilji meðal stjórnenda og starfsmanna Strætó bs að leggja sig fram um að veita góða þjónustu og setja þjónustuna í öndvegi í hvívetna.
Síðustu árin hefur verið afar erfitt að manna stöður vagnstjóra og því var nauðsynlegt að ráða inn erlenda bílstjóra sem því miður voru oft á tíðum ekki nógu vel að sér í íslensku, þessu er unnið að því að ráða bót með íslenskukennslu og þjálfun starfsmanna og er það von okkar að farþegar þurfi ekki að lenda í því að bílstjóri skilji ekki einfaldar spurningar.
Ég svara öðru betur síðar :-)
Jórunn Ósk Frímannsdóttir , 22.6.2009 kl. 23:40
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.