Ræða mín við afgreiðslu fjárhagsáætlunar borgarinnar

 

Forseti ágætu borgarfulltrúar,

Ég vil byrja á því hér að þakka öllum sem að fjárhagsáætlunarvinnunni hafa komið, en ekki síst fulltrúum velferðarráðs, sviðsstjóra og starfsmönnum Velferðarsviðs fyrir þá miklu vinnu sem allir hafa lagt af mörkum við gerð þessarar fjárhagsáætlunar. Fulltrúar Velferðarráðs eiga hrós skilið fyrir sína aðkomu að þeirri góðu lendingu sem við höfum  náð í Velferðarmálum í borginni. Í framhaldi af umræðu hér fyrr í dag um hækkun fjárhagsaðstoðar og hvernig sú hækkun sé tilkomin þá vil ég segja það fyrir hönd allra fulltrúa í Velferðarráði að allir fulltrúar velferðarráðs lögðu sitt af mörkum við það að standa vörð um velferðarþjónustuna og lögðu sitt af mörkum til þess að fá hækkun á fjárhagsaðstoð inn í áætlunina hvort sem fulltrúar koma frá meirihluta eða minnihluta, enda var gerð sameiginleg bókun í Velferðarráði þar sem tíundaðar voru áhyggjur allra fulltrúa ráðsins af því að nauðsynlegt væri að hækka fjárhagsaðstoðina.

Velferðarráð lagði fram sameiginlega bókun þess efnis í Velferðarráði þann 16. desember 2009, en hún er svohljóðandi með leyfi forseta:

  • Velferðaráð beinir því til þverpólitísks aðgerðarhóps borgarstjórnar að grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar og heimildargreiðslur vegna barna verði hækkaðar.
  • Einnig undirstrikar velferðaráð að viðbótarfjármagn verði tryggt í fjárhagsaðstoð og húsaleigubætur fari þeir liðir fram úr samþykktri fjárhagsáætlun.
  • Þá er ljóst að velferðaráð getur ekki skorið niður yfirvinnu á sama hátt og önnur svið vegna sérstöðu lögbundinnar sólarhringsþjónustu við börn, fatlaðra og aldraða og kjarasamninga við umönnunarstéttir.
    Mér finnst afar mikilvægt að þessi samstaða ráðsins í þessari mikilvægu vinnu komi hér fram.

Fyrir hönd velferðarráðs vil ég þakka þann mikla stuðning við velferðarmál í borginni sem fram hefur komið í undirbúningi þessarar fjárhagsáætlunar. Það er öllum ljóst að eitt af stærstu verkefnum borgarinnar næstu misserin verður að styðja við íbúa í gegnum þær þrengingar sem framundan eru. Markmið laga um félagsþjónustu sveitarfélaga er að tryggja fjárhagslegt og félagslegt öryggi og stuðla að velferð íbúa á grundvelli samhjálpar með því að:

  • Bæta lífskjör þeirra sem standa höllum fæti
  • Tryggja þroskavænleg uppeldisskilyrði barna og ungmenna
  • Veita aðstoð til þess að íbúar geti búið sem lengst í heimahúsum, stundað atvinnu og lifað sem eðlilegustu lífi
  • Grípa til aðgerða til að koma í veg fyrir félagsleg vandamál

Eins ótrúlegt og það nú er á árinu 2009 hér á Íslandi þá stöndum við nú frammi fyrir því að velta því fyrir okkur alveg í grunninn hvað þessi orð þýða. Við höfum gert margt gott á undanförnum árum þegar flestir hafa notið góðra lífskjara og við höfum náð að bjóða fleirum betri þjónustu. Við höfum getað einbeitt okkur að þeim hópum fólks sem af einhverjum ástæðum hafa staðið höllum fæti í samfélaginu og við höfum náð að gera það betur. Við höfum bætt þjónustuna og við höfum getað leyft okkur að láta marga drauma rætast um það hvernig hlutirnir ættu að vera eins og þeim best gæti verið fyrirkomið.

Eins og hendi væri veifað var okkur skyndilega kippt aftur niður á jörðina.  Velferðarráð stendur nú frammi fyrir því að á þessu ári má eiga von á því að til okkar muni leita fólk sem hingað til hefur ekki þurft á þjónustu okkar að halda. Það hefur tekið okkur dálítinn tíma að átta okkur á því hvað það þýðir raunverulega. Í sem stystu máli sagt þýðir það að við verðum að vera mjög markviss og skipulögð í því sem við tökum okkur fyrir hendur í velferðarþjónustu næstu misserin. Það þýðir að við verðum að einbeita okkur að aðalatriðunum og það þýðir því miður að við verðum á stundum að draga úr viðbótarþjónustu og einbeita okkur að grunnþjónustu. Það má auðvitað alltaf deila um það hvað er viðbótarþjónusta og hvað er grunnþjónusta og þess vegna er í gangi umræða innan Sambands Sveitarfélaga um að skilgreina það hvað fellur undir grunnþjónustu.

Sá beiski sannleikur sem við stöndum frammi fyrir núna er að í meira mæli en áður mun þjónusta okkar felast í því að sjá til þess að fólk hafi nauðþurftir eins og þak yfir höfuðið og mat á borðum. Þetta hljómar ótrúlega, en svona er það. Við erum að horfa fram á meira atvinnuleysi hér í Reykjavík en við höfum áður séð, allavega við sem hér erum höfum séð eða kynnst. Atvinnuleysi getur haft skelfilegar afleiðingar fyrir fólk, andlega, líkamlega og fjárhagslega. Það hefur ekki bara afleiðingar fyrir einstaklinga, því flestir einstaklingar tilheyra fjölskyldum og eins og við vitum hefur líðan eins fjölskyldumeðlims áhrif á líðan annarra. Börnin eru sérstaklega viðkvæm fyrir og það getur því miður orðið eitt af okkar verkefnum næstu ár að fást við afleiðingar atvinnuleysis foreldra á börn. Það ríður því á að við tryggjum það sem best að þjónusta við börn og unglinga verði áfram til staðar, þó að kannski form hennar og umfang breytist. Þannig tryggjum við sem best að við og starfsfólk Barnaverndar Reykjavíkur muni ekki þurfa að horfa á skelfilega aukningu barnaverndarmála á komandi mánuðum og jafnvel árum. Stýrihópur um atvinnumál er nú starfandi. Þessi hópur var skipaður af borgarráði og er honum ætlað að fylgjast með og meta þróun atvinnuleysis og velta upp mögulegum viðbrögðum innan borgarinnar og koma með tillögur ef við á. Á þessum tímum er afar mikilvægt að fylgjast vel með þróun mála og leggja áherslu á að gera það sem í okkar valdi stendur til þess að sporna gegn fylgikvillum atvinnuleysis sem eru margvíslegir og yfirleitt neikvæðir.  

Forseti, góðir borgarfulltrúar,

Vinna Velferðarsviðs borgarinnar undanfarnar vikur hefur miðað að því að mæta nýjum raunveruleika í rekstri borgarinnar. Raunveruleika þar sem tekjur minnka og nauðsynlegt er að forgangsraða á öllum sviðum, hvort sem fagfólki, stjórnmálamönnum, íbúum, aðstandendum og notendum þjónustu líkar betur eða verr. Gríðarleg áhersla hefur verið lögð á að leita fyrst allra leiða til sparnaðar í rekstri og yfirbyggingu velferðarsviðsins og leggja áherslu á að starfsemi í framlínu, í beinni þjónustu við borgarbúa, haldist óbreytt. Síðan hefur verið leitað leiða til að framkvæma þjónustu á nýjan hátt. Í lengstu lög höfum við viljað komast hjá því að skera niður þjónustu eða hætta henni alveg. Ég vil segja það starfsfólki Velferðarsviðs til hróss að það hefur tekið af festu, ákveðni og skilningi á þessu verkefni og það hefur gengið merkilega vel miðað við aðstæður. En þrátt fyrir allt sem þegar hefur verið gert mun Velferðarsvið, rétt eins og önnur svið,  jafnframt þurfa að leita nýrra leiða til að verja störf fólks. Leiða sem fyrir aðeins þremur mánuðum síðan hefðu virst óhugsandi. Þar er ég ekki síst að tala um endurskoðun á yfirvinnu og launum.

En það er ýmislegt sem við getum gert sem þarf ekki endilega að kosta svo mikið og jafnvel ekki neitt. Á þessum tímum er mikilvægt að þjónustumiðstöðvarnar sem eru jú ekki síst okkar framlínusveit virki vel.  Virki sem sá sameiningarkraftur hverfanna sem þeim er ætlað, nærþjónustuhópar þjónustumiðstöðva hafa aldrei verið mikilvægari en einmitt nú, en nærþjónustuhópunum er ætlað að  sameina krafta allra þeirra sem koma að þjónustu við eldri borgara í hverfunum. Þetta eru t.d. RKÍ, Kirkjan, Heilsugæslan, Heimaþjónustan og Heimahjúkrun auk fleirum. þjónustumiðstöðvar geta skipt miklu máli í því að virkja sjálfboðaliða og sameina hópa sem eru tilbúnir að leggja fram krafta sína til aðstoðar þeim sem á þurfa að halda. Á þessum tíma tel ég þetta hlutverk þjónustumiðstöðvanna afar mikilvægt, enda gegna þar líka lykilhlutverki við það eftirlit sem er svo einmitt svo nauðsynlegt á þessum tímum, ekki síst hvað varðar þjónustu við börn s.s. frístundastarf, íþróttastarf, leikskóla, heitan mat og aðra þá þjónustuþætti sem  svo auðvelt er að mæla.

Ég vil sérstaklega leggja áherslu á nokkur atriði í þessari yfirferð minni: Skv. frumvarpi 2009 er rekstarniðurstaða Velferðarsviðs rúmir 9,1 milljarður en það er tæplega 20% hækkun á framlögum milli ára. Gert er ráð fyrir um 7% atvinnuleysi og að grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar og heimildargreiðslur vegna barna hækki um 16,35%. Samkvæmt spám borgarhagfræðings og fjármálaskrifstofu Velferðarsviðs þýðir það að fjárhagsaðstoð fyrir árið 2009 nemi tæpum 2,1 milljarði króna, sem er 87% aukning á framlögum til fjárhagsaðstoðar frá fyrra ári. Mikil óvissa ríkir um þróun atvinnuleysis og því er lagt til að fjárhagsaðstoðin verði bundinn liður, bundinn liður þíðir að ef verður hér breyting á fjárhagsaðstoð hvort sem verður til hækkunar eða lækkunar á fjárþörf sviðsins þá mun það ekki hafa áhrif á annað sem viðkemur fjárhagsáætlun sviðsins. Jafnframt er lagt til að húsaleigubætur verði bundinn liður, aftur vegna óvissu í atvinnumálum en einnig vegna óvissu um framlag jöfnunarsjóðs sveitarfélaga.  Þetta þýðir að  verði atvinnuleysi meira en spáð er og aukist þörf fyrir fjárhagsaðstoð og húsaleigubætur umfram áætlun mun fást til þess meira fjármagn þannig að ekki þurfi að koma til niðurskurðar á þjónustu sviðsins til að mæta aukinni fjárþörf.

Nú um áramótin tók borgin við rekstri heimahjúkrunar af ríkinu og á næstu mánuðum verður unnið að sameiningu á rekstri heimahjúkrunar og félagslegrar heimaþjónustu. Þetta verkefni er tilraunaverkefni til þriggja ára og mun ríkið greiða um 2,8 milljarða til verkefnisins á þremur árum, þar af tæpar 900 milljónir á þessu ári. Í fjárhagsáætlun höfum við gert ráð fyrir að rúmum 100 milljónum króna verði varið á þessu ári til félagslegrar heimaþjónustu og samtals verður því um tveimur milljörðum króna varið til þjónustu við aldraða, sjúka og fatlaða í heimahúsum í borginni á árinu 2009.  Ljóst er að notendum heimaþjónustu gæti fjölgað í kjölfar hagræðingarkröfu í heilbrigðisþjónustu á vegum ríkisins. Með nýju rekstrarfyrirkomulagi erum við betur í stakk búin en ella til að taka við slíkri aukningu en við munum halda mjög vöku okkar gagnvart því ef sú aukning verður umfram það sem eðlilegt getur talist. Annað stórt verkefni sem unnið var að á Velferðarsviði á síðasta ári var flutningur á málefnum geðfatlaðra til borgarinnar. Fyrsti hluti þess verkefnis er nú kominn í gang og er undirbúningur vegna uppsetningar búsetukjarna kominn vel á veg. Áætlað er að annar hluti verkefnisins hefjist í apríl.

Loks má nefna að innleiðing á nýrri stefnu í málefnum utangarðsfólks sem kynnt var í byrjun september á nýliðnu ári hefur gengið vel. Tekin hafa verið í notkun fjögur smáhýsi sem langtímahúsnæði og eftir nokkra byrjunarörðugleika hefur búseta þar gengið vel. Unnið er að  samningi um aukna dagþjónustu fyrir utangarðsfólk en alls er gert ráð fyrir að verja 17 milljónum króna til að fylgja eftir stefnunni á þessu ári.

Reynslan í nágrannalöndum okkar benda til að þegar kreppir að í samfélaginu fjölgi barnaverndarmálum. Við munum því sérstaklega halda vöku okkar fyrir þeim málaflokki næstu misserin.

Forseti ágætu borgarfulltrúar

Af framansögðu má heyra að mikil áhersla hefur verið lögð á það af hendi velferðarráðs að standa vörð um fjármagn til grunnþjónustu í velferðarmálum. Það er hins vegar ljóst að forgangsröðun grunnþjónustunnar og áhersla á framlínuþjónustu við íbúa borgarinnar kallar á ýmsar breytingar sem m.a. felast í endurskipulagningu þjónustu og verkefna sem og mikla áherslu á hagræðingu í rekstri sviðsins. Ekki er gert ráð fyrir fjölgun starfsfólks og dregið verður úr yfirvinnu, fræðslu-, ferða- og kynningarkostnaði og aðkeyptri vinnu. Sérstakt átak verður gert til hagræðingar í innkaupum og markvisst verður haldið áfram að leita leiða til kostnaðarhagræðingar í öllum rekstrarþáttum, þ.m.t. húsnæðismálum og upplýsingatæknimálum. Til viðbótar við hina umfangsmiklu og mikilvægu þjónustu sviðsins við íbúa verður þetta verkefni starfsmanna á þessu ári.

Auðvitað hefðum við í velferðarráði viljað að enn meira fé hefði verið varið til velferðarmála, nú á tímum þegar þörfin fyrir velferðarþjónustu hefur aldrei verið meiri. En í ljósi aðstæðna tel ég að við og raunar allir borgarbúar megi mjög vel við una. Það væri óábyrgt annað við þessar aðstæður en að huga að öllum leiðum til hagræðingar og sparnaðar og endurskoðunar á forgangsröðun.

Virðulegi forseti

Ég vil nú aðeins koma að málefnum Strætó bs. þar sem ég er nú formaður stjórnar.
Það ánægjulega er að gerast hjá Strætó bs. þessa mánuðina að farþegum er að fjölga og standa væntingar til þess að enn frekari fjölgun muni eiga sér stað á næstu vikum og mánuðum. Það er margt sem hjálpast að við að breyta þróun almenningssamgangna á þennan jákvæða veg fyrir fyrirtækið.  Fyrst vil ég nefna breytt efnahagsumhverfi sem á klárlega sinn þátt í því að fleiri kjósa nú þann ódýra og góða kost sem Strætó er. Jákvæðari umræðu um Strætó undanfarin misseri.  Vandað og gott leiðakerfi sem þjónustar höfuðborgarsvæðið allt og nú meira að segja hið nýja stór-höfuðborgarsvæði eða allt upp í Borgarnes og austur á Selfoss. Strætóreinar sem gera Strætisvögnum kleift að aka óhindrað þrátt fyrir mikla umferð eftir Stóru umferðaræðunum gera vögnunum kleift að komast hraðar yfir og eftir því er tekið, auk þess sem það gerir vögnunum kleift að halda áætlun þrátt fyrir mikla umferð og svona mætti lengi telja.  En það er ekki allt fengið með auknum fjölda farþega. 

Þó farþegum fjölgi þá aukast ekki tekjur Strætó bs. í beinu samræmi við það. það er þó morgunljóst að betri nýting vagnanna hlýtur að þýða meira hagræði í rekstri. En þó er það þannig að einungis rúm 20% rekstrarkostnaðar Strætó bs. er fjármagnaður með fargjaldasölu. Hver veit þó nema geti orðið breyting á því með tilkomu nýrra greiðsluleiða, en hugsanlega er að koma ný lausn sem gerir einstaklingum kleift að greiða fyrir stakt fargjald með GSM símalausn, en í Svíþjóð er þetta að verða mikið notuð greiðsluaðferð og vonandi munum við geta tekið upp þessa tegund greiðslufyrirkomulags á þessu ári.

Fjárhagsáætlun fyrir Strætó bs. var samþykkt á stjórnarfundi Strætó þann 28. nóvember síðastliðinn í þeirri fjárhagsáætlun var gert ráð fyrir launahækkun upp á um það bil 5%, en aðeins nokkrum dögum síðar var hins vegar samþykkt í samningum sveitarfélaga að allir fengju hækkun upp á rúmar 20.000.- krónur, en sú hækkun þýðir hátt í 10% hækkun launakostnaðar hjá Strætó bs. Ljóst er því að vegna þessarar breytingar einnar er hætta á að vanti aukin framlög frá sveitarfélögunum sem standa að rekstri fyrirtækisins, en næsti stjórnarfundur er áætlaður þann 9. janúar næstkomandi þar sem stjórnin mun fara yfir það með hvaða hætti þessum breyttu forsendum fjárhagsáætlunar verður mætt.

Hagræða hefur þurft mikið í rekstri Strætó undanfarið og sérstaklega nú í því ástandi sem við erum nú í og horfum fram á.  Dregið hefur verið úr yfirvinnu, öll innkaupamál hafa verið endurskoðuð, yfirvinna hefur verið skorin niður, farið var í  þjónustuaðlögun að eftirspurn. Endurskoðun vakta- og bakvaktakerfa hjá akstursdeild, þvottastöð, verkstæði og ferðaþjónustu fatlaðra er nú í fullum gangi.  Ennfremur hefur verið farið í endurskipulagningu stjórnstöðva í eitt sameiginlegt þjónustuver.

Verið er að skoða það að lækka laun helstu stjórnenda og stjórnamanna fyrirtækisins og er þetta allt liður í því að ná fram frekari hagræðingu og sína viljann í verki.

Það er mikil vinna framundan hjá stjórn Strætó bs. við endurskoðun stofnsamþykkta samlagsins og stefnumótunarvinnu. Stjórn Strætó bs. er einhuga í því að fara í stefnumótunarvinnu til framtíðar fyrir Strætó bs. á nýju ári. Stjórnin er sammála um það að gera enga byltingu í leiðarkerfinu enda nýbúið að því og notendur nú loks að jafna sig á því öllu saman. Stjórn og stjórnendur munu horfa til þess að laga kerfið sem best að þörfum notendanna. Haldið verður áfram að nota talningar til þess að meta stöðuna og vita hver notkunin er hverju sinni og hvernig hún breytist frá einu tímabili til annars.

Það er afar mikilvægt að skilgreina þjónustuna enn betur en þegar hefur verið gert. Sérstaklega þarf í því sambandi að horfa til þess að:

  • skilgreina akstursþéttni eftir fjölda farþega
  • skilgreina lengd að stoppistöð eftir þéttleika íbúðasvæðis
  • skilgreina hver hlutur farþega í rekstrinum eigi að vera
  • skilgreina ný markmið um gæði þjónustu og áfram mætti lengi telja.

Það er afar spennandi verkefni að takast á við að móta stefnu fyrirtækisins til framtíðar og reyna að skapa sameiginlega framtíðarsýn aðstandenda Strætó bs. og vona ég að stjórnarmenn fái til þess starfs fullan stuðning sinna sveitarfélaga. 

Mikilvægt er að sveitarfélögin sem standa að rekstri Strætó bs. hafi sameiginlega sín á það hvert skuli stefna, hver séu markmið fyrirtækisins og hver eigi að vera viðmiðunargildi við veitingu þjónustunnar og fleira í þeim dúr. 

Við stefnumótunarvinnuna sem nú er framundan mun ég vera í góðu sambandi við umhverfis og samgönguráð í Reykjavík og auðvitað Borgarráð þegar svo ber undir og geri ráð fyrir að fulltrúar annarra sveitarfélaga í stjórninni verði í góðu sambandi við sitt bakland.  Það skiptir miklu máli við að skapa sameiginlega sín og tryggja það að við séum að ganga í takt.

Í því sérstaka umhverfi sem við nú stöndum frammi fyrir og þeirri erfiðu stöðu sem sveitarfélögin sem standa að rekstri Strætó bs. standa frammi fyrir er ljóst að höfuðverkefni stjórnarinnar og æðstu stjórnenda fyrirtækisins verður að standa vörð um þá góðu þjónustu sem Strætó bs. veitir og aðlaga leiðakerfið eftir því sem notkunin segir til um.

Virðulegi forseti ágætu borgarfulltrúar

Ég vil að lokum ítreka þakkir til allra þeirra sem lögðu sitt af mörkum við að gera þessa fjárhagsáætlun að veruleika, ekki síst starfsmanna Velferðarsviðs og fulltrúa í velferðarráði.  Ég vil einnig ítreka það sem ég sagði í upphafi: markmið okkar í Velferðarráði í allri þeirri vinnu sem lokið er og í allri þeirri vinnu sem framundan er á þessu ári er að leggja alla áherslu á að vernda grunnþætti í þjónustunni: þjónustu við þá sem þurfa á fjárhagsaðstoð að halda, þjónustu við aldraða, sjúka og fatlaða, þjónustu við börn og ungmenni og þjónustu til að styðja við andlega heilsu fullorðinna einstaklinga.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Um bloggið

Jórunn Frímannsdóttir

Höfundur

Jórunn Ósk Frímannsdóttir
Jórunn Ósk Frímannsdóttir

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • ...i_mbl_blogg
  • ...logo
  • ...k_mynd_stor
  • Jólakortamynd 2009 003
  • DSCN2230

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.7.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 9
  • Frá upphafi: 85235

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 8
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband