Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
24.12.2008 | 12:50
Fjárhagsaðstoð hækkuð og grunnþjónusta í velferðarmálum varin
22.desember 2008
Í fjárhagsáætlun fyrir Velferðarsvið fyrir árið 2009 er grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar hækkuð um 16,35% og gerð að bundnum lið til að tryggja fjárhagsaðstoð fyrir þá sem eiga til þess rétt. Lögð er sérstök áhersla á aðstoð vegna barna og húsnæðismála. Í samræmi við áherslur borgarstjóra er grunnþjónusta varin, störf varin og gjaldskrár ekki hækkaðar. Framlög til velferðarmála nema 9,1 milljarði króna sem er nær 20% hækkun á framlögum milli ára.
Samkvæmt frumvarpi að fjárhagsáætlun Velferðarsviðs fyrir árið 2009, sem kynnt var á fundi borgarstjórnar í dag, mun Reykjavíkurborg verja 9.136.379 krónum til velferðarmála. Skv. þessu eykst fjármagn til málaflokksins um 19,3% frá útkomuspá 2008. Þannig leggur velferðarráð áherslu á að verja grunnþjónustu borgarinnar í velferðarmálum, þrátt fyrir gjörbreyttar forsendur, því um leið og sveitarfélög þurfa að búa sig undir vaxandi þörf fyrir velferðarþjónustu horfa þau fram á verulegan samdrátt í tekjum. Í ljósi þess hefur verið skerpt á forgangsröðun og verða áhersluatriði í fjárhagsáætlun og starfi Velferðarsviðs á næsta ári eftirfarandi:
Tryggja fjárhagsaðstoð fyrir þá sem eiga á henni rétt.. Grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar er hækkuð skv. frumvarpi um 16,35%. Forsendur frumvarpsins gera ráð fyrir 7% atvinnuleysi og að fjárhagsaðstoð nemi allt að 2,1 milljarði króna sem er 87% hækkun á framlagi til fjárhagsaðstoðar milli ára. Vegna mikillar óvissu um hvernig atvinnuleysi mun þróast hefur jafnframt verið ákveðið að fjárhagsaðstoð verði bundinn liður, sem þýðir að aukist þörf fyrir fjárhagsaðstoð mun borgarsjóður koma til móts við aukin útgjöld. Heimildargreiðslur vegna barna verða hækkaðar og verða bundinn liður, en af heimildargreiðslum vegna barna má m.a. greiða skólamáltíðir, leikskóla og frístundaheimili. Þannig er lögð sérstök áhersla á að tryggja sem best hag barna.
Tryggja aðstoð vegna húsnæðismála. Vegna óvissu um þróun á fjölda þeirra sem fá húsaleigubætur og óvissu um aðkomu jöfnunarsjóðs sveitarfélaga verða húsaleigubætur bundinn liður og verði aukning á útgjöldum umfram áætlun mun borgarsjóður koma til móts við þau. Þannig vill velferðarráð tryggja að þeir sem eigi rétt á húsaleigubótum fái þær og að aukning skerði ekki aðra þjónustu sviðsins. Biðlisti eftir félagslegu leiguhúsnæði hefur aukist undanfarna mánuði. Velferðarráð hefur því einnig samþykkt að fela Félagsbústöðum að auglýsa eftir leiguíbúðum á almennum markaði til endurleigu fyrir þá sem eru á biðlista eftir húsnæði á vegum sviðsins.
Vernda grunnþjónustu fyrir aldraða, sjúka, fatlaða og börn og ungmenni. Fjármagn til félagslegrar heimaþjónustu verður varið, sama gildir um rekstur þjónustuíbúða og búsetukjarna fyrir fatlaða, rekstur barnaverndarþjónustu og barnaverndarúrræða, þ.m.t. heimili fyrir börn. Um áramót er áætlað að rekstur heimahjúkrunar á höfuðborgarsvæðinu verði færður yfir til borgarinnar og stjórnun félagslegrar heimaþjónustu og heimahjúkrunar sameinaður. Þannig fæst aukin yfirsýn yfir málaflokkinn og tækifæri gefst til að vernda þjónustuna enn frekar. Í frumvarpinu er jafnframt gert ráð fyrir aukinni heimaþjónustu fyrir geðfatlaða í búsetukjörnum borgarinnar, en sú aukning nemur um 130 milljónum króna. Gert er ráð fyrir 15 milljón króna framlagi til að hefja rekstur heimilis fyrir heimilislausar konur og 17 milljón króna framlagi til að fylgja eftir stefnumótun í málefnum utangarðsfólks.
Veita þjónustu til að styðja við andlega heilsu fullorðinna einstaklinga og þeirra sem eru atvinnulausir. Undanfarnar vikur hefur starfsfólk Velferðarsviðs lyft grettistaki til að forgangasraða verkefnum til að auka aðgengi að félagslegri og sálfræðilegri ráðgjöf fyrir íbúa borgarinnar. Í starfsáætlun Velferðarsviðs er gert ráð fyrir auknu framboði námskeiða og verkefna til að styðja við virkni þeirra sem þurfa að glíma við atvinnuleysi.
Vinna markvisst að aukinni kostnaðarhagræðingu. Það er ljóst að forgangsröðun grunnþjónustunnar og áhersla á framlínuþjónustu við íbúa borgarinnar kallar á ýmsar breytingar sem m.a. felast í endurskipulagningu þjónustu og verkefna. Jafnframt er lögð mikil áhersla á hagræðingu í rekstri sviðsins. Ekki er gert ráð fyrir fjölgun starfsfólks og dregið verður úr yfirvinnu. Jafnframt er dregið úr fræðslu-, ferða- og kynningarkostnaði og aðkeyptri vinnu. Sérstakt átak verður gert til hagræðingar í innkaupum. Markvisst verður haldið áfram að leita leiða til kostnaðarhagræðingu í öllum rekstrarþáttum, þ.m.t. húsnæðismálum og upplýsingatæknimálum.
13.12.2008 | 22:28
Velferðarmál (Grein sem birtist í Hverfablaði Laugardals og Háaleitis)
Undanfarnar vikur hafa verið sérkennilegar í íslensku samfélagi og þjóðin sveiflast frá því að vera stolt og rík þjóð yfir í það að vera beigð, reið, hrædd og skuldum vafin þjóð. Það var ljóst strax í byrjun október að hér yrði þróunin til verri vegar. Velferðarráð samþykkti aðgerðaáætlun fyrir velferðarsvið strax í byrjun október. Síðan þá hefur verið farið yfir aðgerðir til að undirbúa vaxandi þjónustuþörf notenda og aukningu í notendahópnum. Leiðarljós Velferðarsviðs er að efla ráðgjöf og velferðarþjónustu til þess að koma til móts við tímabundna erfiðleika Reykvíkinga.
Á Þjónustumiðstöðvum borgarinnar finnur starfsfólk fyrir fjölgun einstaklinga sem þurfa aðstoð og leiðbeiningar. Það er þó enn ekki svo að aukningin sé orðin mikil. Við vitum að aukningin mun ekki verða veruleg á velferðarkerfið fyrr en á vormánuðum, en aukning í fjárhagsaðstoð og sértækri aðstoð helst í hendur við aukningu í atvinnuleysi en er þremur til sex mánuðum síðar.
Það er mikilvægt að við getum mætt einstaklingum þegar og ef þeir þurfa á því að halda. Það er verkefni Velferðarsviðs að aðlaga þjónustu sviðsins að nýjum aðstæðum og mæta aukinni þjónustuþörf sem af þeim kann að hljótast. Ekki er ljóst hversu mikil sú aukning verður, en mikilvægt er að bregðast við, efla aðgengi að núverandi þjónustu og bæta í þar sem telja má líklegt að þörfin verði mest. Til lengri tíma er þörf á að meta aðstæður heildstætt og sjá hvort frekari aðlögunar er þörf. Huga þarf sérstaklega að viðkvæmum hópum, jafnt ungum sem öldnum.
Helstu verkefni sem hefur verið unnið að á Velferðarsviði síðustu vikur og er verið að vinna að eru:
· Samstarf við Vinnumálastofnun, Rauða Krossinn og Ráðgjafastofu heimilanna. Ráðgjafastofa heimilanna hefur verið styrkt og komið á reglubundnu samstarfi.
· Námskeið fyrir starfsfólk og aukinn stuðningur við starfsfólk sem oft er jafnvel sjálft að glíma við vanda á þessum erfiðu tímum og þarf stuðning til þess að geta sinnt sínum skjólstæðingum.
· Velferðarsvið er með fulltrúa í Viðbragðs og sameiningateymi á vegum borgarinnar. Þetta teymi kallast Börnin í borginni og er því ætlað að fylgjast vel með þróuninni og stilla saman strengi í borginni. Í þessu teymi er haldið utan um lykiltölur frá Velferðarsviði, Menntasviði og Leikskólasviði til dæmis er varða eftirfylgni með því hvort foreldrar séu að taka börn sín úr mat, úr íþróttum, tómstundum eða öðru slíku.
· Samráðsfundum hefur verið komið á með kirkju, lögreglu, skólum, íþróttafélögum og fleiri aðilum í hverfum borgarinnar.
· Fundað hefur verið víða með leikskólum og grunnskólum til að leiðbeina starfsfólki um hvernig best sé að styðja við börn í þessum aðstæðum.
· Yfirlit yfir úrræði hefur verið tekið saman og er hugsunin sú að starfsmenn hafi á einum stað gott yfirlit yfir þau úrræði sem til eru og hefur verið opnuð gátt á www.velferdarsvid.is sjá: http://reykjavik.is/desktopdefault.aspx/tabid-3421 Þar er aðgengilegt að finna upplýsingar um úrræði sem til staðar eru fyrir einstaklinga og fjölskyldur að leita sér hjálpar. Þar er einnig að finna aðgerðaráætlun sviðsins og upplýsingar um Börnin í borginni sjá: http://reykjavik.is/desktopdefault.aspx/tabid-1488/2281_read-12722/
· Haldnir hafa verið fundir með starfsmönnum þjónustusíma borgarinnar og farið yfir hvernig þeir geti brugðist við fólki í áfalli og erfiðum símtölum sem þeim geta borist.
· Hugað er að því núna hvernig megi auka aðgengi að námskeiðum og fjölga þátttakendum í þeim.
· Fjölgað hefur verið félagsráðgjöfum sem eru á vakt til þess að taka ný viðtöl og viðtöl sem ekki geta beðið.
Ljóst er að tekjur borgarinnar munu dragast verulega saman á næstunni á sama tíma og útgjöld til velferðarþjónustu munu aukast. Borgarstjórn hefur líst því ítrekað yfir að við ætlum að standa vörð um grunnþjónustuna, það út af fyrir sig er stórt verkefni á þessum tímum og ljóst að við munum þurfa að forgangsraða verulega í þjónustunni.
Stöndum samanVið megum ekki gleyma því hvað við eigum margt og hvað við erum í raun rík. Við eigum hvort annað og þurfum að hlúa vel hvert að öðru nú sem endra nær. Við eigum auðlyndirnar okkar, hreina vatnið, heita vatnið, orkuna, rafmagnið og ekki síst fiskinn og landbúnaðinn sem getur nánast brauðfætt þjóðina. Við megum ekki gleyma því á þessum erfiðu tímum, það kemur betri tíð með blóm í haga.
Mig langar að deila með ykkur ljóði sem ég rakst á þegar ég var að undirbúa mig fyrir ávarp sem ég hélt á geðheilbrigðisdaginn í Perlunni. Mér finnst þetta ljóð eiga svo vel við um okkur Íslendinga, sem erum svo einstök.
Guð gefi ykkur góða aðventu og Gleðileg jól
Ég elska mitt land e. Unni Sólrúnu Bragadóttur
Ég elska þetta land með ljóðum sínum öllum,
með lækjarbotnum, dalvörpum og tígulegum fjöllum,
með leysingum á vorin þegar lækir verða ár,
með lóunni sem framkallar hjá okkur gleðitár.
Ég elska einnig lömbin og lambakjöt í sneiðum
lúðuna og ýsuna og þorskinn sem við veiðum
ég elska þennan ákafa sem áfram okkur rekur
ég elska þennan eldmóð sem mannlífið skekur.
Ég elska þessa geðveiki sem grípur okkur sum
þá göngum út á ystu nöf á betri dögunum,
svei mér þá, ég elska að Íslendingur vera
elska þessa eyju endilanga og þvera.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 14.12.2008 kl. 14:39 | Slóð | Facebook
15.10.2008 | 21:33
Ég elska mitt land
Ég get ekki látið hjá líða að setja inn þetta frábæra ljóð e. Unni Sólrúnu Bragadóttur.
Ég fékk ljóðabók Unnar að gjöf fyrir stuttu síðan frá Guðný Önnu frænku minni og notaði ég þetta ljóð í erindi sem ég var með í Perlunni á Alþjóða Geðheilbrigðisdeginum. Hef reyndar notað það nokkrum sinnum síða. Vona að þið njótið lestursins.
Ég elska mitt land
Ég elska þetta land með ljóðum sínum öllum,
með lækjarbotnum, dalvörpum og tígulegum fjöllum,
með leysingum á vorin þegar lækir verða ár,
með lóunni sem framkallar hjá okkur gleðitár.
Ég elska einnig lömbin og lambakjöt í sneiðum
lúðuna og ýsuna og þorskinn sem við veiðum
ég elska þennan ákafa sem áfram okkur rekur
ég elska þennan eldmóð sem mannlíf skekur.
Ég elska þessa geðveiki sem grípur okkur sum
þá göngum út á ystu nöf á betri dögunum,
svei mér þá, ég elska að Íslendingur vera
elska þessa eyju endilanga og þvera.
e. Unni Sólrúnu Bragadóttur
Stjórnmál og samfélag | Breytt 13.12.2008 kl. 22:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.10.2008 | 10:48
Snúum vörn í sókn
Ég byrjaði daginn í morgunútvarpi Rásar 2 þar sem ég var að ræða um sameiningu Heimahjúkrunar og heimaþjónustu í Reykjavík, nokkuð sem við getum glaðst yfir í dag. En það er fleira til að gleðja okkur á þessum tímum. Sólin skýn hér í höfuðborginni og ég verð að segja að það var yndislegt að hjóla meðfram Reykjavíkurtjörninni áðan. Seðlabankinn hefur lækkað stýrivexti og við erum ða ná viðspyrnu í efnahagslífinu. Geir H. Haarde á heiður skilið fyrir það hvernig hann hefur siglt okkur í gegnum þennan storm sem nú er vonandi að lægja.
Fréttamaðurinn Clive Myrie frá BBC ræddi við Geir H. Haarde og Þórð Friðjónsson vegna efnahagsástandsins og fjallar sérstaklega um hið rólega og afslappaða yfirbragð þeirra þrátt fyrir að þeir hafi jafnframt gert sér fulla grein fyrir alvöru málsins.
Ég hef á tilfinningunni að hið rólega og heimspekilega fas tveggja af miklvægustu mönnum landsins, sem hafa það verkefni að stýra Íslandi út úr þeirri fjármálaóreiðu sem nú ríkir, sé lýsandi fyrir alla þjóðina, Þetta er fólk sem er vant uppsveiflu og niðursveiflu, góðum árum og slæmum. Vant þeim tímum þegar net togaranna voru full og svo því þegar þau voru næstum tóm ári síðar. segir Myrie.
Já það er mikið rétt.
Íslenska þjóðin á svo margt, við eigum hvort annað, við eigum auðlyndirnar okkar, hreina vatnið, heita vatnið, orkuna, rafmagnið og ekki síst fiskinn og landbúnaðinn sem getur nánast brauðfætt þjóðina.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:51 | Slóð | Facebook
14.10.2008 | 14:22
Sameining heimahjúkrunar og heimaþjónustu í Reykjavík - framfaraskref í þágu borgarbúa
Þetta er mikilvægt skref í því að koma til móts við áherslur samfélagsins um samþætta þjónustu við einstaklinga sem velja að vera í heimahúsum og þurfa til þess margvíslega aðstoð. Auk þess er þetta eðlilegt framhald af samvinnu borgarinnar og ráðuneytisins í þessum málaflokki á undanförnum árum.
Tilgangurinn er meðal annars að einfalda allt viðmót þjónustunnar og fá með sameiginlegri stjórn nýtt og öflugra kerfi. Það er mikilvægt skref í að mæta aukinni þjónustuþörf og kröfum samfélagsins um að það sé tryggt að fólk fái þjónustu veitta á réttu þjónustustigi.
Viðræður milli heilbrigðisráðuneytis og Velferðarsviðs hófust þegar sumarið 2007 en þá um haustið var svo samþykkt á fundi Velferðarráðs að ganga til formlegra viðræðna við heilbrigðisráðuneytið. Það var svo í febrúar á þessu ári sem stýrihópur með fulltrúum frá ráðuneytinu og velferðarsviði tók til starfa og ráðinn var utanaðkomandi verkefnastjóri til þess að halda utan um stafrið. Þessi hópur hefur nánast hist vikulega síðan enda verkefnið stórt og viðamikið. Ég vil nota tækifærið og þakka stýrihópnum fyrir hans störf, en undirrituð hefur ásamt heilbrigðisráðherra gefið þessu máli sérstakan forgang og því hefur verið mikill þrýstingur á alla aðila að vinna hratt og faglega að málinu. Góð pólitísk samstaða hefur verið um málið innan Velferðarráðs sem hefur hjálpað til við að lenda því farsællega.
Mikil áhersla hefur verið lögð á að upplýsa starfsmenn sem málið snertir eftir því sem kostur er. Nú eru starfandi fjölmargir hópar sem vinna að undirbúningi þess að sameiningin verði um áramót og koma fjölmargir starfsmenn að þeirri vinnu. Nú þegar fyrir liggur það skipulag sem unnið verður eftir er hægt að upplýsa starfsmenn enn betur og þegar hefur verið fundað með stéttarfélögum starfsmanna. Hagsmunasamtök sem málið varðar hafa lengi þrýst á breytingar af þessu tagi og hafa þau hvatt samningsaðila áfram og lýst yfir mikilli ánægju með gang mála.
Á þeim umrótatímum sem við nú lifum á er það mér mikil ánægja að geta greint frá þessum jákvæðu tíðindum. Ég vona að með þessum skipulagsbreytingum og samstilltu átaki þeirra hæfu starfsmanna sem munu halda uppi "Heimaþjónustu Reykjavíkurborgar,, njóti þeir sem á þessari þjónustu þurfa að halda enn betri þjónustu á næstu árum.
Þessi grein birtist í morgunblaðinu í dag
9.10.2008 | 00:00
Yfirlýsing um sameiningu heimahjúkrunar og heimaþjónustu í Reykjavík
Í dag undirrituðu heilbrigðisráðherra og borgarstjóri viljayfirlýsingu um sameiningu heimahjúkrunar og félagslegrar heimaþjónustu hjá Reykjavíkurborg. Markmiðið með þessari sameiningu er fyrst og fremst að veita betri, markvissari og heildstæðari þjónustu við þá íbúa borgarinnar sem þurfa á stuðningi að halda inn á heimilum sínum, hvort sem það er vegna öldrunar, veikinda eða annarrar færniskerðingar.
Það var mér sérstök ánægja að vera við undirskriftina í dag, enda hefur það verði mér mikið kappsmál að ná að sameina þessi tvö kerfi. Það var strax á fyrstu vikum mínum sem formaður Velferðarráðs vorið 2006 að ég óskaði eftir tíma með þáverandi heilbrigðisráðherra til þess að ræða sameiningu heimahjúkrunar og heimaþjónustu. Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar sem ekki verður tíundað hér, en ljóst er að þetta er stór áfangi og hér munum við hafa eina sameinaða heimahjúkrun og heimaþjónustu um næstu áramót. Með þessu er stigið stórt og mikilvægt skref í þágu borgarbúa og í þágu þeirra fjölmörgu íbúa sem þurfa þjónustu inná heimili sín og aðstoð við að taka þátt í samfélaginu.
Á síðasta ári nutu hátt á fjórða þúsund heimili í Reykjavík þjónustu á vegum heimahjúkrunar og/eða heimaþjónustu. Starfsmenn sem sinna þjónustunni eru um 370. Umfangið vegna þessarar sameiningar er því mikið, og þjónustan sem verið er að sinna inni á heimilum fólks er bæði mikilvæg og viðkvæm.
Við sem að þessari sameiningu stöndum erum þess fullviss að með henni verði þjónustan heildstæðari, markvissari og betri.
8.10.2008 | 20:18
Velferðarsvið bregst við aðstæðunum í þjóðfélaginu
Í ljósi þess ástands sem nú er uppi í samfélaginu var ákveðið að skoða með hvaða hætti Velferðarsvið gæti brugðist við og hvaða aðgerða hægt væri að grípa til á þessum tíma. Sviðsstjóri Velfreðarsviðs lagði fram tillögur um aðgerðir á fundi Velferðarráðs fyrr í dag og voru þær tillögur samþykktar samhljóða í ráðinu.
Ekki er enn séð fyrir endann á afleiðingum þeirra þrenginga sem nú eru í þjóðfélaginu, vonandi fer þó að sjá til botns svo við getum farið að vinna okkur upp úr þessum efnahagsvanda. Íslenska þjóðin er dugleg og kraftmikil og tilbúin að snúa bökum saman þegar á reynir. Við Íslendingar erum svo heppin að eiga yfirleitt stórt og gott fjölskyldu- og tengslanet sem skiptir miklu máli í þrengingum sem þessum.
Það er verkefni Velferðarsviðs að aðlaga þjónustu sviðsins að nýjum aðstæðum og mæta aukinni þjónustuþörf sem af þeim kann að hljótast. Ekki er ljóst hversu mikil sú aukning verður, en engu að síður er mikilvægt að bregðast hratt við, efla aðgengi að núverandi þjónustu og bæta í þar sem telja má líklegt að þörfin verði mest. Til lengri tíma er þörf á að meta aðstæður heildstætt og sjá hvort frekari aðlögunar er þörf.
Aðgerðir til skemmri tíma:
1) Samstarf við félags- og tryggingamálaráðuneyti og heilbrigðisráðuneyti sem boðað hafa aðgerðir - nú þegar hefur sviðsstjóri verið í sambandi við félagsmálaráðuneytið varðandi samstarf.
2) Aukin samvinna við:
- a. Ráðgjafastofu heimilanna - mögulegur stuðningur við núverandi þjónustu þeirra í formi fjármagns til að ráða inn fleiri fjármálaráðgjafa og hugsanlega sálfræðing/félagsráðgjafa. Ráðgjafastofa heimilanna er vel þekkt úrræði og líklegt að margir leiti þangað.
- b. Heilsugæslu - aðstoð við fólk vegna áfalla/kvíða/þunglyndis
- c. Vinnumálastofnun - aðstoð við fólk vegna atvinnuleysis
- d. Rauða krossinn - aðstoð við fólk vegna áfalla/sjálfsvígshugsana
- e. Stéttarfélög
3) Bætt aðgengi að ráðgjafaþjónustu þjónustumiðstöðva borgarinnar
- a. Hver þjónustumiðstöð skapar aukið svigrúm til að taka á móti íbúum með því að skoða sitt innra skipulag og forgangsraða, breyta vinnulagi, draga úr teymisvinnu og fundasetu.
- b. Efling símsvörunar á þjónustumiðstöðvum - fá símaver borgarinnar í lið með okkur
- c. Leiðbeiningar til þjónustuvers um hvert skal vísa fólki í vanda
4) Efling ráðgjafar
- a. Nýr þjónustuhópur: Mögulegt er að til þjónustumiðstöðva leiti fólk sem ekki hefur gert það áður. Líklegt að þessir aðilar hafi orðið fyrir alvarlegum fjárhagslegum áföllum og glími við úrlausn þeirra.
- i. Sérstök áfallahjálp - nauðsynlegt getur verið að bregðast hratt við í fyrstu, en vísa fólki síðan til lengri tíma aðstoðar.
- ii. Sálfræðiráðgjöf/félagsráðgjöf - eftir fyrsta áfallið þarf fólk hugsanlega að horfast í augu við breytt lífskjör til lengri tíma. Langtímaálag getur valdið margvíslegum félagslegum erfiðleikum hjá fjölskyldum. Líklegt er að efla þurfi þessa ráðgjöf, með áherslu á fullorðinsaðstoð.
- b. Núverandi þjónustuhópur:
- i. Aukin streita og álag í samfélaginu getur haft mjög neikvæð áhrif á einstaklinga og fjölskyldur sem viðkvæmar eru fyrir eða glíma við einhverskonar vanda. Mikilvægt er að starfsmenn haldi vöku sinni fyrir þessum hópi og bregðist við með auknum stuðningi ef á þarf að halda.
- ii. Þegar álag eykst getur soðið upp úr á milli nágranna/þjóðfélagshópa - sáttamiðlun gæti reynst nauðsynleg
5) Endurskoðun aðstoðar m.t.t. núverandi aðstæðna
- a. Starfshópar sem eru að störfum um endurskoðun fjárhagsaðstoðarreglna og húsnæðismála hraði sinni vinnu m.t.t. núverandi aðstæðna
6) Kortlagning úrræða og tilboða
- a. Margvísleg úrræði og tilboð eru í gangi um þjónustu við einstaklinga og fjölskyldur í vanda. Mikilvægt er að kortleggja þessi úrræði og tilboð og upplýsa starfsmenn sem geta komið þeim upplýsingum áfram til þeirra sem á þurfa að halda.
7) Nýting núverandi úrræða
- a. Margvísleg námskeið um fjármál,uppeldi og sjálfsstyrkingu hafa verið haldin í tengslum við þjónustumiðstöðvar og á þeirra vegum. Hugsanlegt er að veita auknu fjármagni til að styrkja slík námskeið og auka þannig framboð og aðgengi að þeim.
8) Stuðningur við starfsfólk sviðsins
- a. Starfsfólk velferðarsviðs er ekki undanskilið því að lenda í fjárhagserfiðleikum vegna efnahagsástandins. Vísað til einstakra stjórnenda að fylgjast vel með sínu fólki.
- b. Almennar aðgerðir til að efla jákvæðan starfsanda og samhug.
- c. Hver vinnustaður hugi að því hvernig brugðist er við þeim áskorunum sem framundan eru og því aukna álagi sem líklegt er að fylgi á starfsfólk. Til að tryggja góðan árangur þarf starfsfólki að líða vel.
- d. Mannauðsskrifstofa hefur þegar unnið drög að aðgerðum sem snúa að starfsfólki
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:21 | Slóð | Facebook
7.10.2008 | 21:22
Við munum standa vörð um grunnþjónustuna
Í dag var kynnt í borgarstjórn aðgerðaráætlun Reykjavíkurborgar við því ástandi sem nú er uppi í efnahags-, atvinnu- og fjármálalífi þjóðarinnar. Alvarleg staða á alþjóðlegum fjármála- og lánamörkuðum, minnkandi tekjur borgarinnar, aukinn kostnaður og fjöldi vísbendinga um þrengingar í fjármálum sveitarfélaga, fyrirtækja og heimila, kalla á skýr skilaboð um meginlínur og markmið í viðbrögðum borgarinnar. Farið var yfir það hvernig við ætlum að standa vörð um grunnþjónustuna og gera allt sem í okkar valdi stendur sem kjörinna fulltrúa til þess að auka ekki á vanda fjölskyldna í borginni.
Meginmarkmið Reykjavíkurborgar við þær aðstæður, sem nú eru uppi, verða ábyrg fjármálastjórn, stöðugleiki í rekstri og trygging öflugrar grunnþjónustu fyrir íbúa. Jafnframt mun starfshópur borgarstjórnar um fjármál borgarinnar hafa náið samráð við ríkisstjórn, önnur sveitarfélög, stéttarfélög starfsfólks Reykjavíkurborgar og aðra viðsemjendur á vinnumarkaði.
Starfshópurinn mun starfa út kjörtímabilið með það að markmiði að standa vörð um hagsmuni fjölskyldna, fyrirtækja og öfluga þjónustu við borgarbúa við núverandi aðstæður. Sátt hefur náðst milli meirihluta og minnihluta borgarstjórnar um þær megináherslur sem hér eru kynntar, enda telur borgarstjórn nauðsynlegt að starfa náið saman við þær aðstæður sem nú eru uppi.
Grunnþjónusta við íbúa varin og gjaldskrár óbreyttar
- Þrengri fjárhagsstöðu verður að svo stöddu ekki mætt með hækkunum á gjaldskrám fyrir grunnþjónustu eða skerðingu á þeirri þjónustu sem íbúar vænta frá leikskólum, grunnskólum, frístundaheimilum og almennri velferðarþjónustu.
- Engin áform eru um uppsagnir starfsfólks, en dregið verður úr kostnaði og nýráðningum í stjórnsýslu borgarinnar.
- Fjárheimildir sviða verða að jafnaði ekki auknar á árinu 2008 þrátt fyrir vaxandi verðbólgu, en útgjöld endurskoðuð með það að markmiði að ná fram sparnaði og samhæfingu í stjórnkerfinu.
- Stóraukins aðhalds verður gætt í innkaupum og stefnt að 15% sparnaði í þeim á næstu mánuðum og árum.
- Leitast verður við að tryggja fjármögnun fyrir nauðsynlegum framkvæmdum. Forgangsröðun framkvæmda verður endurskoðuð en framkvæmdum eða verkefnum, sem geta beðið eða kalla á aukinn rekstrarkostnað, verður frestað eða dregið úr kostnaði vegna þeirra. Við ofangreint mat verði jafnframt tekið mið af áhrifum á atvinnustig.
- Haldið verði áfram viðræðum við ríkisvaldið um að framkvæmdaáætlanir vegna brýnna samgönguverkefna standi, samhliða því sem lögð er áhersla á mikilvægi aðkomu ríkisvaldsins að rekstri almenningssamgangna.
- Gerð verður áætlun um sölu eigna sem verður lögð fram samhliða fjárhagsáætlun. Þar skal gera ráð fyrir sölu eigna sem nemur að lágmarki 1 milljarði króna á ársgrundvelli, að því gefnu að fyrir fáist ásættanlegt verð.
- Reglum um greiðslukjör lóða verður breytt til að bjóða íbúum hagkvæmari greiðslukjör vegna lóðakaupa í Reykjavík. Eftirspurn eftir lóðum verður áfram mætt, en aukin áhersla verður á uppbyggingu á svæðum þar sem innviðir og þjónusta eru þegar fyrir hendi.
- Efnt verði til samráðs við ríki og sveitarfélög um leiðir til að efla almennan og félagslegan leigumarkað.
- Reynsla borgarinnar af grænum langtímasparnaði verður nýtt með lækkun kostnaðar, bættri orkunýtingu, vistvænum innkaupum og nýjum umhverfisvænum lausnum.
- Ráðgjöf og velferðarþjónusta sem veitt er í þjónustumiðstöðvum Reykjavíkurborgar til að leiðbeina einstaklingum og fjölskyldum verður efld.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:26 | Slóð | Facebook
28.9.2008 | 23:40
Þróttur – Þróttur – Þróttur
Þróttur - Allra meina bót
Holl og góð hreyfing skiptir okkur öll miklu máli, það að hreyfa sig reglulega og halda sér í formi er nokkuð sem okkur ber skylda til að gera. Við fáum bara einn líkama og við þurfum að halda honum í formi annars slappast hann og grotnar niður fyrir aldur fram. Við erum afar misjöfn að upplagi en þau okkar sem hafa stundað íþróttir af krafti á unga aldri eigum það flest sameiginlegt að hafa innbyggða þörf fyrir að hreyfa okkur.
Þá komum við að því sem mig langar að koma á framfæri með þessari grein, mikilvægi þess að foreldrar hvetji börn sín til íþróttaiðkunar og taki þátt með þeim.
Þróttur - Forvarnagildi íþróttaiðkunar
Regluleg íþróttaiðkun hefur sannað gildi sitt. Rannsóknir sýna að börn og unglingar sem stunda reglulega íþróttir og eru í skipulögðu íþrótta- og félagsstarfi byrja seinna að nota áfengi, nota síður tóbak og neyta síður annarra vímuefna en jafnaldrar þeirra.
Góður félagsskapur og skemmtun eru helstu atriðin sem hvetja krakka til þátttöku í skipulögðu íþrótta- og æskulýðsstarfi. Aðstaða og framboð til slíks starfs er víða gott og verður að segja að aðstaðan hjá Þrótti er á margan hátt góð. Þó vildum við gjarnan hafa okkar eigið æfingahús, enda fjölgar stöðugt iðkendum barna hvort heldur er í handbolta, knattspyrnu, blaki eða körfubolta.
Æfingatöflur deildanna liggja nú fyrir og má sjá þær inn á www.trottur.is Þar eiga allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Við reynum eftir fremsta megni að koma til móts við þarfir deilda fyrir æfingatíma, en því miður þá eru tímar af skornum skammti og því ekki hægt að gera öllum til hæfis.
Á síðasta forvarnardegi voru unglingar spurðir um margt sem við kom þátttöku í skipulögðu íþróttastarfi og samveru fjölskyldunnar. Það kom greinilega fram í svörum þeirra að þeim fannst vanta framboð og aðstöðu fyrir íþrótta- og æskulýðsstarf þar sem fjölskyldan öll getur tekið þátt. Áhersla á keppni í íþróttum finnst mörgum þeirra vera of mikil, en öðrum of lítil og er það sannkallaður línudans fyrir þjálfara og forystumenn íþróttafélaga að hafa jafnvægi í því. Samvinna milli aðila sem sjá um skipulagningu íþrótta- og æskulýðsstarfs hefur aukist og allt félagsstarf er orðið virkara, öflugra og fjölbreyttara en áður var. Auglýsingar um mikilvægi íþróttaiðkunar hafa aukist og umræðan um jákvæð tengsl milli skipulagðs íþrótta- og æskulýðsstarfs og minni neyslu vímuefna hefur farið hátt.
Það er nauðsynlegt að vekja foreldra til umhugsunar um mikilvægi íþróttaiðkunar. Foreldrar geta haft mikil áhrif á íþróttaiðkun barna sinna og hvatning frá heimilinu getur skipt sköpum hvað það varðar. Kostnaður við hópíþróttir eins og stundaðar eru hjá Þrótti er afar sanngjarn og með tilkomu Frístundakortsins hefur fólki verið gert auðveldara um vik að styðja börn sín til íþróttaiðkunar.
Þróttur - Handboltinn og blakið að fara á fullt
Nú er fótboltinn kominn í stutt hlé og hefjast æfingar ekki aftur þar fyrr en um miðjan október. Handboltinn og blakið eru hins vegar komin á fullt og mikið starf framundan í vetur. Yngri flokkar í handknattleiknum taka þátt í mörgum mótum og er nú nýlokið skólamóti sem var haldið um síðustu helgi og tókst með miklum ágætum. Þrótti vantar tilfinnanlega æfingahús til þess að geta sinnt þessum tveimur íþróttagreinum af meiri krafti enn áður. Auk þess sem þess konar hús gæti nýst skólunum í kringum dalinn. Handboltinn er að springa út og ljóst að áhuginn hefur aldrei verið meiri, silfrið á ólympíuleikunum hefur svo sannarlega haft sitt að segja þar. Í handboltanum spila allir yngri flokkarnir í efstu deild og munu einhverjir flokkar vera að berjast um Íslandsmeistaratitil í vetur. Það er mikilvægt að hlúa vel að starfi Handknattleiksdeildarinnar og standa undir væntingum nýrra iðkenda til þess að halda þeim hjá félaginu. Hver einasti iðkandi skiptir máli.
Þróttur - Styðjum börnin okkar
Ágætu foreldrar, hjá Þrótti er öflugt íþróttastarf, en Þróttur er ekki bara íþróttastarf, Þróttur er miklu miklu meira. Þróttur er félagsmiðstöð, Þróttur er samnefnari hverfisins og að auki er hann fullur af skemmtilegum foreldrum og skemmtilegu foreldrastarfi. Til þess að starfið gangi vel er þörf fyrir alla sem vilja og hafa áhuga á að leggja félaginu lið. Í hverjum einasta flokki í hverri einustu deild er foreldraráð sem sér um mót, fjáraflanir, myndatökur, vefsíður, búninga og fleira. Íþróttastarf eins og þetta er mögulegt vegna þess að allir taka þátt - ungir sem aldnir -
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:48 | Slóð | Facebook
31.8.2008 | 23:35
Sorphirða í Reykjavík - svar við greinaskrifum
Ég var beðin um að segja álit mitt á því að fyrir dyrum lægi tillaga um að bjóða út um 1/5 hluta sorphirðu í Reykjavík og lýsti ég skoðun minni í litlum pistli sem birtist í 24stundum síðastliðinn fimmtudag. Pistillinn mátti einungis vera ákveðið mörg orð og því lítið pláss til mikilla útskýringa. Í áliti mínu tala ég um að borgin hafi nýverið farið af stað með grænu tunnuna og þar hafi hún fylgt eftir frumkvæði einkaaðila. Þarna átti ég að sjálfsögðu við bláu tunnuna (blaðatunnuna) og vil ég biðjast velvirðingar á þessum mistökum mínum.
Það þýðir þó ekki að ég hafi ekkert vit á þessum málum eins og hermt er í greinaskrifum í 24stundum síðastliðinn laugardag. Það er merkilegt hvað þeim sem þar skrifuðu tókst að lesa mikið út úr þessum fáu orðum mínum.
Ég læt hér fylgja pistil minn aftur þar sem ég hef leiðrétt þetta með grænu og bláu tunnuna.
"Sorphirða í Reykjavík hefur verið rekin um árabil með svipuðum hætti og lítilla nýjunga gætt í því. Bláa tunnan kom nýverið til sögunnar, en þar var borgin að elta einkaaðila. Nú stendur til að bjóða út 20% sorphirðu í Reykjavík og tel ég það vera mikið framfaraskref. Ég hef löngum undrast það að ekki séu settar ákveðnari reglur varðandi sorphirðu, þar sem gler, pappír, plast og fleira er sótt heim og fólki gert að flokka ruslið sitt betur en gert er í dag. Þegar ég var í Þýskalandi fyrir 17 árum síðan var þegar byrjað að flokka rusl og öll heimili voru með þrískiptar ruslafötur í eldhússkápnum. Þegar ruslið var hirt var kíkt í pokana og ef þú hafðir ekki flokkað var ruslið einfaldlega ekki tekið. Við þurfum að vera miklu meðvitaðri um það hverju við hendum frá okkur. Það er flókið að þurfa að koma ruslinu frá sér og tel ég einu raunhæfu leiðina vera að sækja flokkaða ruslið heim. Það er ekki nóg að flokka pappír við getum gert betur en það, gler og plast er til að mynda alveg tilvalið að sækja líka. Ég tel afar jákvætt að leitað sé nýrra leiða við sorphirðu og vil gjarnan sjá meiri nýbreytni í þeim málaflokki. Það er jákvætt að farið sé í tilraun sem þessa sem gefur mikilvægar upplýsingar um möguleika fyrirtækja til að veita þessa þjónustu. Með útboði má reyna að fá fram nýja hugsun hvað varðar sorphirðu. Það er mikilvægt að þau fyrirtæki sem bjóða í þjónustuna fái svigrúm til þess að bjóða upp á nýjungar tengdar sorphirðunni.
Í þessari tillögu er talað um útboð á 20% sorphirðu í Reykjavík til þriggja ára. Með þessu verkefni fæst dýrmæt reynsla og þekking til þess að byggja á til frambúðar."
Með þessu er ég í engu að kasta rýrð á það frábæra starfsfólk sem starfar hjá sorphirðu Reykjavíkur. Tilraun sem þessi þarf ekki að segja okkur að það sé skynsamlegt að bjóða út alla sorphirðu, niðurstaða tilraunar sem þessarar getur allt eins sagt okkur að engin skynsemi sé í að bjóða sorphirðuna út og miklu skynsamlegra að halda áfram að reka sorphirðuna með þeim hætti sem við hingað til höfum gert.
Hvað sem öllu líður þá tel ég okkur vera á eftir öðrum þjóðum hvað varðar sorphirðumál og vona að við förum að sjá stór skref stigin í því að flokka og endurvinna það sem frá okkur fer. Það er dýrt að sækja flokkaðan úrgang, en það er líka dýrt að sækja hann ekki.
Ég sat í nefnd sem yfirfór sorphirðumál í Reykjavík þegar ég sat í Umhverfis- og heilbrigðisnefnd Reykjavíkur á síðasta kjörtímabili 2002 - 2006. Ég hafði mikinn áhuga á því að taka stór skref í átt til frekari flokkunar og endurvinnslu. Það var hins vegar ekki pólitískur vilji til þess á þeim tíma og Græna tunnan í raun það eina sem kom út úr þeirri vinnu. Ég ætla ekki að tíunda hér þær fjölmörgu hugmyndir sem þar komu fram eða þær tilraunir sem gerðar hafa verið þar á undan, en margt hefur verið skoðað. Sumt hefur virkað og gengið vel, en annað ekki. Ég fagna öllum hugmyndum sem geta orðið til þess að sorphirða okkar þróist áfram til meiri flokkunar og meiri endurvinnslu, von mín er sú að þessi litla tilraun geti verið liður í því.
Þessi grein hefur þegar birst í 24stundum
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:37 | Slóð | Facebook
Um bloggið
Jórunn Frímannsdóttir
Bloggvinir
- Auðbergur Daníel Gíslason
- Áslaug Friðriksdóttir
- Baldvin Jónsson
- Einar Vignir Einarsson
- Emil Örn Kristjánsson
- Ingólfur H Þorleifsson
- Guðrún Magnea Helgadóttir
- Herdís Sigurjónsdóttir
- Íbúasamtökin Betra Breiðholt
- Kjartan Pálmarsson
- Ólafur fannberg
- Stefán Friðrik Stefánsson
- Sigríður Jónsdóttir
- Vignir Bjarnason
- Vilborg G. Hansen
- Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir
- Vefritid
- Axel Jóhann Axelsson
- Ásta Hafberg S.
- Brosveitan - Pétur Reynisson
- Bryndís Haraldsdóttir
- Charles Robert Onken
- Einar B Bragason
- Erla Margrét Gunnarsdóttir
- Erlendur Örn Fjeldsted
- Eyþór Laxdal Arnalds
- Friðrik Hansen Guðmundsson
- Gísli Blöndal
- Gunnar Gunnarsson
- Helgi Kr. Sigmundsson
- Hilmar Gunnlaugsson
- Hjalti Sigurðarson
- Jóhann Pétur
- Jón Daníelsson
- Jón Magnússon
- Jón Ríkharðsson
- Kjartan Magnússon
- Kristín Magdalena Ágústsdóttir
- Mál 214
- Natan Kolbeinsson
- Pjetur Stefánsson
- Sigurður Sigurðsson
- Sigurður Þórðarson
- Stefán Helgi Valsson
- Theodór Bender
- Vilhjálmur Árnason
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (28.7.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 7
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 6
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar