Merkileg og langþráð sameining

 

Heimahjúkrun og heimaþjónusta loks sameinuð í Reykjavík

Í mínum huga er nú hátíð í tvennum skilningi: annars vegar er jóla- og áramótahátíðin sem við njótum nú öll, en hins vegar er þetta einnig hátíðisstund því í dag var brotið blað í heimaþjónustu við íbúa Reykjavíkur.

Það var sumarið 2007 sem ég átti minn fyrsta fund í Heilbrigðisráðuneytinu þar sem við ræddum það með hvaða hætti við gætum sameinað heimahjúkrun og heimaþjónustu í Reykjavík. Það var svo haustið 2007 sem Velferðarráð samþykkti með formlegum hætti að ganga til samninga við Heilbrigðisráðuneytið um rekstur heimahjúkrunar í Reykjavík.

Í dag, einu og hálfu ári síðar, skrifuðu Borgarstjóri og heilbrigðisráðherra undir þjónustusamning um að rekstur heimahjúkrunar í Reykjavík verði á hendi borgarinnar. Þar með verða heimahjúkrun og félagsleg heimaþjónusta sameinuð undir einni stjórn og er markmiðið að efla þjónustuna til hagsbóta fyrir borgarbúa. Samningurinn gildir frá 1. janúar 2009 og á næstu mánuðum verður unnið að innleiðingu hans.

Þúsundir einstaklinga fá þjónustu

Í Reykjavík njóta nú yfir þrjú þúsund heimili félagslegrar heimaþjónustu sem m.a. getur falist í félagslegum stuðningi og aðstoð við heimilishald. Meira en eitt þúsund njóta heimahjúkrunar sem m.a. getur falist í reglubundnum heimsóknum vegna lyfjagjafar, umbúðaskipta eða sálrænnar aðhlynningar. Þeir sem njóta þjónustunnar eru að miklum hluta aldraðir, en fjöldi einstaklinga á öllum aldri nýtur einnig tímabundið aðstoðar vegna sjúkdóma eða slysa eða langtímaþjónustu vegna fötlunar.

Langtímadvöl á sjúkrahúsum eða annars konar stofnunum á að vera sá kostur í umönnun og þjónustu við einstaklinga sem eiga við veikindi eða færniskerðingu að stríða sem síðast er nýttur. Að búa við sjálfstæði og virkni á eigin heimili er grundvallaratriði til að halda góðri líkamlegri og andlegri heilsu og líðan. Mikið og gott starf hefur verið unnið á þessum vettvangi, m.a. í málefnum fatlaðra, en stofnanavæðing Íslendinga í málefnum aldraðra hefur á síðastliðnum áratugum hins vegar verið töluverð. Segja má að hvergi í þeim löndum sem við berum okkur saman við búi hlutfallslega jafnmargir aldraðir á dvalar- eða hjúkrunarheimilum, þrátt fyrir að rannsóknir sýni að langflestir vilja búa eins lengi og kostur er á eigin heimili. Rannsókn á vegum Heilbrigðisráðuneytisins árið 2007 á vilja þeirra sem eru á biðlista eftir hjúkrunarheimili sýndi  að stór hluti þeirra sem bíða eftir vistun vilja fremur búa áfram á eigin heimili með meiri aðstoð. Það er trú mín að með því að leggja meiri áherslu á þjónustu heim, t.d. með þjónustusamningi þeim sem nú hefur verið undirritaður, sé verið að mæta óskum íbúa og bæta hag þeirra sem þurfa á þjónustunni að halda.

Starfið framundan

Þjónustusamningurinn sem nú hefur verið undirritaður er tilraunaverkefni til þriggja ára. Á næstu mánuðum verður unnið að innleiðingu hans og allan samningstímann mun starfsfólk í heimahjúkrun og starfsfólk félagslegrar heimaþjónustu vinna saman að því að leita lausna og leiða til að veita heildstæða og samfellda þjónustu heim. Á þann hátt hyggjumst við bæta og efla þjónustuna og auka einnig öryggi hennar. Samningurinn verður síðan endurskoðaður með það í huga að meta hvað hefur gengið vel og hvar þarf úr að bæta til að efla enn meira þjónustu heim.

Sem formaður velferðarráðs og borgarfulltrúi hef ég lagt mikla áherslu á að þessi samningur verði að veruleika, enda tel ég að með honum sé brotið blað í heimaþjónustu í Reykjavík. Með þeirri samþættingar og sameiningarvinnu sem framundan er verður það enn betri kostur fyrir Reykvíkinga að búa heima með stuðningi. Við vitum jafnframt að ef góður árangur næst verður framhald á þessu sameiginlega tilraunaverkefni ríkis og borgar. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Jórunn Frímannsdóttir

Höfundur

Jórunn Ósk Frímannsdóttir
Jórunn Ósk Frímannsdóttir

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • ...i_mbl_blogg
  • ...logo
  • ...k_mynd_stor
  • Jólakortamynd 2009 003
  • DSCN2230

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband