Grunnþjónusta Strætó tryggð í erfiðu árferði

Þessi grein birtist í Morgunblaðinu þann 10. febrúar síðastliðinn

Það dylst engum að í hönd fara erfiðir tímar, hvort heldur fyrir heimilin í landinu, fyrirtæki eða hið opinbera. Strætó bs. hefur ekki farið varhluta af þessu ástandi því gríðarlegar kostnaðarhækkanir hafa orðið í rekstri byggðasamlagsins síðustu mánuði í kjölfar falls krónunnar sem setja sveitarfélögin sem standa að rekstri almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu í erfiða stöðu. Aðhald í rekstri sveitarfélaganna hefur sjaldan verið mikilvægara en um leið þarf að standa vörð um grunnþjónustu á borð við almenningssamgöngur. Sveitarfélögin náðu við gerð rekstraráætlunar Strætó bs. fyrir árið 2009 samkomulagi um að auka útgjöld sín til byggðasamlagsins um 10% á þessu ári auk þess að leggja 100 milljónir inn sem eingreiðslu vegna halla síðasta árs. Jafnframt var ákveðið að halda gjaldskrá óbreyttri, en hún hefur ekki hækkað frá ársbyrjun 2007 þrátt fyrir mikla verðbólgu á tímabilinu.

En þótt ákveðið hafi verið að hækka framlög sveitarfélaganna til Strætó bs. var ljóst að það myndi ekki duga til að standa undir rekstri Strætó í óbreyttri mynd. Því var nauðsynlegt að grípa til aðgerða. Höfum hugfast að tekjur af farmiðasölu Strætó bs. duga fyrir um fimmtungi rekstrarkostnaðar, en afganginn greiða sveitarfélögin með beinum framlögum sem munu nema um tveimur og hálfum milljarði á þessu ári. Þetta eru miklir fjármunir og afar brýnt fyrir sveitarfélögin og íbúa þeirra að þeir dugi til að standa undir rekstri Strætó bs. Það er ekki forsvaranlegt að byggðasamlagið safni skuldum til viðbótar með hallarekstri og tilheyrandi fjármagnskostnaði fyrir sveitarfélögin um ókomin ár.

Stöndum vörð um annatímann
Í ljósi þessa var ákveðið að leita leiða til að draga úr kostnaði með eins litlum áhrifum á notendur almenningssamgangna og kostur væri. Lausnin varð að nýta ítarlegar mælingar Strætó á notkun almennings á strætisvagnakerfinu til að laga þjónustu Strætó bs. betur að eftirspurn. Langstærstur hluti notenda Strætó nýtir sér ferðir vagnanna á annatímum að morgni og síðdegis virka daga og því mikilvægt að standa vörð um þjónustuna á þessum tímum dags. Mun færri taka hins vegar strætó yfir miðjan daginn, á kvöldin og um helgar og því mögulegt að laga þjónustuna að eftirspurn með því að draga úr tíðni ferða á þessum tímum á flestum strætóleiðum.

Ákvörðunin um þjónustuaðlögun var kynnt þegar rekstraráætlun Strætó bs. fyrir árið 2009 var samþykkt í nóvember á síðasta ári og kom til framkvæmda nú 1. febrúar. Í stuttu máli felast breytingarnar í að allar helstu leiðir, að leið 1 og 6 undanskildum, aka nú á hálftíma fresti utan annatíma og ákveðnar leiðir aka á klukkutíma fresti. Jafnframt er dregið úr tíðni á kvöldin og um helgar. Nánari upplýsingar um þessar breytingar má finna á strætó.is.

Það er okkur sem viljum hag almenningssamgangna sem mestan á höfuðborgarsvæðinu lítið fagnaðarefni að þurfa að grípa til slíkra aðgerða og sér í lagi ekki á tímum sem þessum þegar sífellt fleiri sjá sér hag í að nýta sér þjónustu Strætó. Hins vegar er ábyrgð okkar sem förum með almannafé mikil og ekki verjandi að missa útgjöld úr böndunum, hver sem málaflokkurinn er.

Besti kosturinn valinn
Þrátt fyrir almenna kröfu um aðhald í rekstri sveitarfélaganna voru framlög til Strætó bs. aukin milli ára sem sýnir staðfestu okkar í að halda áfram úti öflugum almenningssamgöngum á höfuðborgarsvæðinu. Grunnþjónusta Strætó er tryggð með því að veita áfram öfluga þjónustu á annatímum þegar sem flestir þurfa á henni að halda. Áfram er veitt þjónusta utan annatíma, þrátt fyrir að draga hafi þurft úr tíðni. Þjónustutími Strætó styttist ekki að undanskildum tveimur klukkutímum á sunnudagsmorgnum, starfsfólk Strætó heldur vinnu sinni og gjaldskráin hækkar ekki. Við í stjórn Strætó bs. glímdum við erfiða stöðu þegar rekstraráætlun fyrir árið 2009 var ákveðin en ég er þess engu að síður fullviss að besti kosturinn í stöðunni hafi verið valinn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Um bloggið

Jórunn Frímannsdóttir

Höfundur

Jórunn Ósk Frímannsdóttir
Jórunn Ósk Frímannsdóttir

Maí 2025
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Nýjustu myndir

  • ...i_mbl_blogg
  • ...logo
  • ...k_mynd_stor
  • Jólakortamynd 2009 003
  • DSCN2230

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 8
  • Frá upphafi: 85148

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 7
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband