15.2.2010 | 08:29
Virkari velferð - notendastýrð þjónusta
Hópur sem kallar sig Vive hefur undanfarna mánuði unnið að því að kortleggja hvernig bæta má þjónustu við einstaklinga í heimahúsum. Vive stendur fyrir virkari velferð og hef ég verið svo lánsöm að fá að taka þátt í starfi hópsins. Guðjón Sigurðsson hafði forgöngu um að setja þessa vinnu af stað ásamt Evald Krog og Sigursteini Mássyni. Oddur Ástráðsson var svo fenginn til þess að verkstýra vinnunni. Virkari velferð snýst fyrst og fremst um það að bæta þjónustu við einstaklinga í heimahúsum. Í vinnu hópsins var horft til þess hvernig sambærileg þjónusta er veitt á hinum Norðurlöndunum en þar er þjónustan í miklu ríkari mæli en hér á forsendum notandans sjálf, svokölluð notendastýrð þjónusta.
En hvað er notendastýrð þjónusta?
Með notendastýrðri þjónustu getur einstaklingur sem þarf á þjónustu að halda t.d. vegna öldrunar, fötlunar eða sjúkdóms, ákveðið sjálfur hverjir þjónusta hann, hvenær og hvar. Hann fær sjálfur valdið til þess að forgangsraða sinni þjónustu.
Til þess að geta tekið upp notendastýrða þjónustu hér á landi í auknum mæli þurfum við að skilgreina betur forsendur, tíma og kostnað vegna þjónustunnar. Þjónustuþörf hvers einstaklings þarf að meta á hans forsendum, veita honum tækifæri til að ráða til sín aðstoð, búa heimili sitt þannig að þar sé nægilega gott aðgengi og aðgangur að tækjum og tólum til að lifa sjálfstæðu lífi.
Með notendastýrðri þjónustu fær hver og einn aðstoð sem hámarkar virkni viðkomandi í daglegu lífi. Við sem þurfum ekki á þjónustu að halda erum vön því að geta ákveðið sjálf minnstu hluti okkar daglega lífs, hvað við viljum gera, hversu virk við viljum vera og hvenær. Það hafa hins vegar ekki allir þennan möguleika í okkar núverandi kerfi. Við í Vive hópnum viljum að velferðarkerfið miði að því að hámarka lífsgæði og sjálfsákvörðunarrétt hvers og eins sem þarf á stuðningi að halda og að það verði gert með því að tryggja hverjum einstaklingi þá aðstoð sem hann þarf á að halda til að lifa sínu lífi með eins miklum lífsgæðum og einstaklingnum er unnt að njóta. Við viljum tryggja einstaklingnum raunverulegt val um þjónustu. Það felst ekki raunverulegt val í því að þurfa að flytja inn á stofnun til að fá þá aðstoð sem þar býðst og það felst ekki raunverulegt val í því að þurfa að vera heima ef einstaklingurinn kýs frekar að þiggja þjónustuna á stofnun. Sama á við um þjónustu sem veitt er heima ef hún er veitt á forsendum annarra en þeirra sem aðstoðina þurfa, það er ekki notendastýrð aðstoð.
Það er markmið okkar sem komum að starfi Vive hópsins að velferðarkerfið breyti um stefnu í átt að persónulegri notendastýrðri aðstoð. Með slíkri breytingu á hugsun og framkvæmd í kerfinu eykst þátttaka fatlaðra og aldraðra í samfélaginu. Það eru aukin lífsgæði fyrir fatlaða jafnt sem ófatlaða og við verðum öll ríkari af því að samfélagið okkar sé fjölbreyttara, vinnustaðirnir fjölbreyttari og um leið skemmtilegri. Það eiga ekki að vera forréttindi að alast upp í samvistum við fatlaða eða aldraða, það á að vera hluti af lífi sérhvers manns.
Þessi grein birtist í Morgunblaðinu í dag
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Um bloggið
Jórunn Frímannsdóttir
Bloggvinir
- Auðbergur Daníel Gíslason
- Áslaug Friðriksdóttir
- Baldvin Jónsson
- Einar Vignir Einarsson
- Emil Örn Kristjánsson
- Ingólfur H Þorleifsson
- Guðrún Magnea Helgadóttir
- Herdís Sigurjónsdóttir
- Íbúasamtökin Betra Breiðholt
- Kjartan Pálmarsson
- Ólafur fannberg
- Stefán Friðrik Stefánsson
- Sigríður Jónsdóttir
- Vignir Bjarnason
- Vilborg G. Hansen
- Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir
- Vefritid
- Axel Jóhann Axelsson
- Ásta Hafberg S.
- Brosveitan - Pétur Reynisson
- Bryndís Haraldsdóttir
- Charles Robert Onken
- Einar B Bragason
- Erla Margrét Gunnarsdóttir
- Erlendur Örn Fjeldsted
- Eyþór Laxdal Arnalds
- Friðrik Hansen Guðmundsson
- Gísli Blöndal
- Gunnar Gunnarsson
- Helgi Kr. Sigmundsson
- Hilmar Gunnlaugsson
- Hjalti Sigurðarson
- Jóhann Pétur
- Jón Daníelsson
- Jón Magnússon
- Jón Ríkharðsson
- Kjartan Magnússon
- Kristín Magdalena Ágústsdóttir
- Mál 214
- Natan Kolbeinsson
- Pjetur Stefánsson
- Sigurður Sigurðsson
- Sigurður Þórðarson
- Stefán Helgi Valsson
- Theodór Bender
- Vilhjálmur Árnason
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (18.4.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 8
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 7
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.